Hvernig ætlar Ögmundur skera niður?

Innst inni hljóta allir að fagna því að innlagnargjöld á sjúkrahús séu lögð niður af nýjum heilbrigðisráðherra. Stóra spurningin er þó hvernig hann ætlar að vinna verkin, óvinsælu verkin framundan án þess að það komi einhversstaðar niður. Guðlaugur Þór Þórðarson varð að skera niður tæpa sjö milljarða króna í krepputíð undir lok ráðherraferils síns og tók á sig auknar óvinsældir fyrir erfið en væntanlega nauðsynlegar aðgerðir.

Ögmundur Jónasson hefur fram til þessa komist upp með að gagnrýna aðeins stjórnmálamenn fyrir verk sín en koma með lítið af beinum aðgerðum og ákvörðunum að verkinu. Nú þarf hann sem heilbrigðisráðherra að gera fleira en gott þykir og væntanlega vera með niðurskurðarhnífinn á lofti, enda er staðan ekki glæsileg. Sá sem setið hefur á stóli heilbrigðisráðherra á niðurskurðartímum hafa lítið grætt á því verki nema botnlausar óvinsældir.

Sú var tíðin að það jafngilti pólitískri feigð eða botnlausri ógæfu fyrir stjórnmálamann að taka við embætti heilbrigðisráðherra - vonlaust að höndla verkefnið, enda sparnaður sjaldan óvinsælli en í velferðarkerfinu. Hver man ekki eftir Sighvati Björgvinssyni sem var blóðugur upp fyrir axlir í niðurskurði í Viðeyjarstjórninni í upphafi tíunda áratugarins og barðist þar gegn nunnunum í Landakoti og fleirum þekktum postulum í velferðarkerfinu.

Hann varð óvinsælasti maður landsins á einni nóttu í hlutverki sínu. Guðmundur Árni Stefánsson kom eins og kratariddarinn á hvíta hestinum inn í heilbrigðisráðuneytið úr bæjarstjórastólnum í Hafnarfirði og tók til við að sveifla niðurskurðarhnífnum. Hann endaði á kafi í drullupolli á mettíma. Og hver man ekki eftir Ingibjörgu Pálmadóttur, sem þrátt fyrir að takast að höndla erfiða tíma í ráðuneytinu, bugaðist í önnum sínum og hneig niður í beinni sjónvarpsútsendingu. Hún var örvinda og búin á því og hætti í pólitík skömmu síðar.

Ekki megum við heldur gleyma að sumir hafa höndlað verkefnið, en flestir þeirra hafa verið í ráðuneytinu á góðum tímum og komist hjá því að skera niður. Varla verður Ögmundur einn þessara ráðherra, nema þá eigi að fresta vandanum og gera hann meiri síðar.

mbl.is Innlagnargjöld afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við skulum vona að Ögmundur hafi vit á því að taka á brjálæðislegum lyfjakostnaði. Það er reyndar eilífðarverkefni sem allir ráðherrar hafa snýtt blóði af.

Annað er samsull ríkisrekins spítala þar sem sjúklingum er vísað út í bæ, t.d. í Hafnarfjörð, og einkarekinnar sjálftöku. Ekki hefur neinum ráðherra tekist að ná tökum á þeim vanda heldur.

Ráðstafanir Guðlaugs voru þær djörfustu og áhugaverðustu sem sést hafa lengi, en etv. voru hækkanir á innlagnargjöldum, hugmyndir um heimsóknargjöld, og lokun óþarfra eininga full mikið af því góða amk. í einum skammti.

Því miður er þetta sennilega alveg vonlaust hjá Ögmundi, tíminn er of stuttur og hann mun fara blóðugur af velli eins og flestir forverar hans.

Gulli sýndi góða tilburði og þarnæsti Heilbrigðisráðherra mun njóta góðs af þeim verkum.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband