Endurkoma Árna Johnsen - fall Drífu og Guðjóns

Árni Johnsen Um fátt hefur verið rætt meira meðal trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins á þessum sunnudegi en úrslit prófkjörsins í Suðurkjördæmi þar sem Árni Johnsen sneri aftur með dramatískum hætti í forystusveit íslenskra stjórnmála og reyndum þingmönnum, sem unnið hafa fyrir flokkinn til fjölda ára, var hent út á guð og gaddinn með athyglisverðum hætti. Það eru grimmileg örlög sem blasa við flestum þingmönnum í kjörinu.

Ég fór víða í dag og um fátt var meira rætt en það að Árni er á leið aftur á þann stað sem hann var á er honum varð svo eftirminnilega á í messunni fyrir aðeins örfáum árum. Sitt sýnist hverjum auðvitað, en mér fannst viðbrögðin vera víðast á sömu lund. Ég verð að taka fram að ég hef ekkert nema gott um Árna sem slíkan að segja, en ég tel að það boði ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hann fari beint í annað sætið í þessari lotu. Það er of skammt liðið frá atburðunum sem deilt var um tengt persónu Árna.

En þetta er vilji sjálfstæðismanna í kjördæminu og við það verður svo sannarlega að una. Ákveðið var að boða til prófkjörs og þetta er það sem úr því kom. Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa greinilega valið í fjölmennu prófkjöri sína frambjóðendur og það er hinn sanni lokadómur alls í þessu máli. Árni Johnsen hefur langa þingreynslu að baki og hefur notið stuðnings sjálfstæðismanna á Suðurlandi til þingmennsku í mörgum prófkjörum og var t.d. kjörinn leiðtogi flokksins á Suðurlandi í kosningunum 1999 þegar að Þorsteinn Pálsson, núverandi ritstjóri Fréttablaðsins, hætti þátttöku í stjórnmálum.

Drífa Hjartardóttir Það eru mikil tíðindi að sitjandi þingmenn í forystusveit flokksins fái skell. Í kosningunum 2003 skipuðu Drífa Hjartardóttir og Guðjón Hjörleifsson annað og þriðja sæti listans. Rúmu ári eftir kosningar lést leiðtoginn Árni Ragnar Árnason eftir erfið veikindi. Þá tók Drífa við leiðtogahlutverkinu, í annað sinn á svæðinu en hún varð kjördæmaleiðtogi á Suðurlandi við afsögn Árna Johnsen árið 2001. Drífa fær mikinn skell í þessu prófkjöri. Er það óverðskuldað að mínu mati, enda hefur hún unnið vel fyrir kjósendur í kjördæminu.

Stærstu tíðindi þessa prófkjörs fyrir utan pólitíska endurkomu Árna Johnsen er ekki kjör leiðtogans heldur pólitísk endalok Drífu á þingi, sem húrrar niður listann í prófkjörinu og festir sig í sjötta sætinu, en í besta falli fá sjálfstæðismenn fjóra menn væntanlega að vori þarna. Það hlýtur að teljast afar ólíklegt að Drífa taki sjötta sætið við þessar aðstæður og meti sinn pólitíska feril kominn á ís. Það eru bitur skilaboð sem henni eru rétt. Ég skynjaði það núna að Drífa hefði ekki stuðning Vestmannaeyja og Suðurnesja að öllu leyti og svo fór sem fór. Það er enda verulega erfitt að fljúga hátt þarna án stuðnings úr þeim áttum.

Ég hef kynnst Drífu í flokksstarfinu og tel hana heiðarlegan og heilsteyptan stjórnmálamann með hjarta úr gulli. Sérstaklega var ánægjulegt að kynnast henni á málefnaþingi SUS á Hellu árið 2002. Ekki hefði mér órað fyrir á þeirri stund að innan fimm ára hefðu sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi vísað Drífu Hjartardóttur á dyr með svona köldum hætti. En svona er pólitíkin oft grimm og hörð. Það voru mér nokkur vonbrigði að hún skyldi lenda svo neðarlega og það eru ekki góð skilaboð sem send eru með því að henda þingkonu, sem hefur notið virðingar og trausts til trúnaðarstarfa, út með þessum hætti. Þetta eru þó greinilega skýr skilaboð kjósenda í prófkjörinu, sem þarna koma fram.

Guðjón Hjörleifsson Ekki er skellur Guðjóns Hjörleifssonar minni, en hann varð sjöundi í prófkjörinu og er jafnmikið úti í óvissunni og Drífa Hjartardóttir. Gaui bæjó, eins og hann er ávallt kallaður út í Eyjum, var farsæll bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í tólf ár, á árunum 1990-2002, og hefur verið alþingismaður frá kosningunum 2003, en hann kom inn sem fulltrúi Eyjanna eftir afsögn Árna. Hann hefur á kjörtímabilinu t.d. verið formaður sjávarútvegsnefndar þingsins.

Gaui er öflugur maður sem hefur sinn kraft og hefur verið áberandi í starfi flokksins, sérstaklega verið öflugur í flokksstarfinu í Eyjum. Það er greinilegt að framboð Árna og Gríms Gíslasonar gerði út af við möguleika Gaua sem hefði annars náð góðu sæti. Hann náði um tíma undir lok talningar þriðja sætinu, fór svo í fjórða en húrraði svo út í óvissuna er yfir lauk. Það hlýtur að vera kurr í Eyjum í mörgum með stöðu Gaua, ef ég þekki hans nánustu stuðningsmenn rétt.

Gunnar Örlygsson, sitjandi þingmaður kjörinn af lista Frjálslyndra, fór nú í fyrsta skipti í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hlaut nokkuð skýr skilaboð í raun út úr því. Ekki er hægt að segja að staða Kristjáns Pálssonar sé beysin miðað við aðstæður og verður að teljast afar ólíklegt að hann sjái hag sínum borgið í framboð á næstunni. En svona er þetta bara. Þessi úrslit eru stingandi grimm í ljósi örlaga nokkurra þingmanna flokksins, einkum Drífu og Guðjóns, sem hafa unnið fyrir flokkinn mjög lengi og unnið honum gagn.

En dómur flokksmanna virðist skýr. Það verður fróðlegt að fylgjast með eftirmálum prófkjörsins, enda er varla hoppandi gleði á Hellu og í Eyjum með örlög þingmannanna tveggja sem eru nú efst af hálfu flokksins á þingi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Nú klappa ég fyrir íhaldinu. Árni í öðru sæti og munar svo sem ekki miklu að hann velti Árna Matt.... Þetta er auðvitað íhaldinu til háborinnar skammar. 

Sveinn Arnarsson, 13.11.2006 kl. 10:57

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs. Þetta er val fólksins á þessu svæði. Það er ekki flóknara en það. Ég ætla ekki að segja að fullorðið fólk sé fífl með sínu vali. Það verður að eiga við sig hverja það kýs sem fulltrúa sína með fúsum og frjálsum vilja.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.11.2006 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband