Ísland áfram - glæsilegt hjá Frikka og Regínu

Regína Ósk og Friðrik Ómar Loksins, eftir fjögurra ára bið, tókst Íslandi að komast upp úr undankeppninni í Eurovision í kvöld. Glæsilegur árangur. Frikki og Regína Ósk stóðu sig alveg glæsilega og leiftraði af þeim krafturinn og keppnisgleðin í atriðinu, sem var gríðarlega vel unnið og þau sungu sig inn í úrslitakeppnina með miklum glans.

Var alltaf viss um að þeim tækist þetta, enda eru þau svo miklir fagmenn í sínu, gera þetta pró og flott, að annað kom varla til greina. Keppnin hefur verið ein vonbrigði fyrir okkur síðan að Birgitta Haukdal náði tólfta sætinu með Open Your Heart vorið 2003. Selmu Björnsdóttur, Silvíu Nótt og Eiríki Haukssyni mistókst að komast áfram og því er það svo sætt að loksins hafi það tekist, burtséð frá því hvað gerist á laugardaginn.

Mikil gleði braust út í partýinu sem ég var í áðan. Verð þó að viðurkenna þegar að umslagið með Albaníu var dregið upp, á undan því íslenska, hugsaði ég með mér hvort að þetta myndi virkilega ekki takast. Áhyggjur voru óþarfar og væntanlega hefur gleðiöskur landsmanna glumið í hverju húsi með sjónvarp í lagi þegar að umslagið íslenska var fiskað upp úr körfunni. Svo var sérstaklega flott að bæði Svíþjóð og Danmörku tækist að komast áfram, þó að við hötum flest Charlotte Nilsson Pirrelli út í eitt eftir að hún rændi sigrinum af Selmu okkar fyrir níu árum.

Mörg flott lög komust áfram, var mest hissa á því að Portúgal tækist að komast áfram og svo var valið á hinum gamaldags reynsluboltum frá Króatíu skemmtilega óvænt. Norrænu þjóðirnar mega vel við una og verða öll á sviðinu á laugardag. Er það í fyrsta skiptið í fjöldamörg ár sem samnorrænn bragur verður á úrslitakvöldinu. Vonandi græðum við á því.

Líst annars vel á þetta á laugardaginn. Lykilmarkmiðið var að sanna að við kæmumst upp úr fjandans undankeppninni og það tókst. Allt annað er og verður plús. En vonandi náum við allavega inn á topp tíu, efri hluti þess yrði yndisleg búbót fyrir söngfuglana okkar, sem hafa staðið sig svo vel. Fyrir þjóðina er þetta fersk og góð vítamínssprauta á vordögum.

Óska ykkur innilega til hamingju með glæsilegan árangur Frikki og Regína Ósk. Þið hafið unnið vel fyrir ykkar - mikið er það nú sætt að ógæfa undankeppnanna síðustu árin er að baki og loksins eigum við skemmtilegt laugardagskvöld yfir keppninni eftir sorrífíling síðustu ára.

mbl.is Ísland áfram í Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Tek mjög undir þetta!!!!/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 23.5.2008 kl. 00:32

2 Smámynd: Björn Kr. Bragason

Ég var mest hissa á að sú sænska skyldi komast áfram. Er ekki hrifinn af íslenska laginu og fannst Frómar og Regína hrikalega púkó á sviðinu, en íslenska framlagið og flutningur þess var eins og meistaraverk við hliðina á sænsku plastkonunni sem fylgdi á eftir. Miðað við það litla sem ég heyrði af keppinautunum, þá gat ég alveg séð fyrir mér að þau væru rétt öðru hvorum megin við falllínuna, hvorki langt fyrir neðan né ofan. Ágætt að þau skriðu upp fyrir, þá næ ég kannski að selja eitthvað af þessum snakkhaug sem ég pantaði fyrir sjoppuna

Áfram Finnland! 

Björn Kr. Bragason, 23.5.2008 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband