Nýtt upphaf í Framsókn frá miðju og vinstri

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ætlar greinilega að færa flokkinn í takt við það sem einkenndi verk Steingríms Hermannssonar á níunda áratugnum og taka upp áherslurnar sem hann stóð fyrir. Staðan innan Framsóknarflokksins er mjög sérstök nú þegar að hafist er handa við að byggja upp brunarústirnar eftir stórbrunann mikla á undanförnum árum. Sigmundur tekur við flaki þar sem mikil uppbygging tekur við. Þar er staðan nær algjörlega í grunnmælingu - sóknarfærin eru líka ótalmörg.

Ljóst er að þrennt getur bjargað Framsóknarflokknum og fært honum sóknarfæri; horfa til þeirra grunngilda sem einkenndu flokkinn lengst af, alvöru kynslóðaskipti og gera út af við fyrri fylkingamyndun sem klufu flokkinn. Þegar eru tvö þessara atriða orðin staðreynd. Forystan hefur verið endurnýjuð svo um munar og unga fólkinu færð tækifærin og fylkingamyndun fyrri tíma er úr sögunni með því að gera út af við gömlu fylkingarnar sem klufu flokkinn og skáru í sundur með hörðum átökum.

Ljóst er að niðurstaða flokksþingsins er í raun algjör hallarbylting. Halldórsarmurinn heyrir sögunni til í sinni gömlu mynd og fékk algjöran skell. Ljóst er af tali Sigmundar Davíðs að hann ætlar að leiða flokkinn til nýrra tíma, leiða hann í aðrar áttir en Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson gerðu. Horft er mjög ákveðið til miðjunnar og sérstaklega litið til vinstri. Sigmundur Davíð er ekki táknmynd Íraksstefnunnar sem gekk frá stjórnmálaferli Halldórs, hjaðningavíganna skaðlegu og valdaþreytunnar á árunum með Sjálfstæðisflokknum. Þessi kafli hefur verið gerður upp og horft fram á veg.

Framsóknarflokkurinn er illa farinn eftir vondan kosningaósigur í síðustu sveitarstjórnar- og þingkosningum. Ljóst hefur verið um langt skeið að kynslóðaskipti og hugmyndafræðileg uppstokkun án fyrri fylkingamyndunar væru útgönguleið framsóknarmanna og eina leið til uppstokkunar. Slíkt ferli er að baki og endurnýjun orðin staðreynd. Sigmundur Davíð ætlar greinilega að horfa fram á við og talar þegar eins og Steingrímur Hermannsson gerði. Ætli hann sé ekki fyrirmyndin?

Búast má við miklum vinstriblæ á Framsókn á komandi árum. Þar verður Framsóknarflokkur Steingríms sá sem rís upp úr öskustó kosningaafhroðsins. Horft verður til nýrrar framtíðar, sagt skilið við hægrihliðar formannstíðar Halldórs og greinilegt að stríðsstimpillinn og spillingin verður sett til hliðar. Heyra má þetta mjög vel af tali Sigmundar í þessari Moggafrétt. Svo er augljóst að hann er ekkert sérstaklega hrifinn af ESB-hugleiðingum, rétt eins og Guðni.

Nú reynir á unga fólkið í Framsókn. Þeim hefur verið falin framtíðin og nú verður að koma í ljós hvort endurnýjuð Framsókn getur orðið flokkur sem höfðar til fjöldans. Ef marka má fyrstu viðbrögð er greinilegt að margir eiga erfitt með að tala um flokksþingið, því flestir töldu að gamli tíminn myndi hafa sigur en sáu ekki fyrir að hann fengi svo mikinn skell.

mbl.is Vill færa flokkinn frá hægri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband