Erfitt verkefni fyrir nýjan meirihluta í Reykjavík

BorgarstjórnarsalurÉg er ekki undrandi á því að kjósendur í Reykjavík séu ósáttir við stöðu borgarmálanna nú þegar fjórði meirihlutinn hefur verið myndaður á innan við ári. Ítalska staðan sem einkennt hefur borgarmálin, þar sem enginn stöðugleiki er, á aldrei að vera viðunandi og varla tíðindi að kjósendur séu ósáttir við hvernig komið er málum.

Eitt helsta verkefni nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Óskars Bergssonar verður ekki aðeins að vinna sín pólitísku verk úr málefnasamningi sínum heldur og mun frekar að ná trausti borgarbúa og skapa einhvern stöðugleika í hinu ítalska ástandi á þessu kjörtímabili. Meirihlutinn nýji hefur 20 mánuði til þess að vinna sín verk en ekki svo langan tíma að ávinna sér traust. Litið verður á fyrstu 100 dagana sem prófstein á hvort hann nái að fóta sig í upplausninni sem hefur einkennt borgarmálin.

Ég held að þetta verði ekki auðvelt verkefni en það eru hinsvegar allar forsendur fyrir því að það geti tekist. Hanna Birna Kristjánsdóttir, verðandi borgarstjóri, hefur nú tekið frumkvæðið, myndað meirihluta á sínum forsendum og sýnt vel að hún er í leiðtogahlutverki stærsta flokksins í borgarstjórn. Hún þarf í verkum sínum á næstunni bæði að marka sér stöðu sem borgarstjóri í aðdraganda næstu kosninga og líka sem flokksleiðtogi. Því er mikið undir í stöðunni fyrir hana og þarf meirihlutinn undir hennar forystu að ná öflugri fótfestu til þess að hún nái pólitískri stöðu fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn.

Eðlilegt er að hver meirihluti fái sinn tíma og borgarstjórinn ennfremur. Á þessum ólgutímum er eðlilegt að rót sé á fylgi og fólk sé að átta sig. Um leið þarf reynsla að komast á meirihlutann og rykið að setjast. Þá fyrst kemur marktæk mæling á stöðu mála. En þetta eru sögulegir tímar í Reykjavík. Kjósendur eru ósáttir við að stöðugleikinn er enginn. Það er mjög skiljanlegt. Nú þurfa stjórnmálamenn að sýna að þeir standi undir nafni og geti unnið sín verk af ábyrgð og festu í miðri upplausninni.


mbl.is 26,2% segjast styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

55% svarhlutfall í 600 manna úrtaki. Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart eftir allt sem á undan er gengið. Það verður ekki breyting á einni nóttu.
Aðalmálið er eins og Björn Bjarnason bendir á er að enn eina ferðina missa vg og sf tækifæri á að komast í meirihluta.
Hver er staða Dags, á hans vakt sprakk 100 daga meirihlutinn og nú Tjarnarkvartettinn.  Sf er að toppa á kolvitlausum tíma - kosningar eru mai 2010 - einhverstaðar las ég að vika væri langur tími í pólitík.

Óðinn Þórisson, 17.8.2008 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband