Verður lokaspretturinn drjúgur fyrir Framsókn?

Jón SigurðssonFramsóknarflokkurinn kynnti í dag stefnumál sín. Þar er talað hreint út um lykilmál kosningabaráttunnar og í boði mörg fögur fyrirheit, eflaust verður nóg reyndar af þeim hjá öllum flokkum. Greinilegt er að Framsókn fer fram undir merkjum slagorðsins: Árangur áfram - ekkert stopp, sem hefur verið áberandi undanfarnar vikur. Athyglisvert er að renna yfir loforðalistann. Sumt kemur á óvart, sumt alls ekki. Það er eins og gengur eflaust.

Það eru 32 dagar til alþingiskosninga. Í nýjustu skoðanakönnun Gallups mælist Framsóknarflokkurinn með 8% fylgi, tíu prósentustigum undir kjörfylginu sem er örlitlu minna fylgistap en Samfylkingin mælist með þar. Það fylgi myndi færa Framsókn 5-6 þingmönnum í besta falli. Það yrði sögulegt afhroð fyrir þennan forna flokk valda og áhrifa alla sögu sína, allt frá stofnunarárinu 1916. Í slíkri stöðu mælast tveir ráðherrar utan þings og fólk í baráttusætum sæti eftir með sárt ennið. Ofan á allt markar sú staða þann veruleika að formaður Framsóknarflokksins er utanþings. Hvað gerist verði sá veruleiki ofan á; formaðurinn landlaus og flokkurinn í sögulegu fylgisfalli? Endurhæfing tæki eflaust við.

Það er eldgömul saga að Framsóknarflokkurinn mælist mun lægri í skoðanakönnunum en það sem svo kemur að leikslokum upp úr kjörkössunum á kjördegi. Í þingkosningunum 2003 háði Framsóknarflokkurinn mikla varnarbaráttu um allt land. Það voru síðustu þingkosningar Halldórs Ásgrímssonar á löngum stjórnmálaferli. Lengst af kosningabaráttunni mældist hann ekki inni í Reykjavík norður, þar sem hann fór þá fram eftir áratuga framboðssögu í Austurlandskjördæmi hinu forna. Halldór náði kjöri við annan mann, Árna Magnússon, sem varð félagsmálaráðherra eftir kosningarnar og stefndi framan af í að verða krónprins Framsóknarflokksins.

Þær kosningar voru reyndar ótrúlega sigursælar fyrir Framsóknarflokkinn. Hann vann mjög merkan sigur þá á skoðanakönnunum. Hér í Norðausturkjördæmi höfðu flestir stjórnmálaskýrendur átt von á spennandi slag Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Með ævintýralegum lokaspretti á síðustu tíu dögum baráttunnar tók Framsókn kjördæmið með trompi og vann er á hólminn kom glæsilegan kosningasigur með rúmlega 30% og hlaut fjóra kjördæmakjörna. Öllum að óvörum komst Birkir Jón Jónsson inn á þing undir lok talningar og felldi út bloggvinkonu mína, Láru Stefánsdóttur, sem komst með annan fótinn inn á þing eina örskotsstund en missti svo af þingsætinu.

Það er því alveg ljóst að fólk hér og eflaust víðar um land vanmetur Framsóknarflokkinn ekki svo glatt. Hitt er svo aftur annað mál að Framsókn liggur örlitlu neðar nú en var í könnunum Gallups mánuði fyrir kosningar, en er að mörgu leyti ekkert mikið betur á sig kominn þó. Þá var lokasprettur Framsóknar mjög drjúgur. Stór ástæða hins ævintýralega sigurs Framsóknarflokksins hér í Norðaustri fyrir fjórum árum var góður framboðslisti sem hafði tengingar um allt kjördæmið og ennfremur sterk aldursdreifing. Það er enginn vafi á því í mínum huga að sterk staða ungliða þá hafði mikið að segja. Þar var ungu fólki treyst fyrir áhrifum og fólk kaus það inn þá.

Einn stóri þáttur þess hversu vel gekk vorið 2003 fyrir Framsóknarflokkinn var pólitísk reynsla Halldórs Ásgrímssonar. Hann hafði þriggja áratuga stjórnmálaferil að baki, var sjóaður í bransanum og sigldi fleyinu til hafnar. Þrátt fyrir að Íraksstríðið hafi byrjað á lykilpunkti kosningabaráttunnar hafði það engin áhrif þá. Halldór stóð sig vel sérstaklega síðustu fimm sólarhringana og var mikilvægur hlekkur í varnarsigrinum. Halldór var markaðssettur sem fyrr sem kletturinn í hafinu, leiðtoginn á miðjunni. Sú markaðssetning gekk. Halldór var í oddastöðu að kosningum loknum. Samfylkingin bauð honum forsæti ríkisstjórnar og hann spilaði stöðuna vel eftir það.

Halldór náði samkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum um að verða forsætisráðherra 16 mánuðum eftir kosningar og hann varð eftirmaður Davíðs Oddssonar í september 2004. Halldór sá aldrei til sólar í forsætisráðuneytinu, því sem átti að verða hápunktur stjórnmálaferils hans, lokapunktur glæsilegs ferils. Íraksmálið spilaði lykilþátt í því hversu örlögin urðu grá. Halldór ákvað að stíga upp eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006, sem urðu vondar fyrir flokkinn þrátt fyrir að vinna sigur á könnunum í Reykjavík. Endalok stjórnmálaferils Halldórs með melódramatískum blaðamannafundi á Þingvöllum vöktu mikla athygli. Það voru nöpur endalok á löngum ferli.

Nýr formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, er í aðalhlutverki í kosningabaráttu flokksins nú. Það mun í raun allt standa og falla með því hvort að hann verður trúverðugur leiðtogi. Hann hefur enga þungavigtarsögu í pólitík að baki. Hann er því mjög ólíkur forvera sínum, sem var sviðsvanur leikari í bransanum. En hann er maður úr kjarnanum og hefur eflt hann, en virðist eiga mikið verk óunnið enn utan kjarnans. Þar ráðast örlög flokksins í vor. Jón hefur þó sjóast mjög í fjölmiðlum. Allra augu verða á honum. Verður hann einhver klettur í hafinu, eða er hann eins og Kolbeinsey, kletturinn sem molnar niður í sæinn?

Stóra spurningin er þó; mun Framsókn enn og aftur vinna sigur á skoðanakönnunum? Þetta verður örlagaríkur mánuður fyrir þennan elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins á hvorn veginn sem örlögin ráðast.


mbl.is Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Framsókn mun eflaust reyna að ljúga fólk, og þá helst ungt fólk til fylgis við sig eins og venjulega með gylliboðum sem þeir munu síðan ekki geta staðið við. 100% húsnæðislán + nýr bíll ætti að falla í kramið. Því miður mun flokkurinn skrimta áfram, en best væri fyrir Ísland að hann heyrði sögunni til eftir næstu kosningar, enda ekkert annað en spillt afl sem hefur þann eina tilgang að verja eigin hagsmuni og standa vörð um arfinn frá SÍS og öðrum fyrrum fyrirtækjum Smokkfisksins.

leibbi (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 15:45

2 identicon

Já, því og miður er alltaf til nógu heimskt fólk til að kjósa Framsóknarflokkinn og lætur hann ljúga að sér ár eftir ár. Guðni Ágústsson fer til Kanarí og lýgur ellilífeyrisþegana sem þar dvelja fulla, en þeir sjá þó í gegn um hann og líta svona meira á hann sem afdankaðan skemmtikraft.

Stefán

Stefán (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 16:40

3 identicon

JARÐARFÖR FRAMSÓKNAR fer fram á laugardaginn. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir. Gunna, Barði, börnin.

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 17:07

4 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Eins og vanalega er ballið ekki búið fyrr en feita konan syngur og búið að telja uppúr kössunum. Mér finnst samt illa vegið að kjósendum flokksins að þeir séu sakaðir um heimsku. Skiptist fylgi stjórnmálaflokka eftir gáfnafari? Held að margir ættu að líta í eigin barm áður en farið er í að útdeila svívirðingum á saklaust fólk sem nýtir sér sinn kosningarétt á þann hátt sem það telur sér og þjóðinni til hagsbóta.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 10.4.2007 kl. 17:37

5 Smámynd: Hallur Magnússon

Alveg er það merkilegt hvað Framsóknarflokkurinn, þessi annars ágæti flokkur, vekur sterk neikvæð viðbrögð hjá ákveðnum hóp manna. Heiftin mikil - en minna um málefnaleg rök!

Hallur Magnússon, 10.4.2007 kl. 17:47

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ljótt er að heyra eða öllu heldur að lesa, hvað fólk getur um skrifað illa um elsta og virðulegast flokk þjóðarinnar, Framsóknarflokkinn. Það er full snemmt og bullandi óskhyggja hjá andstæðingum okkar að sleppa fram af sér beislinu með þessum hætti. Við, Framsóknarmenn, erum eins og kettirnir, við eigum okkur mörg líf og við komum ávallt rétt niður, þótt ýmis fól sparki í okkur eins og ómir asnar. Það má vera, að Framsóknarflokkurinn hafi blundað of vært í öllu góðærinu, sem við höfum skapað ásamt Sjálfstæðisflokknum. Við erum vaknaðir af þeim blundi, við munum taka til hendinni og sýna vinstra liðinu, sem er sí og æ nöldrandi og sífrandi um, hve allt er ómögulegt á Íslandi í dag, að hér eru lífskjör með þeim bestu í heiminum. Þau eru svo góð að aðaláhyggjuefni sumra er vaxandi fjöldi útlendinga, sem hingað þyrpast til að fá mikla og góða atvinnu.Ég er viss um, að þjóðin mun huga sitt ráð, áður en hún gengur að kjörborðinu í maí og hún veit að sígandi lukka er best. Framsóknarflokkurinn mun ná góðri lendingu í komandi kosningum,

Með góðri kveðju frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 10.4.2007 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband