Tvöföld ánægja hjá þokkaparinu í Hollywood

Brad Pitt og Angelina Jolie Sennilega segir það sitt um fréttadaginn þegar stærsta fréttin af erlendum vettvangi er að óskarsverðlaunaleikkonan Angelina Jolie sé búin að eiga tvíburana sína. Reyndar var fullyrt þegar 30. maí sl. að leikkonan hefði átt börnin þá en það reyndist ekki rétt. Fjölmiðlar hafa átt svo erfitt með að bíða eftir börnunum að sérstök vakt hefur verið á eftir þeim og sátu þeir um sjúkrahúsið, svo mjög að þekja varð gluggana á sjúkrastofu leikkonunnar með dökku efni til að ekki yrði hægt að mynda þar.

Angelina Jolie hefur verið umdeild eins lengi og hún hefur verið fræg, ekki aðeins talin ein mesta þokkadís síðustu ára, heldur auk þess mjög góð leikkona sem hefur túlkað dramatík og húmor í hæfilegri blöndu og skapmikil að auki. Jolie er eins og flestir vita ekki ættarnafn. Þetta er franska orðið yfir hina fögru. Því vel við hæfi að hún eigi börnin sín í Frakklandi. Ættarnafn hennar er Voight, enda er faðir Angelinu óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight. Ekki er langt síðan þau sömdu frið eftir að hafa ekki talað saman í fimm ár. Bæði þekkt fyrir svæsin skapgerðarköst.

Ástarsamband Brad Pitt og Angelinu Jolie hefur verið eitt af þeim mest áberandi á síðustu árum og telst eitt það heitasta í kvikmyndabransanum til fjölda ára. Umtalið við upphaf sambands þeirra við gerð kvikmyndarinnar Mr. and Mrs. Smith árið 2005 var enda engu minna en þegar að Elizabeth Taylor og Richard Burton voru að byrja að draga sig saman við gerð kvikmyndarinnar Kleópötru í upphafi sjöunda áratugarins. Og myndirnar af upphafi sambands þeirra minntu marga á hinar heitu myndir sem staðfestu að Burton og Taylor voru að draga sig saman fyrir fjórum áratugum.

Um fá sambönd hefur meira verið skrifað og pælingarnar um eðli sambandsins var deilt nær allt árið 2005 uns að því kom að það var að fullu opinberað. Ástríðuhitinn milli þeirra leynir sér enda ekki þegar að kvikmyndin, sem reyndar er ekkert meistaraverk en hörku hasarbomba, er skoðuð. Lengi vel var reyndar spáð í hvort að þau ættu nokkru sinni skap saman. Þau eru báðir vel þekktir skaphundar og er Angelina Jolie með skapmeiri konum sem þekkjast í kvikmyndabransa nútímans og hefur ekki langt að sækja það þar sem er faðir hennar, óskarsverðlaunaleikarinn Jon Voight.

Enn hafa þau þó ekki gift sig og um tíma virtist sambandinu ætla að ljúka á deilum um það. Jolie vildi ekki festa sig og hinn 45 ára ráðsetti fjölskyldufaðir sem var farinn að róa sig eftir litríkan feril vildi skuldbindingu. Jolie er reyndar illa brennd af hjónaböndunum, hún hefur tvisvar gengið í það heilaga, fullyrða má að ekki hafi það verið farsæl hjónabönd; hún giftist breska leikaranum Jonny Lee Miller (syni leikarans Bernard Lee sem lék M í Bondmyndunum 1962-1979) 1996 og skildi við hann 1999 og giftist ári síðar leikaranum Billy Bob Thornton og var gift honum í þrjú ár.

Samband Jolie og Thornton var gríðarlega umdeilt og kom mjög óvænt aðeins örfáum mánuðum eftir að Jolie hlaut óskarsverðlaunin fyrir Girl, Interrupted í mars 2000. Thornton, sem er tveim áratugum eldri en Jolie, þótti vera fjarri því hennar týpa en hann er mjög skapmikill og kostulegur karakter. Enda var sambúðin hæðótt, upp og niður eins og rússíbani. Að því kom að sambúðin gekk ekki og varð ekki mörgum undrunarefni. Pitt á að baki eitt hjónaband, mjög þekkt auðvitað, en hann var giftur "Vininum" Jennifer Aniston í fimm ár.

Því hefur oftar en einu sinni verið spáð frá frægu skoti þeirra skötuhjúa við gerð Mr. and Mrs. Smith að þau ættu hvorki skap saman né gætu verið saman. Börnin hafa sameinað þau - þau eiga saman dótturina Shiloh (sem er lifandi eftirmynd föður síns) og auk þess hafa þau ættleitt heilan helling af börnum, minnir að þau séu þrjú eða fjögur sem Jolie hefur ættleitt og Pitt hefur gengið í föðurstað.

Fróðlegt verður að sjá hvort að tvíburarnir sameini stjörnurnar endanlega og þau gifti sig eftir áralangar vangaveltur um tímasetningu þess.


mbl.is Brangelina-tvíburarnir fæddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínn pistill :)

þau eru þrjú ættleiddu börnin og eru börnin þá 6 sem þau eiga...

En skiptir það einhverju máli hvort þau séu gift eða ekki? Ekki finnst mér það, svo lengi sem þau eru hamingjusöm...

Goldie Hawn og Kurt Russell hafa búið saman í meira en 20 ár og ekki eru þau gift, þau reyndar fá engan frið fyrir fjölmiðlum sem verða ekki þreytt á spurningunni um hvenær þau muni gifta sig.

Brad og Angelina hafa sagt að þau muni gifta sig þegar samkynhneigðir fá að gifta sig í BNA.  Charlize Theron og Steve Townsend hafa sagt þetta líka. :)

Helga Dís (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 14:10

2 identicon

Ágæti pælari, Stefán Friðrik Stefánsson. Á sama tíma og þú ritar lærðan pistil um fjölgun hjá "þokkapari" í Hollywood er Bush að gefa Ísraelsmönnum gult ljós á árás á Íran. Hvor atburðurinn kallar frekar á pælingar?

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 15:13

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Helga Dís og góð orð um pistilinn, plús hugleiðingarnar um Pitt og Jolie. ;)

Hilmar Þór: Takk fyrir ábendinguna. Er búinn að skrifa um þetta.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.7.2008 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband