Obama nær útnefningunni - Hillary við hlið hans?

Hillary og ObamaBarack Obama, öldungadeildarþingmaður frá Illinois, hefur nú náð útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins í kosningunum 4. nóvember og hlýtur þann sögulega sess að verða fyrsti blökkumaðurinn sem á raunhæfa möguleika á embætti forseta Bandaríkjanna. Atburðarásin hefur verið hröð í dag - fjöldi ofurfulltrúa hefur lýst yfir stuðningi við Obama síðustu klukkutímana og hann hlaut útnefninguna nú á ellefta tímanum að íslenskum tíma.

Úrslitin eru því ljós áður en tölur taka að berast frá Montana og Suður-Dakóta, síðustu forkosningum demókrata í þessu langvinna og harðvítuga forkosningaferli þar sem sögulegir frambjóðendur, fyrsta konan og fyrsti blökkumaðurinn sem áttu raunhæfa möguleika á útnefningu annars af stóru flokkunum í Bandaríkjunum tókust á. Og baráttan var leiftrandi frá fyrstu stund til hinnar síðustu. Og flokkurinn er svo að segja klofinn eftir átökin og þar tekur sameiningarvinna við.

Þetta hefur verið stórmerkileg barátta allt frá því að ljóst varð að Obama ætlaði að gefa kost á sér gegn Hillary Rodham Clinton og frá fyrsta degi varð ljóst að baráttan yrði á milli þeirra og hún varð sú harðvítugasta fyrir demókrata frá árinu 1968. Um tíma stefndi í að baráttan færi alla leið á flokksþingið í Denver en það hefur orðið æ ólíklegra eftir því sem liðið hefur á ferlið. Demókratar hafa heldur ekki efni á átökum á gólfinu á þinginu.

Nú þegar heyrast sögusagnir úr innstu herbúðum Hillary Rodham Clinton að hún vilji verða varaforsetaefni Obama í forsetakosningunum. Rökin fyrir því eru mjög einföld. Hún hafi breiðan hóp að baki sér sem Obama þarf á að halda. Auk þess muni það tryggja sameinaðan flokk. Hillary tókst að halda það lengi lífi í framboðinu að hann þarf á henni að halda. Er á hólminn er komið hefur hún kjarnastuðning sem verður ekki litið framhjá.

Sá áðan að John McCain lofar Hillary nú í bak og fyrir. Hann er klókur karlinn og er þegar farinn að reyna að kroppa í fylgi Hillary úr forkosningaslagnum, ná þeim sem eru ósáttir við Obama yfir á sitt band. Hann gæti tryggt sér forsetastólinn á þessu óánægjufylgi þeirra sem hafa stutt Hillary í gegnum þykkt og þunnt, jafnvel á glötuðustu augnablikum framboðs hennar síðustu mánuði. Allavega er þessi lofsöngur hans engin tilviljun.

Nú þegar að forkosningaslagnum er lokið í Demókrataflokknum stendur eftir lykilspurningin - hversu auðvelt verði að sameina brotin tvö í flokknum sem mynduðust með þessu harðvítuga einvígi. Þau liggja fjarri því saman og er mikil vinna framundan þar fyrir forsetaefnið Obama og stuðningsmenn hans. Viðræðurnar við Hillary í þeim efnum að sameina flokkinn munu verða hinn stóri eftirmáli þessa sögulega slags.

Á stund tapsins hefur Hillary Rodham Clinton þrátt fyrir allt tromp á hendi og þegar er spinnið hafið fyrir því að hún fái sess við hlið Obama. Draumateymið var það kallað frá fyrsta degi og enginn vafi er á því að sameiginlegt framboð þeirra er sterkasti framboðskostur demókrata í þessum forsetakosningum.


mbl.is Obama tryggir sér útnefningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Gæti ekki verið meira sammála. Sá það strax fyrir mér í upphafi að þau yrðu saman í þessum tveimur verkefnum.

Edda Agnarsdóttir, 3.6.2008 kl. 23:35

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þvi miður færir þetta John McCain þetta embætti á silfurfati/Hefði viljað hafa þetta öfugt/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 4.6.2008 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband