Torrent lokað - erfið barátta fyrir Smáís

Það kemur engum að óvörum að SMÁÍS óski eftir lokun á torrent.is, það var bara spurning um tíma hvenær að baráttan færi á það stig. Eðlilegast er að dómstólar skeri úr um lögmæti þess sem torrent.is hefur verið að gera og tekið verði á þessum málum með þeim eina hætti sem fær er. Lagalegar hliðar málsins skipta einar máli og það eru þeir þættir sem þarf að koma almennilega á hreint. Þá fyrst verður hægt að vita almennilega hver áhrif aðgerðanna í dag munu hafa. Bæði aðstandendur torrent.is og SMÁÍS eru í vígahug og nú muna koma í ljós hvor trompar hinn.

Eins og flestir vita eru aðilar að SMÁÍS; 365 - ljósvakamiðlar, Bergvík, Myndform, RÚV, Sam-félagið, Sena, Skjárinn og Motion Picture Association. Allt eru þetta aðilar sem standa að útgáfu tónlistar og myndefnis hér á landi og þeim er eðlilega umhugað um að efni þeirra sé ekki fjölfaldað með ólöglegum hætti. Það gera allir sem selja afurðir sínar, þeir vilja ekki að þeirra sé notið án þess að greitt sé fyrir. Þannig að það þarf enginn að undrast um að þeir vilji taka á málinu og fá fram hvar valdið liggi með efni af þessu tagi.

Vandinn er hinsvegar sá að í því nútímasamfélagi sem við lifum í er nær ómögulegt að koma í veg fyrir að sjóræningjaútgáfur leki út á netið af kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlist. Þegar að einn er lagður að velli spretta tveir upp í staðinn. Það er þessi barátta sem er framundan fyrir SMÁÍS eðlilega. Þegar að Svavar hefur verið lagður að velli, sem gera má ráð fyrir að þeir vilji gera með aðgerðum sínum, má telja 99,9% líkur á að annar leysi hann af hólmi. Þegar að fólk er orðið vant því að geta hlaðið niður efni vill það meira.

Þetta er því erfið barátta. Ákvörðun dagsins í dag markar hvorki upphaf og endi neins ferlis í þessu máli. Það sem þó þarf að koma vel fram er lagalegu hliðarnar á þessu máli, hvernig tekið verði á því þar. Ákvörðun sýslumanns markar vissulega tímamót að því leyti að hópurinn sem vill hlaða niður efni án leyfis eiganda þess hefur tapað orrustu í bardaganum. En enn sér ekki fyrir endann á bardaganum sem slíkum. Hann er jú bara rétt að byrja. 


 


mbl.is Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ekki erfið barátta. Vonlaus barátta.

Menn verð að vakna og sjá heiminn í því ljósi sem hann er. Þetta er hjákátlegt að horfa á, rétt eins og bárátta kirkjunnar manna fyrr á öldum, fyrir því að jörðin væri flöt. Bjánalegt!

Kommon, menn verða að finna sér annað að gera.

Hún snýst nú samt.

Brjánn Guðjónsson, 20.11.2007 kl. 02:23

2 identicon

Sæll Stefán

Ég leyfi mér að fá eina af setningum þína lánaða 

"þeir vilja ekki að þeirra sé notið án þess að greitt sé fyrir"

Þetta er nákvæmlega kjarni málsins, græðgi þessara aðila er svo alger að þeir álíta alla hafa bjagaða siðferðiskennd og að enginn vilji borga fyrir tónlist sem þeir hafa fengið frítt á netinu eða kvikmyndir sem þeir hafa fengið frítt á netinu.

Í mörg ár héldu þessir aðilar því fram að plötusala hefði minnkað og byggðu það á því plötubúðir voru að panta færri eintök en áður ... en svo kom það bara í ljós að það var kjaftæði. 

Það þarf ekki annað en að fara inn á http://www.smais.is til þess að sjá hvað þessir aðilar hafa engan áhuga á raunveruleikanum. Samtökin voru tilbúin til þess að birta getgátur einhvers fyrirtækis um hversu vel eða illa tilraun Radiohead gekk og töldu getgátur þessa fyrirtækis sanna án nokkurs vafa að þeir sem stunduðu niðurhal væru örgustu nískupúkar, ekki hef ég orðið var við neina umræðu af þeirra hálfu um könnunina sem 2 fræðimenn úr háskólanum í Lundúnum framkvæmdu í Kanada á tónlistarkaupum þeirra sem stunda niðurhal.

Kvikmyndaverin halda því líka fram að niðurhal valdi þeim tekjutapi, smáís sögðu einhverju sinni á heimasíðu sinni að einvörðungu 40% kvikmynda skiluðu hagnaði. Og? Er það eitthvað réttlætismál að ÖMURLEGAR kvikmyndir skili hagnaði?

Vandamál þessara aðila er það að þeir hafa búið sér til einhverja tekjuglugga um kvikmyndir. Bíó - myndbandaleigur - sjónvarp - dvd og það er eins og þeir ætlist til þess að hver einn og einasti borgi í hvern einasta tekjuglugga, og að þessir tekjugluggar séu algerir og eilífir og muni ALDREI nokkurn tímann breytast.

Og sé ekki greitt í alla tekjuglugga þá er það tekjutap og kallar á nýja eða herta löggjöf og það er eitthvað sem hræðir mig. Að svona fjársterkir þrýstihópar geti þrýst á um herta löggjöf í ljósi uppskáldaðs tekjumissis sem ómögulegt er að sanna og án þess ekkert annað sé tekið inn í myndina, eins og t.d. breyttar neysluvenjur er kemur að afþreyingarefni. 

Og það versta er að fjölmiðlar sem nánast allir eru aðilar að smáís virðast ekki hafa bein í nefinu til þess að fjalla um þetta með öðrum hætti en að lesa einhverjar yfirlýsingar sem Snæbjörn Steingrímsson sendir frá sér.

Bjarni (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 03:31

3 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Já, þetta er ekkert svo einfalt mál.

Jónína Dúadóttir, 20.11.2007 kl. 07:00

4 identicon

langar að setja þetta hér inn

ég var notandi á torrent.is og á spjallsíðum þar var rætt nokkrum sinnum um hvort við ættum ekki að borga eitthvað gjald fyrir afnot af síðunni sem myndi svo renna til rétthafa efnisins, einnig var talað um að það þyrfti að borga kannski 50-100 kr fyrir hverja skrá sem maður myndi ná í.

þannig að maður yrði í raun að kaupa sér inneign á síðunni til þess að geta niðurhalað efni.

það var nú oftast þannig að það voru yfir 2300 torrent skrár aðgengilegar á síðunni.
setjum svo upp dæmi að hver torrentskrá sé sótt 100 sinnum og hver skrá kosti 100kr þá eru það 2,3 milljónir sem myndu renna til rétthafa efnisins.

síðan nátturulega þá eru alltaf nýjar og nýjar skrár að koma inn og i raun er hver torrentskrá sótt allavega 200 sinnum, sumar yfir 2000 sinnum.
svo þetta gæti alveg gefið þessum rétthöfum ágætistekjur.

þess vegna gætu gjöldinn orðið yfir 3-4 milljónir á hverjum einasta mánuði.
ég tel það ekkert óraunhæfa tölu

Arnar (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 09:18

5 identicon

Ég held að Smáís og álíka samtök ættu að hætta þessum endalausa barningi og reyna að nota tæknina. Ef að tónlistarmenn gætu t.d. selt tónlistina sína á Istorrent þá gæti það gefið vel af sér. Plötur yrðu væntanlega ódýrar þar heldur en í plötubúðum vegna m.a. færri milliliða (veit svosem ekkert um það ), það þyrfti ekki að skrifa helling af plötum og svo framvegis. Ég mundi telja það mjög temmilegt að borga 100-200 krónur fyrir einhvern þátt sem að mig langar að horfa á og einhverjar 500-1000 krónur fyrir geisladisk.

Tæknin er til staðar, það þarf bara að byrja að nota hana.

Sigurður (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 12:17

6 identicon

Svo má ekki gleyma því að í hvert skipti sem við kaupum tóma geisladiska eða DVD og harða diska einnig þá erum við að greiða í sjóði rétthafa.  Hinsvegar er það sorglegasta við þetta allt að t.d. tónlistarmenn fá svo til ekki neitt fyrir sinn snúð, þannig að maður hefur nú ekki mikið samviskubit þó maður nái sér í eitt og eitt lag.

Bjarki Hilmarsson (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband