Edward Kennedy látinn

Teddy Kennedy
Edward Kennedy, einn áhrifamesti öldungadeildarþingmaður í sögu Bandaríkjaþings, oft nefndur ljónið í öldungadeildinni, er látinn, 77 ára að aldri. Ted Kennedy hefur verið umdeildur stjórnmálamaður en hann er hluti af einni litríkustu valdaætt bandarískrar stjórnmálasögu. Hann sat i öldungadeildinni í 47 ár, allt frá árinu 1962, eða síðan John F. Kennedy, bróðir hans, varð forseti Bandaríkjanna, en hann var kjörinn í öldungadeildarsæti hans fyrir Massachusetts. Sæti Kennedys var geymt fyrir Teddy í tvö ár þar til hann náði löglegum aldri til að taka sætið.

Þegar bróðir hans, Bobby, var myrtur fyrir fjórum áratugum, í miðri kosningabaráttu til embættis forseta Bandaríkjanna, bjuggust flestir við að Ted myndi feta í fótspor bræðra sinna og sækjast eftir forsetaembættinu. Væntanlega hefði hann getað gert sterkt tilkall til embættisins hefði hann ekki farið svo illa úr Chappaquiddick-málinu á sjöunda áratugnum. Varð hann valdur að dauða einkaritara síns í bílslysi, stakk af frá slysstað og tilkynnti ekki um slysið fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Hann sat áfram í öldungadeildinni en stórlega skaddaður pólitískt á eftir.

Hann sóttist síðar eftir forsetaembættinu árið 1980, fór fram gegn Jimmy Carter, þáverandi forseta Bandaríkjanna, en beið lægri hlut í eftirminnilegri baráttu. Einkalíf hans var þá í rúst, ekki aðeins var hann stórlega skaddaður enn af Chappaquiddick heldur var kona hans haldin drykkjusýki. Þau virkuðu ósannfærandi saman, enda hjónabandið komið í strand, og framboðið var aldrei sterkt. Tapið batt enda á valdasögu Kennedy-anna, enda var tapið skaðlegt fyrir Ted, en áhrif hans náðu ekki út fyrir öldungadeildina og innstu valdakjarna eftir það.

Hef ég ekki farið leynt með aðdáun mína á Kennedy-unum. John F. Kennedy og Bobby Kennedy voru miklir pólitískir snillingar sem sett hafa sögulegt mark á bandarísk stjórnmál, áhrif þeirra hafa náð út yfir gröf og dauða. Kennedy forseti féll fyrir morðingjahendi á hápunkti ferils síns og Bobby var hársbreidd frá því að ná í Hvíta húsið er hann var myrtur í Los Angeles, hafði unnið forkosningar demókrata í Kaliforníu það kvöld. Skarð hans var mikið. Ted Kennedy hefur verið sterkur talsmaður vissra hópa innan flokksins en aldrei náð styrk og stöðu bræðra sinna.

Hann hafði þó mikil áhrif í flokkskjarnanum og var óumdeilanlega leiðtogi Kennedy-fjölskyldunnar frá dauða Bobbys. Mótaði hann afstöðu fjölskyldunnar til lykilmála allt til hinstu stundar. Eftir að hann lýsti yfir stuðningi við Barack Obama í ársbyrjun 2008 komu helstu fjölskyldumeðlimir fram opinberlega og gerðu slíkt hið sama. Ethel Kennedy ákvað að styðja Obama með þeim orðum að hann væri eini maðurinn sem hefði komið til sögunnar í bandarískum stjórnmálum í áratugi sem minnti sig á eiginmann sinn, Robert F. Kennedy.

Maria Shriver ákvað að rjúfa hlutleysi sitt sem demókrata við hlið repúblikans, eiginmanns síns, á ríkisstjórastóli í Kaliforníu með því að styðja Obama. Og Caroline Kennedy Schlossberg sagðist styðja hann því að í honum sæi hún hugsjónir og kraft föður síns. Þær tóku sömu afstöðu og Ted frændi, hann réð ferðinni í Kennedy-fjölskyldunni og hafði markað línur fyrir börn fallinna bræðra sinna, sem hann gekk í föðurstað.

Stóra spurningin er nú hver taki sæti Teddys í öldungadeildinni. Háværar sögusagnir eru um að halda eigi sætinu í fjölskyldunni og reyna að koma Joseph Patrick Kennedy, syni Bobbys Kennedys, í það. Nokkrum dögum áður en Teddy dó reyndi hann að beita sér fyrir breytingum á skipunarreglum til að tryggja að sætið yrði skipað þó það myndi losna; sem var augljóst merki þess að hann væri að deyja.

Fylkisreglur í Massachusetts gera ekki lengur ráð fyrir því að ríkisstjóri skipi eftirmann. Þeim reglum var breytt árið 2004 af demókrötum sem réðu fylkisþinginu til að koma í veg fyrir að repúblikaninn Mitt Romney myndi sem ríkisstjóri velja eftirmann John Kerry ef hann yrði forseti Bandaríkjanna. Teddy beitti sér fyrir þeim breytingum. Fyrir nokkrum dögum vildi hann breyta þeim... fyrir sig.

Nú fer fram fylkiskosning innan 160 daga, væntanlega í janúar 2010, og það verða kjósendur í Massachusetts sem velja eftirmann Teddys í öldundadeildinni og velja þingmann þar til kjörtímabili Teddys lýkur í janúar 2010. Nú verður fróðlegt að sjá hvort Kennedy-ættin mun halda sæti Johns og Teds.

mbl.is Edward Kennedy látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikill höfðingi kveður. Það er sjónasviptir af Edward Kennedy.

Halla (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 13:48

2 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Mikill sjónarsviptir er að Ted Kennedy. Hann hefur verið áberandi í bandarískum stjórnmálum í áratugi og notið verðskuldaðra vinsælda. Samt hefur hann aldrei komist með tærnar þar sem bræður hans höfðu hælana.

Ég tel hins vegar að dagar Kennedyanna séu taldir. Ég spái því að kjósendur í Massachusetts muni ekki veita  Joseph Patrick Kennedy brautargengi eftir næstu áramót. En það er nú svona og svona með spár. Þær eru bara spár.

Magnús Óskar Ingvarsson, 26.8.2009 kl. 15:56

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

algjörlega sammála þessari vel skrifuðu grein um Edward Kennedy !!!Hvíli hann i friði/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 26.8.2009 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband