Lokakaflinn í brotlendingu Hannesar

Svolítið sérstakt er að fylgjast með lokakaflanum í falli athafnamannsins Hannesar Smárasonar, sem eins og FL Group flaug hátt en brotlenti með sorglegum tilþrifum. Ekki fögur slóð sem þessi maður skilur eftir sig, maðurinn sem svo margir vildu líkjast á tímabili og báru virðingu fyrir. Ekki aðeins nógu mikið til að gera hann að viðskiptamanni Íslands og einhverri fyrirmynd í endalokum útrásarinnar innistæðulausu heldur til að búa til frægasta frasa í skaupi árum saman. Hversu oft var annars spurt í skaupinu 2006 af hverju væri ekki hægt að vera eins og Hannes?

Þessi svikamylla er að verða öllum endanlega opinber. Frægt var þó þegar þjóðþekktur maður nefndi FL Group sem FL Enron á sínum tíma. Myndböndin á YouTube um FL Group fyrir hrunið opnuðu endanlega hina ógeðfelldu sýn á veruleikafirringuna og sukkið sem viðgekkst á vakt þessa manns hjá fyrirtækinu. Vissulega var mjög ömurlegt að fylgjast með því hvernig farið var með FL Group í stjórnartíð Hannesar Smárasonar. Þetta er ljót og óhugguleg saga, sagan öll jafnvel enn verri.

Ég fæ ekki betur séð en það sé verðugt verkefni að fara yfir sögu þessa fyrirtækis og hvernig þar var unnið undir þeirri leiðsögn sem er að fá áfellisdóminn mikla nú. Held samt að þetta komi engum að óvörum. Undarlegast af öllu er að maðurinn standi eftir í rústunum og reyni að neita því hvernig unnið var og afneiti vinnubrögðunum. Allir aðrir vita hið sanna í málinu.

mbl.is Hannes segist ekki hafa brotið lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við megum samt ekki gleyma því að miðað við hve málarekstur yfirvalda gegn Baugi og einnig í skattamálum Jóns Ólafssonar gekk illa, þá eru verulegar ástæður til þess að hafa áhyggjur af gangi mála. Sérstaklega í ljósi þess hve ótrúlega hægt var farið af stað við rannsóknir o.s.fr. Víðtækar húsleitir og haldlagning gagna, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, hefðu þurft að fara fram síðasta haust. Ákveðinn hópur hefði þurft að fara í gæsluvarðhald. Heimildirnar skortir ekki, einungis viljann til þess að framfylgja þeim. Öryggisjónarmið ríkisins hefðu átt að vera nægileg réttlæting fyrir því, sökum stærðargráður hrunsins.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband