Jafntefli í litlausum kappræðum í Mississippi

John McCain og Barack Obama í fyrstu kappræðunum
Mér fannst hvorki John McCain eða Barack Obama ná yfirhöndinni í fyrstu kappræðunum í Oxford í Mississippi. Þetta voru litlausar kappræður, ekkert rothögg og enginn afgerandi sigurvegari. Báðir áttu sínar stundir en einhvernveginn endaði þetta í frekar tilþrifalitlu jafntefli sem hefur engin áhrif á baráttuna um Hvíta húsið. Hverjum finnst sinn fugl fagur og spinnið hófst um leið og Jim Lehrer hafði sagt síðasta orðið. Báðir höfðu tilbúnar auglýsingar með þeim boðskap að þeir hefðu unnið, burtséð frá því hvernig kappræðurnar myndu fara.

Þrátt fyrir nýlegt viðbótarform á fyrstu kappræðunum, sem eru að mestu byggðar á sama fyrirkomulagi og hefur verið frá kappræðum Kennedys og Nixons fyrir 48 árum, nýttu frambjóðendur það sér ekki. Rúman hálftíma tók fyrir frambjóðendurna að hætta að horfa á Jim Lehrer og fara að skjóta aðeins á hvorn annan. Lehrer minnti frambjóðendurna margoft á það fyrsta hálftímann að þeir gætu tekið slaginn við andstæðinginn og gætu snúið þessu upp í alvöru baráttu þar sem tekist er á af hörku og án mikilla málalenginga.

Eftir drjúglanga stund hætti Lehrer að reyna þetta og lét kappræðurnar fljóta áfram. McCain leit varla í áttina til Obama og Obama missti sig, eins og svo oft áður, í orðskrúði um allt og ekki neitt. Baráttueðlið vantaði í kappræðurnar og þær voru frekar lélegt sjónvarpsefni nema fyrir allra hörðustu áhugamenn um bandarísk stjórnmál og kannski varla það. Mér fannst bæði McCain og Obama tyggja upp gömlu frasana úr kosningaferðalögunum og frá flokksþingunum í St. Paul og Denver - fátt nýtt kom fram.

Mér fannst merkilegt hversu lítið pólitískt bit var í frambjóðendunum þegar kom að efnahagsmálunum. McCain kom mun betur út úr þeim hluta en ég átti fyrirfram von á. Obama tókst ekki að eiga trygg sóknarfæri í þessum mikilvæga hluta. Að óbreyttu munu kosningarnar að mestu snúast um efnahagsmálin - annað er óeðlilegt í þeirri niðursveiflu sem er nú rúmum fimm vikum fyrir kjördaginn. Ef McCain heldur sjó í þessum debatt til kjördags á hann góðan séns á að vinna Hvíta húsið.

Í utanríkismálunum var McCain veikari en ég bjóst við. Hann tafsaði og var seinn til svars á þeim stundum þegar hann átti að vera sem öruggastur, mundi ekki nafnið á Zardari, hinum nýja forseta Pakistans og eiginmanni Benazir Bhutto (kom sér illa fyrir kappann að Benazir dó fyrir ári greinilega á þessari stundu, en hann státaði sig af því er hún var myrt að hafa svo oft talað við hana) og þurfti aðra atrennu til að geta borið fram nafn Ahmedinejad. Obama var nokkuð sterkur í þessum málaflokki.

McCain hefur umtalsverða reynslu í utanríkismálum og ætti að fara auðvelt með að tækla Obama í debatt um þessi mál, sérstaklega stöðuna í Mið-Austurlöndum, enda farið þar mjög oft. En sú reynsla hljómar ekki öflug þegar tafsað er á nöfnum lykilspilara á þessu umbrotasvæði. McCain stóð sig samt að mörgu leyti vel, hjólaði í Obama á réttum nótum, var óvæginn og vægðarlaus án þess að missa kúlið og brosið þaulæfða. McCain þarf að passa sig á að sýna reynsluna en ekki bara tala um hana.

Í heildina voru þetta áhugaverðar umræður fyrir mig sem mikinn áhugamann um pólitík og bandarísku kappræðurnar. Þeir sem eru ekki eins gallharðir í þessu hafa örugglega fljótlega skipt um stöð eða fengið sér kríu yfir herlegheitunum og vaknað yfir stillimyndinni á RÚV á fjórða tímanum. Áhorfið bar þess merki. Færri horfðu á fyrstu kappræðurnar nú en þegar Bush og Kerry mættust í fyrsta skiptið fyrir fjórum árum í Flórída. Mælingarnar eru á pari við fyrsta debatt Bush og Gore og Clinton og Dole.

En ekki eru allir sem horfa á kappræðurnar bara að spá í gáfulegu tali frambjóðendanna. Þetta er myndræn sýning á frambjóðendunum ekki síður en skoðanaskipti um stjórnmál. Báðir litu þeir vel út. Aldursmunurinn á milli þeirra er löngu augljós og varð myndrænn í settinu. 25 ára aldursmunur er á frambjóðendunum, hið mesta til þessa í sögu bandarískra forsetakosninga. Fannst það þó ekki skipta máli. Þeir voru báðir mjög snöggir til svars og þeir hikuðu ekki við að hjóla hvorn í annan, þó oft ansi mikið undir rós.

Málefnaágreiningurinn kom svo sannarlega fram í lykilmálum. Þetta eru ekki aðeins menn tveggja ólíkra kynslóða heldur og mun frekar tveggja ólíkra átakapóla í bandarískum stjórnmálum. Þeir voru heldur ekki að fara leynt með að þeir væru úr tveim ólíkum áttum að mjög mörgu leyti. Mér fannst McCain snarpur og öflugur í tilsvörunum. Hann leit örsjaldan í áttina til frambjóðandans en kveikti heldur betur undir honum með hnyttnum og leiftrandi tilsvörum, gerði stólpagrín að honum og oft fyndinn - minnti á Reagan.

Mér fannst Obama frekar óöruggur stundum, taka stressköst þegar McCain hjólaði í hann og gleyma sér í óþarfa málalengingum og orðagjálfri. Sumum finnst það heillandi að heyra einn mann tala endalaust um sjálfan sig og hvað hann sé klár en of mikið af því verður eins og ofhlaðin rjómaterta. Í þessum efnum minnir Obama mig oft á Dag B. Eggertsson í borgarstjórnarkosningunum 2006; talað er mikið og lengi um hvað allt eigi að vera frábært en þetta verður ofhlaðið og tilfinningasnautt.

McCain sýndi reynsluna í átökum alveg hiklaust; bætti upp fyrir stöku hik með vægðarlausum árásum á Obama en virkaði samt einlægur í gagnrýninni. Hann fetaði millistigið, sem er svo mikilvægt í svona kappræðum. Obama er mun betri í ræðuforminu en kappræðustílnum. Það kom mjög vel fram og einkenndi sérstaklega síðari hlutann þegar McCain dró fram beittustu vopnin og lét vaða. Seinni hluti kappræðnanna var því mun betri og McCain tók forystuna í kappræðustílnum.

Í kjarnann fannst mér McCain tala bæði stutt og skýrt, hann lét vaða einbeitt og ákveðið á meðan Obama talaði mikið og lengi um áherslurnar svo að pointið kæmist til skila. Obama verður að passa sig á að gleyma sér ekki í orðavaðal á svo mikilvægum kjörtíma í sjónvarpi.

McCain virkaði því sem reyndari frambjóðandinn og með skýr svör á meðan áhorfendur þurftu að fylla sjálfir upp í gloppurnar hjá Obama. Þetta var meginniðurstaða kvöldsins - Obama þarf að vinna betur í þessu eigi honum að takast að ná á leiðarenda.


PS: Ég gafst upp á útsendingu Ríkissjónvarpsins (sem ég ákvað að nýta mér fyrst hún var í boði) þegar myndtruflanir hófust og fór yfir á BBC. Heyrði svo í dag að kappræðurnar hefðu dottið út nokkru áður en þeim átti að ljúka. Lélegt hjá Sjónvarpinu, ef þeir ætla að sýna þetta er lágmark að tryggja fólki þetta fram á síðustu mínútu.

mbl.is Obama kom betur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Guð

  Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þessar kappræður.  Þún notar rétta orðið er þú lýsir þeim sem "litlausum".  Kappræðurnar voru dapurlega tilþrifalausar og einkenndust af óöryggi og einhverskonar varfærni eða,  ja,  ég veit ekki hvort rétt er að segja þreytu og jafnvel áhugaleysi.

  Ég stend með Obama en hann skoraði ekki nein stig hjá mér.  McCain gerði það ekki heldur.  Eiginlega voru þessar kappræður bara leiðinlegar og bragðdaufar í alla staði. 

Jens Guð, 28.9.2008 kl. 03:29

2 identicon

Mér fannst McBain vera barnalegur og hrokafullur í garð Obama. Flest þeirra skota, sem þú talar um að hann hafi náð á Obama, voru vafasöm og allt að því lygar til að blekkja almennan áhorfanda. Það finnst mér skítlegt eðli. Einskonar mcdonalds augl. í barnatíma.

McBain talar t.d. um gott og illt sem staðreyndir. Ég hef líka heyrt Palin 'tala' um þessar staðreyndir. Mér finnst það hrollvekjandi að forsetaframbjóðendur tali svona. Engin millileið, ''við tölum ekki við vondu kallana því þeir eru svo vondir.'' Hverjir eru það aftur? N-Kórea, Íran, Sýrland...ætlar hann sér að beita viðsk. þvingunum þar til hinir gefast upp? Það er ekkert al- svart eða hvítt. Aaarrg!!! Það er hrein og klár heimska. Heillar þó kannski meðal-Kanann? Tók síðan alltaf 'róbótann' (dansin) inn á milli. Handahreyfingarnar hafa líklega átt að heilla og ná athygli áhorfandans.

Ég er að mörgu leiti sammála þér með Obama. Hann talar ekki mannamál. Fólk missir athyglina í skilningsleysi og fer og bætir í kaffibollann... Þyrfti að liðka sig svoldið upp, full alvarlegur, held ég, finnst mörgum, þó full ástæða sé til þess. Ég náði þó því sem hann var að segja og málefnalega séð er hann ljósárum framar McBane. Hann þarf hinsvegar að koma þeim áleiðis til almennings sem hann gerir ekki með þessum hætti.

Það versta finnst mér vera auglýsinga-bragur kosningabaráttunnar. Endalaust verið að reyna að heilla á kosnað málefnalegrar umræðu. Þar af leiðandi vann Obama þessar fyrstu kappræður!

Svo er ekkert hægt að segja um Söru Palin...

Sæmund (IP-tala skráð) 28.9.2008 kl. 10:17

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Manni fannst samt margt gott koma þarna upp og svarað/Næstu verða harðari það eru tvennar kappræður aftir/Kveðja Hallli gamli

Haraldur Haraldsson, 28.9.2008 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband