Landsfundi flýtt - tafarlaust uppgjör eftir skýrslu

Forysta Sjálfstæðisflokksins gerir rétt með því að flýta landsfundi um rúmlega ár. Þar verða spilin stokkuð upp með kosningu forystu flokksins og málefnavinnu. Þetta er tafarlaust uppgjör eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sjálfstæðisflokkurinn verður með þessu fyrsti flokkurinn sem fer í slíkt uppgjör eftir skýrsluna, kallar flokksmenn saman og lætur þá taka afstöðu bæði til flokksstefnunnar og forystunnar.

Eftir afsögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur er með öllu óeðlilegt að miðstjórnin kjósi eftirmann hennar á varaformannsstóli. Það vald á að vera í höndum landsfundarfulltrúa. Vonandi er að margir gefi kost á sér og landsfundarfulltrúar fái val um forystusætin. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er kosningin eins opin og hugsast getur, landsfundarfulltrúinn fær autt blað í hendur og getur ritað þar hvaða nafn sem er. Valdið er hans.

Bjarni Benediktsson hefur beitt sér fyrir uppgjöri í Sjálfstæðisflokknum eftir skýrsluna. Með því að kalla saman landsfund stokkar hann upp spilin, lætur reyna á stöðu sína og eflir stöðu flokksins til muna. Enginn vafi er á því að landsfundur einn getur stokkað spilin umtalsvert upp og tekið málin í sínar hendur. Enginn getur sakað Bjarna um léleg vinnubrögð í þessum efnum. Hann kallar til landsfundar til að uppgjör fari fram.

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefði vissulega getað haft landsfund á áður ákveðnum tíma, í september 2011. Miðstjórn hefði getað kosið varaformann. Slíkt gerðist árið 1973 þegar Geir Hallgrímsson, varaformaður, tók við formennsku eftir afsögn Jóhanns Hafsteins. Þá kaus miðstjórnin Magnús Jónsson frá Mel sem varaformann. Þegar hann hætti síðar var Gunnar Thoroddsen kosinn varaformaður á landsfundi.

Staðan nú er hinsvegar þannig að kalla þarf saman landsfund. Það verður flokksmanna að kjósa forystuna og taka afstöðu til mála. Uppgjör þarf að fara fram og hefur skipan viðbragðsnefndar við rannsóknarskýrslunni verið gott fyrsta skref í þeim efnum. Sjálfstæðismenn hafa með þessu stokkað sín spil upp og ætla að fara í markvissa vinnu til að taka á málum eftir rannsóknarskýrsluna.

Tafarlaust uppgjör er nauðsynlegt eigi Sjálfstæðisflokkurinn að styrkja stöðu sína enn frekar í aðdraganda þingkosninga, sem verða væntanlega fljótlega enda er pólitískt kapítal vinstristjórnarinnar lánlausu nær uppurið.

mbl.is Boða til aukalandsfundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband