Skorað á Jóhönnu til að koma í veg fyrir átök

Samfylkingarmenn um allt land eru nú byrjaðir að skora á Jóhönnu Sigurðardóttur um að gefa kost á sér til formennsku í stað Ingibjargar Sólrúnar til að koma í veg fyrir fylkingamyndanir og harkaleg átök um forystuna á landsfundi í lok mánaðarins. Augljóst er að engin samstaða er um eftirmann Ingibjargar Sólrúnar nema þá Jóhanna taki hlutverkið að sér. Greinilegt er að það hefur verið mikið áfall fyrir fjölda fólks að Jóhanna skyldi skjóta formannshugleiðingarnar niður allt að því á sama augnabliki og Ingibjörg Sólrún kvaddi, hálfpartinn með tárin í augunum.

Greinilegt var að þessi pólitíska kveðjustund var mjög erfið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, enda verið í pólitík mjög lengi og kveður við erfiðar aðstæður, enda gengur hún ekki heil til skógar og er ekki lengur óumdeild. Á átta dögum komu veikleikar hennar í ljós á öllum sviðum. Hún naut ekki lengur ótvíræðs stuðnings og hefur auk þess ekki lengur líkamlegan þrótt til að vera í forystusveit fyrir stjórnmálaflokk í kosningabaráttu. Plott hennar um að halda völdum og sjá til, en um leið búa til eftirmann, gekk einfaldlega ekki upp.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur á þessu kjörtímabili öðlast mjög sterkan sess í forystusveit Samfylkingarinnar. Á meðan bæði Ingibjörg og Össur veiktust vegna bankahrunsins styrktist hún. Upphaflega átti að láta hana fara í þingforsetaembættið á þessu ári og klára kjörtímabilið og ferilinn þar. Nú er hún orðin ótvíræður leiðtogi Samfylkingarinnar án þess þó að hafa þann titil að nafninu til. En Jóhanna er að verða 67 ára gömul, orðin greinilega svolítið þreytt og hugsar til pólitískra endaloka.

Annað hvort er henni alvara um að klára verkefnið sem hún hefur, þá til bráðabirgða, eða að búa til eftirspurn eftir sér. Jóhanna hefur sem forsætisráðherra þá stöðu að leiða í raun pólitíska baráttu flokksins síns. En hún er hinsvegar gamalt andlit í pólitískri baráttu - hefur setið á þingi frá vinstrisveiflunni árið 1978, fór á þing með Vilmundi Gylfasyni, arkitekt þeirrar sveiflu, og hefur mikla reynslu að baki. Slíkt er bæði kostur og galli á breytingaári í stjórnmálum.

Dagur bíður greinilega á hliðarlínunni. Hann átti að verða varaformaðurinn hennar Sollu og valinn arftaki - staðgengill hennar og eftirmaður mjög fljótlega sennilega. Brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar markar þá framtíð mikilli óvissu. Hann kemst ekki í borgarprófkjörið nema kjörnefnd skvísi honum inn með valdi að ofan á allra síðustu stundu, sem yrði mjög vandræðalegt, tel ég. Auk þessu eru aðrir á hliðarlínunni, t.d. Lúðvík Geirsson, Árni Páll og Björgvin Sigurðsson.

Svo er það Jón Baldvin. Hann býður greinilega Jóhönnu að fá stólinn og hætti þá við endurkomuna margfrægu, sem er frekar vandræðaleg og pínleg en nokkru sinni tignarleg heimkoma postulans margreynda. Hann er fjarri því vinsæll og virðist á einni nóttu orðinn hataður meðal vissra hópa í flokknum. Glæpur hans var að ráðast að hinum fallandi leiðtoga, sem féll á átta örlagaríkum dögum vegna þess að heilsa hennar og pólitískur styrkleiki var farin.

Þetta stefnir í mikið skuespil, skemmtilegt það. Annað hvort hættir Jóhanna við að hætta eða við fáum skemmtilegan vinstrifarsa um völdin, þar getur margt gerst og ýmis öfl verið leyst úr læðingi - öfl sem Ingibjörg Sólrún gat ekki ráðið við undir lokin. Gleymum því ekki að margir ólíkir hópar eru saman undir merkjum Samfylkingar og ISG var límið sem hélt þeim öllum saman sem hinn sterki leiðtogi.

mbl.is Jón Baldvin skorar á Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jón Baldvin hefur allan tímann verið að stríða bæði ISG og Jóhönnu. Sérstaklega Jóhönnu sem kann ekki að meta "húmorinn". Ég held að sé næsta öruggt að ISG sé búin að munstra Dag B. fyrir formannskjör. Hann neitar því ekki alla vega. En kannski er ekki vitlaust að hleypa Jóni Baldvini í utanríkisráðherrann? Það er fyrir þá sem vilja express leið í ESB.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 8.3.2009 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband