Færsluflokkur: Tónlist

Söngur eða efnislítil smáræði í aðalhlutverki?

Jóhanna Guðrún
Fyrir Eurovision-keppnina var mikið talað um að kjóll Jóhönnu Guðrúnar gæti kostað hana mörg stig og jafnvel sætið í úrslitakeppninni. Þvert á móti náði Ísland mestum stigafjölda í 23 ára sögu sinni í keppninni og náði öðru sætinu öðru sinni á áratug. Jóhanna Guðrún stóð sig það vel, söng svo vel og tært, að fólk hugsaði einfaldlega ekkert um kjólinn hennar. Fókusinn var á lagið, söngurinn var í aðalhlutverki.

Er það ekki annars aðalatriðið? Jóhanna Guðrún sýndi það vel að kona í Eurovision þarf ekki að vera á brjóstahaldara og pínubrók til að ná árangri. Ef lagið er nógu traust og söngkonan nógu góð þarf ekki að vera í efnislitlu smáræði til að slá í gegn. Hitt er svo annað mál að kjóll Jóhönnu féll vel inn í hina notalegu bláu draumkenndu sýn sem var aðalatriðið í sviðsumgjörðinni. Allt féll vel saman.

mbl.is Líkti Jóhönnu við Scarlett Johansson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær ekki Jóhanna fálkaorðuna fyrir silfrið?



Mér finnst ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hvort silfurstúlkan okkar, Jóhanna Guðrún, fái fálkaorðuna fyrir annað sætið í Eurovision. Hvort verði ekki verðlaunað jafnt fyrir tónlist og íþróttir. Afrek Jóhönnu er ekki lítið - sá sem fær Hollendinga og Breta til að kjósa Ísland eftir Icesave-málið er ekkert blávatn. Á hrós skilið.



En verður þá ekki Selma að fá fálkaorðuna líka? Auðvitað, enda stóð hún sig frábærlega í Ísrael árið 1999. Var 17 stigum frá því að vinna keppnina. En kannski er það bara þannig að íþróttirnar eru hærra skrifaðar hjá orðunefnd en tónlistin. Leitt er ef satt er.

Afrek Jóhönnu nú er mikils virði fyrir þjóðina eftir allt sem á undan er gengið, sérstaklega eftir þennan erfiða vetur.


mbl.is Fróðleikur um Evróvisjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg Eurovision sigurstemmning á Íslandi

Jóhanna Guðrún
Þetta hefur verið alveg yndislegur dagur. Íslenska þjóðin er í sæluvímu eftir að Jóhanna Guðrún varð í öðru sæti í Eurovision - okkur líður öllum eins og hún hafi unnið keppnina. Þetta eru eiginlega fyrstu góðu fréttirnar sem þjóðin fær eftir efnahagshrunið í haust og sælan er þess þá meiri. Við þurftum eitthvað jákvætt og gott til að fá þjóðina til að brosa og gleyma áhyggjum hvunndagsins.

Þessi taktíski sigur er líka alveg magnaður. Sú sem fær Hollendinga og Breta til að kjósa Ísland innan við ári eftir Icesave-málið hlýtur að verða þjóðhetja hérna heima. Stemmningin á Austurvelli var allavega notaleg og hugljúf. Góða veðrið um helgina er yndislegur plús á þetta. Þúsundföld sæla og yndislegt að öllu leyti.

mbl.is Evróvisjón á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk þjóðhátíð á fögrum degi

Allir Íslendingar munu sameinast um að efna til þjóðhátíðar í dag, mánuði fyrir þjóðhátíðardaginn (á norsku þjóðhátíðinni) til að heiðra Jóhönnu Guðrúnu og hennar góða afrek í Eurovision í Moskvu í gærkvöldi. Þetta er fallegur dagur og við erum með sól í hjarta fyrst og fremst. Þessi táknræni sigur er mikilvægur fyrir þjóðina.

Enn ein ástæðan til að efna til grillveislu í kvöld. Nú fögnum við öll.

mbl.is Sérstök móttaka fyrir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silfur Jóhönnu - frábær árangur í Moskvu

Jóhanna Guðrún
Við Íslendingar getum verið svo stolt af Jóhönnu Guðrúnu fyrir að ná öðru sætinu í Moskvu. Þetta var besti árangurinn sem við höfðum efni á að þessu sinni en þetta er samt svo innilega sætur sigur. Eftir margra mánaða bömmer og depurð vinna Íslendingar sætan og taktískan sigur á alþjóðavettvangi. Þetta silfur er jafn yndislegt og flott og það sem strákarnir okkar unnu á Ólympíuleikunum síðasta sumar - kvöldið var sigurstund Jóhönnu að svo mörgu leyti.... við erum ekki ein og eigum marga að. Stuðningurinn sem Ísland fékk, lagið og söngkonan, er ómetanlegur.

Fyrir áratug varð Selma Björnsdóttir líka í öðru sæti í Eurovision. Þá var munurinn minni og eiginlega mikil ergja meðal landsmanna með að hún vann ekki keppnina... töldum við annars ekki flest þá að sigurinn hafi verið tekinn af okkur konu með rangindum? Enda var skandall að Selma náði ekki sigra. Nú er það bara yndislegt að vera í öðru sæti. Árangurinn er líka svo miklu meira virði núna en þá. Eftir býsnavetur á Íslandi er þetta yndislega vorkvöld svo heitt og notalegt... við erum í sæluvímu.

Fyndnast af öllu er að árið 1999 sigraði Svíþjóð okkur en nú tíu árum síðar vinna Norðmenn. Skandinavískur sigur í Eurovision enn og aftur. Ekki amalegt svosem að tapa fyrir sjarmatröllinu Alexander. Var eiginlega alltaf viss um að hann myndi sigra og kaus þetta lag... fannst það bera algjörlega af. Átti samt ekki von á þessu rosalega bursti. Stigametið fellt og sannkölluð þjóðhátíð í Noregi á morgun, 17. maí. Tvöföld gleði.



En Jóhanna Guðrún á skilið mikið hrós. Hún hefur staðið sig frábærlega í öllu ferlinu, allt frá því hún sigraði undankeppnina hérna heima. Ég held að margir hafi þangað til litið á Jóhönnu sem barnastjörnu sem hafði hæfileika og gæti kannski slegið almennilega í gegn. Hún kom, sá og sigraði á þessum mánuðum. Lagið varð betra og betra.... hún var besta söngkona keppninnar að þessu sinni og fór alla leið, að nær öllu leyti.

Getum verið svo stolt af henni og þeim öllum sem komu nálægt þessu atriði. Við erum innst inni sigurvegarar kvöldsins. Eftir allt mótlætið og alla skellina í vetur getur íslenska þjóðin aftur borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi. Stórasta land í heimi, er það heillin. :)

mbl.is Ísland í 2. sæti í Moskvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskubuskuævintýri Hröfnu

Sigurganga Hröfnu í Idol-keppninni er ævintýri líkust, hreint öskubuskuævintýri. Með einlægni og hógværð tókst hinni að vinna hug og hjörtu þjóðarinnar. Hún tók gríðarlegum framförum í gegnum alla keppnina, breyttist úr látlausri landsbyggðardömu í glæsilega poppstjörnu. Hún sigldi alla tíð á móti straumnum, enda greinilegt að hún var ekki eftirlæti dómnefndarinnar né féll í hið staðlaða form poppstjörnunnar. Með jákvæðni og vinnusemi komst hún alla leið.

Mér fannst hún eiginlega endanlega springa út sem stórstjarna þegar hún söng lagið Ég elska þig enn eftir Magnús Eiríksson og gerði algjörlega fyrirhafnarlaust að sínu. Glæsileg söngkona sem hefur allt og ætti að eiga bjarta framtíð fyrir sér. Saga hennar í keppninni er skemmtilega notaleg útfærsla af því þegar ólíklegi sigurvegarinn, dökki hesturinn, leggur keppnina að fótum sér og verður stórstjarna á eigin forsendum. Þannig á það að vera.

mbl.is Fékk tvær milljónir í verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjarmatröllið Alexander



Norska lagið í Eurovision að þessu sinni er algjör gullmoli. Notalegt og flott. Besta lagið að þessu sinni að mínu mati, fyrir utan íslenska lagið að sjálfsögðu. Alexander Rybak er algjört sjarmatröll og ekki vafi að hann muni heilla Evrópubúa á morgun og fara í úrslitakeppnina með Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð. Traust lag og flott frammistaða!

mbl.is Rybak hrifinn af Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna Guðrún syngur sig inn í evrópsk hjörtu



Jóhanna Guðrún var heillandi, hugljúf og flott í Moskvu í kvöld. Yndisleg frammistaða - að mínu mati besta söngkona kvöldsins og þetta er hiklaust ein besta söngframmistaða Íslands til þessa í keppninni. Gott fyrir hana að verða sjöunda á svið á laugardaginn. Tel að hún hafi mikinn meðbyr, hún og allur íslenski hópurinn hefur staðið sig vel og unnið fyrir þessu.

Við vonum öll það besta, en það er ekki hægt annað en vera stoltur Íslendingur eftir þessa söngframmistöðu á alþjóðlega tónlistarsviðinu. Gott að fara inn í nóttina og rifja upp íslenska lagið. Svei mér þá ef Íslendingar gleyma ekki öllum sínum áhyggjum um stund yfir þessum áfangasigri í keppninni.

mbl.is Jóhanna verður 7. í röðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland áfram - glæsilegt hjá Jóhönnu Guðrúnu

Jóhanna Guðrún syngur Is it true
Jóhanna Guðrún söng sig heldur betur inn í hug og hjörtu Evrópubúa og beint í úrslitakeppni Eurovision með frábærum flutningi á laginu Is it true í Moskvu í kvöld. Spennan var alveg rosaleg þegar síðasta umslagið var opnað og Ísland komst áfram. Verð að viðurkenna að ég var orðinn fjári svartsýnn þegar kom að síðasta umslaginu og taldi að hópurinn væri jafnvel á leiðinni heim. Gleðin var mikil um allt land þegar Iceland kom upp á skjáinn. Alveg magnað. Þvílíkur cliffhanger.

Íslenski hópurinn getur verið stoltur af sínu, burtséð frá því hvað gerist á laugardagskvöldið. Þetta var stóra takmarkið og það hafðist - sungu sig inn í úrslitakeppnina með miklum glans. Var samt alltaf viss um að Jóhönnu myndi takast þetta. Hún er einlæg og fagmannleg í hvívetna og er frábær söngkona, hefur þetta alveg gjörsamlega. Hún gerir þetta svo pró og flott að það gat ekki annað verið en þetta myndi hafast.

Ég held að gleðiöskur hafi verið í flestum húsum landsins þegar umslagið góða kom, farseðillinn á laugardagskvöldið. Frábær árangur. Loksins erum við laus við pínuna af undankeppninni. Frábært líka hvað norðurlandaþjóðunum öllum gengur vel. Þau komust öll áfram í kvöld og augljóst að Noregur kemst áfram líka, enda með besta lagið þetta árið. Alexander er vænlegur valkostur til sigurs.

Fannst undarlegast að Ísrael og Malta kæmust áfram, fannst ekkert varið í þessi lög. Sáttur við flest hitt, en hefði viljað fá Hvíta Rússland áfram, flott lag það. Líst annars vel á þetta á laugardaginn. Lykilmarkmiðið var að sanna að við gætum komist áfram aftur, árangurinn með This is My Life væri ekkert einsdæmi.

Óska Jóhönnu og íslenska hópnum innilega til hamingju, þau geta verið stolt af sínu. Flott stemmning á laugardagskvöldið. Grillstemmning og gleði í hverju húsi, vonandi í góðri blíðu.

mbl.is Ísland komið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarnan Emiliana



Emiliana Torrini hefur verið uppáhaldssöngkonan mín árum saman, eiginlega síðan ég heyrði hana fyrst syngja. Hún er einfaldlega algjörlega í sérflokki - frábær rödd og traustur persónuleiki. Hún er ekki að þykjast vera neitt nema hún sjálf. Hefur alltaf verið trú sínu og ekki breytt sér fyrir frægðina eða eitthvað stjörnulúkk, hefur einfaldlega komist áfram af eigin verðleikum og skapað sína ímynd, ekki ósvipað Björk.

Ég er ekki fjarri því að mér hafi fundist hún ná traustum stalli í sínum bransa á síðustu árum, ekki aðeins hérna heima heldur um víða veröld. Lagið hennar Jungle Drum þótti mér sérstaklega gott og það var ekki hægt annað en hrífast með. Algjörlega magnað lag. Hitti beint í mark.



Emiliana ávann sér sess í huga og hjarta þjóðarinnar með plötunum sínum um miðjan tíunda áratuginn. Þær eru urðu báðar feykivinsælar hér heima og stjarna var fædd. Af öllum frábæru lögunum sem hún söng þá finnst mér The Boy who giggled so sweet algjörlega í sérflokki. Yndislegt lag.



Gollum song úr kvikmyndinni Lord of the Rings: The Two Towers frá árinu 2003 er traust lagasmíð. Yndislegt lag, með dökkum og sorglegum undirtón en yndislega fallegt samt sem áður. Nær að fanga tóninn í myndinni, sálarflækjur og innri baráttu Gollums, sem er margklofinn og andlega bugaður.



Ekki má svo gleyma túlkun Emiliönu á Simon og Garfunkel-smellinum Sounds of Silence úr sýningunni frábæru Stone Free á árinu 1996. Ógleymanleg sýning fyrir alla þá sem hana sáu. Yndisleg og sætt.

mbl.is Emilíana fær góða dóma í NYT
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband