Hálft ár á Moggablogginu

Það er hálft ár í dag frá því að ég byrjaði að blogga hér á Moggablogginu. Þetta hefur verið yndislegur tími; mjög gaman og það hefur verið notalegt að vera partur af þessu magnaða vefsamfélagi; því besta hérlendis. Áður hafði ég verið í fjögur ár á blogspot.com og ég á fimm ára bloggafmæli í september. Verð að viðurkenna að ég hugsaði mig nokkuð um áður en ég ákvað að færa mig og sé ekki eftir því. Kom áður en mesti straumurinn kom hingað yfir og hef því séð samfélagið hér vaxa dag frá degi.

Ég er kominn með fjöldann allan af góðum bloggvinum. Meirihluti bloggvina minna hafa óskað eftir að tengjast mér. Hef kynnst miklum fjölda af mjög góðu fólki, fólki úr öllum flokkum og með ólíkar skoðanir á málunum, og svo hafa böndin við gamla og góða vini í bloggheimum, fólk sem ég hef þekkt lengi, styrkst sífellt með tengslum hér. Er kominn með góðan hóp bloggvina. Allt er þetta fólk sem ég met mikils og ég hef gaman af að kynnast nýju fólki. Fæ góð komment á skrifin og heyri skoðanir úr ólíkum áttum.

Fór yfir skoðanir mínar á moggablogginu í viðtali við Gest Einar Jónasson og Hrafnhildi Halldórsdóttur á Rás 2 fyrir nokkrum dögum. Sagði þar mínar skoðanir. Er mjög ánægður með allt hér og tel þetta vera eins og best verður á kosið. Er mjög sáttur við minn hlut. Vil þakka lesendum mínum fyrir að líta við og lesa skrifin og öllum þeim sem kommenta hér á skrifin og segja sína skoðun vil ég þakka fyrir að tjá sig hér.

Ætla mér að vera mjög duglegur að skrifa fram að kosningum og analísa kosningarnar og eftirmála þeirra mjög vel. Þetta verður spennandi tími og ég ætla að vera mjög áberandi við að skrifa. Ég hef þá stöðu núna að vera ekki að vinna í eldlínu kosningabaráttu flokksins míns og verð ekki sitjandi á kosningaskrifstofu daginn út og inn að þessu sinni. Ætla að taka annan vinkil á þetta að þessu sinni. Það verður mjög gott, ég ætla líka að vera beittur í þeim skrifum. Mesti hitinn á það er að hefjast nú. Sumarið verður svo ljúft bara.

Vonandi eigum við samleið næstu vikurnar. Allar ábendingar eru góðar ábendingar hér og mjög notalegt að heyra í þeim sem hafa skoðanir á mínum skoðunum. Eina sem ég krefst er að fólk sé málefnalegt og tali á kurteisislegum nótum. Nafnleysi er ekki liðið hér. Geti fólk ekki skrifað heiðarlega og undir nafni er skoðunin dauð að mínu mati.

Eins og ég sagði í viðtalinu finnst mér gott að fá komment og fagna því ef aðrir hafa skoðun á því sem mér finnst, enda eru pælingarnar hér mínar og þær eru lifandi og ákveðnar.

Hægrisveifla í Finnlandi - ný stjórn í pípunum

Jyrki KatainenÞað er ljóst að hægrimenn eru sigurvegarar finnsku þingkosninganna, bæta við sig nokkru fylgi á meðan að Miðflokkurinn heldur þó naumlega velli sem stærsti flokkur landsins. Finnskir jafnaðarmenn verða fyrir mestu skakkaföllum sínum í tæpa hálfa öld og eru þriðju stærstir, aðeins í annað skiptið í finnskri stjórnmálasögu. Það er ljóst að sigurvegar kvöldsins eru tveir; hægrileiðtoginn Jyrki Katainen og forsætisráðherra Matti Vanhanen.

Mér sýnist á nýjustu tölum, sem eru mjög nærri því að vera lokatölur að innan við prósent skilji að Miðflokkinn og Hægriflokkinn. Þetta er sterk staða fyrir báða flokka, þó miðjumenn missi tæp tvö prósent vissulega, og svo virðist vera að þeir muni ræða myndun ríkisstjórnar í kjölfar þessa. Orðrómurinn í Finnlandi er sá að þeir hafi báðir áhuga á að vinna saman og mynda sterka stjórn, miðhægristjórn í stað miðvinstristjórnar. Skil því miður ekki vel finnska vefmiðla vegna tungumálavandræða með finnskuna en hún er ekki beint auðveld, en ég sé vel í gegnum aðra norræna vefmiðla að það stefnir í svona stjórn.

Það hefur verið rætt um þennan möguleika þónokkurn tíma. Væri auðvitað hið besta ef að hann yrði sá sem yrði að veruleika. Tel yfirgnæfandi líkur á því. Stjórnarandstöðuvist yrði erfið fyrir kratana, þeir hafa ríkt samfellt frá 1994, í forsæti 1994-2003, og voru lengi ráðandi afl fyrir 1991 er þeir misstu völdin með eftirminnlegum hætti. Það er greinilegt að Eero Heinaluoma, fjármálaráðherra, hefur mistekist að efla flokkinn eftir að tapa forystusessi síðast, síðustu kosningum Paavo Lipponen í forystusveitinni.

Það er ánægjulegt hversu sterkur Jyrki Katainen, leiðtogi hægrimanna, mælist sem leiðtogi í sínum fyrstu kosningum. Flokkurinn er hársbreidd frá því að verða stærstur og hann er orðinn alvöru afl sem getur krafist einhvers og mun vonandi fá völd eftir þennan góða sigur. Hef aðeins kynnt mér Katainen og líkað vel við hann. Katainen er bara sex árum eldri en ég, er fæddur árið 1971. Hann er því maður nýrra tíma í finnskum stjórnmálum. Hans bíða tækifæri til forystu í Finnlandi, einfalt mál það. Það verða kynslóðaskipti með honum.

Mjög glæsilegt þetta hjá Katainen og finnskum félögum til hægri!


mbl.is Hægrimenn sigurvegarar kosninganna í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnska stjórnin heldur - Vanhanen áfram við völd?

Matti VanhanenÞað er nú ljóst að finnska ríkisstjórnin, mynduð af Miðflokknum, Þjóðarflokknum og Jafnaðarmannaflokknum, hélt velli í þingkosningum í dag. Miðflokkurinn virðist verða aðrar kosningarnar í röð stærsti stjórnmálaflokkur Finnlands, en leiðtogi þeirra, Matti Vanhanen, hefur verið forsætisráðherra frá sumrinu 2003. Það hefur verið hefð í Finnlandi að leiðtogi stærsta flokksins myndi stjórn og fái umboð þingsins til þess. Það var sögulegt að jafnaðarmönnum mistókst í fyrsta skipti um langt skeið að ná slíkri stöðu eftir kosningarnar 2003. Nú stefnir í að þeir verði með þriðja stærsta flokkinn, sögulegt fall það.

Svo virðist vera sem að jafnaðarmenn útiloki ekki að leiðtogi þeirra, Eero Heinaluoma, fjármálaráðherra, verði forsætisráðherra. Það er því talið líklegt að miðjumenn leiti til hægriflokksins um að mynda stjórn og ná samkomulagi við þá um að styðja Vanhanen. Ferlið við kjör forsætisráðherra er með þeim hætti að fyrst ber að tilnefna leiðtoga stærsta flokksins. Fái hann ekki kosningu í fyrstu umferð getur forsetinn, Tarja Halonen, tilnefnt sjálf forsætisráðherraefni og lagt fyrir þingið. Nái það ekki fram að ganga fer fram þriðja umferðin og þá geta fleiri en einn verið í kjöri. Einfaldur þingmeirihluti ræður því úrslitum.

Það er því ljóst að ef Vanhanen hefur ekki meirihluta í fyrstu umferð muni forsetinn væntanlega tilnefna Heinaluoma, enda er Halonen forseti jafnaðarmaður og gegndi þingmennsku og ráðherrastörfum í nafni Jafnaðarmannaflokksins um árabil; þingmaður 1979-2000 og var t.d. utanríkisráðherra Finnlands 1995-2000. Hún var kjörin forseti Finnlands í stað Martti Ahtisaari árið 2000. Það vakti athygli þá að Jafnaðarmannaflokkurinn tilnefndi frekar Halonen í forsetaembættið heldur en Ahtisaari, sitjandi forseta, en bæði voru þekkt fyrir áralöng störf í nafni flokksins. Halonen var endurkjörin forseti árið 2006, m.a. í kosningabaráttu gegn Vanhanen forsætisráðherra.

Það er því alls óvíst hvort að Vanhanen verði áfram forsætisráðherra þrátt fyrir að hafa tryggt flokknum stöðu sem stærsta flokksins aftur. Það veltur mjög á hvort að hann geti samið við Hægriflokkinn muni kratarnir ekki kjósa hann í fyrstu umferðinni í þinginu og samstaða næst gegn vali forsetans í annarri umferð, sem við blasir eins og fyrr segir að verði Heinaluoma, sem hefur leitt kratana frá árinu 2005 er Paavo Lipponen, þingforseti og fyrrum forsætisráðherra, hætti formennsku þar.

Vanhanen varð forsætisráðherra eins og fyrr segir sumarið 2003. Hann tók við embættinu af Anneli Jäätteenmäki, sem varð fyrsta konan á forsætisráðherrastóli eftir sögulegan kosningasigur þrem mánuðum áður. Hún varð að víkja eftir að upp komst að hún varð uppvís að lygum um hvernig trúnaðarskjöl úr utanríkisráðuneytinu komust í hendur hennar fyrir kosningarnar er hún var í stjórnarandstöðu. Almennt var litið á Jäätteenmäki sem brautryðjanda fyrir finnskar konur í stjórnmálum þegar hún tók við embætti sínu.

Jäätteenmäki hlaut vond eftirmæli og hrökklaðist frá embætti með skömm. Í kjölfar afsagnarinnar í júní 2003 fordæmdu t.d. öll finnsku dagblöðin hana, t.d. blöð sem fram til þess tíma studdu hana mjög í kosningabaráttunni og voru málsvarar Miðflokksins. Hún hélt því fram í kosningabaráttunni í mars 2003 að Paavo Lipponen, þáv. forsætisráðherra og leiðtogi jafnaðarmanna, hefði sagt ráðamönnum í Bandaríkjunum, meðal annars George W. Bush forseta, að Finnar vildu ganga í bandalagið gegn stjórn Saddams Husseins, þvert á yfirlýsta hlutleysisstefnu Finnlands.

Lipponen sagði að enginn fótur væri fyrir þessari ásökun og stjórnin hefði ekki horfið frá hlutleysisstefnunni í utanríkismálum. Ásökunin skipti sköpum í kosningunum og tryggði Miðflokknum fylgisaukningu og sigur í kosningunum. Niðurstaðan varð sú að Miðflokkurinn leiddi stjórnarsamstarf þriggja flokka, þ.á.m. með Jafnaðarmannaflokki Lipponens fv. forsætisráðherra, sem varð forseti finnska þingsins og tók ekki sæti í stjórninni. Lipponen er enn forseti þingsins en hverfur senn úr finnskum stjórnmálum.

Vanhanen var varnarmálaráðherra Finnlands er hann öllum að óvörum varð forsætisráðhera við fall Jäätteenmäki. Henni var ekki sætt eftir að upplýsingar komu fram um að hún hafði sagt þingi og þjóð ósatt. Hún sagðist að mig minnir á þessum tíma ekki hafa óskað eftir trúnaðarskjölum og verið mjög undrandi þegar hún hefði fengið úrdrætti úr þeim á faxi. Nokkrum klukkustundum eftir að hún sagði þetta skýrði aðstoðarmaður Halonen forseta frá því að hann hefði sent Jäätteenmäki skjölin á faxi eftir að hún hefði falast eftir þeim og gefið honum upp leynilegt faxnúmer sitt.

Þessi afhjúpun varð til þess að þingmenn Miðflokksins sneru baki við forsætisráðherranum. Leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja, Miðflokksins, Jafnaðarmannaflokksins og Þjóðarflokksins, sameinuðust um Vanhanen, sem hefur setið við völd síðan þetta heita finnska pólitíska sumar. Hann sat síðustu sex mánuði ársins 2006 í forsæti ESB. Hann er vinsæll og græddi meira að segja á heitu einkalífi, en ástkona hans gaf út bók um samband þeirra og sagði hann hafa sagt sér upp með SMS-skilaboðum, en Vanhanen skildi í kastljósi fjölmiðla árið 2005.

Stóra spurningin nú er því; mun Vanhanen verða áfram forsætisráðherra. Verður mjög spennandi að sjá.


mbl.is Miðflokkurinn með mest fylgi í finnsku kosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg skrif Salvarar - lífseig netumræða

Ég sá í gær að Salvör Gissurardóttir gerði mikið úr skrifum mínum um fræg ummæli Guðbjargar Hildar Kolbeins um auglýsingablað Smáralindar á vef sínum. Þar fer hún yfir málið frá frekar þröngum sjónarhóli þykir mér. Það er alveg rétt að mér blöskruðu ummæli Guðbjargar Hildar. Ég var þó ekki einn um það. Eitt er að hugsa hlutina út í hött, annað er að skrifa þá vitleysu upp. Guðbjörg Hildur fékk þungt högg vegna skrifanna og endaði með því að geta ekki lengur feisað þennan bloggvettvang.

Það er öllum ljóst að með því að taka út umdeildu færsluna og að lokum vefinn viðurkenndi Guðbjörg Hildur að henni varð á og það stórlega. Það sem olli því þó að ég skrifaði fleiri en eina færslu um málið voru merkileg viðbrögð sumra sem skrifuðu með þeim hætti að ég væri að ráðast að málfrelsi Guðbjargar Hildar. Undir slíkum skrifum gesta á mínum eigin vef gat ég ekki setið þegjandi og fór yfir málið aftur. Enda er eitt að gagnrýna orðavalið og annað að gagnrýna það að fólk hafi skoðanir. Þetta eru tvö mál.

Ég skal fúslega taka undir það að Guðbjörgu Hildi er frjálst að hafa skoðanir. Það er eitt að hafa þá skoðun að auglýsingablað Smáralindar sé illa framsett og illa stúderuð. Annað er hinsvegar að kalla fyrirsætuna hóru og tala um að hún sé þess reiðubúin að vera tekin aftan frá eða setja skaufa upp í sig. Það voru orð Guðbjargar Hildar. Það orðalag misbauð mér og það orðalag var þessari konu til skammar! Ég fer ekki ofan af því Salvör mín, og þið hin sem lesið þetta jafnvel. 

Öll höfum við skoðanir. Orðum við skoðanirnar illa eða förum yfir mörkin fáum við rauða spjaldið framan í okkur. Fannst reyndar fyndnast að Salvör tekur saklausustu ummæli Guðbjargar Hildar og setur í myndakassa. Saklaust og gott, en hvað varð um sterkustu orðin Salvör mín? Þetta er frekar ankanalegt og varpar rýrð á skrif þín.

Hafði ekki hugsað mér að skrifa meira um þetta. En ég sit ekki þegjandi hjá þegar að fólk sakar mig um að vega að skoðanafrelsi fólks og eða að ganga yfir strikið. Salvör ætti þá að lesa grófustu ummæli Guðbjargar Hildar Kolbeins og spyrja sig að því hvort að fólk eigi að skrifa svona um 14 ára stelpu.

Það finnst mér. Í ofanálag finnst mér að meirihluti fólks hafi talað og það með afgerandi hætti. Svona skrifar fólk ekki. Fólk horfir ekki þegjandi á það. Það er lexía málsins og það er ég ánægður með. Einfalt mál það!

Starfslok á Alþingi - margir alþingismenn hætta

Sólveig Pétursdóttir og Geir H. Haarde Fyrir stundu las Geir H. Haarde, forsætisráðherra, upp forsetabréf um frestun á fundum Alþingis Íslendinga. Með því lýkur þingstörfum á þessu kjörtímabili. Fjöldi þingmanna sat í kvöld sinn síðasta þingfund, en þrettán núverandi alþingismenn sækjast ekki eftir endurkjöri og sjö alþingismenn hafa þegar hætt á kjörtímabilinu, en einn þingmaður, Árni Ragnar Árnason, lést á kjörtímabilinu. Auk þessa munu einhverjir þingmenn falla í kosningunum ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Það stefnir því í mestu uppstokkun á þingi frá árinu 1934.

Halldór Blöndal, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrum ráðherra og þingforseti, hættir nú á Alþingi eftir langan og glæsilegan stjórnmálaferil. Hann hefur nú setið lengst allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það var vel við hæfi að síðasta þingræða Halldórs hafi verið um íslenska fánann, að setja þjóðfánann í þingsal, laust fyrir miðnættið. Mér finnst sjónarsviptir af Halldóri. Ég hef náttúrulega lengi unnið með honum í flokksstarfinu hér fyrir norðan og hann hefur skilað hér farsælu og góðu starfi. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum.

Fram kom við starfslok þingsins, þessa 133. löggjafarþings að þessu sinni að 114 frumvörp hefðu orðið að lögum og 29 þingsályktanir verið samþykktar. Seinasta starfsdag þingsins voru mál á færibandi í gegnum þingið og mikill hraði var á afgreiðslu og umfjöllun um stórmál þingvetrar. Voru afgreidd um eða yfir 50 þingmál á rúmlega fimm klukkutímum. Hraðinn var mikill undir lokin og var fjöldi mála afgreiddur með leifturhraða. Þetta er úrelt verklag að mínu mati. Lengja á starfstíma þingsins. Það á að koma saman undir lok ágúst eða byrjun september og starfa fram í júní, hið minnsta. Segja má að núverandi starfskerfi þingsins sé mjög gamaldags og í takt við liðna tíma.

Mér telst til að 21 alþingismaður kjörinn árið 2003 sé ekki lengur á þingi, hafi ákveðið að hætta í stjórnmálum við þessar kosningar eða horfið frá störfum fyrr en ella. Hæst ber að sjálfsögðu að forsætisráðherrarnir fyrrverandi, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hættu í stjórnmálum á kjörtímabilinu eftir langa þátttöku í stjórnmálum og að hafa leitt flokka sína í farsælu stjórnarsamstarfi flokka sinna samfleytt í rúmlega áratug. Auk fyrrnefndra hættu þau: Árni Magnússon, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar I. Birgisson, og Tómas Ingi Olrich. Árni Ragnar Árnason, sem var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lést eftir erfið veikindi árið 2004.

Þeir þingmenn sem sátu sinn síðasta þingfund í kvöld og verða ekki í endurkjöri eru Halldór Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir (Sjálfstæðisflokki), Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Jón Gunnarsson (Samfylkingunni), Jón Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Dagný Jónsdóttir (Framsóknarflokki). Það eru því þónokkur tímamót á þingi í kvöld og fjöldi stjórnmálamanna sem sett hafa mark sitt á sögu Alþingis að hverfa af hinu pólitíska sviði.

Ég held að á engan sé hallað er sagt er að Halldór Blöndal hafi verið áberandi í sögu Alþingis. Segja má að hann hafi í raun verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð 7 af 8 formönnum flokksins. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar kjörinn fulltrúi, fyrst sem varaþingmaður flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1971-1979. Hann hefur setið á þingi sem aðalmaður í 28 ár, frá desemberkosningunum 1979.

Ég mun í lokin fara yfir meginpunkta þeirra 21 einstaklinga sem setið hafa á þingi en annaðhvort hætt þar á kjörtímabilinu eða hverfa af þingi við alþingiskosningarnar 12. maí nk.


Létu af þingmennsku fyrir lok kjörtímabils

Davíð Oddsson
alþingismaður 1991-2005
borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991
forsætisráðherra 1991-2004
utanríkisráðherra 2004-2005
formaður Sjálfstæðisflokksins 1991-2005
varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1989-1991

Halldór Ásgrímsson
alþingismaður 1974-1978; 1979-2006
sjávarútvegsráðherra 1983-1991
dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989
utanríkisráðherra 1995-2004
forsætisráðherra 2004-2006
formaður Framsóknarflokksins 1994-2006
varaformaður Framsóknarflokksins 1980-1994
formaður fjölda þingnefnda á þingferlinum

Tómas Ingi Olrich
alþingismaður 1991-2004
menntamálaráðherra 2002-2003
formaður utanríkismálanefndar 1997-2002

Árni Ragnar Árnason
alþingismaður 1991-2004
formaður sjávarútvegsnefndar 2003-2004

Guðmundur Árni Stefánsson
alþingismaður 1993-2005
heilbrigðisráðherra 1993-1994
félagsmálaráðherra 1994
varaformaður Alþýðuflokksins 1994-1996
forsætisnefnd 1995-2005

Bryndís Hlöðversdóttir
alþingismaður 1995-2005
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004

Gunnar I. Birgisson
alþingismaður 1999-2006
formaður menntamálanefndar 2002-2005
bæjarstjóri í Kópavogi frá 2006

Árni Magnússon
alþingismaður 2003-2006
félagsmálaráðherra 2003-2006


Gefa ekki kost á sér til endurkjörs

Halldór Blöndal
alþingismaður 1979-2007
landbúnaðarráðherra 1991-1995
samgönguráðherra 1991-1999
forseti Alþingis 1999-2005
formaður fjölda þingnefnda á þingferlinum

Jón Kristjánsson
alþingismaður 1984-2007
heilbrigðisráðherra 2001-2006
félagsmálaráðherra 2006
formaður fjárlaganefndar 1995-2001
forsætisnefnd 2006-2007

Margrét Frímannsdóttir
alþingismaður 1987-2007
formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000
varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003
þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2004-2006

Rannveig Guðmundsdóttir
alþingismaður 1989-2007
félagsmálaráðherra 1994-1995
forseti Norðurlandaráðs 2004-2005
varaformaður Alþýðuflokksins 1993-1994
þingflokksformaður Alþýðuflokksins 1993-1994; 1995-1996
þingflokksformaður jafnaðarmanna 1996-1999
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 1999-2001
forsætisnefnd 2005-2007
formaður félagsmálanefndar 1991-1994

Sólveig Pétursdóttir
alþingismaður 1991-2007
dómsmálaráðherra 1999-2003
forseti Alþingis 2005-2007
forsætisnefnd 2003-2005
formaður allsherjarnefndar 1991-1999

Sigríður Anna Þórðardóttir
alþingismaður 1991-2007
umhverfisráðherra 2004-2006
forseti Norðurlandaráðs 2000-2001
þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003
forsætisnefnd 2006-2007
formaður menntamálanefndar 1991-2002
formaður utanríkismálanefndar 2002-2003
formaður umhverfisnefndar 2003-2004

Guðmundur Hallvarðsson
alþingismaður 1991-2007
formaður samgöngunefndar 2001-2007

Jóhann Ársælsson
alþingismaður 1991-1995; 1999-2007

Hjálmar Árnason
alþingismaður 1995-2007
þingflokksformaður Framsóknarflokksins 2003-2007
formaður iðnaðarnefndar 1999-2003; 2006-2007
formaður félagsmálanefndar 2003-2004

Guðrún Ögmundsdóttir
alþingismaður 1999-2007

Dagný Jónsdóttir
alþingismaður 2003-2007
formaður félagsmálanefndar 2006-2007

Jón Gunnarsson
alþingismaður 2003-2007

Sigurrós Þorgrímsdóttir
alþingismaður 2006-2007

mbl.is Fundum Alþingis frestað fram á sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólveig Pétursdóttir flytur kveðjuræðu á Alþingi

Sólveig PétursdóttirSólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, er nú að flytja síðustu þingræðu sína og kveðjuorð fyrir hönd þingsins, en þinglok verða eftir nokkrar mínútur. Sólveig á að baki nokkuð merkan feril í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur vissulega verið umdeildur stjórnmálamaður en verið kjarnakona í stjórnmálum. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík 1986-1990 og formaður í borgarnefndum það kjörtímabil.

Sólveig tók sæti á Alþingi í ársbyrjun 1991 þegar að Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrum borgarstjóri og menntamálaráðherra, varð seðlabankastjóri við fráfall Geirs Hallgrímssonar. Sólveig var formaður allsherjarnefndar árin 1991-1999 og varð dómsmálaráðherra í maílok 1999 í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Sólveig varð með því önnur konan á stóli dómsmálaráðherra.

Ráðherratíð hennar varð stormasöm og nægir að nefna málefni Falun Gong sem eitt hið erfiðasta á hennar ferli í dómsmálaráðuneytinu. Sólveig missti ráðherrastól sinn í kjölfar kosninganna 2003 og varð 3. varaforseti Alþingis. Hún var kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals þann 1. október 2005.

Ég vil þakka Sólveigu kærlega fyrir góða forystu innan flokksins og sérstaklega góð samskipti við mig persónulega þegar að ég bað hana að rita gestapistil á vef SUS haustið 2005, skömmu eftir að hún var þingforseti. Sá pistill hét; Þankar um starfshætti Alþingis

Takk fyrir allt, Sólveig!


Bloggfærslur 18. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband