Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Notaleg og góð stemmning var á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á Hótel KEA í kvöld . Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundarsalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér og áríðandi að flokkurinn velji sterkan lista.

Fundurinn snerist að mestu um efnahagsmálin, mál málanna á þessari stundu fyrir landsmenn alla. Tryggvi Þór Herbertsson var að mínu mati stjarna fundarins, enda talað um hans sérsvið langmest og ég tel að staða hans hafi styrkst mjög í baráttunni síðustu dagana. Miðað við frammistöðuna á fundinum tel ég mikinn meðbyr með honum og skoðunum hans. Auk þess var gaman að hlusta á nýju frambjóðendurna; þau Jens Garðar, Kristínu Lindu, Björn, Önnu Guðnýju, Sigurlaugu, Gunnar Hnefil og Soffíu.

Miklar breytingar eru framundan í þessu prófkjöri. Aðeins tveir frambjóðendur úr síðasta prófkjöri haustið 2006 gefa kost á sér aftur, þingmennirnir Kristján Þór og Arnbjörg. Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson hafa horfið af pólitíska sviðinu hér og haldið til annarra verkefna. Af listanum í kosningunum 2007 er aðeins einn annar frambjóðandi í prófkjörinu, bóndinn Kristín Linda. Því er mikil uppstokkun og verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

Baráttan um annað sætið er mikill Austfjarðaslagur. Þar er fyrir Arnbjörg Sveinsdóttir en Soffía Lárusdóttir og Tryggvi Þór sækjast eftir því sæti. Tel ekki síður spennandi að sjá hver muni ná þriðja sætinu, baráttusætinu okkar í þessum kosningum. Það val mun skipta miklu máli.

Ég hvet alla flokksmenn til að mæta á kjörstað á laugardag og taka þátt - velja forystusveitina í vor og ný þingmannsefni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband