Pólitískur jarðskjálfti á Akureyri

Verði könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á Akureyri að veruleika stefnir í pólitísk þáttaskil á Akureyri í kosningunum í næstu viku, þar sem ný framboð taka yfir stjórn Akureyrarbæjar og gömlu stóru flokkarnir sem hafa ráðið lögum og lofum er ýtt til hliðar. Aldrei hefur verið myndaður meirihluti þar án þess að gömlu fjórflokkarnir hafi ráðið lögum og lofum. Íhaldsemin hefur verið þar allsráðandi - lítið um drastískar breytingar og uppstokkun, þó vissulega hafi innbyrðis sveiflur orðið allnokkrar.

Staða Sjálfstæðisflokksins er skelfileg í þessari skoðanakönnun - algjört afhroð í kortunum. Eftir tólf ára meirihlutasetu og erfiðleika í aðdraganda kosninganna þar sem varð klofningur mátti jafnvel búast við miklu fylgistapi. Þar spilar líka inn í kaupmáli leiðtoga Sjálfstæðisflokksins og eiginmanns hennar, sem hafði mikil áhrif á umræðuna í bænum, þó meira hafi verið deilt um viðbrögð hennar en nokkru sinni kaupmálann beint.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið sterkt afl í bæjarmálunum á Akureyri, annað hvort leitt minnihluta eða meirihluta af krafti. Hann hefur þó tekið sínar dýfur og misst stuðning bæjarbúa. Árið 1942 varð klofningur innan Sjálfstæðisflokksins og hlaut hann þá aðeins tvo bæjarfulltrúa. Það var sögulegt lágmark í fylgi við flokkinn hér í bænum. Hann mælist nú með minna fylgi en þá og stefnir í vonda útkomu.

Verði úrslitin á þessa leið er alveg ljóst að krafan er um uppstokkun, það er alveg á tæru. L-listinn hefur nú aðeins einn bæjarfulltrúa. Muni Oddur Helgi Halldórsson ná kjöri úr þriðja sætinu er hann sigurvegari kosninganna. Hann lagði mikið undir og virðist hafa spilað rétt. Hann virðist með pálmann í höndunum. Framsókn nær ekki því flugi sem að var stefnt. Skipbrot fjórflokksins er algjört.

Þessum meirihluta verður augljóslega hafnað í kosningunum í næstu viku. Tölurnar eru svo afgerandi að því verður ekki neitað - staðreyndin varla umflúin. Það verður eflaust uppgjör við bæjarstjórakapalinn, skipulagsmálin og fleiri umdeild mál þar sem sótt hefur verið að ráðandi öflum.

Við megum búast við pólitískum jarðskjálfa hér í næstu viku fari kosningar á þessa leið, þar sem íhaldsemin víkur fyrir breytingum.

mbl.is Meirihlutinn fallinn á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband