Össur skrifar sig pent frá tveim konum

Össur Skarphéðinsson Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hélt leiðtogastól sínum í Reykjavík í prófkjöri flokksins um helgina. Hann skrifar ítarlegan pistil á vef sinn um úrslitin og fer yfir sína stöðu og fjölda frambjóðenda. Mikla athygli vekur að þar er ekki minnst einu einasta orði á tvær konur í þingmannahópi Samfylkingarinnar sem fengu skell, þó með mjög ólíkum hætti, í prófkjörinu. Það er skrifað sig mjög pent frá þeim báðum greinilega. Önnur er formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og hin er Guðrún Ögmundsdóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar frá 1999.

Ingibjörg Sólrún fékk innan við 70% atkvæða í fyrsta sæti flokksins, þó að enginn væri annar í framboði um sætið. Það vekur mikla athygli í ljós þess að þar fer formaður flokksins, "sameiningartákn" R-listans og vinsæll borgarstjóri í níu ár og síðast en ekki síst vonarstjarna vinstrimanna, eins og hún var kölluð æ ofan í æ fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þessi kona var sótt af kjörnefnd eftir prófkjörið í nóvember 2002 og talin svo mikilvæg að henni var valinn sess í baráttusæti, sem leiddi reyndar til þess að samstarfsflokkar hennar sviptu hana því sem var henni kærast; borgarstjórastólnum sínum og með því öllum völdum og áhrifum sem mest hana skiptu.

Ingibjörg Sólrún hefur verið eins og vafrandi vingull eftir að hún missti borgarstjórastólinn. Hún er eins og gamall vonarneisti með flottustu fiðlu heims í farteskinu, en fiðlan er orðin svo fölsk að enginn vill hlusta á vonarneistann spila lengur lögin sín. Það er enginn eftir nema fastagestirnir sem vilja hlusta á fagnaðarerindið. Það er kannski ekki skaðlegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að fá ekki nema þessi prósentustig en það er niðurlægjandi fyrir hana í sínu fyrsta prófkjöri, þar sem átti nú að sanna í eitt skipti fyrir öll að hún væri hin afgerandi leiðtogi Samfylkingarinnar; hún væri hin eina og sanna sem gæti stillt Samfylkingunni upp sem sigursveit og valkosti vinstrimanna.

Össur skrifar um úrslitin eins og Ingibjörg Sólrún, sem felldi hann af formannsstólnum, sé ekki til og hafi ekki verið í kjöri. Það er ekki minnst orði einu á stöðu hennar sem leiðtoga flokksins í Reykjavík. Skilaboðin geta vart verið skýrari en þetta. Össur ber enn harm sinn í brjósti. Það var ráðist að honum með heift og kergju á sínum tíma. Honum átti að bola út fyrir að þekkja ekki sinn vitjunartíma og "leyfa ekki" Ingibjörgu Sólrúnu að vera formaður. Formannsslagurinn var harðvítugur. Össur barðist hetjulegri og öflugri baráttu en varð undir. Hann var særður en ekki veginn í þeim slag. Hann lifir enn sínu pólitísku lífi á eigin vegum og minnti vel á stöðu sína með öflugum vefskrifum.

Guðrún Ögmundsdóttir er ekki nefnd á nafn í pistli Össurar. Hún fékk mest áberandi skellinn í þessu prófkjöri, þann sem eftir situr í einhverjum eflaust. Guðrún, sem varð fimmta í prófkjörinu í nóvember 2002, lenti nú í því ellefta og þingmannsferli hennar er að ljúka. Enginn vafi á því og Guðrún er greinilega særð þó hún beri sig vel, enda kjarnakona með stáltaugar. Guðrún vann sín verk af heilindum og heiðarleika en var ekki fljúgandi á milli glanstímaritanna og fréttastofanna. Hún var þó áberandi á mörgum sviðum. Einhverjir eiga eftir að missa þar hauk í horni. Það vekur mikla athygli að Össur sér ekki ástæðu til að víkja einu orði að örlögum Gunnu Ö við dagslok átakanna.

Guðrún er heilsteypt þegar að hún birtir heildarreikning prófkjörsframboðs síns og minnir væntanlega aðra í prófkjörinu á að birta skuli reikninga. Það er merkilegt að líta yfir tölurnar og hvernig þær skiptast. Þetta er merkilegur reikningur. Enn merkilegri eru þó reikningsskil Össurar við þessar tvær konur þegar að hann gerir upp prófkjörið. Þessar fyrrum fylgiskonur Kvennalistans sem fengu skell með mjög ólíkum hætti sjást þar ekki og þær eru ekki áberandi í yfirferð fyrrum formanns Samfylkingarinnar, sem enn er að jafna sig á hjaðningavígum ársins 2005 í Samfylkingunni. Þeirra sést enn merki með kostulegum hætti, ekki satt?

mbl.is Guðrún Ögmundsdóttir birtir kostnaðartölur vegna nýafstaðins prófkjörs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband