Í minningu Óskars

Óskar V. FriðrikssonÓskar V. Friðriksson var jarðsunginn í dag. Ég vil þakka honum kærlega góða vináttu og kynni í gegnum árin. Í öllum kosningabaráttum Sjálfstæðisflokksins frá 1995 hef ég haft samskipti við Óskar með einum eða öðrum hætti. Enginn var duglegri en hann að stjórna málum í kosningabaráttu. Reynsla hans og vinnusemi var líka rómuð.

Það eru þrettán ár liðin síðan að ég hafði fyrst samskipti við Óskar í gegnum utankjörfundarkosningu Sjálfstæðisflokksins og kynntist honum persónulega. Í alþingiskosningunum 1995 var ég að vinna fyrir flokkinn og lagði lið, eins og áður. Það var fyrsta baráttan sem ég tók þó þátt umfram það að bera út blöð í aðdraganda kosninganna eða dreifa út öðru kynningarefni. Þó hafði ég ekki enn fengið kosningarétt, rétt missti af því þar sem ég náði ekki átján ára aldri fyrr en í desember 1995. Því gat ég ekki lagt lið með þeim hætti sem mestu skipti.

Ekki það að sú staðreynd hafi leikið nokkuð lykilhlutverk. Óskar treysti mér fyrir verkefnum og talaði við mig eins og ég væri búinn að vera í bransanum í ótalmörg ár, í fyrstu kosningunum þar sem ég í raun tók að mér meiri verkefni en bara að breiða út boðskap lífshugsjónanna. Ég lærði líka mikið í þeirri baráttu. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn undir í könnunum en náði að halda velli á kjördegi eftir mjög vondar kannanir lengi vel. Og við náðum að halda okkar hlut hér, tryggðum Tómas Inga Olrich inn þvert á allar kannanir.

Ári eftir hafði ég samband við kosningaskrifstofu Péturs Kr. Hafsteins og skráði mig á meðmælendalista fyrir hann í forsetakjöri. Nokkrum dögum síðar hringdi Óskar í mig - vildi að ég tæki að mér verkefni, bæði við að safna meðmælendum og vera tengiliður framboðsins. Síðar bættist við það verkefni og að lokum var ég kominn í innsta hring í starfinu hér í kjördæminu. Þá hafði ég reyndar fengið kosningarétt og tók þátt af meiri þunga. Mjög gott fólk var að vinna fyrir Pétur og þetta sumar var mikill lífsins skóli.

Þó að Pétur tapaði kosningunum fyrir tólf árum mat ég mest að kynnast þeim sem tóku þátt. Við vorum heldur ekki sátt við hvernig fór hér í kjördæminu. En það var við ramman reip að draga og kannski var það alltaf bjartsýni að ætla að kynna einn mann fyrir öllum landsmönnum á tveimur mánuðum, mann sem var ekki landsþekktur nema kannski af ættarnafni sínu. En ég held að kosningabaráttan 1996 hafi verið dýrmætari veganesti en nokkur önnur kosningabarátta sem ég hef komið nærri, þrátt fyrir tapið.

Í alþingiskosningunum 1999 var Sjálfstæðisflokkurinn í mjög góðum málum. Það var skemmtilegasta kosningabarátta sem ég hef tekið þátt í. Allt lék í lyndi, bæði voru vinsældir Davíðs Oddssonar og pólitískur styrkur hans þá mestur og við hér í kjördæminu vorum í góðum málum. Unnum kjördæmið í fyrsta og eina skiptið af Framsókn og fengum Tómas Inga inn sem kjördæmakjörinn. Þá var gaman og eiginlega fannst mér jákvæðast yfir öllu þá. Samskiptin í utankjörfundarkosningunni skiptu þó lykilmáli og við tókum kjördæmið á því starfi.

Í kosningunum 2003 var erfiðara. Ég kom að því verkefni á síðari stigum baráttunnar þegar við vorum undir í könnunum og allt virtist vera að fara veg allrar veraldar í kjördæminu. Um tíma leit út fyrir að flokkurinn fengi afhroð hér, fengi færri atkvæði en Samfylkingin og myndi fara illa út úr þessu. Ég tók utankjörfundarmálin að mér á síðustu tíu til tólf dögunum. Fyrsta símtalið sem ég fékk þegar ég byrjaði var frá Óskari. Hann var ánægður með að ég væri kominn á minn stað og fór yfir það sem þurfti að gera. Við fórum í verkefnið.

Að lokum tókst okkur að verja stöðuna hvað það varðar að toppa Samfylkinguna og tryggja næstbestu kosninguna í kjördæminu. Það voru samt mjög erfiðar kosningar en við björguðum því sem bjargað varð á síðasta sprettinum. En ég get þó sagt með sanni að það var erfiðasta og leiðinlegasta barátta sem ég hef tekið þátt í. Þar var puðið ein varnarbarátta og kannski var það mesta lífsreynslan vegna þess. Þegar mest var töluðum við Óskar saman fimm til sex sinnum yfir daginn.

Síðustu kynni mín af Óskari í flokksstarfinu voru í sveitarstjórnarkosningunum 2006. Þá vann ég í Kaupangi alla baráttuna og við Óskar vorum í góðu sambandi lengst af, þar til ég sinnti öðru og annar aðili var ráðinn yfir utankjörfundarkosninguna. En það var hans taktur að hringja til að skanna stöðuna. Hann var vakinn og sofinn yfir verkefninu, fylgdist með öllu og allar klær voru úti til að tryggja flokknum bestu kosningu.

Ég minnist Óskars með miklum hlýhug, mat hann mikils og lærði mikið af honum. Óskar var hörkutól sem vann vel að því sem hann tók að sér, var traustur og vandaður í sínu og einn dyggasti sjálfstæðismaður sem ég hef kynnst. Allir sem unnu með honum kynntust vel hversu traustur maður var þar á ferð. Ég vil votta fjölskyldu hans innilega samúð mína. Guð blessi minningu Óskars.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband