Duga 30 dagar fyrir Jón Sigurðsson?

Jón Sigurðsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum og Jóni Sigurðssyni, formanni hans, í skoðanakönnunum. Flokkurinn hefur átt erfitt meginhluta þessa kjörtímabils og tíu mánuðir eru liðnir frá afsögn Halldórs Ásgrímssonar, formanns flokksins í tólf ár, af forsætisráðherrastóli. Þá var staða flokksins vond og hún hefur lítið skánað. Pólitísk endalok Halldórs og formannsskiptin með krýningu Jóns Sigurðssonar hafa ekki markað flokknum nýjan grunn.

Þegar að 33 dagar eru til alþingiskosninga velta margir fyrir sér stöðu Framsóknarflokksins. Þessi forni flokkur valda og áhrifa er í dimmum dal þessar vikurnar og stefnir í sögulegt afhroð. Það virðist að duga eða drepast fyrir Jón Sigurðsson í þeirri stöðu sem uppi er. Hann er ekki ofarlega í mælingum á stjórnmálamönnum, mælist fimmtur í röðinni á eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og hefur ekki enn mælst inni í Reykjavík norður, eftir að ákveðið var að hann myndi leiða framboðslista Framsóknarflokksins þar. Staðan er svo sannarlega ekki glæsileg þar er haldið er inn í lokasprett kosningabaráttunnar.

Mörgum fannst valið á Jóni sem formanni mjög djarft. Hann hafði við formannskjör sitt aðeins verið virkur þátttakandi í stjórnmálum í tvo mánuði og var utanþingsráðherra, einn fárra í íslenskri stjórnmálasögu. Það var vitað strax í fyrrasumar að erfitt verkefni væri framundan fyrir Jón. Rúmu hálfu ári síðar virkar það enn stærra en áður. Flokkurinn mælist í skelfilegri stöðu, hefur misst þingmenn skv. mælingum i flestum kjördæmum og mikið fylgistap blasir við. Framsóknarflokkurinn hefur í 90 ára sögu sinni aldrei staðið verr að vígi og fyrri krísur flokksins virðast blikna í samanburði við það sem nú blasir við.

Fyrir viku var Stöð 2 með ítarlegt viðtal við Jón, svokallað leiðtogaviðtal. Þar kom að mörgu leyti fram kostir og gallar Jóns sem stjórnmálamanns. Hann virkar fjölfróður og vandaður maður en honum virðist ekki gefið að geisla mikið út fyrir flokkinn sinn. Það er mín tilfinning að hann passi vel í stórum sal flytjandi fyrirlestra en ekki mjög sterkur í samskiptum maður á mann. Margir nefna svona stjórnmálamenn Nixon-esque. Það er að geta fúnkerað vel á fjöldafundum en ekki sterka í mannlegum samskiptum. Að mörgu leyti virðist honum hafa tekist að byggja sinn kjarna vel en ekki tekist að efla hann og stækka.

Það mætti kalla baráttu næstu vikna sannkallaðan lífróður fyrir Framsóknarflokkinn. Það mun allt standa og falla fyrir Framsókn á því hvernig Jóni gengur í raun. Hann sem leiðtogi í kosningabaráttu verður andlit flokksins. Það boðar vond tíðindi fyrir Framsóknarflokkinn að hann sé ekki eftirminnilegur kjósendum er spurt er út í vinsældir þeirra. Af mörgum alvarlegum tíðindum fyrir Framsóknarflokkinn eru þetta jafnvel þau alvarlegustu. Flokkar verða aldrei stórir eða valdamiklir njóti leiðtogi þeirra ekki stuðnings. Í þessum efnum virðist Jón eiga enn langt í land.

Jón og Siv Það er ljóst að Jón Sigurðsson hefur mjög takmarkaðan tíma úr þessu til að snúa vörn í sókn; fyrir bæði sig og Framsóknarflokkinn. Næstu 30 dagar munu ráða úrslitum fyrir flokk eða formann. Allar kannanir núna sýna eyðimerkurgöngu fyrir flokkinn. Hann fer ekki í ríkisstjórn með 10% fylgi eða þaðan af minna. Í raun er þetta mikil barátta sem blasir við og ljóst að Jón leikur lykilhlutverk í því hver mæling flokksins verður.

Hann var álitinn bjargvættur Framsóknarflokksins til að taka við er Halldór hætti. Hann hlaut mikinn stuðning til verka er Halldór hætti og nýtur hans því miður ekki neitt út fyrir flokkinn. Jón fékk tækifærið. Nú ræðst fljótt hvernig fer fyrir honum og flokknum - hvort hann verði sá sterki leiðtogi sem honum var ætlað að vera. Landsmenn fella þann dóm yfir honum og flokknum þann 12. maí.

Nú er komið að örlagastundu fyrir Jón - baráttan framundan verður örlagarík fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins og ekki síður Jón sjálfan. Það er enda vandséð að hann verði áfram formaður flokksins fái flokkurinn skell af þeim skala sem hann mælist með og hann jafnvel nái ekki inn á þing í höfuðborginni. Verður hann sterkur leiðtogi út árið eða lengur eða biðleikur? Stór spurning. 

Þetta verður lífróður fyrir gamalgróinn flokk og flokksformann með blæ nýliða í stjórnmálum - með þessum lífróðri fylgjast allir stjórnmálaáhugamenn. En stóra spurningin fyrir Framsóknarflokkinn nú virðist vera: duga 30 dagar fyrir Jón Sigurðsson? Svarið fæst ekki að fullu fram fyrr en síðla kvölds 12. maí en mun afhjúpast að vissu marki þó stig af stigi dag hvern þangað til.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Allt þetta tal um hversu vandaður og fjölfróður Jón Sigurðsson er fer í taugarnar á mér.  Amma er fjölfróð og vönduð en ekki dytti mér í hug að kjósa hana á þing.  Það skal taka fram að ég er ekki harður(Viagra style) stuðningsmaður Framsóknar.

Björn Heiðdal, 9.4.2007 kl. 20:18

2 identicon

ÞETTA ER NÚ LJÓTI EYMINGINN, þessi Jón Sigurðsson," sagði langafi minn, Ólafur Briem á Álfgeirsvöllum í Skagafirði, við mig í draumi í fyrrinótt, en hann var stofnandi og fyrsti formaður Framsóknarflokksins.

Steini Briem (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 21:25

3 identicon

Það sannast á honum og hans flokki gamla máltækið að hæfi kjafti skel. Maðurinn virkar sem hálfgerð geimvera, nýlent og veit því ekkert í sinn haus. Orðfæri allt og framkoma eru fráhrindandi og jafnvel hans eigin flokksmenn botna oft ekkert í því sem hann er að segja. Það yrði skelfilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að styðjast áfram við þá hryggðarmynd sem Framsóknarflokkurinn er í dag og yrði ekki til að sætta þá fjölmörgu sem eru ósáttir við hlut Framsóknarmanna í meirihlutasamstarfinu í Reykjavík. Langbesti kosturinn yrði stjórn Sjálfstæðisflokks og VG, en það var einmitt Nýsköpunarstjórnin(Sjálfstæðis og Alþýðubandalags)sem á sínum tíma lagði grunninn að þeirri uppbyggingu atvinnu og nýsköpunar í sjávarútvegi sem lagði grunn að því þjóðfélagi sem við byggjum í dag. Nú er kominn tíma til að þessi sömu öfl taki höndum saman á ný. 

leibbi (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 21:35

4 identicon

Sæll Stebbi.

Ekki skánaði staðan í kvöld eftir frammistöðu Jóns í kosningaþætti RÚV. Þetta var alveg hroðalegt hjá honum. Þessi start/stopp klisja um álver og virkjanir sem búin er að vera í gangi í nokkurn tíma er eitthvað svo undarleg, burtséð frá skoðunum fólks þmt. mínar eigin á þessum málaflokki.  Davíð Oddson er búinn að gefa tóninn eins og svo oft áður, stórframkvæmdir í stopp ef ná á tökum á verðbólgu og háum vöxtum. Slíkan málflutning skilur fólkið í landinu, vextir/verðbætur af húsnæðislánum eru byrjaðir að brenna holur í buddu margra. Ef harðna fer á dalnum með atvinnuleysi þá virðist nú ekki vandi að kippa slíku í liðinn, álver á Húsavík og jarðvarmavirkjanir fyrir norðan verða akkúrat klár til framkvæmda á þeim tímapunkti.

Held að gamli sveitaflokkurinn þurfi eitthvað annað start/stopp stopp/start eða hvað þetta var nú allt saman ef þeir ætla ekki að verða úti í næsta vorhreti.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 21:38

5 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Mér fannst Jón Sigurðsson standa sig vel í kvöld.  B. kv.

Baldur Kristjánsson, 9.4.2007 kl. 21:42

6 identicon

Já, gott kvöld.

Ég er sammála Baldri. Mér fannst líka Jón Sig. standa sig vel í kvöld í sjónv. Það er svo ljóst að hann hefur mikla þekkingu á efnahagsmálunum. Ekkert "glamúr", engin orðskrípi, bara kaldar staðreyndir og framsetning sem virkar vel og traustvekjandi. Og svo er hann velviljaður og jákvæður. Af hverju má ekki segja það beinum orðum að "stopp/start" srefna VG leiðir til samdráttar í lífskjörum. Ég held að margir Hafnfirðingar, sem greiddu atkvæði gegn stækkun álversins séu nú skelfingu lostnir. Fari Alcan úr Hafnarfirði blasa við mjög rýrnandi lífskjör þar og samdráttur í atvinnu. Mörg okkar trúðu ekki að svo yrði en stöndum hugsanlega/líklega frammi fyrir því sem staðreynd, engu að síður.

Það kom mér á óvart hversu vel Guðjón Arnar stóð sig í kvöld, verða að verja þennan neikvæða málstað með afstöðuna til útlendinga. Hann virkar samt vel varðandi kjör aldraðra og öryrkja. Svo er hann líka gamall, vellukkaður skipstjóri og kann að "deila og drottna" og sætta ólík sjónarmið samstarfsmanna "á þilfari" og gerir það eflaust líka vel í flokknum, ef á þarf að halda. Ég tel að Jón Magnússon komist alla vega ekki upp með neitt múður og neina vitleysu hjá Guðjóni, ef á reynir.

Ég spái því að D fái 36/37% í kosningunum og B 14/16% og það verði óbreytt ríkisstjórn. Ef það næst ekki, þá verður það vegna þess að Guðjón Arnar og félagar komast á þing og bætast við ríkisstjórnina. Guðjón Arnar getur vel orðið góður félagsmálaráðherra og hann mun hafa góða stjórn á sínu fólki í öllu samstarfi, hann er bara þannig persóna.

ISG gerði í buxurnar eins og venjulega. Hvenær ætlar hún að læra að hún verður að hætta að "hlæja" niður til fólks. Þetta er alltaf skelfilegra og skelfilegra að horfa upp á framkomu hennar æ ofan í æ, hún virkar svo hrikalega hrokafull. Aumingja Samfylkingarlistinn að bjóða uppá "þetta niðurlægjandi bros og hlátur", aftur og aftur.

Steingrímur J. var ekki með hýrri há í kvöld. Hann vill engin ný atvinnutækifæri á Húsavík eða á Norðausturlandi. Aumingja fólkið sem kýs hann. Þau geta væntanlega ekki kvartað vegna lífsafkomunnar,..eða hvað?

Ómar er skemmtikraftur, og frábær sem slíkur. Landfræðingur og landkynnir "par excellence" og á að halda sig við það. Hann kann ekkert í efnahagsmálum, virkar sem viðrini á þeim vígstöðvum og sem skemmdarverkamaður. Guð forði okkur frá því að hann komist í valdaaðstöðu. 

Bestu kveðjur og í Guðs friði í páskalokin.

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband