L-listinn gefst upp - sterk staða fjórflokksins

Ég er ekki undrandi á því að L-listinn hafi gefist upp á þingframboði. Í kappi við tímann er nær vonlaust fyrir ný framboð að taka slaginn við rótgróin framboð og þarf mikla maskínu, bæði mannafla og peninga til að taka þann slag. Kannanir gefa til kynna að þetta verði kosningar fjórflokksins. Þeir muni styrkjast á kostnað fimmta flokksins sem verið hefur á þingi síðustu tíu árin og nýju framboðin nái engu flugi. Þegar er Borgarahreyfingin t.d. farin að dala í könnunum, hvað svo sem síðar verður.

Þegar safna þarf rúmlega 2500 meðmælendum á landsvísu á nokkrum vikum og ná 126 manns í framboð þarf mjög trausta maskínu. Grasrótarsamtök eða framboð virðast eiga erfitt með að ná þeim stuðningi. Eftir því sem ég heyri gengur misjafnlega að safna meðmælendum fyrir nýju framboðin. Þeir sem áður töluðu um að það yrði lítið mál eru þegar farnir að kvarta yfir því að það gangi brösuglega.

Mér sýnist að þessar kosningar muni mun frekar snúast um hvernig styrkleikahlutföll breytast meðal fjórflokksins frekar en hverjir aðrir nái inn í þá mynd. Við sjáum hvað setur. Það eru aðeins 22 dagar til kosninga og lítill tími til stefnu fyrir ný nöfn í nýjum framboðum að stimpla sig inn. Ákvörðun L-listans er fyrsta veruleikamerkið um það.

mbl.is Hættir við þingframboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Gústafsson

Jamm, erfitt að bjóða fram. Fjórflokkur! Jamm!

Alvöru framboð vita hvað þarf að gera, gera ráðstafnir og hafa stefnuskrá.

Alveg geggjað að tala um fjórflokk, þegar allt sem þarf er kunnátta, eins og t.d. VG hafa sannað. Og nú er 7 flokkar í framboði. Jafnvel flokkar sem eru á móti ,,flokkum", vilja lýðræði, en skipa bara á lista eftir frægð, geðþótta, að einhverju sem enginn veit. 

Stjórnmál snúast um hvernig á að stjórrna samfélagi, aðferðafræðileg hugtök, hagfræðileg hugtök, stjórnsipunarleg hugtök.

Allir sem vilja láta taka sig alvarlega hafa slíkt á takteinum í kosningum.

Það er með ólíkindum að fólk sem hefur skoðanir finni sig ekki í þeim flokkum sem hér bjóða fram, en ef svo er, áf hverju kynnir þetta fólk sér ekki kosningalöggjöf landsins og býður fram samkvæmt henni?

Ja, maður spyr sig!

Kveðja að vestan.

Gústaf Gústafsson, 3.4.2009 kl. 23:03

2 identicon

Það kom ég verulega á óvart að L-listinn hafi gefist upp því ef aðstæður eru ekki fyrir hendi í dag fyrir ný framboð þá er okkur ekki viðbjargandi.
 Hér fyrir neðan er viðtal við mig í Morgunblaðinu þar sem ég fór fyrir framboði Reykjanesbæjarlistans í sveitarstjórnarkosningunum 2006 í Reykjanesbæ sem var þá 5 stærsta sveitarfélagið á landinu.
Þetta framboð kostaði tæpar 320 þúsund krónur og framlag til framboðsins frá fyrirtækjum var um 215 þúsund krónur þannig að ég borgaði úr mínum vasa um 215 þúsund krónur.
Ég leyfi mér að senda fréttaviðtal hér fyrir neðan sem Morgunblaðið tók við mig sem oddvita Reykjanesbæjarlistans. Ég skora á öll ný framboð að gefast ekki upp því nú er tíminn og nú er nauðsyn að berjast til síðasta manns. 
Miðvikudaginn 24. maí, 2006 - Innlendar fréttir
Baldvin Nielsen, R-lista

Tryggt verði fyrir alþingiskosningar að álver rísi

Eftir Helga Bjarnason

Baldvin Nielsen
Baldvin Nielsen
Á hvað leggur þú áherslu við uppbyggingu atvinnu í Reykjanesbæ á komandi kjörtímabili? Ert þú fylgjandi eða andvígur þeirri vinnu sem fram fer við undirbúning álvers í Helguvík?


Á hvað leggur þú áherslu við uppbyggingu atvinnu í Reykjanesbæ á komandi kjörtímabili? Ert þú fylgjandi eða andvígur þeirri vinnu sem fram fer við undirbúning álvers í Helguvík?

"Reykjanesbæjarlistinn mun leggja áherslu á að styðja sérstaklega við minni og meðalstór framleiðslufyrirtæki ásamt fyrirtækjum sem eru í ferðaþjónustu sem vilja hefja rekstur hér í Reykjanesbæ og þeim sem eru hér fyrir en eiga erfitt uppdráttar eins og fiskiðnaðurinn. Við viljum álver í Helguvík og viljum ekki sjá leigusamninga með fyrirvörum sem búa til væntingar hjá kjósendum svona rétt fyrir kosningar, heldur viljum við að tryggt verði fyrir næstu alþingiskosningar að álverið rísi. Það er ríkisstjórnin sem ræður hvar síðasta álverið verður hér á landi þar sem Ísland er aðili að Kyoto-bókuninni. Nýjustu tíðindin í álversmálum geta hæglega gert væntingar um álver í Helguvík að engu eftir að iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, skrifaði undir viljayfirlýsingu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar 17. maí sl. ásamt Alcoa og Húsavíkurbæ um að leggja af stað með vinnu við að finna niðurstöðu sem gerði Alcoa kleift að meta hvort þeir vilji byggja 250.000 tonna álver á Húsavík. Þessi meðbyr Valgerðar innan ríkisstjórnarinnar núna hefur fengið okkur til að efast um hæfni A-listans og Sjálfstæðisflokksins hér í bæ til að koma því í höfn að álver rísi í Helguvík vegna tengsla þeirra við þessa ríkisstjórn."

Telur þú unnt og æskilegt að lækka eða fella niður innheimtu gjalda vegna vistunar barna á leikskólum?

"Reykjanesbæjarlistinn telur nauðsynlegt að koma á gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum. Við viljum svo finna nýjar tekjur sem geta tryggt að leikskóli geti orðið gjaldfrjáls að fullu. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á atvinnumál því það er undirstaða velferðar hvers bæjarfélags. Við teljum atvinnumál hafa setið á hakanum mjög lengi hér í Reykjanesbæ þar sem bæjarstjórnin hefur verið of upptekin við að breyta eigum sínum í peninga til að getað fegrað bæinn og um leið búið til atvinnu tímabundið. Það hefur falið á sama tíma raunverulegt atvinnustig hér í bænum sem hægt er að byggja á til framtíðar. Við viljum leggja niður Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum til hagræðis og sameina Suðurnesjabyggðir í eitt sterkt sveitarfélag til mótvægis við höfuðborgarsvæðið, það myndi stórauka tekjurnar sem tryggði að hægt yrði að klára dæmið að koma á gjaldfrjálsum leikskóla á öllu svæðinu og gott betur."

Telur þú unnt að auka stuðning við fjölskyldur í Reykjanesbæ og hvaða atriði ættu þá að hafa forgang á næsta kjörtímabili?

"Reykjanesbæjarlistinn vill að fólk með lágar tekjur fái tækifæri til að sækja sér vinnu inn á höfuðborgarsvæðið og verði styrkt af bæjarfélaginu til þeirra ferða. Við skilgreinum lágar tekjur laun sem eru lægri en 170.000 krónur á mánuði. Reykjanesbæjarlistinn vill að farið verði gaumgæfilega ofan í verklagsreglur fjölskylduþjónustunnar, til dæmis að meðlagsgreiðendur verði skilgreindir sem framfærendur barna sinna. Við viljum aðlaga grunnskólana enn frekar að þörfum barnanna og fjölskyldna þeirra, og sérstaklega líta til með þeim sem eiga erfitt uppdráttar, börnum með ofvirkni, athyglisbrest og annað sem snýr að geðheilbrigði sem dæmi."

Styður þú áframhaldandi samvinnu við Fasteign hf. um uppbyggingu og rekstur húsnæðis fyrir bæjarfélagið eða telur þú að kaupa eigi til baka þær eignir sem lagðar hafa verið inn í Fasteign? Hvað ræður afstöðu þinni?

"Reykjanesbæjarlistinn telur það hafa verið mistök að fara þá leið á sínum tíma að selja fasteignir bæjarins en eins og umhorfs er í atvinnumálum hér á svæðinu í dag teljum við að það sé ekki tímabært að eyða orkunni í að hrófla við þessu. Við getum ekki séð að það sé ódýrara að taka marga milljarða króna lán, gengistryggt með tilheyrandi kostnaði af lántökunni og af stimpilgjöldunum. Reykjanesbær hefur selt allar fasteignir sínar til Fasteignar hf. sem leigði svo Reykjanesbæ eignirnar strax eftir gerð afsala. Þetta er nú allur galdurinn við það hvers vegna svo mikið eigið fé varð til í bæjarsjóði allt í einu sem gerði Reykjanesbæ svo kleift að fara í miklar framkvæmdir hér undanfarin ár sem sannalega hafa fegrað bæinn okkar mikið. Reykjanesbær mun hér eftir að óbreyttu gera leigusamninga fyrirfram við Fasteign hf., svo semja þeir við viðkomandi verktaka um að reisa byggingu fyrir Fasteign hf. sem bærinn tekur svo við að framkvæmd lokinni samkvæmt leigusamningi, sem dæmi má nefna nýju sundlaugina. Hér er um að ræða gengistryggða leigusamninga sem hafa hækkað um 30% frá áramótum vegna gengisfalls krónunnar. Reykjanesbær á 35% í Fasteign hf. í formi hlutabréfa og erfitt er að átta sig á verðmæti þeirra því erfitt er að sjá hver vill kaupa hlut í grunnskólabyggingu, til dæmis."

Hvernig vilt þú að bæjarfélagið beiti sér vegna breytinga hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli? Hvaða tækifæri telur þú að kunni að felast í stöðunni?

"Reykjanesbæjarlistinn leggur áherslu á í samningum við Bandaríkjamenn að við fáum full afnot af olíubirgðastöðinni í Helguvík og að hún sinni eldsneytisþörf Keflavíkurflugvallar og Suðurnesja í heild sinni. Ef fram fer sem horfir með herinn mun flugtengd starfsemi á alþjóðavísu aukast stórlega í framtíðinni.Við viljum einnig beina því til stjórnvalda að vegna brotthvarfs hersins verði leyfðar frjálsar krókaveiðar smábáta við Reykjanesið allt að 6 sjómílur út og svæðið lokað öllum öðrum veiðarfærum. Þessi heimild verði aðeins veitt þeim aðilum sem skráðir eru og landa aflanum á svæðinu. Þessi aðgerð myndi líka leggja af leiguliðaútgerðir (nútímaþrælahaldið) sem flestar eru hér á landinu. Þá fyrst gætu menn gert út með reisn og skilað einhverju til samfélagsins hér í stað þess, eins og það hefur verið allmörg ár, að allur ágóðinn fari beint til sægreifanna sem búa ekki hér svæðinu og skaðinn sé okkar."

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Óflokksbundinn og veit ekkert hvað ég á að kjósa í kosningunum 25.apríl nk. en ég veit hvern ég ætla ekki að kjósa.

B.N. (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 23:07

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Einokunarstarfsemi Fjórflokksins heldur áfram, og þú ert þér meðvitaður um það, Stefán, ólíkt mörgum flokksmönnum okkar.

Ég þakka þér hreinskilnina.

Hér er mikilvæg grein og vefslóð, með augnaopnandi upplýsingum um skammarlegt, margþætt misrétti gagnvart nýjum flokkum og framboðshreyfingum:

Skipulagsbundið ofríki Fjórflokksins afhjúpað fyrir umheiminum (sjá sérstaklega aths. þar kl. 20:36, í 6 liðum til að telja upp helzta misréttið).

Hvatt hef ég L-listamenn til að KÆRA allt þetta ranglæti til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, RÖSE (56 ríki frá Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku eiga aðild að þeirri alþjóðastofnun).

RÖSE-menn eru reyndar nú þegar í aðdraganda þessara komandi kosninga farnir að fylgjast með okkar ólýðræðislegu háttum í sambandi við kosningakerfið, kjördæmaskipan, atkvæðavægi o.s.frv. Þeir hafa hér mikið verk að vinna!

Jón Valur Jensson, 3.4.2009 kl. 23:54

4 identicon

105 þúsund krónur átti það að vera sem ég borgaði úr mínum vasa ekki 215 þúsund krónur.

Reykjanesbæjarlistinn fékk í þessum kosningum 0,6% atkvæða.  Framboðið mældist hæst 1.7% í skoðunarkönnunum.

Kjósandinn á alltaf síðasta orðið hvað hann gerir í kjörklefanum sama hvort allt sé í góðu eða ei í þjóðfélaginu.

Ábyrgðin er mikill hjá okkur sjálfum því hvert okkar er brot sem býr til gott og flott lýðræði. 

Eftir því sem fleirri rækta sjálfa sig til að taka þátt í stjórnmálum því betra og sterkara verður lýðræðið.

Sé lýðræðið veikt og sjúkt er það okkur um að kenna sem þjóð. 

Baldvin Nielsen,Reykjanesbæ  

B.N. (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 23:59

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta eru engar fréttir fyrir mig og samherja mína úr kosningabaráttu Íslandshreyfingarinnar 2007.

Auk allra hindrananna sem lagaumhverfið lagði fyrir framboðið þessan eina mánuð sem leið frá stofnun flokksins þar til framboðsfrestur rann út, gerðu ljósvakamiðlarnir því sérlega erfitt fyrir með því að hefja kosningaútvarp og sjónvarp löngu áður en framboðsfrestur rann út.

Framboðið fór af stað með tvær hendur tómar á móti tugum milljóna sem hin framboðin höfðu úr að spila, jafnvel á annað hundrað milljónir þau stærstu.

Þrátt fyrir fylgi í skoðanakönnunum frá því í fyrravoru, sem samsvaraði 4000-8000 atkvæðum, var það niðurstaða yfirgnæfandi meirihluta flokksmanna nú að leggja ekki út í tvísýna og enn erfiðari baráttu innan um þrjú önnur lítil framboð.

Hvað varðar aðalbaráttumál okkar reyndist sú ákvörðun rétt, miðað við stöðuna, að gerast aðilar að Samfylkinginunni og ná umtalsverðum árangri í stefnumótun hennar á síðasta landsfundi hennar.

Stjórnmál hafa verið sögð vera list hins mögulega og það átti við í þetta sinn hjá okkur.

Ómar Ragnarsson, 4.4.2009 kl. 00:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband