VG toppar í Norðaustri - áfall fyrir Kristjánana

Kristján Þór JúlíussonÍ nýrri skoðanakönnun Gallups mælist VG stærst flokka í Norðausturkjördæmi og með fjóra kjördæmakjörna þingmenn á meðan að Samfylkingin veslast upp og er með einn þingmann. Steingrímur J. Sigfússon mælist því fyrsti þingmaður kjördæmisins. Mæling af þessu tagi er mjög vond fyrir alla aðra flokka í kjördæminu, en þó sérstaklega fyrir Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn. Kristján er nafnið á báðum kjördæmaleiðtogum þeirra hér. Hvorugur þeirra hoppar varla hæð sína af gleði yfir þessari könnun. Enda verða svona skakkaföll afdrifarík ef af þeim verður.

Svo virðist vera sem að VG sé að taka mikið fylgi af Samfylkingunni, enda er síðarnefndi flokkurinn varla svipur hjá sjón. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður Samfylkingarinnar frá 1999, mælist ekki inni í könnuninni og Lára Stefánsdóttir er fjarri því að sjálfsögðu að eiga möguleika á þingsæti skv. því. Í síðustu kosningum fengu bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tvö þingsæti, en Lára var hársbreidd frá því að ná inn. Hún var inni á þingi meginhluta kosninganæturinnar en féll út við lokatölur er Framsókn náði inn fjórða manni sínum; Birki Jóni Jónssyni. Aðeins munaði þá 41 atkvæði á Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, þeim síðarnefnda í hag; 5.544 á móti 5.503.

Kristján Þór Júlíusson leiðir nú Sjálfstæðisflokkinn í fyrsta skipti í þingkosningum eftir tveggja áratuga stjórnmálaferil í sveitarstjórnarpólitík. Hann hætti sem bæjarstjóri á Akureyri í janúar eftir níu ára starf til að helga sig nýjum verkefnum, nú í landsmálum. Það verður án vafa mikið pólitískt áfall fyrir Kristján Þór nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki fyrsta þingmanni kjördæmisins, forystu á kjördæmavísu, í þessum þingkosningum. Það er klárlega markmið hans og Sjálfstæðisflokksins að hljóta flest atkvæði hér og tryggja bæði Ólöfu Nordal og Þorvald Ingvarsson inn á þing. Ef marka má kannanir undanfarna mánuði hefur Ólöf verið nokkuð örugg í sessi, en staða flokksins hefur þó veikst verulega á milli kannana að undanförnu.

Nýjasta könnun Gallups er ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann þarf að minnsta kosti 30% fylgi til að eygja möguleika á fjórða manninum og fær hann alls ekki við þessar aðstæður sem uppi eru í þessari mælingu. Hann þarf að vinna vel eigi hann að geta náð því. Kannanir hafa þó sýnt að það getur gerst. Það verður hörð barátta þar og má búast við að sjálfstæðismenn verði áberandi í kosningabaráttunni. Þessi mæling sýnir mikið fylgistap fyrir Samfylkinguna sem horfa á fylgið streyma yfir til VG. Það er varla mikil gleði þar.

Ég hef heyrt marga tala um þessa könnun. Sitt sýnist hverjum. Hún boðar stórtíðindi, enda verða það stórpólitísk tíðindi verði Steingrímur J. Sigfússon fyrsti þingmaður kjördæmisins. Allir flokkar nema VG verða fyrir skakkaföllum í þessari mælingu. Til dæmis eru frjálslyndir órafjarri því að ná inn manni og Framsókn tapar tveim þingsætum, en þeir fengu fjögur þingsæti hér síðast og yfir 30% fylgi. En baráttan er bara rétt að hefjast og allur helsti hasarinn eftir. Þeir nafnar Kristján Þór og Möller ætla sér eflaust að trompa Steingrím J. þegar á hólminn kemur.

Þetta verður spennandi kosningabarátta hér í Norðausturkjördæmi. Þessi könnun sýnir okkur þó hversu veik Samfylkingin er orðin fyrst og fremst. Það er lítil gleði þar og virðast þeir verða yfir stóran hjalla að klífa til að geta snúið við vondri stöðu og gert betur en vorið 2003 allavega. Hvað varðar sjálfstæðismenn er greinilegt að tæp 30% eru ekki nóg fyrir Kristján Þór og hans hóp. Þessi könnun sýnir það vel. En það verður auðvitað spurt að leikslokum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Já, merkilegt, hvernig stendur á þessu?  Er Kristján Þór ekki vinsæll þarna fyrir norðan eða hvað? Þetta verður spennandi svo mikið er víst.

Kolbrún Baldursdóttir, 24.3.2007 kl. 15:52

2 identicon

 

Vilja Norðeystlendingar virkilega STÓRT STOPP í atvinnuþróun?   Fólk er sem sagt upp til hópa sátt við ástand atvinnumála - er það ekki það sem má lesa út úr þessara könnun?  Spyr sá er ekki veit.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 15:56

3 identicon

Hvað hefur "skeð fyrir" Framsókn? Er hún föst í neti hafmeyja, eða þá déskotans Internetinu? Eða jafnvel fortíðinni og fortíðarþrá, nostalgíu? Það væri kannski ekki skrítið, miðað við fylgið, en við þurfum ekki fleiri álver hér, meira en nóga vinnu að hafa, konur allar feitar og þriflegar, þingeyskir laxakarlar una glaðir við sitt, sprengja upp stíflur í ám. Veiði góð í ám og vötnum, á láði sem og í legi. Hverjir ættu sosum að vinna í þessu ímyndaða álveri á Húsavík? Kannski álfar og tröll? Er mikið atvinnuleysi á meðal þeirra? Þeir sem hafa flutt í burtu frá Húsavík una nú glaðir við kjötkatlana í öðrum byggðum. Þeir fara ekki að taka sig upp með allt sitt hafurtask til að vinna í álveri á Húsavík, ásamt spúsum sínum öllum, segja upp góðri og vellaunaðri vinnu og selja sitt dýra húsnæði. Rífa krakkana upp með rótum og slíta þá frá sínum leikfélögum öllum.

Menn og konur af pólskum ættum hafa flust hingað til lands og halda frystihúsum á landsbyggðinni gangandi. Ætla þá íslenskir landnámsmenn að hefja aftur störf í frystihúsunum með tilkomu einhverra ímyndaðra álvera? Og hvað með kvótakerfið? Á ekkert að breyta því? Gæti ekki allur aflakvótinn verið fluttur í burtu frá Húsavík hvenær sem er? Hefur það ekki gerst annars staðar? Nei, ætli það. Álver í staðinn fyrir kvótann skal það vera og engin framtíð í að bæta samgöngur, stofna fyrirtæki eins og Sæplast, sem hentar smáum byggðarlögum mun betur en álver. Á Dalvík una menn glaðir við sitt, bros á hverju andliti, börnum jafnt sem karlægum öldungum öllum. Íslendingar margir í frystihúsinu, enda laun þar góð og aðbúnaður allur til fyrirmyndar. Og húsið verður enn fullkomnara á næstunni, útflutningsverðmætin meiri og brosin enn stærri. Já, Þingeyingar gætu margt lært af Eyfirðingum. Þar eru konur feitari og fjörugri á allan hátt.

Nokkrir Þingeyingar halda hins vegar enn í Framsóknarmennskuna, enda var hún fundin upp þar, nostalgíu sem byggist á rauðum kaupfélagsstígvélum upp á sama fót, ættuðum frá Sovétinu sáluga, og ungmennafélögum, þar sem Clausen-bræður gerðu garðinn frægan fyrir hálfri öld. Hins vegar kaus Örn Clausen ekki einu sinni Framsókn og var í stjórn Heimdallar, ásamt frænda mínum Valgarð Briem, þannig að Snorrabúð var ætíð byggð á sandi og nú er hún stekkur.

Gaukur Trandilsson á Stöng var bæði auðugur og vel ættaður maður en hann var afkomandi Þorbjarnar laxakarls í þriðja lið og að sögn kappi hinn mesti. Gaukur hefur að líkindum verið kvennaljómi, eins og Steingrímur Verdi (hinn græni), en gömul vísa er varðveitt um ástir Gauks og húsfreyjunnar á Steinastöðum í Þjórsárdal, svohljóðandi:

Þá var öldin önnur,
er Gaukur bjó á Stöng.
Þá var ei til Steinastaða
leiðin löng.

Þetta ástarævintýri hefur þó sennilega orðið honum að fjörtjóni en samkvæmt Njálssögu féll Gaukur fyrir hendi Ásgríms Elliða-Grímssonar fóstbróður síns, að líkindum fyrir að hafa fíflað húsfreyjuna á Steinastöðum, sem var einmitt skyld Ásgrími.

Steini Briem (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 16:06

4 identicon

Brostu, það sakar ekki,
brostu það skaðar ekki.
brostu, það kostar ekki neitt,
brostu Framsókn í Draumalandi!

Brostu út í annað,
í gegnum tárin,
brostu út í eitt,
það skaðar ekki!

Skelfing ertu alltaf neikvæð,
situr alein úti í horni,
sannfærð um að
þú getir ekki neitt!

Steini Briem (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 16:11

5 identicon

Kristilegu kærleiksblómin spretta,
í kringum á Mogga hitt og þetta,
þegar lítið sem ekkert er að frétta,
Agnesar fögur er þá gríðargretta,
engum blöðum þar er um að fletta.

Copyright 2007, Eiríkur Kjögx

Steini Briem (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 16:15

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Kolbrún: Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar að bæta miklu við sig í þessum könnunum, enda fékk hann ekki nema um 23% hér síðast og vonda kosningu og aðeins tvo menn kjörna. En það er greinilegt að hann verður að fá yfir 30% til að ná inn fjórum mönnum. Framsókn náði fjórum kjördæmakjörnum hér síðast á 32% t.d. Samfylkingin er að mælast mjög down þarna og hlýtur að vilja ná tökum á þessum flótta til VG. En þetta verða spennandi kosningar hér. Spái því á þessum tímapunkti að VG fái allavega þrjá menn, sem er auðvitað allt of mikið. En það er enn nokkuð eftir.

Sigurður J: Gott komment, það er greinilegt að Samfylkingin er að missa marga frá sér. Staða þeirra er orðin grafalvarleg. Lára er órafjarri öllum þingmannsdraumum í þessari stöðu. Annars er Samfylkingin að því er virðist í tómu tjóni. Fimm sitjandi þingmenn flokksins eru fallnir í þessari könnun og þeir eru aðeins með þrjár konur inni; ISG, Jóhönnu og Kötu Júl. Ótrúlega döpur staða fyrir þennan flokk.

Steini: Finnst frekar leiðinlegt að sjá þessa runu af feitletruðum kommentum og jafnvel stækkuðum. Svona nokkuð verður flokkað sem hreint spam frekar en vitur komment ef þetta heldur áfram. Vil að menn skrifi í því letri sem vefurinn gefi upp. Hef litið nokkurn tíma framhjá þessu en verð að beina því til þín að hætta að feitletra. Það er oft gaman að fá komment frá þér, en þetta er einum of mikið finnst mér og feitletrun er varla þörf.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.3.2007 kl. 16:28

7 identicon

Íslenskir krakkar verða bara að muna að bursta tennurnar, sagði Sif Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra nýlega í sjónvarpsfréttum um lélega tannheilsu barna hérlendis, og það er nú engin vinstri lygi. Þá mælti ungfrú Steingerður Sturludóttir, níu ára meðlimur í flokki Vinstri grænna hér í bæ: "Heyra má ég ráðherrans boðskap en ráðin er ég í að halda hann að engu."

Steini Briem (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 16:43

8 identicon

Hafa ber í huga að í þessari gallupkönnun eru ekki nema rúmlega 150 spurðir í Norðausturkjördæmi, þar af taka einhverjir ekki afstöðu og neita að svara. Þannig að hugsanlega eru rúmlega 100 sem svara spurningunni og því mjög varhugavert að draga einhverjar sérstakar ályktanir á fylgi flokka eftir kjördæmum.

Þessi könnun og úrtak er hins vegar fullkomlega marktækt á landsvísu og þar eru VG að mælast allt og háir, menn eru farnir að tala um að komist VG í stjórn verði hætt að senda út sjónvarp á fimmtudögum og hætt að senda út í lit.

Ámundi (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 16:50

9 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ámundi: Það er ekki hægt að líta framhjá þessari mælingu. VG er að stækka mjög á kostnað Samfylkingarinnar, það gerist hér og það gerist um allt land núna. Þessi þróun er orðin mjög áberandi. Samfylkingin fer bráðlega að falla í örvæntingu yfir svona mælingum. Það er alveg ljóst. Þegar að þingmenn sem lengi hafa setið og hafa talist í öruggum sætum eru farnir að mælast utan þings er ljóst að staðan er orðin vond. Það er mjög fátt í dag sem bendir til þess að Samfylkingin hái sóknarbaráttu að þessu sinni, þetta verður mjög mikil vörn, enda eru líkurnar á að Samfylkingin haldi kjörfylginu mjög hverfandi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.3.2007 kl. 16:57

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég trúi ekki að Vg fái þessa útkomu. Það yrði stórslys.

Bendi á mjög athyglisvert hádegisviðtal við Smára Geirson í Fjarðabyggð á st.2 í dag.

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.3.2007 kl. 18:00

11 Smámynd: Pétur Björgvin

Er þetta ekki ,,flótti" fólks frá miðju sem veldur því að atkvæðin fljóta nú frá Samf til VG? En ættu atkvæðin sem fljóta frá Sjálfs ekki að fljóta til hægri? Og þá hvert?

Pétur Björgvin, 24.3.2007 kl. 18:03

12 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Hvaða fyrirbæri er þessi Steini Briem? Auðnuleysingi í bloggheimum?

Herbert Guðmundsson, 24.3.2007 kl. 18:37

13 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Hvaða fyrirbæri er þessi Steini Briem? Auðnuleysingi í bloggheimum?

Herbert Guðmundsson, 24.3.2007 kl. 18:38

14 identicon

Já sammála Gunnari Theodóri hér að ofan - ef þetta verður raunin erum við að horfa upp á stórslys fyrir íslenskt þjóðfélag, ef við fáum þessa afturhaldssömu komma í Vg í stjórn landsins.   ´

Vil benda á ágæta pistla um þetta frá honum Guðmundi hér.

Bjarni Magnús (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 19:01

15 Smámynd: Kolgrima

Eru þetta ekki bein skilaboð frá kjósendum um að þeir vilji hvorki fleiri virkjanir né stóriðju? Fylgi VG þaut upp þegar Steingrímur lýsti sig andsnúinn álverum og virkjunum.

Takk fyrir síðast, Kjögx, hélt að úr þér væri allur kraftur!

Kolgrima, 25.3.2007 kl. 01:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband