Súmmering: Tár, bros og væntingar í Denver

michelle teddy
Flokksþing demókrata hófst á tilfinningalegum nótum í Denver í gærkvöldi. Lykilorð kvöldsins voru sannarlega tár, bros og væntingar. Stemmningin var óbærilega hugljúf á köflum. Þingfulltrúar grétu á meðan síðasti Kennedy-bróðirinn var heiðraður, jafnvel á sínu síðasta flokksþingi, og vinir og vandamenn Obama kepptust við að lýsa hvað hann væri nú vandaður og einlægur maður. Í heildina var þetta kammó og sætt en yfirmáta sykurhúðað. Ekki er hægt að segja annað en demókrötum hafi mistekist að tækla pólitíkina á þessu kvöldi og fara yfir lykilmál kosningabaráttunnar.

Demókratar þurfa að standa sig mun betur á næstu þremur dögum en í gærkvöldi ef þeir ætla að koma út úr þessu flokksþingi tilbúnir í alvöru átök næstu 70 dagana. Þetta var einum of uppstillt væmni og dramatísk leiksýning til að taka á þeim málum sem mestu skipta og gera Barack Obama að þeim leiðtoga sem flokksmenn vilja að vinni Hvíta húsið í nóvember. Þrátt fyrir allt talið um Obama og fjölskylduvæna kosti hans er almenningur litlu nær um hver þessi maður er og hvað hann muni gera í Hvíta húsinu. Skilaboðin komast ekki til skila, einfalt mál.

Hitt er svo annað mál að demókratar horfast í augu við erfiðar kosningar á ári þar sem allt ætti að leika þeim í lyndi. Þrátt fyrir að Obama hafi alla heimsins peninga, traust stuðningsmannanet og pólitískar kjöraðstæður til að hafa mikið forskot hefur hann misst kosningarnar niður í jafna baráttu við 72 ára frambjóðanda flokks sem hefur haft Hvíta húsið í átta ár, átta mjög umdeild pólitísk ár, og hefur einn óvinsælasta forseta í sögu Bandaríkjanna. Þetta ætti að vera demókrötum áhyggjuefni og því furðulegt að þeir noti þingið ekki betur.

Nýjustu kannanir gefa til kynna að engu hafi breytt fyrir Obama að velja Joe Biden sem varaforsetaefni. Í fyrsta skipti í ótalmörg ár fær framboð demókrata ekki trausta fylgisaukningu út úr tilkynningu á varaforsetaefni. Með því staðfestist að Biden mun ekki sækja óháða kjósendur, Obama verður að sjá um stjörnuljómann. Biden mun geta leikið lykilhlutverk í Pennsylvaníu en varla öðrum fylkjum. Auk þess er greinilegt að hann á að treysta reynslugrunninn. En eftir sem áður verður Obama að vinna fyrir sigrinum.

Förum yfir helstu punkta fyrsta þingkvöldsins í Denver.

Michelle Obama
- Michelle Obama heillaði flokksmenn augljóslega með einlægri ræðu sinni um fjölskyldugildin og lífsbaráttu fjölskyldu sinnar í fátækt og ríkidæmi, fyrr og nú. Hún var einlæg þegar talið barst að lífsskilyrðum í æsku, hún fékk allan salinn til að gráta þegar hún lýsti baráttu pabba síns við MS-sjúkdóminn, kraftinum í mömmu sinni, því hvernig hún heillaðist af Barack og hversu vænt henni þykir um dæturnar. Einlægt og sykursætt, en hún hefði þurft að ganga lengra til að heilla óháða kjósendur, t.d. tala um þjóðerniskennd og trúarmál til að gera upp helstu vandamál sín til þessa. Enn á hún eftir að máta sig af alvöru í hlutverk forsetafrúarinnar.

Obama-fjölskyldan
- Dætur frambjóðandans, Sasha og Malia, heilluðu alla með því að fara langt út fyrir handritið þegar þær töluðu við pabba sinn og fóru að spyrja hann spurninga þegar hann birtist á sjónvarpsskjá eftir ræðu Michelle. Greinilegt var að þetta hafði ekki verið planað. Sú yngri hreif hljóðnemann af mömmu sinni og talaði á fullu og tók pabba sinn í hálfgert viðtal. Þetta átti örugglega að vera annarskonar móment en þær stálu heldur betur sviðsljósinu og gerðu þetta vel. Augljóst var á svipbrigðum Obama að þetta var ekki eins og það átti að vera.

Teddy Kennedy
- Ted Kennedy var hiklaust stjarna fyrsta kvöldsins. Gegn ráðleggingum lækna fór hann til Denver, flutti þar leiftrandi og trausta ræðu eins og hans var von og vísa. Teddy er baráttumaður og það skein í gegn í ræðunni, eins og ávallt áður. Hann leit virkilega vel út miðað við hvað hann hefur gengið í gegnum síðustu mánuði. Teddy var í raun kvaddur eins og þetta væru pólitísku endalokin hans, síðasta ræðan á síðasta flokksþingi þar sem gamli valdakjarni Kennedy-fjölskyldunnar kemur saman.

Allir sem horfðu á ræðuna óttuðust en vonuðu ekki að þetta væri svanasöngur baráttumannsins frá Massachusetts, fjölskylduföður Kennedy-ættarinnar, sem hefur gengið í gegnum svo margt. Mér fannst aðdáunarvert að hann hefði ákveðið að leggja þetta á sig og hann var hylltur eins og hjartað og sálin í þessum flokki. Ekki undrunarefni, enda verið þar í lykilhlutverki lengur en flestir er á horfðu vilja muna. Hann afhenti kyndilinn til næstu kynslóðar. Þetta var tárvotur og notaleg kveðjustund.

Vantaði aðeins að Ted kæmi með gamla frasann hans Reagans forseta: Win One for the Gipper, fræg setning sem hann sagði á flokksþinginu 1988 sem fráfarandi forseti Bandaríkjanna, flokksþinginu hans Bush eldri. Var það tilvísun í kvikmyndina Knute Rockne sem Reagan lék í árið 1940. En Kennedy-ar eru sennilega of stórir til að vitna í Reagan forseta.

Caroline Kennedy Schlossberg
- Caroline Kennedy kynnti föðurbróður sinn af stakri snilld. Talaði um framlag hans til stjórnmálabaráttu af virðingu og þekkingu um öll lykilmálefni ferils hans. Caroline hefur verið áhorfandi að pólitískum verkum hans og Kennedy-bræðranna alla tíð, er mörkuð af sorgum og sigrum fjölskyldunnar, allt frá því faðir hennar var myrtur og til dagsins í dag. Caroline hefur erft ræðusnilld forfeðra sinna og stjörnutakta í pólitískri baráttu.

Mér finnst Caroline efni í frábæra stjórnmálakonu. Af hverju fer hún ekki í framboð? Ég er ekki fjarri því að hún yrði efni í frábæran öldungadeildarþingmann fyrir Massachusetts þegar Teddy hættir þátttöku í stjórnmálum, hvort sem það verður í kjölfar þessara veikinda eða síðar. Caroline hefur allt sem þarf til að ná langt og hún hefur þokka móður sinnar og stjórnmálatakta föður síns, sem komu honum alla leið í Hvíta húsið. Vona að við sjáum meira af henni.

- Bróðir Michelle, Craig Robinson, flutti flotta ræðu er hann kynnti systur sína. Hann var traustur, talaði íþróttamál, enda körfuboltaþjálfari, og talaði um hvernig manneskja Michelle Obama væri og hversu traustur lykilmaður mágur sinn væri, ekki bara á taflborði stjórnmálanna heldur á körfuboltavellinum. Virkilega vel sett saman, einlægt án falsheita. Hvar hafa þeir falið máginn fram að þessu? Mér fannst hann alveg frábær.

Nancy Pelosi og Carter-hjónin
- Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, var hylltur á þinginu er hann kom fram með eiginkonu sinni, Rosalynn. Á undan var sýnd frábær klippa um mannréttindaverk Carters og hvernig hann hefur unnið til hjálpar bágstöddum og þeim sem minna mega sín. Carter má vera stoltur af verki sínu. Er hann kom á sviðið hljómaði auðvitað Georgia On My Mind, lagið sem Ray Charles söng um heimafylki Carters. Var alveg gáttaður á því að hann fékk ekki að flytja ræðu. Fannst það afleitt, enda er Carter fínn ræðumaður. Er Obama að forðast tengingar við Carter? Vill hann ekki fá á sig stimpilinn að vera að sækjast eftir seinna kjörtímabili Carters?

- Systir Obama talaði einlæglega um æsku sína og hversu traustur bróðir hennar hefði verið alla sína ævi. Fannst þetta notaleg ræða, enda er þetta manneskja sem hefur þekkt frambjóðandann alla tíð og verið við hlið hans. Pólitíski lærifaðirinn hans Obama í Chicago flutti ágætis ræðu, en mér fannst allir sem fjölluðu um Chicago-árin hans Obama skauta ofurlétt yfir það hvernig honum tókst að komast alla leið þar. Þetta var hálf sagan.

- Claire McCaskill flutti leiftrandi ræðu fyrir Obama - tókst að flytja femíniska stuðningsræðu fyrir manninn sem sigraði konuna með 18 milljón atkvæðin. Visst pólitískt afrek það. Fannst samt stóra stjarnan í þessum hluta vera sonur hennar sem kynnti þingmanninn frá Missouri af krafti og orðfimi. Gott ef strákurinn hennar Claire McCaskill færði ekki einlægustu og traustustu rökin fyrir því af hverju Barack Obama ætti að verða næsti forseti Bandaríkjanna af öllum ræðumönnum kvöldsins. Er ekki viss hvað hann heitir en hann á klárlega framtíðina fyrir sér.

- Nancy Pelosi dró fram beittustu hnífana í eldhúsinu og réðst beint að John McCain. Hún ein gerði það sem ég taldi að allir myndu gera, ráðast harkalega að repúblikunum og forsetaframbjóðanda þeirra. Pelosi var ein um það verk og eiginlega kom það mér á óvart hvað þetta var sykursæt glansmynd af Obama án pólitískrar vígfimi og átakapunkta sem skipta. Pelosi gerði þetta vel en var einmana í talinu.

- Síðast en ekki síst var stemmningin sykursæt og létt. Það vantaði áþreifanlega pólitískan þunga. Þetta var misheppnað kvöld í pólitískum pælingum séð en var vel heppnað show og fjölskyldusýning fyrir Obama. En kosningarnar munu að lokum snúast um stjórnmál og því var fyrsta kvöldið í gegnum öll tárin og brosin ekki eins vel heppnað og getað hefði orðið.

Litskrúðugur þingfulltrúi (greinilega frá Iowa)
Finnst alltaf magnað að sjá stemmninguna á flokksþingunum. Þar eru karlar og konur að baða út höndunum, dilla sér við fjöruga tónlist, sumir í litríkum fötum og eru merkt í bak og fyrir með nælum og öðru litskrúðugu. Kúnstugt að sjá. Fannst leitt að sjá ekki Silju Báru og Dag Eggertsson í mynd dillandi sér við stuðlögin sem voru á milli atriða.

En í heildina, merkilegt kvöld fyrir demókrata. Tár, bros og væntingar eftir betri tíð. En það vantaði þungann þrátt fyrir allan glamúrinn. Þetta var misheppnað kvöld í pólitískum skilningi, enda þurfa demókratar að sýna að Obama sé leiðtogi, reiðubúinn á forsetavakt og tækla vandamálin innan flokksins.


mbl.is Draumurinn lifir í Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það ætti nú varla að koma þér á óvart ef þú hefur fylgst með bandarískum stjórnmálum að ekki er nú mikið talað um pólitík á flokksþingum stóru flokkana.  Það er langt síðan þing beggja flokkana þ.e. Demokrata og Republikana breyttust í allsherjarskrautsýningar með hápunkt, krýningu frambjóðandans.  Legg áherslu á að þetta á við um báða flokka. 

Reynir Stefánsson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 17:27

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég veit það mjög vel. Þetta er eitt show. Lestu færslu mína frá því í gær. Fer þar enn betur yfir þetta. Skrollaðu niður og farðu yfir. Hinsvegar er á hverju flokksþingi reynt að tala frambjóðendur upp út frá lykilpunktum og reynt að marka pólitískar áherslur frambjóðendanna í öllu glysinu. Þetta mistókst demókrötum síðast. Þeim tókst ekki að selja John Kerry sem þennan frambjóðanda. Ætli demókrötum mistakist með Obama núna líka?

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.8.2008 kl. 17:38

3 identicon

Ég las það væni minn.  Við skulum sjá til með það hvernig "salan" á Obama gengur.  En þó það sé annað mál þá finnst mér það eiginlega fyndið hvernig sumir bloggarar og aðrir sem skrifa og tjá sig um bandarísk stjórnmál eru að reyna að máta sig við annan hvorn flokkinn.  Ég er nú ansi hræddur um að ég myndi með mínar skoðanir eiga litla samleið með þessum flokkum.  Veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir hvernig flokkar þetta eru.       

Reynir Stefánsson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband