Varnarsigur Valgerðar í Norðausturkjördæmi

Valgerður Sverrisdóttir Það er alveg ljóst að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, vann varnarsigur í alþingiskosningunum í Norðausturkjördæmi í gær. Eftir kosningarnar hefur Framsókn þrjá þingmenn þar af sjö á landsvísu. Það er mjög sterk staða. Það er því ljóst að Valgerður er í raun að leiða flokkinn í gegnum þessar kosningar. Fyrir nokkrum vikum töldu flestir að framundan væri auðmýkjandi ósigur fyrir Valgerði, sem vann afgerandi sigur hér í kosningunum 2003. Lengst af töldu flestir að Framsókn fengi aðeins tvo menn kjörna.

Það er mikill varnarsigur fyrir Framsókn í Norðausturkjördæmi að hafa náð að tryggja kjör Höskuldar Þórhallssonar á Alþingi. Höskuldur var að flestra mati við ársbyrjun í vonlausu sæti en ég man að ég skrifaði á þennan vef í janúar orðrétt: "Það mun vafalaust styrkja flokkinn hér að hafa Akureyring í baráttusæti en væntanlega munu framsóknarmenn leggja áherslu á að Höskuldur fari inn á þing hið minnsta, allt annað yrði sögulegt afhroð fyrir þá. Ég held að listi framsóknarmanna verði sterkari en ella í ljósi þess að skýr fulltrúi stórs svæðis á borð við Akureyri er inni í vænlegu sæti."

Það er öllum ljóst að það er glæsilegt fyrir Valgerði eftir allt sem á hefur gengið að hafa tekist að tryggja Höskuld inn á þing sem þriðja mann og tekist þrátt fyrir allt að verða annar þingmaður Norðausturkjördæmis og trompa bæði Kristján Möller og Steingrím J. Sigfússon. Valgerður er mikil seiglukona, dugleg og beitt. Þessi sigur er mjög persónulegt afrek fyrir hana að mínu mati við mjög erfiðar aðstæður. Hún virðist enn og aftur leiða flokkinn á vondum tímum og það er reyndar að mínu mati með hreinum ólíkindum að henni skyldi ekki frekar verða falið að leiða Framsóknarflokkinn í gegnum þessar kosningar en Jóni Sigurðssyni. Ég held að Framsókn hefði farnast betur með hana við stjórnvöl.

Fyrir nokkrum vikum eða jafnvel dögum hefði ég talið Samfylkinguna örugga um að verða næststærst í kjördæminu. Það að Framsókn hafi hlotið sess sem afl númer tvö með svo áberandi öruggum hætti og staða Valgerðar tryggð svo afgerandi eru stórtíðindi. Framsókn vann baráttuna hér með miklum krafti. Eva Ásrún, frænka mín, er auðvitað rosalega dugleg og ég held að það hafi verið rosalega vel valið hjá Valgerði og hennar fólki að velja hana til forystu. Svo bjuggu þau vel að góðri reynslu Höskuldar sem kosningastjóra í sigrinum mikla vorið 2003.

Mitt í sögulegum óförum Framsóknarflokksins er eina ljósið þeirra að hafa tekist að tryggja kjör Höskuldar hér og Valgerður hlýtur mikinn varnarsigur í kosningum sem flestir töldu að yrðu hennar verstu og myndu enda sem niðurlæging hennar. Það að þrír af sjö þingmönnum Framsóknar komi héðan eru stórtíðindi og sýna betur en margt annað hversu mikið akkeri kjördæmið er fyrir flokkinn og umfram allt hve staða Valgerðar Sverrisdóttur er sterk hér.

Margir töldu að fjarvera hennar sem utanríkisráðherra myndi koma niður á henni. Það varð ekki. Mér fannst reyndar með ólíkindum hversu öflug Valgerður var þrátt fyrir utanríkisráðherrastólinn og mikil ferðalög. Fannst hún alltaf vera hér og sama hvaða mannfögnuður eða atburður að alltaf var Valgerður þar viðstödd. Ótrúlega dugleg og öflug, enda uppsker hún eftir því. Hún er eini leiðtogi Framsóknar sem getur brosað í þessu sögulega afhroði sem flokkurinn varð fyrir í kosningunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Björgvin

Er Valgerður næsti formaður Framsóknar?

Pétur Björgvin, 13.5.2007 kl. 23:32

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Mér finnst þetta alltaf jafn gott orð "varnar sigur". Þetta er auðvitað bara notað þegar flokkarnir tapa fylgi. Það hljómar undarlega að tala um að fótboltalið sem tapar hafi unnið varnarsigur, það er bara ekki til. Framsókn tapaði, svo einfalt er það, meira að segja í Norð-austur kjördæmi, þó fylgið þar hafi verið mun meira en í öðrum kjördæmum. Það hefðu nú einhverntíman þótt tíðindi á mínum gömlu heimaslóðum ef einhver vafi hefði leikið á því að Framsókn væri með meira fylgi en Samfylkingin (sem áður voru kratar, sósíalistar, kvennalisti).

Kveðjur frá stuðningsmanni QPR no. 1, en þeir unnu einmitt mikinn varnarsigur í enska boltanum og lentu í 18. sæti í 1. deild.

Guðmundur Örn Jónsson, 13.5.2007 kl. 23:36

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Pétur: Ja, það skyldi bara ekki vera. Allavega er Valgerður eini leiðtoginn innan flokksins sem náði sínum markmiðum.

Guðmundur: Það blasir við að þetta er ótrúlega góður árangur fyrir Valgerði eftir allt sem á undan var gengið. Hún komst yfir bæði Steingrím J. og Kristján Möller og náði að landa því sem hún stefndi að. Þetta er allavega ótrúlega góður árangur miðað við spár. Ég spáði um stöðuna á föstudag og ég taldi að þeir færu í mesta lagi í 22%. Þeir fóru yfir 24%. Mun betri staða en mörgum hefði órað fyrir allavega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.5.2007 kl. 23:39

4 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Sammála þér Stefán að fylgi Framsóknar er mikið miðað við annarsstðar og miðað við skoðanakannanir. En skoðanakannanir eru ekki kosningar, þannig að það dugir ekki að tala um einhverja sigra, eða töp, í tengslum við kannanir. Það eru bara kosningar sem eru viðmiðið. Ef við eigum að miða við kannanir, þá hlýtur Samfylkingin að vera sigurvegari kosninganna, því það er ekki langt síðan hún mældist með 19% fylgi. En við tölum að sjálfsögðu ekki þannig, því það eru kosningar sem eru viðmiðið.

Kveðjur frá Vestmannaeyjum - og takk fyrir góða bloggsíðu.

Guðmundur Örn Jónsson, 13.5.2007 kl. 23:44

5 Smámynd: Páll Kristbjörnsson

Valgerður er kona góð enda veit ég hún hefur til hliðsjónar Kristin siðgildi. Það sagði hún mér á ættarmóti.

Páll Kristbjörnsson, 14.5.2007 kl. 00:54

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Valgerður hefur verið mjög umdeildur ráðherra, forystumaður í iðnaðarráðuneytinu í sjö ár, sem mjög hefur verið að sótt. Fáir hafa fengið yfir sig persónulegri árásir og allar kannanir hafa sýnt að hún stefndi hér í afhroð. Það gerðist ekki. Það er mikill persónulegur varnarsigur hennar. ISG og Samfylkingin hafa verið í stjórnarandstöðu í áratug tæpan og verið í kjörstöðu til að efla flokkinn og bæta fylgi hans. Þeim tókst það ekki. Varla flokkast það undir varnarsigur fyrir flokk í stjórnarandstöðu að bæta ekki við sig fylgi, verandi í kjörstöðu í raun til að bæta við sig.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.5.2007 kl. 15:11

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Valgerður hefur verið ráðherra í ríkisstjórn og verið forystumaður með völd árum saman. Hún hefur staðið í eldlínu sem ráðherra árum saman. Hún var eini ráðherrann í kosningabaráttunni hér og það töldu flestir, reyndar ég líka, að hún fengi skell fyrir að vera eini frontur ríkisstjórnarinnar hér. Það gerðist ekki. Kristjáni og Steingrími mistókst að slá hana niður. Í staðinn tapaði Samfylkingin talsverðu fylgi og mistókst enn og aftur að ná Láru Stefánsdóttur inn og féll um viðkvæman skala. Erfið staða fyrir þá hér. Ingibjörg Sólrún bætti sig stórlega síðustu vikurnar. En ekki er þetta varnarsigur fyrir stjórnarandstöðuafl, kannski þó fyrir hana persónulega en alls ekki flokkinn sem slíkan. ISG fór fram gegn Össuri til að bæta fylgi flokksins, ekki missa það niður. Gleymdu því ekki.

Stefán Friðrik Stefánsson, 14.5.2007 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband