Kennedy á batavegi - umdeildur fjölskylduforingi

Ted Kennedy Hef verið að fylgjast með fréttum af heilsufari Ted Kennedy, öldungadeildarþingmanns, sem nú dvelst á sjúkrahúsi í Boston. Fátt annað kemst að á bandarískum fréttastöðvunum. Hið fyrsta sem flestum datt í hug er veikindin urðu opinber var hvort Ted hefði fengið heilablóðfall af svipuðu tagi og faðir hans, Joseph Kennedy, fékk á sjöunda áratugnum. Hann gat ekki tjáð sig eftir það og var rúmfastur í HyannisPort í sjö eða átta ár, það sem hann átti ólifað.

Svo virðist vera sem að Ted hafi ekki fengið slag heldur hafi þetta verið flog, en það er rannsakað nú. Stöðvarnar hafa verið duglegar við að sýna myndir frá ferli hans og tala um stjórnmálaferil hans. Ted Kennedy er umdeildur stjórnmálamaður en hann er hluti af einni litríkustu valdaætt bandarískrar stjórnmálasögu. Hann á langan feril að baki og hefur setið í öldungadeildinni vel á fimmta áratug, eða síðan að John bróðir hans varð forseti Bandaríkjanna, en hann var kjörinn í öldungadeildarsæti hans fyrir Massachusetts.

Þegar að bróðir hans, Bobby, var myrtur fyrir fjórum áratugum, í miðri kosningabaráttu til embættis forseta Bandaríkjanna, bjuggust flestir við að Ted myndi feta í fótspor bræðra sinna og sækjast eftir forsetaembættinu. Væntanlega hefði hann getað gert sterkt tilkall til embættisins hefði hann ekki farið svo illa úr Chappaquiddick-málinu á sjöunda áratugnum. Varð hann valdur að dauða einkaritara síns í bílslysi, stakk frá slysstað og tilkynnti ekki um slysið fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Hann sat áfram í öldungadeildinni en var stórlega skaddaður pólitískt á eftir.

Hann sóttist síðar eftir forsetaembættinu árið 1980, fór fram gegn Jimmy Carter, þáverandi forseta Bandaríkjanna, en beið lægri hlut í eftirminnilegri baráttu. Einkalíf hans var þá í rúst, ekki aðeins var hann stórlega skaddaður enn af Chappaquiddick heldur var kona hans haldin drykkjusýki. Þau virkuðu ósannfærandi saman, enda hjónabandið komið í strand, og framboðið var aldrei sterkt. Tapið batt enda á valdasögu Kennedy-anna, enda var tapið skaðlegt fyrir Ted. Hann hefur setið í öldungadeildinni síðar, mjög valdamikill innan sinna raða, en mjög umdeildur.

Hef ég ekki farið leynt með aðdáun mína á Kennedy-unum. John F. Kennedy og Bobby Kennedy voru miklir pólitískir snillingar sem sett hafa sögulegt mark á bandarísk stjórnmál, áhrif þeirra hafa náð út fyrir gröf og dauða. Kennedy forseti féll fyrir morðingjahendi á hápunkti ferils síns og Bobby var hársbreidd frá því að ná í Hvíta húsið er hann var myrtur í Los Angeles, hafði unnið forkosningar demókrata í Kaliforníu það kvöld. Skarð hans var mikið. Ted Kennedy hefur verið sterkur talsmaður vissra hópa innan flokksins en aldrei náð styrk og stöðu bræðra sinna.

Enn hefur hann þó mikil áhrif og er óumdeilanlega höfuð Kennedy-fjölskyldunnar. Mótar hann afstöðu fjölskyldunnar til lykilmála. Eftir að hann lýsti yfir stuðningi við Barack Obama í ársbyrjun komu helstu fjölskyldumeðlimir fram opinberlega og gerðu slíkt hið sama. Ethel Kennedy ákvað að styðja Obama með þeim orðum að hann væri eini maðurinn sem hefði komið til sögunnar í bandarískum stjórnmálum í áratugi sem minnti sig á eiginmann sinn, Robert F. Kennedy.

Maria Shriver ákvað að rjúfa hlutleysi sitt sem demókrata við hlið repúblikans, eiginmanns síns, á ríkisstjórastóli í Kaliforníu með því að styðja Obama. Og Caroline Kennedy Schlossberg sagðist styðja hann því að í honum sæi hún hugsjónir og kraft föður síns. Þær tóku sömu afstöðu og Ted frændi, sem ræður ferðinni í Kennedy-fjölskyldunni og hafði markað línur fyrir börn fallinna bræðra sinna, sem hann gekk í föðurstað.

Ted er kominn vel á áttræðisaldur og væntanlega er þetta síðasta kjörtímabil hans á þingi. Reyndar er merkilegt að stjórnmálamenn sitji svo lengi á þingi og sinni störfum áratugum saman. Robert Byrd, þingmaður Vestur-Virginíu er t.d. enn á þingi orðinn háaldraður og farinn heilsu. Eins og flestir muna sat Strom Thurmond í öldungadeildinni fram yfir tírætt, þar til nokkrum mánuðum áður en hann dó.

Flest bendir til að Ted Kennedy muni ná sér vel ef marka má síðustu fréttir að vestan, en væntanlega mun þetta leiða til þess að spurt sé hvort hann fari aftur í framboð. Kjörtímabil hans rennur út að mig minnir árið 2012. Þetta er níunda, sex ára, kjörtímabilið sem hann situr í öldungadeildinni.

mbl.is Kennedy í rannsóknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Stefán, takk fyrir fróðlegan pistil - þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég les skrif þín og hef af bæði gaman og gagn. Kv. Jón.

Jón Þ. (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 00:22

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir góðu orðin, Jón, um skrifin. Met þetta mikils.

bestu kveðjur

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.5.2008 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband