Samfylkingin múrar sig inni í Evrópumálunum

Eftir því sem hefur liðið á daginn hefur orðið æ augljósara að Samfylkingin hefur múrað sig inni með Evrópumálin með samkomulaginu við vinstri græna um að láta þingið kjósa um aðildarviðræður. Borin von er að stjórnarandstaðan muni skera ríkisstjórnina, sem nær ekki samkomulagi í þessu lykilmáli Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni, niður úr snörunni og hjálpa henni að koma því í ferli. Framsóknarflokkurinn hefur sérstaklega lagt lykkju á leið sína og snuprað Samfylkinguna, sem slær á möguleikann á sob-bandalagi um Evrópumálin.

Eðlilega situr Sjálfstæðisflokkurinn hjá eins og staða málsins er. Fjarstæða er að Samfylkingin fái einhliða umboð þingsins, með VG haltan og hlekkjaðan á hliðarlínunni, til að fara til Brussel og semja í aðildarviðræðum. Þar sem varla hefur heyrst nein málefnaleg umræða um Evrópumálin í Samfylkingunni um bæði kosti og galla aðildar er það hrein fjarstæða að einhliða trúboðar aðildarinnar fari í nafni þingsins og semji.

Mér finnst það dæmi um veikburða ríkisstjórn sem getur ekki komið sér saman um Evrópumálin á hvorn veginn sem það er, setja þau á dagskrá eður ei, og þurfi á stjórnarandstöðunni að halda til að koma málum á rekspöl. Slík stjórn getur varla verið á vetur setjandi.

mbl.is Gæti orðið stutt kjörtímabil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég sé ekki annað en að þingmenn verði að kjósa eftir sannfæringu sinni ef aðildarviðræður eru bornar upp til atkvæða á Alþingi.

Allir þingmenn Samfylkingar (20), þingmenn Framsóknarflokksins (9) og Borgarahreyfingarinnar (4) munu eflaust mæla með aðildarviðræðum við ESB. Þetta eru samkvæmt minni talningu 33 talsins. Við megum ekki gleyma að þetta var aðalkosningamál Samfylkingar og Framsóknarflokkurinn samþykkti á landsfundi sínum að ganga til viðræðna með ströngum skilyrðum þó. Ef Borgarahreyfingin meinar eitthvað með því sem hún hélt fram í kosningunum, þá vill hún að borgarar landsins eigi síðasta orðið í málum sem þessum og því ætti ekki þeim ekki að verða skotaskuld úr því að samþykkja viðræður með því skilyrði að þjóðin kysi síðan um samninginn.

Þeir sem eru andsnúnir eru þingmenn Sjálfstæðisflokks (16) og þingmenn VG (14) sem eru 30 talsins.

Er þetta ekki meirihluti? Ég efast ekki um að Samfylkingin hefur þreifað á Borgarahreyfingunni og Framsóknarflokknum áður en hún gekk frá þessu máli við VG. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 5.5.2009 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband