Er hægt að fyrirgefa þeim sem slátruðu Sharon?

Susan Atkins Morðið á leikkonunni Sharon Tate, eiginkonu óskarsverðlaunaleikstjórans Romans Polanski, og fjórum vinum hennar, árið 1969 er með ógeðfelldustu morðum í bandarískri sögu - einkum vegna þess hversu kaldrifjað það var. Engin miskunn var sýnd, en Tate var komin átta og hálfan mánuð á leið með barn sitt og Polanski er hópurinn að baki morðunum slátraði henni.

Enn sitja forsprakkar Manson-hópsins í fangelsi, afplána lífstíðarfangelsi. Nú þegar Susan Atkins, sú sem veitti Sharon banastungurnar þrátt fyrir að Sharon grátbæði hana um miskunn fyrir sig og son sinn, er orðin dauðvona, langt leidd af krabbameini og horfist í augu við endalok sín vill hún fá náðun og lifa sína síðustu mánuði frjáls, eiga sér nokkra mánuði utan fangelsins og deyja frjáls kona, laus við að afplána sína refsingu.

Stóra spurningin á þeim krossgötum er hvort Susan Atkins verðskuldi frelsið, fá tækifæri til að lifa sín síðustu augnablik sem frjáls kona. Ég er ekki á þeirri skoðun og finnst að hún eigi að deyja í þeirri afplánun sem hún kom sjálfri sér í með því að taka þátt í morðunum á sjöunda áratugnum við hlið Charles Manson. Ekki er hægt að gleyma því sem gert var né heldur að strika yfir það.

Vissulega er það áleitin spurning hvort frelsið sé valkostur fyrir þá sem fremja svo alvarlega glæpi, hvort þeir eigi að fá tækifæri til að upplifa lífið án refsingarinnar sem markaði örlög þeirra. Mér finnst ekki hægt að horfa framhjá því sem Manson-hópurinn gerði á sínum tíma, með því að slátra ekki aðeins hinni 26 ára gömlu leikkonu, Sharon Tate, heldur öðru fólki á þeim tíma.

Morðið á Tate hefur að ég tel ekki fallið í gleymskunnar dá. Hún var að því komin að eiga barnið sitt er henni var slátrað og hún var gift einum frambærilegasta leikstjóra sinnar kynslóðar og var sjálf mjög þekkt leikkona. Allt þetta mál er skelfilegt og í þeim efnum er ekki hægt að gleyma og það til þess eins að upphefja manneskju sem er sjálf komin að fótum fram og vill fyrirgefningu.

Susan gekk reyndar það langt þegar að hún slátraði Sharon að hún skrifaði Pig utan á hurðina á húsi Polanski-hjónanna með blóði úr Sharon. Það er vanvirðing við minningu Sharon Tate að velta því fyrir sér lengur en eina sekúndu að náða þessa konu.

mbl.is Vill fá frelsi áður en hún deyr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda bloggar

Susan gekk reyndar það langt þegar að hún slátraði Sharon að hún skrifaði Pig utan á hurðina á húsi Polanski-hjónanna með blóði úr Sharon. Það er vanvirðing við minningu Sharon Tate að velta því fyrir sér lengur en eina sekúndu að náða þessa konu.

Bara þessi orð nægja mér til að hafna beiðni fangans um náðun

Adda bloggar, 16.6.2008 kl. 09:20

2 identicon

Er sammála, hún á að deyja í fangelsinu. Hún var verst af þeim öllum. Hún sagði sjálf að hún hafi fengið kynferðislega fullnægingu þegar hún lá oná Sharon og sundur stakk hana í bakið. Og hún sagði sjálf hlæjandi frá því að hún hafi ætlað að rista kviðinn á Sharon taka barnið og færa Manson það! Maður fær HROLL þegar maður sér upptökur frá þessum tíma, þar sem hún situr og brosir og jafnvel hlær þegar hún segir frá morðunum í smá atriðum.

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 09:52

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Að sjálfsögðu er það alltaf deiluefni hversu lengi menn eiga að sitja inni fyrir hræðilega glæpi. Manson hópurinn hefur allur setið inni í um 40 ár og myndu ekki sitja svo lengi inni í neinu öðru vestrænu ríki. Bandaríkin eru hins vegar mun refsiglaðari en önnur vestræn ríki og verða að fá að vera það í friði. Það verður þó að gera þá kröfu til ríkja ef þau eiga að teljast vera réttarríki að samræmi sé í sambærilegum málum og að refsiharkan sé óháð því hver fórnarlam viðkomandi sé.

Reyndar voru fórnarlöm Manson hópsins mörg. Ef ég man rétt framdi hópurinn níu morð og því væntanlega ekki mörg ef þá nokkurt sambærilegt dæmi til í bandarískri réttarsögu. Það fer reyndar eftir því hvernig menn líta á það. Þá á ég við það hvort það skipti miklu máli hvort fórnarlömbin eru þrjú til fimm eða hvort þau eru níu.

Það kem ég að kjarnanum í vangaveltum mínum. Getur það skipt máli varðandi refsihörkuna og tregðu til að veita Manson hópnum reynslulausn að fórnarlömbin voru öll auðugt hvítt fólk og þar af ein heimsþekkt kona gift enn þekktari manni? Sæti þessi hópur enn inni ef fórnarlömb þeirra hefðu verið svart fólk úr einu af gettóum sömu borgar? Hversu lengi hafa menn almennt þurft að sitja inni í bandarískum fangelsum, sem hafa framið fleira en eitt morð?

Tökum annað dæmi þar, sem mörg sambærileg mál ættu að vera til staðar. Það eru liðin hátt í 30 ár síðan John Lennon var myrtur. Ef ég man rétt hefur morðingi hans ekki enn fengið reynslulausn. Hvað ætli það séu til mörg dæmi úr sama fylki um jafn langa afplánun fyrir eitt morð þar, sem ekki var um neitt ofbeldi að ræða gagnvart fórnarlambinu í aðdraganda morðsins? Getur verið að það að fórnarlamb hans var heimsfrægur tónlistamaður sé eina ástæða þess að hann sigur enn inni?

Svo má benda á enn eitt dæmi. Það eru rúm 20 ár síðan reynt var að myrða Ronald Regan. Sú árás kostaði engan mann lífið en særði reyndar einn mann þannig að hann er varanlega mikið fatlaður á eftir auk þess að lögreglumaður fékk skot í sig. Gerandinn í því máli situr enn inni. Ég velti því fyrir mér hvort hann sæti enn inni ef hann hefði ráðist inn á bensínstöð og valdið starfsmönnum þar sambærilegum áverkum ásamt því að særa lögreglumann, sem þar hefði verið sambærilega við lögreglumanninn, sem særðist í árásinni á Regan.

Ég geri mér reyndar alveg grein fyrir því að það að ráðast á ráðamann þjóðar getur flokkast undir árás á stjórnkerfi viðkomandi ríkis og því betur hægt að afsaka það að tekið sé harðar á málinu vegna þess á hvern var ráðist þegar um slíkt er að ræða. Það væri þó gaman að sjá dæmi um álíka árás á óþekkt fólk og sjá hversu lengi viðkomandi þurfti að sitja inni. 

Þetta á þó ekki við um morðið á John Lennon eða morð Manson hópsins. Það er ekki hægt að flokka þau morð undir árás á stjórnkerfi landsins.

Sigurður M Grétarsson, 16.6.2008 kl. 11:26

4 identicon

Erfitt að túlka þessa færslu Stebba öðru vísi en óbeina ósk um verulega hertar refsingar á Íslandi fyrir manndráp. Hér er talið nægileg harka í manndrápsmálum að dæma fólk í 16-18 ár og sá tími oft styttur með lausn, að undangenginni góðri hegðun.

Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort Stebbi sé ekki bara hlynntur ævilöngu fangelsi án möguleika á lausn heldur og viljugur til að taka upp dauðarefsingar á Íslandi.

Færsla Stebba gerir ekki ráð fyrir þeim möguleika að Atkins hafi breyst í betrunarvistinni frá því skrímsli sem hún var fyrir 40 árum, þegar hún og félagar hennar voru tryllt af eiturlyfjaneyslu og undir heilaþvottaráhrifum Mansons.

Friðrik (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 12:37

5 identicon

Líður ykkur virkilega betur við það að hún fái að þjást sem mest?  Skiptir ekki meira máli hvaða manneskju hún hefur að geyma í dag?  Hvort hún sjái eftir því sem hún gerði eða ekki?

Guðmundur (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 17:49

6 identicon

Fyrir mér er svarið einfalt,nei og ég get því miður ekki fundið fyrir samúð með þessari Susan.Hún er dauðvona og vill finna einhvers konar frið og það getur vel verið að hún iðrist.....á sinn hátt því ég er viss um að svona fólk veit ekki alveg nákvæmlega hvað það er að iðrast.Ég horfði nýlega á heimildamynd um Manson gengið og Jesús hvað þetta var steikt lið!!!!

Brynja Svanhvít Lúðvíksdóttir (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 19:10

7 identicon

Ég verð að viðurkenna og játa að það skiptir mig litlu sem engu máli hvort hún situr inni eða ekki.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 19:25

8 identicon

"Faðir fyrirgef þeim því þau vita ei hvað þau gera" ....mælt af mjög "frægum" manni sem verið var að myrða !! ...mættum kannski nota þessi spakmæli úr kristindómnum meira en við gerum !

Hef aldrei skilið hvernig hægt er að mæla "verðmæti lífa" eftir kyni, húðlit, þjóðerni, "frægð" ...eða öðru viðlíka. Eru ekki allir jafnvægir...svo ég vitni aftur í kristindóminn.."það sem þið gjörið mínum minnsta bróður það gjörið þið mér"...nokkuð viss um að "Jesú bróðir besti" gæfi fangelsisfrúnni (systur ) sinni frí síðustu ævidagana !

Helga Birgisdóttir - Gegga (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 19:49

9 Smámynd: Fannar frá Rifi

Að verða manni að banna er ófyrirgefanlegt. það á samt að vera hámarksrefsins svipað nú er hér á landi að mínu mati.

Að myrða aftur og aftur og það með köldu blóði vanfæra konu komna 8 mánuði á leið með enga eftir sjá, ætti aldrei nokkurntíman að náða.

Það er munur á betrunar vist og síðan refsingu. í þessu tilviki er um refsingu að ræða og hún á enga náð  skilið fyrir þau voðaverk sem hún framdi.  

Fannar frá Rifi, 16.6.2008 kl. 20:13

10 identicon

Ég held að þið ættuð að spyrja Roman Polanski að því hvort hann sé hlynntur því að monsterið sem drap konu hans og ófæddu barni sé sleppt að því að hún sé með illvígan sjúkdóm.

Ég get hins vegar svarað því strax að ef einhver myndi gera það sem þau gerðu við Sharon við dóttir mína þá skal ég lofa ykkur því að ég myndi vilja sjá hana rotna í helvíti. Enda er systir Sharon að berjast fyrir því að þessu ógeði verði aldrei sleppt!

Þótt að hún hafi verið heilþvegin eða á eiturlyfjatrippi þá var hún dæmd til æviloka og það á að þíða æviloka! Við erum ekkert að tala um manndráp af gáleysi hér.

Við erum að tala um skelfilega drápsaðferðir löngu planaða og plús þau sýndu enga iðrun löngu eftirá.

Og vill minna á að planið hjá Manson fjölskyldunni var að drepa Frank Sinatra og Steve McQueen þar á meðal!!

Ég hef enga samúð með þessari konu.

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 22:08

11 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

En hroðaleg níðingsverk hafa verið framin á Íslandi! Skuggalegar misþyrmingar í köldu blóði. Einkum af fólki sem einmitt "var steikt lið!!!!" svo vitnað sé í Brynju hér að ofan. Svoleiðis fólk fer hjá okkur gjarnan á réttargæslugeðdeildina að Sogni.

Friðrik Þór Guðmundsson, 16.6.2008 kl. 23:02

12 Smámynd: Steini Thorst

Á manneskja sem af yfirlögðu ráði verður annari manneskju að bana, myrðir aðra manneskju, yfirhöfuð að fá að ganga frjáls?

Steini Thorst, 16.6.2008 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband