Davíð varaði við hruninu - hvað gerði stjórnin?

Nú er ljóst að Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, varaði við yfirvofandi hruni íslenska fjármálakerfisins í minnisblaði fyrir rúmu ári, í febrúar 2008. Þetta minnisblað varpar nýju ljósi á atburðarásina í aðdraganda hrunsins og vekur spurningar um hvað ríkisstjórnin gerði í kjölfarið. Mér finnst innihaldið beina sviðsljósinu að þeim sem voru í ríkisstjórn þegar þetta skuggalega mat lá fyrir og gerðu greinilega lítið sem ekkert í því að taka á alvarlegum aðsteðjandi vanda.

Þeir sem hafa viljað kenna Davíð Oddssyni og yfirstjórn Seðlabankans um hrunið verða að leita annað að sökudólgum. Í þessu minnisblaði er töluð íslenska um vandann. Þar er staðan greind án nokkurs hiks. Ríkisstjórnin og yfirstjórn Stjórnarráðsins virðist ekki hafa tekið á þeim vanda sem þarna kemur augljóslega fram frá Seðlabankanum. Greiningin er augljós.

Nú þurfa þeir að svara sem stýrðu þjóðinni á þessum tíma. Því var ekkert gert á þessu hálfa ári sem leið frá þessu minnisblaði þar til hrunið varð? Hvað gerðu þeir þegar minnisblaðið lá fyrir?

mbl.is Stefndu fjármálalífinu í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Árið 2001 voru stjórntæki færð frá ríkinu til Seðlabanka Íslands. Þessi stjórntæki voru því ekki hjá ríkisstjórninni - heldur SÍ. Af hverju gerði SÍ ekki neitt? Af hverju sögðu þeir eitt á minnisblöðum en annað í opinberum ritum frá SÍ?

Egill M. Friðriksson, 23.3.2009 kl. 15:49

2 identicon

Hvað gerði Davíð???? hann er (var) stjórntækið til að stemma stigu við of stóru bankakerfi. Stýrivextir seðlabanka leiddu til styrkingar krónu og hárra innlendra vaxta þannig að allir fóru erlendis = hrun íslands hann hafði ýmiss fleiri stýritæki, til dæmis bindiskyldu, gjaldeyrisvaraforða, hey hann leyfði Icesave. stjórnin er pólitísk, Davíð átti að verða óháði sérfræðingurinn...hugsa áður en skrifa...

hmmm (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 16:04

3 identicon

Það kemur hvergi fram að ríkisstjórninni hafi verið sýndur þessi minnismiði

Börkur Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 16:11

4 Smámynd: Stefán Jóhann Arngrímsson

Davíð Davíð Davíð, er ekki best að fá aðgang að þeim fundargerðum þar sem þetta minnisblað var lagt fram.

Jafnframt þá er þetta minnisblað eftir ferð einhvers starfsmanns, ekki formlegt bréf, eða stöðumat frá Seðlabanka sem eðlilegra hefði verið að leggja fram.

Annars þá finnst mér þessi umræða um þetta minnisblað vera fáránleg, minnisblað er minnisblað og ekkert annað.

Stefán Jóhann Arngrímsson, 23.3.2009 kl. 16:13

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ef þetta minnisblað er marktækt, sem verður að gera ráð fyrir að það sé, þá er þetta gríðarlegur áfellisdómur yfir háskólamenntuðum hagfræðingi sem sat við stjórnvölin og aðhafðist ekki nokkurn skapaðan hlut. Davíð hefur ítrekað sagst hafa varað ríkisstjórnina við, og í þessu rúmlega ársgamla minnisblaði kemur skýrt fram sama afstaða og endurspeglast í ummælum um að "núll prósent líkur séu á að bankarnir lifi af".

En hvers vegna þurfti erlenda sérfræðinga til að vekja athygli Seðlabankans á vandanum, hvar var t.d. FME? Það virðist hálfur heimurinn hafa verið betur með á nótunum en þeir sem hér áttu að bera ábyrgð og hafa eftirlit. Landráð af gáleysi eru líka glæpsamleg, og hegðun bankanna á þessum tíma virðist geta flokkast undir það, en sérstakur saksóknari í málinu situr bara og bíður eftir að einhver annar komi með málið inn á borð til sín. Er þetta sjúklegur valkvíði eða hvað?

Einn banani, tveir bananar, þrír...

Guðmundur Ásgeirsson, 23.3.2009 kl. 16:15

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Væri ekki líka hægt að spyrja:  Hvað gerði Seðlabankinn?

Marinó G. Njálsson, 23.3.2009 kl. 16:24

7 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Það er aðeins eitt að gera í stöðunni; Það þarf að fá mann sem kann, veit og getur, til að taka við stjórnvölinum á þjóðarskútunni og koma henni aftur á réttan kjöl.  Mann sem hefur gert þetta áður og kann til verka.

Hann þarf að vera strangheiðarlegur, duglegur og fylginn sér.  Maður sem getur staðið af sér áföll, rógburð, lygi og bakstungur frá félögum sínum.

Maðurinn heitir Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra.  Það þarf að skora á hann að bjóða sig fram í kjöri í næstu kosningum.

 Kveðja, Björn bóndi   

Sigurbjörn Friðriksson, 23.3.2009 kl. 16:26

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hlutur Geirs versnar:(

Heimir Lárusson Fjeldsted, 23.3.2009 kl. 17:10

9 identicon

Ég held að þú sért aaaðeins að misskilja. Þetta minnisblað virkar þveröfugt á mig: þetta sýnir að Davíð Oddsson hafi vitað af vandamálunum þegar það var hægt að gera ýmislegt í hans stöðu til að mýkja eða koma í veg fyrir þau.

Eins og helstu hagfræðingar landsins (t.d. Jón Daníels) hafa bent okkur á: Davíð Oddson þurfti ekki að vara neinn við nema sjálfan sig. Flott samt hvernig þú nærð að snúa þessu við þannig að þetta henti þínum skoðunum og tengslum.

Atli Stefán Yngvason (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 17:36

10 identicon

Já góðar ábendingar hjá þér....hvernig væri nú að þessi dótakassi þjóðarinnar...Samfylkinginn svaraði ...og segði umbúðar laust hvar í veröldinni þessi flokkur var ....var hann í ríkistjórn eða ..hvað var hann að gera...sver af sér allt  og alla...eins á að fá svör Framsóknar vegna einkavæðingar Búnaðarbankans   (Kaupþings) ýmislegt ógeðslegt að koma upp úr þeim músarholum....samkvæmt minnisblöðum... en  þessir tveir flokkar eru gengnir í endurnýjun lífdaga og þykjast hvergi hafa komið nærri!

Geiri (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 18:21

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Þetta er rétt hjá þér að því marki að Davíð varaði sinn ráðherra og bankamálaráðherra við strax að loknum fundi.  Ráðherra ber mesta ábyrgð en Seðlabankastjóri getur ekki staðið hjá og ekkert gert.  Ef húsið brennur og slökkviliðið kemur ekki, getur Davíð ekki bara sagt ég hringdi í Geir það var hans að hringja í slökkviliðið. 

Því miður kemur hvorki Davíð, Geir, Ingibjörg eða Björgvin lyktandi af rósum frá þessu máli, ef svo má að orði komast.

Að lokum. Svona minnisblöð eiga alltaf að hafa kafla síðast sem nefnist "næstu skref" þ.e. hvaða aðgerðir Seðlabankinn ber að taka þegar svona vitneskja berst.  Þetta vantar og sýnir skort á faglegum vinnubrögðum.

Andri Geir Arinbjarnarson, 23.3.2009 kl. 18:31

12 Smámynd: Bryndís Haraldsdóttir

Við eigum heimtingu á að vita hver viðbrögðin voru.  Hvaða ráðstafanir voru gerðar til að reyna að koma í veg fyrir hrunið.  Einnig hvað var gert til að lágmarka skaðann og setja af stað neyðaráætlun sem fæli í sér viðbrögð við því versta.  Það kom reyndar á daginn að það versta gerðist og bankarnir hrundu.  Það hefði án efa verið heppilegt að hafa þá í handraðinum neyðaráætlun um það hvernig brugðist væri við svona áfalli.  Til dæmis má nefna að Landlæknisembætið hefur unnið ítarlega áætlun um hvernig brugðist verði við fuglaflensunni ef hún bærist hingað til lands.

Bryndís Haraldsdóttir, 23.3.2009 kl. 20:03

13 identicon

Ef þú birtir þetta: Títtnefnda "minnisblað" telst til perónulegra plagga DO og upplýsingaskyldan gildir ekki um slík plögg.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 20:14

14 identicon

Og fyrst að DO vissi nú af þessu öllu saman, af hverju beytti hann ekki þeim tækjum sem Seðlabankinn hefur til að hafa hemil á þessum EINKAFYRIRTÆKJUM sem bankarnir voru? Af hverju gerði FME sem var stýrt af íhaldsmanni ekkert (og reyndar skv. ummælum Sigurðar Einarssonar var svo einstaklega lipurt við bankana, hann taldi sko gott að tala við íslenska og luxemburska FME, þeir tóku sko tali Jónas Fr og có!) Íhaldið og framsókn komast ekkert undan því að þeirra fólk varð kaka við rass með að hafa hemil á bönkunum, hafi þeir yfir höfuð reynt það.

Eygló Aradóttir (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 20:43

15 identicon

Stefán!

Seðlabankinn átti að kalla til neyðarfundar með ALLRI ríkisstjórninni, stjórn fjármálaeftirlits og leggja til áætlun þar sem allir þessir aðilar hefðu sitt hlutverk.

Þess í stað var haldinn einhver óljós fundur fárra aðila og útkoman var sú að ekkert var gert, hvorki af hálfu þess sem hafði mest tólin til verkanna sem er seðlabankinn, né annarra.

Er hægt að kalla þetta viðvörun í alvöru?

Kveðja Viðar á Kaldbak.

Viðar Steinarsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 21:13

16 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Stebbi, hvað gerði Davíð sem yfirmaður þeirra stofnunar sem á að tryggja fjármálastöðuleika og fjármálaöryggi á Íslandi? Til þess hefur hann öflug vopn til að hafa áhrif á bankana - vopn sem ríkisstjórnin ræður ekki yfir heldur Seðlabankinn. - Var opnun Icesave í Hollandi í kjölfarði kannski að áeggjan Davíðs sem viðbrögð við áhyggjum um kvikuleika innlánanna sem Davíð lýsir í minnisblaðinu? - Gerði Davíð sér ekki grein fyrir alvarleika ICESAVE reikninganna fyrir Ísland fyrr en eftir hrun, þrátt fyrir þann fókus sem var á þá frá hendi erlendra banka og breskra yfirvalda? - Hvað gerðu þeir ráðherrar sem fengu að vita er stór og mikilvæg spurning en ekki síður hvað gerði Davíð? - Beið hann bara eftir hruninu til að taka „óvinabankana“ sína yfir? - Hélt hann að það væri jafn einfalt og hann lýsti í Kastljósþættinum fræga? - Að afá skuldir þjóðarbúsins?

Helgi Jóhann Hauksson, 23.3.2009 kl. 22:37

17 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Æææ Stefán, byrjiði enn í Davíðsvörninni. Þaðer marg búið að fara yfir málið og upplýsa að Davíð og félagar í Seðlabankanum áttu ekki bara að vara við og segja frá vandanum! Þeir áttu að bregðast við honum sjálfir  eiga frumkvæðið enda höfðu þeir völd og tæki til eins og t.d. Yngvi Örn Kristinsson og fleiri fróðir hafa bent á.

Hitt er auðvitað annað mál að Geir Haarde sem efnhagsmálaráðherra átti auðvitað að hlusta á Davíð og skipa honum þá til þeirra verka sem hann var ráðinn til fyrst Davíð þekkti ekki sitt hlutverk sjálfur!

Að Seðlabankamenn séu einhverjir saklausir kórdrengir í þessum efnum er að verða heldur leiðigjarnt bull. Það er því aðeins ef heimska og fávísi um eigin verkefni og ábyrgð í starfi telst lögmæt afsökun fyrir að aðhafast ekki, en þá er ábyrgðin auðvitað þeirra sem skipuðu viðkomandi í stöðurnar.

Kristján H Theódórsson, 23.3.2009 kl. 23:09

18 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Eðlilega er því velt fyrir sér hvað ráðherrar þjóðarinnar gerðu þegar þeir fengu þessa skýrslu í hendurnar. Mér sýnist ekkert hafa verið gert. Menn flutu sofandi að feigðarósi. Ætla svosem ekkert að taka einn út fyrir sviga með þetta. Allir sváfu á verðinum. Þeir sem voru í stjórn á þessum tíma eiga að sjá sóma sinn í að fara af hinu pólitíska sviði. Þegar hafa margir gert það. Allir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem eftir eru urðu fyrir áfalli í prófkjörum, náðu ekki sínum markmiðum og eru vængstýfðir á eftir. Í Samfylkingunni eru allir klappaðir upp nema Þórunn Sveinbjarnar.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.3.2009 kl. 23:13

19 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Að Björgvin  G. skuli hafa náð glæsilegri kosning í nýlegu prófkjöri er mikið áhyggjuefni. 

 "Something is terribly rotten in the state of Iceland! 

Andri Geir Arinbjarnarson, 23.3.2009 kl. 23:26

20 Smámynd: Stefán Jóhann Arngrímsson

Það er nokkuð ljóst að Murphy (http://en.wikipedia.org/wiki/Murphy's_law) kom í heimsókn til okkar. Ég held að tilraunir til hvítþvottar með birtingu á jafn "skemmtilegu" minnisbréfi séu ekki til framdráttar.

Mér er nokk sama hvað manneskjurnar heita sem voru hér við völd, þær brugðust allar og við borgum brúsann.

Stefán Jóhann Arngrímsson, 23.3.2009 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband