Frábær frammistaða hjá Sigmundi í Kastljósinu

Enginn vafi leikur á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, átti stjörnuframmistöðu í Kastljósinu í kvöld. Hann var einlægur og traustvekjandi sem fulltrúi nýrra tíma og kom vel fyrir sig orði - talaði af ástríðu um verkefnin framundan og virðist hafa eitthvað fram að færa. Ég held að Framsókn muni græða stórlega á því að hafa sópað af borðinu og stokkað algjörlega upp. Kostur Sigmundar Davíðs er að vera alveg nýr á sviðinu og þurfa ekki að bera byrðar fortíðar.

Ég heyri á mörgum að hann eigi fljótlega eftir að reka sig á gömlu klíkurnar í flokknum og hafi aðeins náð hálfum sigri á flokksþinginu. Held að það sé fjarstæða. Gömlu fylkingunum var hafnað á þessu flokksþingi, þeim var einfaldlega kastað út í horn og þær gerðar upp. Forystumenn liðnu tímanna fengu klapp á bakið og vel valin orð en um leið þau skilaboð að þeirra tími væri liðinn. Nú væri þeirra ekki lengur þörf, nema í besta falli í fjarlægu aukahlutverki í endurreisn flokksins. Þetta eru þáttaskil.

Sigmundur Davíð er vissulega nýr. En sem slíkur getur hann fært fólki aðra sýn á veruleikann og um leið aðrar lausnir í stöðunni. Þetta eru hans sóknarfæri og greinilegt er að hann mun fara sínar leiðir til að byggja flokkinn upp. Gott ef Sigmundur Davíð minnti að sumu leyti ekki á Guðna eins og hann hljómaði áður en valdaátökin við Halldór sliguðu hann. Um leið fannst mér Sigmundur Davíð vilja byggja á grunngildum Framsóknarflokksins og byggja upp á þeim.

Hann segir skilið við Íraksstefnuna, spillingarstimpilinn og vinadílana og horfir annað. Sigmundur Davíð býr svo vel að vera ungur maður sem getur hugsað djarft og talað af krafti um framtíðina og sagt með sanni að fortíðin sé að baki. Nú er að sjá hvernig það fer í kjósendur. Ég held að það sé mikil eftirspurn eftir svona leiðsögn nú. Fólk vill nýja pólitíska sýn og tækifæri, ekki fortíðardrauga.

mbl.is Svipmynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Svei mér þá, þú skrifar eins of framsóknarmaður. Ertu nokkuð að fara yfirum, með Jónínu, Gumma Steingríms og öllum hinum?

Nei annars, ég er alveg sammála þér. Ég hef alla tíð hafa mikið álit á Sigmundi. Vonandi stendur hann undir væntingunum.

Sveinn Ingi Lýðsson, 19.1.2009 kl. 22:46

2 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Var að velta einu fyrir mér í þessari grein þinni, af því að þú talar um að hann sé einlægur og traustvekjandi, sem ég svo sannarlega vona að hann sé:

Mig minnir að mikið fjaðrafok hafi staðið um föður hans, Gunnlaug, og í umræðunni var talað um að hann hefði fengið Kögun upp í hendurnar og vinnubrögðin við þann gjörnin hafi nú ekki verið til fyrirmyndar, frekar en sukkið í kringum Arabann og Óla Ólafs.

Auðvitað á maðurinn að njóta sannmælis, hann er ekki faðir sinn, en við sjáum nú feðgasambandið hjá Bónusmönnunum. 

Ég tel að nú verði að fylgjast vandlega með þeim sem koma til með að stjórna hér málum í framtíðinni.

Sigmundur Davíð er þar engin undantekning.

Sigurður Sigurðsson, 20.1.2009 kl. 08:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband