Sigmundur styrkir stöðu sína - nýliðar í forystu

Forysta Framsóknarflokksins kemur nokkuð á óvart með því að velja þrjá kjördæmaleiðtoga sem allir eru nýkjörnir á Alþingi til að stýra þingflokki sínum. Flokksformaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er greinilega að styrkja tök sín á flokknum með því að velja Gunnar Braga Sveinsson sem þingflokksformann fram yfir Siv Friðleifsdóttur, fráfarandi formann þingflokksins, eða keppinaut sinn um formennskuna, Höskuld Þórhallsson. Átti fyrirfram von á því að annað þeirra hlyti hnossið. Valið hlýtur að benda til þess að Sigmundur sé að sýna að hann ráði för. 

Auk Gunnars Braga velur flokksforystan Sigurð Inga Jóhannesson, sem leiðir flokkinn í Suðurkjördæmi, kjördæmi Guðna Ágústssonar, og mágkonu Guðna, Vigdísi Hauksdóttur til verka. Reyndar verður ekki annað sagt en ásýnd Framsóknarflokksins sé mjög fersk þegar þing kemur saman eftir þessar alþingiskosningar. Aðeins Siv Friðleifsdóttir hefur setið á þingi lengur en sex ár; auk þess hafa aðeins Birkir Jón og Höskuldur hafa setið lengur en nýliðarnir sex í þingflokknum.

Sigmundur Davíð kom nýr inn í forystu íslenskra stjórnmála í ársbyrjun. Hann kom inn í rótgróinn þingflokk þar sem hann réð greinilega ekki alltaf för, eins og sást t.d. í stjórnarmynduninni og í eftirleiknum þegar hann átti erfitt með að sækja sér áhrif, enda utan þings. Staða hans hefur breyst mjög og nú er nýtt fólk sett yfir þingflokkinn.

Skilaboðin hljóta að teljast skýr. Nýr formaður velur nýtt fólk til verka, sitt fólk. Með því hlýtur staða hans að styrkjast innan flokksins.


mbl.is Gunnar Bragi þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband