Samfylkingin minni en VG í tveim kjördæmum

Gallup-könnun

Það er fróðlegt að fara vel yfir síðustu mánaðarkönnun Gallups. Þar sést t.d. að VG er stærri en Samfylkingin í tveim kjördæmum; Norðvestur- og Norðausturkjördæmi, og jafnstór henni í einu, og að Frjálslyndi flokkurinn er nærri jafnvinsæll í Reykjavík suður (kjördæmi Margrétar Sverrisdóttur) og í Norðvesturkjördæmi, pólitísku heimavígi Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkast að vígi í Suðvesturkjördæmi, með 42%, en borgarkjördæmin koma skammt undan. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur fallið niður í 28% í Norðvesturkjördæmi en þar munar aðeins þrem prósentustigum á Sjálfstæðisflokknum og VG. Taflan hér að ofan segir sína sögu sjálf.

Framsóknarflokkurinn virðist eiga í verulegum erfiðleikum og hefur t.d. misst talsvert fylgi síðustu mánuðina hér í Norðausturkjördæmi og er komið niður í 15% á meðan að flokkurinn mælist hæstur með 17% í Norðvesturkjördæmi. Athygli vekur að Framsókn hefur eflst um helming á einum mánuði í Reykjavík suður, kjördæmi Jónínu Bjartmarz og svipað í Kraganum, kjördæmi Sivjar Friðleifsdóttur. Flokkurinn fer bráðlega að nálgast það að koma þar inn mönnum. Í kjördæmi Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, Reykjavík norður, mælist hann með 3%.

Staða Samfylkingarinnar er vissulega athyglisverð. Flokkurinn mælist hvergi yfir 30% fylgi og er fjarri því að eiga fyrsta þingmann kjördæmis í nokkru kjördæma landsins. Nú hefur Samfylkingin fyrsta kjördæmaþingmann í Reykjavík norður og Suðurkjördæmi. Í báðum kjördæmum er nú vel yfir 10% munur á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Sjálfstæðisflokknum í vil. Í heildina er þetta mjög athyglisverð tafla.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Þetta er vissulega áhugaverðar niðurstöður og fín úttekt hjá þér. Margt sem kemur á óvart og annað ekki. Við Vinstri græn erum auðvitað ánægð með stöðuna. Þetta verður spennandi vor!

Hlynur Hallsson, 3.1.2007 kl. 15:14

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sæll Hlynur

Takk fyrir kommentið. Já, þetta er mjög athyglisverð könnun og merkilegt að sjá hversu VG er orðið sterkara en Samfylkingin í mörgum kjördæmum. Það lítur út fyrir að meginbaráttan hér verði milli VG, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sennilega meiri þeirra tveggja fyrrnefndu. Annars er ekki rétt að vanmeta Framsóknarflokkinn, margir fóru flatt á því síðast, en þá komu þeir aftan úr slæmri stöðu og fengu fjóra hér. Þeir endurtaka þann leik þó ekki tel ég, en gætu fengið þrjá ef þeir verða í sama ham og síðast. Er þó ekki viss um að gæfustjarnan þeirra sé þeim svo drjúg nú.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.1.2007 kl. 16:02

3 Smámynd: Egill Óskarsson

Erum við ekki bara að horfa á það að vinstri flokkarnir tveir eru að falla í sama far og gömlu A-flokkarnir voru í? Svo virðist sem að stóra sameiningin á vinstri vængnum hafi mistekist, enda virðist vera mikill hugmyndafræðilegur munur á krötum og VG. Kannski var þetta alltaf dauðadæmt?

Egill Óskarsson, 4.1.2007 kl. 01:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband