Umdeild auglýsing - Síminn stuðar kristna menn

Umdeild auglýsing Um leið og ég sá auglýsingu Símans um þriðju kynslóð farsíma þar sem sögusviðið var síðasta kvöldmáltíð Jesú Krists og hann er að hafa samskipti við Júdas í gegnum myndsímann sagði ég með sjálfum mér að þessi ætti eftir að verða hressilega umdeild. Það voru orð að sönnu. Þegar er farið að takast á um auglýsinguna og kristnir menn undir forystu biskups búnir að gera alvarlegar athugasemdir við framsetningu hennar.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst þessi auglýsing vera svona alveg á mörkunum hið minnsta. Fyrstu viðbrögð mín voru svolítil gapandi undrun. Átti ekki von á þessu svo sannarlega. Mjög nýstárleg framsetning. Ég taldi að þeir hjá Símanum myndu nú ekki leggja upp í að setja auglýsinguna svona upp. En væntanlega sjá þeir í þessari auglýsingu skondna framsetningu sem getur vakið hressilega athygli, sem virðist ætla að takast heldur betur, á meðan að kristnir menn telja þetta væntanlega guðlast eða altént mjög smekklaust. Biskupinn er allavega mjög afdráttarlaus í sínum skoðunum.

Það er áratugur að mig minnir liðinn frá því að Spaugstofan helgaði páskaþátt sinn íhugunum sínum um Jesú og sviðsettu atriði úr Biblíunni, þar á meðal síðustu kvöldmáltíðina. Fræg voru að auki atriði þar sem rónarnir Bogi og Örvar breyttu vatni í vín með töfrasprota, blindur maður fékk Sýn og Fjölvarpið í kaupbæti og svona mætti lengi telja. Háðfuglum var skemmt á meðan að Ólafi Skúlasyni, biskupi, og kristnum mönnum þjóðkirkjunnar var ekki beint hlátur í huga og voru frægir eftirmálar þess sem Spaugstofan gerði síðar upp í enn hlægilegri þætti þar sem Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var sett í grínbúning.

Enn og aftur er tekist á um framsetningu - nú er það eitt stærsta fyrirtæki landsins sem sviðsetur kvöldmáltíðina með lærisveinunum og Jesú vippar upp þriðju kynslóðar farsímanum og hringir í Júdas. Það verður áhugavert að sjá eftirmála þessara hressilegu átaka manna hins andlega og veraldlega auðs á næstunni.

mbl.is Biskup segir nýja auglýsingu Símans smekklausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Ég held að við íslendingar þurfum að banna þessa auglýsingu hið snarasta, um leið og við erum búnir að taka kæliskápinn hjá ÁTVR úr sambandi og hætta að selja bjór í stykkjatali.

Þá verðum við búin að bjarga þjóðinu frá glötun.

og þá fyrst er FRELSIÐ komið á hátt plan !

Ingólfur Þór Guðmundsson, 4.9.2007 kl. 16:31

2 identicon

Blessaður Stebbi,

þetta er nákvæmlega þau viðbrögð sem síminn vill. Nú virkar auglýsingin 300 sinnum betur enn hún hefði gert ef enginn mundi hneykslast á þessu.

Hallgrimur Viðar Arnarson (IP-tala skráð) 4.9.2007 kl. 16:33

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ef Jesús hefði fæðst 1969 þá væri hann hugsanlega í gallabuxum og með bílasíma. Hann fylgdi tískunni þá og hefði gert það í dag... svo hvað er að þessari auglýsingu?

Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.9.2007 kl. 18:28

4 Smámynd: Púkinn

Biskupnum er misboðið?

Jamm... mér er líka misboðið að skattpeningar séu notaðir til að halda uppi "þjóðkirkju".

Mér er misboðið að kristinfræði skuli kennd í skólum.

Mér er misboðið að biskupinn kalli trúleysi rót alls ills.

Svona er þetta bara.... 

Púkinn, 4.9.2007 kl. 19:17

5 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Mín skoðun er afdráttarlaus. Forsvarsmenn Símans taka gróðann fram yfir dómgreindina. Það sem er að þessari auglýsingu er ekki húmorinn á kostnað Jesús heldur boðskapurinn sem er að Síminn geti breytt gangi sögunnar. Hvaða skilning ber að leggja í það? Hver hefði verið verið gangur sögunnar ef Jesús hefði ekki verið krossfestur og risið upp á þriðja degi til þess að við værum hólpinn? Er það ekki boðskapur kristninnar? Af þessari ástæðu er þetta smekklaust í besta lagi en and-kristið í versta lagi.  

Jón Baldur Lorange, 4.9.2007 kl. 23:07

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin og góðar pælingar.

Sitt sýnist hverjum um þessa auglýsingu. Svo mikið er víst að Símanum tókst ætlunarverkið að komast í umræðuna, ná athygli og það massívri. En það var held ég öllum ljóst að þessi framsetning myndi kalla á skiptar skoðanir og deilur. Þetta er einfaldlega þannig efni sem gert er út á.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.9.2007 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband