Ríkisstjórnin fallin - vinstristjórn í pípunum?

Þá hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra, slitið stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni eftir stormasama tíð. Samfylkingin hefur, eins og kjaftasögurnar sögðu í morgun, gert kröfu um forsætið í samstarfinu. Slík krafa er algjörlega óaðgengileg 100 dögum fyrir alþingiskosningar. Nú tekur væntanlega við vinstristjórn, enda er greinilega búið að leggja drög að henni.

Þjóðstjórn væri besta lausnin en væntanlega mun valdapot vinstriflokkanna verða því yfirsterkara. En nú fá þeir sennilega boltann og geta leikið sér með hann eins og þeir vilja. Nú reynir á leikni þeirra. Kjaftasagan er að pólitískur krónprins ISG, Dagur B. verði forsætisráðherra, Steingrímur J. fjármálaráðherra og Ögmundur heilbrigðisráðherra.

Fróðlegt að heyra hvað verður um IMF í því dæmi. En eflaust bognar VG í því.


mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Atburðarásin var svona: Ekki átti að hreyfa öðruvísi við Seðlabankanum en þannig að færa átti FME undir Seðlabankann! Seðlabankinn er undir forsætisráðuneytinu og ef ekki mátti hreyfa við Davíð Oddssyni þá var einfaldlega spurt hvort annar forsætisráðherra mætti prufa að pota manninum út úr Seðlabankanum. Það fékkst ekki. Þjóðstjórn er ekki kostur í stöðunni enda er ég ekki viss að allir viti hvað þjóðstjórn merkir! Nú ræður forsetinn og hann gæti jafnvel sett á utanþingsstjórn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 13:50

2 identicon

Það er nú frekar hjákátlegt að sjá þig skrifa um valdapot vinstriflokkanna. Verulega vanhugsuð ummæli í ljósi valdagræðgi og ábyrgðarfirringar Sjálfstæðismanna síðustu misseri. Krafan í þjóðfélaginu er skýr - það verður ekki unað við sitjandi stjórnvöld. ,,Valdapotandi" vinstrimenn, eins og þú kallar þá, eru einungis að verða við þeirri kröfu.

Þorgeir Rúnar Finnsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 14:30

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, það verður minnihlutastjórn spái ég Gísli. Sjáum til hvað gerist með þingrofsréttinn. Þjóðstjórn er ekki í myndinni.

Þorgeir minn. Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað samþykkt Jóhönnu sem forsætisráðherra allt fyrir völdin en gerði það ekki. Hann valdi frekar að halda út í óvissuna og slíta samstarfinu heldur en sætta sig við hvað sem var. Þetta var heiðarlegt mat og mun kosta flokkinn völdin.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.1.2009 kl. 15:48

4 identicon

Óþarfi að tala niður til mín. Þér ekki til hækkunar. 

Alveg eins hjákátlegt ef menn ætla að gera ,,góða gæjann" úr Sjálfstæðisflokknum núna - flokkinn sem metur hlutina svo agalega heiðarlega. Þeir eiga sennilega bara skilið umboð þjóðarinnar í næstu kosningum, svo heiðarlegir eru þeir.

Þorgeir Rúnar Finnsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 17:15

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég var ekki að tala niður til þín. Alveg víðsfjarri. Ég vil nú benda þér á að í færslu hér í dag talaði ég fyrir því að sitjandi forysta flokksins myndi alveg víkja og nýr formaður væri ekki sitjandi ráðherra nú. Þannig að ég get ekki alveg skilið að ég sé að tala til stuðnings þeim sem leitt hafa mál. Ég hef fjarri því verið sáttur við allt sem gert hefur verið á vakt flokksins og vil nýja forystu. En það er staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað sætt sig við forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar fyrir völdin en gerði það ekki.

Ég gæti skilið þennan tón til mín ef ég hefði varið allt sem flokkurinn hefði gert og væri gagnrýnislaus á stöðuna. Það hef ég ekki verið, víðsfjarri. Bara svo það sé á hreinu. En það er alveg út í hött að ég hafi verið eitthvað kuldalegur við þig eða leiðinlegur. Þvert á móti hafði ég samband við þig fyrir nokkrum vikum og vildi spjalla við þig um það sem var að gerast.

Í guðs bænum ekki tala við mig eins og ég sé ásýnd flokksins og verji allt gagnrýnislaust sem þaðan kemur.

Stefán Friðrik Stefánsson, 26.1.2009 kl. 18:46

6 identicon

Ég vil bara ekki vera ávarpaður ,,minn". Þykir það yfirlætisfullt.

Restin af athugasemdinni var ekki beint sérstaklega að þér. Frekar almenn hugleiðing um heiðarleika. Biðst afsökunar ef ég hef virkað dónalegur. Þú hefur svarað mér vel og skilmerkilega og síst verið kuldalegur.

Þorgeir Rúnar Finnsson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 19:30

7 Smámynd: Ólafur Helgi Rögnvaldsson

Já þetta er búið, og ég geri ráð fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki við völd í bili, a.m.k. ekki fyrr en eftir kosningar.

Eftir þessi stjórnarslit þá missti ég loksins algjörlega allt álit á Samfylkingunni en það var reyndar ekki mikið fyrir.  Skil ekki alveg hvað þau voru að fara með að fara fram á forsætisráðuneytið, er eiginlega stórundrandi á þessu útspili þeirra.

En ég þykist sjá í hvað stefnir.  Eftir næstu kosningar, hvenær sem þær verða, þá verða kjósendur búnir að gleyma hvernig fór eftir að spunameistarar flokkana fara á stjá og Sjálfstæðisflokkurinn fær sín 20-25%.  Framsóknarflokkurinn kemur sterkur inn, með nýja forystu en sömu stefnuleysuna og ná 10-15%.  Þessir tveir flokkar verða fljótir að rotta sig saman og mynda næstu ríkisstjórn.  Þá byrjar sama sagan.  Einkavæða bankana, einn handa B og einn handa D, og við lendum aftur á byrjunarreit og endum því miður aftur í sömu súpunni.

Sjáumst svo á nefndarhittingsfundinum 11. apríl.

Ólafur Helgi Rögnvaldsson, 26.1.2009 kl. 23:25

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég segi þetta stundum Þorgeir og biðst afsökunar ef þetta hefur hljómað leiðinlega eða pirrað þig. Allavega, ég er feginn að við erum ekki að ergjast hvor í öðrum út af meiru en þessu. :) Hvað með það, við þurfum endilega að hittast við tækifæri og rabba saman, yfir bjór eða kaffi, um pólitík. Til er ég.

Takk fyrir kommentið Óli. Kannski er honum hollt að taka sér frí. Ég sé tækifæri í því eins og öðru, eins og ég sagði í öðrum pistli í dag. Þetta samstarf var orðið leiðinlegt og þungt og í sjálfu sér merkilegur léttir að það sé búið. Verður gaman að hittast á fundinum í apríl. Hlakka til. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 27.1.2009 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband