Steingrímur J. ber harkalega á Samfylkingunni

Steingrímur J. Sigfússon Steingrímur J. Sigfússon barði á Samfylkingunni með leiftrandi hætti í sannkallaðri eldmessu fyrir stundu. Þar var ekki talað undir kratarauðri rós, heldur allt látið flakka. Öll gremjan braust fram í orðum leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Það var merkileg ræða. Í senn áhugaverð og fróðleg fyrir stjórnmálaáhugamenn. Þarna talaði leiðtogi sem er ósáttur við stöðuna og greinilega getur ekki með nokkru móti horft framhjá súrsætri tilverunni sinni.

Það er skiljanlegt að Steingrímur J. sé ekki sáttur við sitt hlutskipti. Hann hefur setið á þingi í 24 ár, frá árinu 1983. Hann hefur aðeins verið í stjórnarmeirihluta í þrjú ár af þessum árafjölda. Það segir allt sem segja þarf. Steingrímur J. gerði sér háleit markmið um stjórnarþátttöku að loknum kosningunum 12. maí sl. Sigur VG, sem svo lengi var í augsýn alla kosningabaráttuna, varð er á hólminn kom ekki eins glæstur og stefndi svo lengi í. Flokkurinn mældist með allt upp í 28% og 15-17 þingsæti en hlaut að lokum aðeins níu, tveim fleiri en Framsókn.

Þó að VG hafi unnið um margt stóran sigur í kosningunum, sem óumdeilt er, varð sigurinn súrsætur og brosin voru ekki sönn á kosninganótt. Stærsta stjarna VG í kosningunum, Guðfríður Lilja skákdrottning, komst ekki inn á þing er á hólminn kom og eftir stóð þingflokkur sem minnti meir á Alþýðubandalagið eldgamla sem sofnaði svefninum langa fyrir áratug en nýs framsækins stjórnmálaflokks með nýjar og ferskar rætur. Ásýndin var önnur en að var stefnt, það var flokknum verulegt áfall að ná ekki inn Guðfríði Lilju og Ingibjörgu Ingu, svo að ekki sé nú talað um Björn Val og Ölmu Lísu, svo fáir séu nefndir.

Gremja VG í garð Samfylkingarinnar leyndi sér ekki í eldmessu Steingríms J. áðan. Norðlenski bóndasonurinn frá Gunnarsstöðum minnti meira á hryggbrotinn unglingspilt í ástarsorg en hnarreistan mann valdsins. Enda var það VG og formanninum mikið áfall að ná ekki að semja sig inn í ríkisstjórn. Klúðrið á þeim vængnum kom í veg fyrir vinstristjórn og bjargaði okkur frá ísköldu vinstri vori. Það er gleðilegt.

Samt sem áður er lítið um gleði hjá vinstri grænum á þessu vori. Þar tekur nú við sambúð með fornum fjandvini, sjálfum Framsóknarflokknum. Það verður sambúð sem kengur verður í, svona kæfingarfaðmlag tveggja andstæðinga sem verða að unnast en vilja það ekki, eru hundfúl í sömu hjónasæng. Í ljósi þess er gremjan í garð Samfylkingarinnar skiljanleg.

mbl.is Steingrímur J. Sigfússon: Samfylkingin gafst upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Þetta var rosalega bitur ræða hjá Steingrími.

Björg K. Sigurðardóttir, 31.5.2007 kl. 21:24

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Já, berin eru súr í vinstrihaganum. Ég hef lengi fylgst með Steingrími en aldrei séð hann jafnsúran og pirraðan. Það er reyndar skiljanlegt miðað við allar aðstæður.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 31.5.2007 kl. 21:38

3 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ég tek undir með þér Stefán Friðrik, ræða Steingríms Joð sem oft er málefnalegur og ræður hans myndu sæma sér í hvaða Morfískepnni sem er. Í dag var hinsvegar varla málefni þar að finna heldur ólundarlegur sandkassaleikur sem ég varð afar undrandi á. Hinsvegar stóð Katrín Jakobsdóttir varaformaður sig ákaflega vel, ræða hennar var hnitmiðuð, kímin, gagrýnin og skemmtileg. Þarna kemur greinilega öflugur þingmaður til leiks og verður gaman að fylgjast með störfum hennar.

Líklegt er að í ljósi undanfarinna atburða fari flokkur Vinstri grænna að huga að breytingum. Þar hlýtur hlutverk Katrínar að verða mikið. Steingrímur er orðinn bitur og greinilega þreyttur á hlutverki sínu. Með hann í forsvari er ekki líklegt að VG nái auknum árangri því hljóta menn þar innanhúss að vera farnir að huga að breytingum.

Lára Stefánsdóttir, 31.5.2007 kl. 21:54

4 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

tíðrætt um að hann væri sigurvegari...en er það sigurvegari sem slær vindhögg þegar mest á reynir ?

Jón Ingi Cæsarsson, 31.5.2007 kl. 21:56

5 Smámynd: Davíð Þór Kristjánsson

Gríðarlega skemmtileg lesning hjá þér Stefán. Góður penni eins og endranær.

Davíð Þór Kristjánsson, 1.6.2007 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband