Alþýðubandalagið rís upp frá dauðum

Eftir löng og subbuleg hjaðningavíg á vinstrivængnum hefur tekist, með herkjum, að stokka hina lánlausu vinstristjórn upp, ríkisstjórn sem hefur mistekist algjörlega á einu og hálfu ári að byggja upp og skapa trausta framtíðarsýn á Íslandi eftir hrun. Lánleysi og verkleysi hafa verið meginstef hennar, eins og annarra vinstristjórna í íslenskri stjórnmálasögu. Nú er reynt að berja í brestina.

Í raun hefur andlitslyftingin falið það einna helst í sér að koma til móts við órólegu deildina í VG til að tryggja starfhæfan þingmeirihluta og bjarga stjórninni frá hruni. Allt frá afsögn Ögmundar Jónassonar hefur vinstristjórnin aðeins haft burði til að berjast fyrir lífi sínu. Nú hefur Jóhanna Sigurðardóttir, sem hrakti Ögmund á dyr forðum daga, brotið odd af oflæti sínu - gefið eftir fyrir þeim hóp sem hefur líf stjórnarinnar í hendi sér.

Sigurvegararnir í þessu valdatafli eru Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason sem tóku slaginn við Jóhönnu og Samfylkinguna og hafa náð fullum sigri í pólitísku refskákinni. Þeir sitja nú tvíefldir saman í stjórninni að nýju. Eftir hrókeringu er hér komin á koppinn ein rammasta vinstristjórn í norrænni stjórnmálasögu. Nær allir ráðherrarnir eiga uppruna sinn í Alþýðubandalaginu og lengst til vinstri á pólitíska skalanum.

Órólega deildin í VG drottnar nú og hefur beygt Samfylkinguna undir sig, auk þess sem hægrikratarnir eru orðnir algjörlega valdalausir í þeim bræðingi sem hér situr við völd fyrst og fremst til að standa vörð um völd fárra. Með því að semja frið og kalla Ögmund og Jón sérstaklega til fundar fyrir hrókeringu er lykilstaða þeirra kórónuð. Þeir hafa völdin í sinni hendi og ráða örlögum vinstriblokkarinnar í þessum snúningi hið minnsta.

Með því að fórna utanþingsráðherrunum og tryggja Ögmundi Jónassyni hið nýja innanríkisráðuneyti og mótun þess með sameiningu dóms- og samgönguráðuneytis er hann í raun orðinn einn af leiðtogum vinstristjórnarinnar með formönnum Samfylkingar og VG. Hann fær nýjan vettvang til að vera í sviðsljósinu. Þetta gremst þeim sem hröktu hann á dyr áður.

Ráðherrar vinstristjórnarinnar höfðu varla klárað ríkisráðsfundinn á Bessastöðum og skiptast á lyklum þegar ólgan gaus upp með yfirlýsingum Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem sparaði ekki stóru orðin í óánægjunni með eftirgjöfina gegn órólegu deildinni. Kristján Möller, sem var sparkað til að skapa rými fyrir Ögmund, orðaði þetta reyndar pent með því að segja að heimilisköttum væri slátrað fyrir villiketti.

Gylfi Magnússon var kominn að fótum fram í pólitísku valdatafli og var ekki sætt lengur. Mikil áhersla var lögð á að hann kæmi ekki til þings aftur eftir að sannað var að hann hafði sagt þingi og þjóð ósatt. Gylfi var valinn sem ráðherra til að skapa stjórninni trúverðugleika en var að lokum dragbítur á hana. Án trúverðugleika var hann einskis virði og dró að lokum Rögnu Árnadóttur með sér í fallinu.

Og þó – er það svo einfalt mat? Nei varla. Rögnu er jú vísað á dyr til að skapa rými fyrir Ögmundi. Órólega deildin í VG hafði jú sett veiðileyfi á hana áður vegna ýmissa mála. Ragna hafði þó það sem stjórninni vantaði – vinsældir. Hún hafði staðið sig vel í embætti og geldur greinilega þess að hafa ekki pólitískt umboð og verður undir í rimmu við þá sem kunna hina pólitísku refskák öllum öðrum fremur.

Þegar Jón Bjarnason lék sóló í Evrópu- og landbúnaðarmálum var mörgum forystumönnum Samfylkingarinnar nóg boðið og sendi honum tóninn. Hann svaraði tvíefldur og gaf ekki þumlung eftir. Nú er hann með pálmann í höndunum, er ósnertanlegur og með sitt svigrúm. Órólega deildin heldur honum á besta stað, með útsýni yfir Evrópuferlið vandvirka og með öll spil á hendi. Ekki furða að mörgum svelgist á.

Kristján L. Möller er hinsvegar í raun tekinn pólitískt af lífi í þessari hrókeringu, kortéri áður en hann ætlaði sér að vígja Héðinsfjarðargöngin í heimabyggð sinni. Það átti að vera pólitísk sigurstund hans - þau endalok sem hann hefði sætt sig við. Fallið er honum hátt, hann var leiðtogi Samfylkingarinnar á landsbyggðinni en er algjörlega valdalaus á eftir og stórskaddaður. Þrátt fyrir óljós loforð um eitthvað hlutverk hefur hann ekkert í hendi.

Þessi hrókering er mikið áfall fyrir hægrikrata. Þeir eiga nú engan ráðherra í ráðherraliði Samfylkingarinnar. Eðalkratinn Kristján var í raun sá síðasti þeirrar gerðar. Sumir hægrikratanna fyrirgáfu jú aldrei Jóhönnu að fara úr Alþýðuflokknum sáluga eftir að hún tapaði fyrir Jóni Baldvini í formannskjöri 1994 í Reykjanesbæ og stofna Þjóðvaka. Þar kraumar undir niðri eldar.

Í Samfylkingunni hefur verið algjört leiðtogaleysi. Öflugir kandidatar hafa veikst einn af öðrum. Össur hefur fengið sénsinn og tapaði fyrir Sollu, Árni Páll lenti í erfiðum málum og hefur klúðrað nær alveg kjörstöðu sinni, Dagur fuðraði upp í borginni og er enginn krónprins lengur, Kata Júl hefur valdið vonbrigðum mörgum og Lúðvík Geirsson féll í orðsins fyllstu af stallinum í Hafnarfirði.

En erfðaprins Jóhönnu er kynntur til leiks í þessari hrókeringu. Guðbjartur Hannesson hefur skyndilega mjög sterka pólitíska stöðu til að sækja fram til forystu. Leiðin virðist nær greið ef honum tekst að höndla verkefnið mikla, stofna velferðarráðuneytið nýja og standa undir hálfum fjárlögunum með sóma og það í gríðarlegum niðurskurði. Hans bíða erfið verkefni áður en Jóhanna hin þreytta stígur af sviðinu. 

Við búum í landi vinstriaflanna. Því verður ekki neitað. Skyndilega vöknum við Íslendingar upp við þá staðreynd að í ríkisstjórninni, hinni tæru vinstristjórn, sitja nú átta af tíu ráðherrum með pólitískan bakgrunn úr Alþýðubandalaginu sáluga og sá níundi, byltingarforinginn Ögmundur, sem hefur örlög stjórnarinnar í hendi sér, var óháður í þingliði Alþýðubandalagsins í upphafi síns pólitíska ferils. Jóhanna er svo ein eftir með annan bakgrunn.

Hver hefði trúað því að andlitslyfting í ráðherrahrókeringu fæli í sér nær algjör yfirráð harðasta kjarna Alþýðubandalagsins sáluga? En sú er staðreyndin. Sem fær okkur til að hugsa um hvort þetta sé andlitslyfting eða sjónarspil til að halda lífinu í feigri ríkisstjórn... bara nokkrar vikur, nokkra mánuði, jafnvel ár.

Hefur einhver trú á því að andlitslyftingin breyti þeirri staðreynd að vinstristjórnin stendur máttlaus í erfiðu verkefni? Það verða engin kaflaskil. Hin tæra allaballastjórn er aðeins haldið í sambandi valdanna vegna. Völdin kitla jafnvel hin minnstu pólitísku egó meira en orð fá lýst. Og jafnvel kjarnakonan Jóhanna og Evrópusinnarnir beygja sig undir órólegu deildina fyrir völdin.

Skondið. En svona er víst Ísland í dag, Ísland Alþýðubandalagsins, hvorki meira né minna. Þetta verður svo sannarlega líflegur pólitískur vetur – rússneskur vetur hinna ísköldu vinstriafla verkleysis og úrræðaleysis.


Pistill fyrst birtur á efrettir.is fimmtudaginn 2. september 2010

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband