McCain vs. Obama > kjördagur

mc ob
Bandarískir kjósendur fjölmenna nú á kjörstað til að ákveða hvort Barack Obama eða John McCain verði næsti forseti Bandaríkjanna, sá 44. sem sver embættiseið frá árinu 1789, og sem mun sitja á forsetastóli kjörtímabilið 2009-2013. Sá forseti verður sá fyrsti í tvo áratugi sem ekki ber eftirnafnið Bush eða Clinton, en sé varaforsetatímabil George H. W. Bush tekið með hefur þetta tímabil staðið í 28 ár, eða síðan Ronald Reagan tók við embætti 1981. Eðlilega er áhuginn mikill, enda eru þetta sögulegar kosningar að svo mörgu leyti.

Annað hvort verður kjörinn fyrsti blökkumaðurinn í Hvíta húsið eða sá elsti - fyrsta konan getur orðið varaforseti Bandaríkjanna. John McCain er þrem árum eldri en Ronald Reagan var við forsetakjör sitt árið 1980. Forsetakjörið verður að vali á 538 kjörmönnum (270 er töfratalan) - jafnframt kosið um alla fulltrúadeildina, 435 sæti, 35 sæti í öldungadeildinni og 11 ríkisstjóra. Ég hef þegar spáð Barack Obama traustum sigri í forsetakosningunum og spái ennfremur stórum demókratasigri í þingkosningunum, en efast um að demókratar nái 60 sætum í öldungadeildinni.

Enginn vafi leikur á því að þetta verða mjög erfiðar kosningar fyrir Repúblikanaflokkinn. Hann þarf að byggja undirstöður sínar upp á nýtt eftir þessar kosningar fari allt á versta veg. Ekki aðeins þarf hann að stokka sig upp á nýtt á landsvísu heldur horfa í stefnu sína og meginbaráttumál sín nái demókratar fullum völdum, að ég tali nú ekki um fari svo að demókratar nái 60 senat-sætum og ráði þar með öllum málum. En nú verða demókratar að láta verkin tala. Þeir geta ekki talað um Bush lengur.

Eins og ég hef áður sagt finnst mér flest benda til að pólitísk örlög John McCain í forsetaslag verði hin sömu og Bob Dole, félaga hans í öldungadeildinni um langt skeið og stríðshetju á svipuðum kalíber og hann, fékk árið 1996. Þeir reyndu báðir allt sem þeir gátu til að ná kjöri en áttu í baráttu við nýju tímana í pólitík, voru brennimerktir sem menn fortíðar. McCain hefði getað náð betri stöðu hefði efnahagskreppan ekki skollið á og náði ekki að þvo þann stimpil af sér að vera í kjöri fyrir ráðandi valdhafa.

Sjónir allra á marklínunni beinist að kjörmannamálunum. Helst horfa spekingar til þess sem gerist í Bush-ríkjunum á Austurströndinni sem munu detta inn á milli 1 og 3 í nótt. Nái Obama einhverjum árangri þar eru úrslitin í raun ráðin. Svo getur því farið að nýr forseti hljóti 270 kjörmenn áður en kjörfundi er lokað á vesturströndinni. Minnir að það hafi síðast gerst þegar Reagan vann stórsigra sína, þá stærstu á síðustu áratugum. Nixon og Johnson náðu líka álíka sigrum og náðu nær öllum kjörmönnum.

Andlát ömmu Baracks Obama setti sinn svip á síðustu framboðsfundi hans í Norður-Karólínu (þar sem hann flutti tilfinningaríka ræðu um hana) og í Virginíu. Enginn vafi leikur á því að andlát ömmunnar styrkir Obama á lokasprettinum. Samúðarbylgjan verður einhver en erfitt að segja hvort hún ráði úrslitum. McCain styrktist síðustu dagana en virtist einhvern veginn missa flugið yfir helgina. Allir biðu eftir stórri sveiflu sem myndi gera slaginn virkilega jafnan en það gerðist aldrei. Því tel ég örlögin ráðin.

Obama og McCain voru báðir þreyttir undir lokin. Báðir hafa þeir verið í framboði í tæp tvö ár og haldið óteljandi framboðsfundi og flutt svo margar ræður að flestir hafa misst tölu á. Þetta hefur verið söguleg kosningabarátta, líka sú dýrasta og markvissasta um langt skeið, en Obama byggði ótrúlega sterka baráttu og tókst að koma í veg fyrir krýningu Hillary Rodham Clinton með því að byggja trausta pólitíska maskínu sem hefur allt frá lokum demókrataslagsins haft ráðandi stöðu í átökunum.

McCain vann reyndar það afrek að ferðast um sjö ríki vítt og breitt um Bandaríkin á lokadeginum og var orðinn ansi þreyttur þegar hann kom heim til sín í Arizona. Hann lagði allt í sölurnar og lagði mikið á sig en verður væntanlega að sætta sig við tap. McCain barðist allan tímann á móti straumnum. Allt frá upphafi voru demókratar með ráðandi stöðu, enda er Bush mjög óvinsæll og repúblikanar misstu trausta stöðu sína í þingdeildunum fyrir tveim árum. En hann var sá eini sem gat unnið þetta.

Úrslitastundin er nú í sjónmáli. Allir munu fylgjast með af áhuga í nótt. Sjálfur ætla ég að vaka meðan einhver hin minnsta spenna verður í dæminu. Erfitt að missa af þessu, enda hef ég vakað eftir úrslitum alveg síðan Bush vann Dukakis fyrir tveim áratugum. Ég ætla að skrifa um þetta í kvöld og í nótt, en ég segi það eitt að ég tel að allra augu verði á fjöldafundinum í miðborg Chicago í kvöld. Þar verður örugglega drukkið úr öllum kampavínsflöskum sem til eru.

mbl.is McCain búinn að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður allt crazy í Chicago!

Barack Obama (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband