Lúðvík hættir í stjórnmálum - uppstokkun í SF

Ég verð að viðurkenna að ákvörðun Lúðvíks Bergvinssonar um að hætta í stjórnmálum kom mér á óvart að sumu leyti, enda taldi ég að hann myndi frekar fara í framboð í Kraganum en hætta alveg í pólitík. Ljóst varð í raun eftir ákvörðun um að kona og karl verði að vera í tveim efstu sætum í Suðrinu að hann færi varla í framboð þar og tæki annan slag við Björgvin G. Sigurðsson. Kannski má segja að pólitísk örlög Lúðvíks hafi í raun ráðist þegar hann tapaði fyrir Björgvini í prófkjörinu haustið 2006 og missti af tækifærinu að leiða Samfylkinguna í Suðrinu, eftir að hafa áður tapað leiðtogaslag fyrir Margréti Frímannsdóttur árið 2002.

Samt kom ákvörðun Gunnars Svavarssonar, kjördæmaleiðtoga Samfylkingarinnar í Kraganum, um að hætta í pólitík mér mun meira á óvart, enda hefur hann setið á þingi í innan við tvö ár og í raun ekki reynt mikið á hann sem alvöru foringjaefni, þó hann hafi vissulega staðið vaktina í fjárlaganefndinni á þessu kjörtímabili og stundum við mjög erfiðar aðstæður. Gunnar fékk ekki ráðherrastól eftir kosningarnar 2007 og varð að horfa upp á þriðja mann á lista, sem hafði tapað leiðtogaslag við hann, verða ráðherra vegna kynjakvóta.

En Lúðvík hefur setið á þingi í fjórtán ár og átt að sumu leyti merkilegan stjórnmálaferil. Honum tókst að verða fyrsti maðurinn sem náði kjöri fyrir Alþýðuflokkinn í gamla Suðurlandskjördæmi frá því Magnús H. Magnússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sat á þingi, nokkuð sem Árna Gunnarssyni mistókst árið 1991. Lúðvík átti að mörgu leyti góð ár framan af en hefur tapað nokkrum mikilvægum pólitískum átökum að undanförnu; tapaði leiðtogaslag fyrir Margréti og Björgvini og varaformannsslag árið 2005.

Sumir tala um að stefni í litlar pólitískar uppstokkanir og breytingar. Flestir flokkar opna sín mál í prófkjörum og sumir gefa sér að flokksmenn samþykki sömu listana og allt sama fólkið aftur í frontinn. Við megum þó ekki gleyma því að flokksmenn eru í mörgum tilfellum ósáttir og þeir geta vel staðið fyrir breytingum og fellt þingmenn ef þeir eru ósáttir. Við eigum eftir að sjá hversu öflugur sá tónn verður í prófkjörunum en við getum alveg búist við því að tekið verði duglega til.


mbl.is Lúðvík gefur ekki kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þessi ákvörðun Lúðvíks kemur að sjálfu sér ekki á óvart enda hefur hann ekki náð þeim frama í flokksbrotsflokknum sem hann stefndi að.
Gunnar Svavarsson hlítur að líta til baka og velta því alvarlega fyrir sér að það hafi ekki dugað honum að vera í oddvitasæti í sínu kjördæmi og sjá þann einstakling sem tapaði og endaði í 3 sæti verða ráðherra.
Kanski var þetta stór hluti af hans ákvörðun að hætta þessu.
Þessi flokksbrotsflokkur hefur aldrei fúnkerað alminnilega að mínu mati enda kanski of mikið að biðja um það - þetta er Þjóðvaki, kennalisti, kratar og hluti af gamla alþýðuandalaginu.
Varaformaðurinn ÁÓÁ hefur aldrei notið trausts, enda treysti/þorði hann ekki í baráttu við Jóhönnu&Össur um efstu sætin en lét sér 4.sætið duga - ótrúlegt enda fékk hann ekki ráðherrastól og held ég að hann hafi ekki verið hátt skrifaður hjá formanninum.
Og eru nú að velta fyrir sér einhverskonar bræðingi með vg fyrir kosningar - vonandi þróast það í það að þetta fólk finni hvert annað í sama flokki.

Óðinn Þórisson, 19.2.2009 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband