Sala Landsvirkjunar samþykkt í borgarstjórn

Landsvirkjun Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú samþykkt sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Greinilegt er að langar umræður voru um þessi mál í borgarstjórn en borgarfulltrúar allra minnihlutaaflanna greiddu atkvæði gegn sölunni. Það vekur athygli því að fulltrúar tveggja af þessum flokkum, Samfylkingar og VG, héldu úti viðræðum um sölu á hlut borgarinnar við ríkið í valdatíð R-listans.

Það er greinilegt að þær viðræður voru bara til málamynda, enda er greinilegt að aldrei hefði náðst saman milli borgar og ríkis um söluna í valdatíð R-listans. Það sést sífellt betur af hverju Þórólfi Árnasyni og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur gekk ekki að ná samkomulagi af hálfu borgarinnar, enda greinilegt að sú von var alltaf byggð á sandi að VG samþykkti málið innan R-listans. Það var æðsta markmið Þórólfs Árnasonar að ná málinu í gegn áður en hann varð að hætta störfum sem borgarstjóri í nóvemberlok 2004 og honum tókst það ekki, eins og allir vita. Málið komst oft í sjálfheldu innan borgarstjórnar vegna oddaatkvæða vinstri grænna og það komst aldrei neitt áfram.

Fyrir tæpum tveim árum undirritaði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þáv. borgarstjóri, undir viljayfirlýsingu um söluna af hálfu Reykjavikurborgar ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, bæjarstjóra, og ráðherrunum Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir. Mikla athygli hefur vakið nú hversu lítið sýnileg Steinunn Valdís er í umræðunni um málið. Dagur B. Eggertsson, leiðtogi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur tæklað málið af þeirra hálfu og verið nær algjörlega í fjölmiðlum vegna þess. Það er greinilegt að undirskrift þáverandi borgarstjóra í febrúar 2005 var marklaus enda var ekki stuðningur við hana innan borgarstjórnar. Það skilst æ betur af hverju aldrei tókst að keyra málið í gegnum R-listann.

Vinstri grænir eru alltaf við sama heygarðshornið. Það er nú greinilegt að það hefur verið bjartsýni sögunnar fyrir Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn að halda að fulltrúar þess flokks myndu standa að sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun á valdatíma R-listans, þar sem þeir höfðu oddaatkvæðið. Þeir eru greinilega mjög hræddir við að mögulega verði Landsvirkjun einkavædd. Sömu gömlu dómsdagsspárnar þar á ferð og ávallt áður. Það er ekkert nýtt við þær.


mbl.is Sala á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun samþykkt í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband