Valgerður Sverrisdóttir hættir í stjórnmálum

Valgerður Sverrisdóttir
Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér í þingkosningunum í vor og hætta virkri pólitískri þátttöku. Mikil eftirsjá er af Valgerði úr pólitísku starfi hér, enda held ég að allir hafi virt mikils pólitíska elju hennar og góð verk fyrir Norðausturkjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra áður, þrátt fyrir að margir hafi verið ósammála henni um leiðirnar að markmiðum fyrir svæðið og í pólitískum hitamálum á landsvísu. Hún markaði söguleg skref sem kona í karlaflokki á borð við Framsóknarflokkinn og komst áfram á eigin krafti.

Valgerður vann hér á svæðinu sinn mesta pólitíska sigur, þegar hún fór inn við fjórða mann í kosningunum 2003 í Norðaustri, sem enginn átti von á enda tók Framsókn þær kosningar síðustu tíu daga baráttunnar, og mesta ósigur, þegar hún fór ein inn í gamla Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999, sem var sögulegt afhroð. Valgerður vann svo mikinn varnarsigur hér í kjördæminu í kosningunum 2007 þegar flokkurinn náði þremur þingsætum þvert á nær allar kosningaspár. Eftir þær kosningar leiddi Valgerður kjördæmi með þrjá þingmenn af sjö hjá Framsókn á landsvísu.

Valgerður hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka. Valgerður hefur alltaf verið hörkutól í pólitísku starfi. Hún þorði alltaf að láta vaða og gerði hlutina eftir sínu höfði. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt, innanflokks sem utan, stóð hún sem sigurvegari eftir öll átökin. Ekki fyrr en kom að hruni bankanna og uppgjörinu við það varð hún að láta í minni pokann og taka þann skell á sig með sitjandi forystu frá gamla Halldórstímanum.

Valgerði tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð). Valgerður valtaði yfir hann. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með glans fyrir kosningarnar 2003 og vann Jón Kristjánsson í drengilegri baráttu norðurs og austurs.

Valgerður hefur því alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Valgerður Sverrisdóttir er mikil kjarnakona. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Ég verð að viðurkenna að ég hef dáðst að elju hennar, sérstaklega þegar hún var utanríkisráðherra. Þrátt fyrir annir og fundi um allan heim var hún mætt á fundi og samkomur hér í Norðaustri. Þar sást best kraftur hennar.

Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún verði metinn einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins á síðustu áratugum og augljóst er að hún markaði söguleg þáttaskil fyrir konur í Framsókn með verkum sínum.

mbl.is Valgerður ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Já, það er mikil eftirsjá í Valgerði...hún hefur alltaf verið mjög sterkur karakter og fylginn sjálfri sér. Hún hefur ætíð gefið sér tíma fyrir fólkið sem hún vinnur fyrir og er skörugnur mikill. Það verður stórt skarð sem þarf að fylla.

TARA, 14.2.2009 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband