Tryggvi Þór stimplar sig inn í kosningabaráttuna

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og verðandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, stimplar sig traust og vel inn í kosningabaráttuna með tillögum sínum. Þetta eru þó ekki nýjar tillögur, enda komu þær fyrst fram í október/nóvember 2008 - áður en Sigmundur Davíð og félagar hans í Framsókn tóku þær eftir og kóperaði.

Ég varð mjög var við að tillögur Tryggva Þórs slógu í gegn í prófkjörsbaráttunni hjá okkur sjálfstæðismönnum. Hann stóð sig langbest allra á framboðsfundi hér á Akureyri á fimmtudag. Sumir frambjóðendur ætluðu þar að sækja að Tryggva vegna þessara tillagna og reyna að láta þær líta út eins og barnalegar eða óraunhæfar.

Tryggvi Þór skaut alla slíka gagnrýni niður, næsta auðveldlega. Vissulega er eðlilegt að ræða þessar tillögur og eiga um þau skoðanaskipti. Þeir sem vilja skjóta þær niður verða þó að koma með konkrett tillögur en láta ekki skjóta sig svona á færi. Eiginlega lágmark.

mbl.is Tryggvi Þór: 20% af skuldum heimilanna verði felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Mér sem leist ekkert á Tryggva. Ég verð að viðurkenna að líklega hafi ég þar haft rangt fyrir mér.

Offari, 16.3.2009 kl. 18:37

2 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég tel þessa hugmynd um 20% niðurfellingu skulda vera afspyrnu slæma. Þeir sem borga þessa niðurfellingu er væntanlega almenningur í gegn um ríkissjóð, eða bankana. Þá er enn eina ferðina verið að verðlauna skuldarana.

Til er mikið betri lausn , sem kemur öllu hagkerfinu til góða. Þetta er upptaka nýs innlends gjaldmiðils undir myntráði. Ef US Dollar er metinn á 90 Krónur í stað 112 Krónur, sem er núverandi gengi, erum við að keyra verðbólguna til baka um 20% (90/112= 80%).

Með þessu móti erum við að lækka um 20% allar skuldir sem eru gengistryggðar og vísitölutryggðar skuldir um eitthvað í áttina að 20%.

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.3.2009 kl. 20:35

3 Smámynd: Ragnar Hilmarsson

það er nú reyndar þannig að Tryggvi var búinn að koma fram með þessa hugmynd áður en að Toyota tengdasonurinn fattaði að hann ætlaði í pólitík

Ragnar Hilmarsson, 16.3.2009 kl. 21:02

4 Smámynd: Stefanía

Ég er ekki alveg að gúddera syndafyrirgefninguna sem í þessu býr.

 Ég , eins og margir fleiri, hef látið mínar skuldbindingar í forgang, þ.e. " Reikningar fyrst, bruðla svo", myndi aldrei sætta mig við að þeir, sem láta reka á reiðanum og "það reddast" fái einhverja sér fyrirgreiðslu, á okkar kostnað !

Stefanía, 17.3.2009 kl. 00:52

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Er eftirfarandi greining mín rétt ? 

Það er einfalt að átta sig á þessari hugmynd um 20% niðurfellingu og þarf engan hagfræðing til þess. Í mjög stuttu máli og eftir mjög snögga skoðun, lítur þetta svona út:

Allar skuldir sem nýju bankarnir hafa yfirtekið frá þeim gömlu eru metnar og þá getum við sagt að af hverri skuld verði greitt ákveðið hlutfall, sem liggur á bilinu 0% - 100%.

Af ákveðnum hluta skuldanna næst 0% - 80% af nafnkröfum, samkvæmt matinu. Ef þessar skuldir eru lækkaðar um 20% næst sama Krónutala eftir sem áður. Hugsum okkur eina kröfu til skýringar. Ef af henni næst 80% áður en 20% lækkunin kemur til, næst 100% eftir lækkunina. Sama Krónutala sem sagt. Niðurfellingin gagnast ekkert þessu fólki.

Af hinum hluta skuldanna næst 80% - 100% af nafnkröfum. Við 20% lækkun á þessum skuldum, fækkar innheimtum Krónum og mest þær kröfur sem innheimtst hefðu 100%. Af þeim er niðurfellingin full 20%. Við sjáum því að þessi niðurfelling gagnast best þeim sem geta greitt skuldir sínar að fullu. Niðurfellingin gagnast einungis þeim sem geta greitt 81% - 100%.

Getur verið að hagfræðingurinn skilji ekki betur eigin tillögu, eða hefur mér yfirsést eitthvað, sem getur svo sem vel verið?

Loftur Altice Þorsteinsson, 17.3.2009 kl. 00:57

6 identicon

Þú hefur vafalaust séð þetta:

Flöt niðurfelling á fimmtungi skulda þeirra sem geta staðið í skilum
er ómarkviss og afar dýr aðgerð. Líklegt að kostnaður upp á um 600
milljarða falli á ríkissjóð og þar með almenning í formi aukinna
skattbyrða. Hugmyndin gengur út á að leika Hróa Hött, bara með öfugum
formerkjum því þeir sem skulda mest, yfirleitt stór fyrirtæki og
tekjuhæstu einstaklingar, fá langmesta niðurfellingu. Verið væri að
flytja fjármuni frá almenningi til eigenda fyrirtækja óháð stöðu
fyrirtækjanna. En af því staða bæði heimila og fyrirtækja er mjög ólík
væri drjúgum hluta kostnaðarins varið til að fella niður skuldir hjá
þeim sem ekki þurfa á slíku að halda. Niðurfærslan dugar hinsvegar
ekki þeim sem verst eru staddir svo þar þarf sértækar aðgerðir til
viðbótar. Sá stóraukni kostnaður sem af þessu hlýst lendir á svo beint
á ríkissjóði.

Hér gildir svo sannarlega hið fornkveðna: Ef eitthvað hljómar of gott
til að vera satt þá er það líklega ekki satt. En nú fara tímar
kosningaloforðanna og töfralausnanna í hönd.


Af hverju er flöt niðurfærsla ekki ókeypis heldur kostar líklega um
600 milljarða?

Töframennirnir segja að af því skuldirnar voru fluttar frá gömlu
bönkunum yfir í þá nýju með svo mikill varúðarniðurfærslu þá sé hægt
að færa þær niður yfir línuna og auknar heimtur og greiðsluvilji hjá
þeim sem ella hefðu farið í þrot og verið að fullu afskrifaðir, vegi
upp á móti.
Til að þetta gangi upp þyrftu afskriftalíkurnar á öllu lánasafninu,
bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum og eftir ólíkum tegundum lána,
að vera mjög líkar. Staðreyndin er sú að staðan er mjög ólík eins og
fyrstu niðurstöður rannsóknar Seðlabankans á gögnum um heimilin
staðfestir. Sama á við um fyrirtækin. Þess vegna mun verulegur hluti
kostnaðarins við niðurfærsluna renna til þeirra sem ekki þurfa á hjálp
að halda á meðan hún dugar ekki til að bjarga þeim sem verst eru
settir. Stór hluti þeirra afskrifta sem búið er að gera ráð fyrir við
varúðarniðurfærslu á flutningi mun því koma fram eftir sem áður eða að
grípa verður til annarra aðgerða samhliða. Áætlað að er að
kostnaðurinn geti verið um 600 milljarðar um um 8 milljónir á hverja
fjögurra manna fjölskyldu í landinu. En af þessu eru aðeins um 150
milljarðar vegna heimilanna, 450 milljarðar vegna fyrirtækja. Uppfært
mat gæti legið fyrir innan skamms. Kostnaðurinn veikir stöðu bankanna
sem þessu nemur og þar sem það er ríkisins að endurfjármagna þá lendir
kosntaðurinn að endanum á skattgreiðendum.

Af hverju er flöt niðurfærsla ekki einföld aðgerð?

Töframennirnar segja að helsti kostur aðgerðarinnar sé einfaldleiki
hennar og skjót framkvæmd. Ef staða allra skuldara væri lík og allar
skuldir heimila og fyrirtækja hefðu verið fluttar með
varúðarniðurfærslu frá gömlu bönkunum sem fóru í þrot og yfir í nýju
ríkisbankana mætti færa rök fyrir einfaldleikanum.
En staða heimila og fyrirtækja er svo ólík að eftir sem áður yrði að
fara yfir hvert tilfelli og grípa til viðbótaraðgerða og sá kostnaður
leggst ofan á niðurfærslukostnaðinn. Svo er öllu ósvarað um hvað gera
á við skuldir í eigu annarra en nýju ríkisbankanna. Hver borgar fyrir
flata niðurfærslu hjá Sparisjóðunum, Íbúðalánasjóði og öðrum
fjármálastofnunum, svo sem í gömlu bönkunum?

Afhverju samrýmist flöt niðurfærsla ekki samkomulaginu við
Alþjóðagjaldeyrissjóðinn?

Forsendan fyrir því að viðskipti Íslands við umheiminn og aðgangur að
alþjóðlegum lánsfjármörkuðum verði með eðlilegum hætti er að sátt sé
um uppgjör gömlu bankanna við erlenda og innlenda kröfuhafa. Með
neyðarlögunum voru innlán gerð að forgangskröfum og sú ráðstöfun hlaut
staðfestingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í samkomulagi hans við íslensk
stjórnvöld. Það er ótvíræður hagur þjóðarinnar að eignum í þrotabúi
bankanna verði deilt til þeirra sem eiga löglegar kröfur á þá. Vegna
þessu vinna tvö óháð alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki á mati á þeim
lánasöfnum sem flutt eru frá gömlu bönkunum til nýju bankanna. Stærstu
fyrirtækjalán eru metin hvert fyrir sig og ítarlegt úrtak tekið úr
öðrum lánapökkun, þeirra á meðal skuldum heimilanna. Verðamat mun því
byggja á mati á því hvað hver og einn lántaki getur greitt og gert er
ráð fyrir að fjöldi lántaka standi við sínar skuldbindingar að fullu.
Allar tilraunir til að velta frekari kostnaði, t.d. vegna flats
niðurskurðar án tillits til stöðu, yfir á kröfuhafa, hvort sem er
innlenda eða erlenda eru í raun bara frestun á kostnaði frekar en
niðurfelling. Kröfuhafar munu sækja rétt sinn fyrir dómstólum með
alvarlegum afleiðingum fyrir alþjóðaviðskipti okkar og þar með
atvinnulíf og nýsköpun. Í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn
er beinlínis gert ráð fyrir því ríkið og þar með skattgreiðendur, taki
ekki á sig frekari byrðar en sem nemur skilgreindum skuldbindingum og
endurfjármögnun banka og seðlabanka. Hundruð milljarða baggi vegna
niðurfærslu skulda yrði hrein viðbót.

Afhverju gæti flöt niðurfærsla alveg eins dregið úr heimtum eins og aukið þær?

Töframennirnir gefa sér þá forsenda, án þess að til sé fordæmi til að
vísa í, að almenn niðurfærsla auki almennt greiðsluvilja bæði
einstaklinga og fyrirtækja og bæti þannig heimtur af lánasöfnum.
Talsmennirnir líta því framhjá þeim freistnivanda (e. moral hazard)
sem felst í því að ráðstafa miklum fjármunum samfélagsins til þeirra
sem ekki þurfa á því að halda eða sem verðlaun til þeirra sem mesta
áhættu hafa tekið. Afleiðingin gæti orðið minni greiðsluvilji og
þrýstingur á frekari niðurfærslur á öðrum lánum til að gæta jafnræðis.
Í þessu sambandi ber líka að gjalda varhug við því þegar svona
hugmyndum er hampað af aðilum sem tengjast nánum viðskipta- eða
fjölskylduböndum stórum og skuldsettum fyrirtækjum í landinu. Slík
fyrirtæki og þar með eigendahópur þeirra, yrði stærsti þiggjandi
niðurfærslugjafa af almannafé óháð stöðu þeirra að öðru leyti.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 13:33

7 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Tryggvi er svo auri borinn úr spillingarumhverfi efnahagshrunsins íslenska, þótt ekki sé minnst á kúlulánið sem hann fékk alveg afskrifað og stórgræddi (hvernig væri að ég fengi borgað fyrir að fá íbúðarlánið mitt afskrifað!), að fólk sem er með einhverjar hugsjónir eftir um réttlæti, sanngirni og siðvitund getur ekki með nokkru móti kosið hann.

Þið hin - Ég býst hvort eð er ekki við neinu sérstöku af ykkur nema að klúðra málunum aftur og reyna að kenna öðrum um... aftur.

Rúnar Þór Þórarinsson, 18.3.2009 kl. 06:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband