Jón Baldvin hundfúll með valið á Jóhönnu

Augljóst er að Jón Baldvin Hannibalsson er hundfúll með valið á Jóhönnu Sigurðardóttur sem væntanlegum forsætisráðherra. Hann hefur í viðtali við Mogga og Stöð 2 í gærkvöldi gert mun meira úr göllum Jóhönnu en kostum og talað hana niður sem sterkan valkost á þessum örlagatímum. Enn eimir eftir af harðvítugum persónulegum átökum þeirra sem enduðu með því að þau gátu ekki rúmast í einum flokki undir forystu beggja. Vandamál þeirra urðu meiri en svo að einn smáflokkur gæti rúmað það. Hatur þeirra á hvoru öðru var ekki aðeins persónulegt heldur pólitískt og eyðilagði Alþýðuflokkinn sem stjórntækan stjórnmálaflokk.

Í raun má segja að fáir pólitískir samherjar hafi rifist meira og unnið meira gegn hvoru öðru en Jón Baldvin og Jóhanna. Eflaust mætti skrifa heila bók um samskipti þeirra eða öllu heldur samskiptaleysi á vinstristjórnarárunum 1988-1991 og í Viðeyjarstjórninni meðan þau gátu unnið saman og komist fyrir í forystu eins flokks. Hámarki náði þessi ólga með heiftarlegum átökum á flokksþingi Alþýðuflokksins 1990 og 1994, þar sem Jóhanna fékk endanlega nóg og gaf kost á sér gegn Jóni Baldvini í formannskjöri en tapaði og yfirgaf flokkinn við svo búið.

Átök þeirra á milli náðu það miklum dramatískum hæðum á flokksþinginu í Hafnarfirði árið 1990 að þau rifust heiftarlega á ræðum á fundinum og hnakkrifust þegar þau stóðu saman á sviðinu í þingsal eftir að hafa verið endurkjörin formaður og varaformaður. Frægar eru myndirnar af því þegar tókust saman í hendur og fögnuðu en rifust eins og hundur og köttur og Jóhanna var rauð af reiði í framan. Eftir þetta færðust þau sífellt í sundur og endaði með því að Jóhanna sagði af sér varaformennsku árið 1993 en hélt áfram sem félagsmálaráðherra.

Þá var leitað til Rannveigar Guðmundsdóttur sem bráðabirgðavalkosts í varaformennsku en valdaátökum frestað fram að flokksþingi 1994. Þar fór Jóhanna fram en beið meiri ósigur en mörgum hafði órað fyrir. Ræða hennar á því augnabliki er söguleg pólitískt og fleyg hafa orðið lokaorðin: Minn tími mun koma. Nú fimmtán árum síðar verður hún forsætisráðherra og nær því embætti sem Jón Baldvin vildi alltaf en hafnaði þegar vinstriflokkarnir buðu honum það reyndar árið 1991 - þá valdi hann frekar að gera Davíð Oddsson að forsætisráðherra.

Pólitíska sagan mun meta Jón og Jóhönnu sem eitt eldfimasta pólitíska par íslenskrar stjórnmálasögu. Samskipti þeirra og hitinn þeirra á milli er með því dramatískara í seinni tíð og nægar sögur að segja af því. Enn eimir eftir því þegar Jón Baldvin gerir upp við Jóhönnu og horfir greinilega ekki brosmildur fram á veginn með hinn endanlega pólitíska sigur hennar.

mbl.is „Jóhanna vinnusöm en þröngsýn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband