Þáttaskil í íslenskum stjórnmálum um helgina?

Enginn vafi leikur á því að það yrði pólitískur jarðskjálfti á Íslandi ef úrslit þingkosninganna verða í líkingu við það sem Gallup mælir í dag. Sterk staða vinstriflokkanna gerir að verkum að vinstristjórn verður fyrsti valkostur að loknum kosningum. Nú ræðst hvort kjósendur vilja færa flokkunum tveimur það afgerandi umboð og um leið refsa Sjálfstæðisflokknum, veita honum mesta skell í sögu sinni. Velgengni Borgarahreyfingarinnar, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, hefur komið þeim á kortið og þeir virðast líklegir til að taka stöðu Frjálslynda flokksins sem fimmta aflið til hliðar við fjórflokkinn margfræga.

Mér fannst stórpólitísk tíðindi, í raun þáttaskil í kosningabaráttunni, eiga sér stað í gærkvöldi þegar Katrín Jakobsdóttir og Atli Gíslason sögðu afdráttarlaust að ESB-aðildarviðræður yrðu ekki á dagskrá í sumar ef VG fengi að ráða á meðan Árni Páll Árnason og Björgvin G. Sigurðsson fóru í þveröfuga átt og sögðu ESB verða aðalmál þeirra í stjórnarmyndunarviðræðum, bæði fyrsta mál og forgangsmál til að hefja viðræður. Þetta tvennt fer ekki saman og þegar við bætist að Steingrímur J. vill verða forsætisráðherra getur allt gerst.

Ég velti fyrir mér hvort niðurstaðan verði kannski að Samfylkingin gefi eftir forsætisráðuneytið fyrir einhverja útvatnaða Evrópukeyrslu undir leiðsögn vinstri grænna. Mun Samfylkingin fórna Jóhönnu fyrir samstarf með Steingrími? Ef það gerist ekki er ekki ósennilegt að Steingrímur J. heimti utanríkisráðuneytið og taki þá yfir leiðsögn einhverra viðræðna við ESB eða keyri á þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um aðild, líkt og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa samþykkt sem stefnumörkun.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur illa, eins og ég hef oft farið yfir í skrifum undanfarnar vikur, bæði hér á bloggvefnum og síðast í grein á amx á föstudagskvöldið. Ég tel að þeir eigi í höggi við svipaðan djöful og breski Íhaldsflokkurinn árið 1997 og bandaríski repúblikanaflokkurinn árið 2008 að margir kjósendur vilja kjósa hann frá og refsa honum þrátt fyrir marga góða frambjóðendur. Enn er líka spurt um hvaða áhrif á flokkinn styrkjamálið hafði.

Þetta verða spennandi dagar fram að kosningum. Gærdagurinn var tíðindamikill og opnaði í raun nýja kosningabaráttu, enda kom þar í ljós að í ríkisstjórninni eru töluð tvö gjörólík tungumál um Evrópumálin.


mbl.is O-listi fengi fjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það er öngvum að kenna nema þeim sjálfum sem eru í fframboði fyrir minn elsakaða flokk.

Mér verða þau spor, sem mér er gert að feta nú að kjörkassanum, þung afar þung.

Óheilindi og eftirgjöf við örfáa en hert tak á mínum kæru löndum,--Litlu Gunnu og manni hennar honum Litla Jóni er ekki að falla sísvona af himnum ofan, þetta kemur lóðbeint frá gerðum eða aðgerðaleysi okkar manna.

Því verða sjálfskaparvítin sárust eins og venjulega.

Miðbæjaríhaldi'ð

Bjarni Kjartansson, 21.4.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband