Engin fyrirsögn

Staðfestingarferli vegna skipunar
Samuel Alito í hæstarétt Bandaríkjanna


Samuel Alito

Í gær kom Samuel Alito fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og með því hófst staðfestingarferli vegna skipunar hans í Hæstarétt Bandaríkjanna. Var hann skipaður til setu í réttinum af George W. Bush forseta Bandaríkjanna, þann 31. október sl. sem eftirmaður Söndru Day O'Connor, sem tók fyrst kvenna sæti í réttinum árið 1981. Var hann þriðja dómaraefnið sem skipað var í stað Söndru. Upphaflega, fyrr í sumar, í kjölfar afsagnar Söndru hafði forsetinn skipað John G. Roberts sem dómara við réttinn. Í kjölfar andláts William H. Rehnquist forseta Hæstaréttar, í septemberbyrjun, var Roberts skipaður í stað hans og var staðfestur sem forseti réttarins í lok september. Þá skipaði forsetinn Harriet Miers yfirlögfræðing Hvíta hússins, sem dómara. Hætti hún að lokum við að þiggja útnefninguna er sýnt varð að henni skorti nauðsynlegan meirihluta í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og í þingdeildinni sjálfri.

Andstaða við hana innan hins íhaldssama arms Repúblikanaflokksins varð henni að falli - án þess stuðnings var borin von að hún hlyti tilskilinn stuðning í þinginu. Því fór sem fór. Brotthvarf Miers frá ferlinu og erfiðleikar hennar í stöðunni markaði vandræðalegt ástand fyrir forsetann. Það hefur enda jafnan þótt vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið. Tók Bush forseti engar áhættur í valinu á næsta dómaraefni. Skipaður var tryggur hægrimaður - umfram allt tryggur íhaldsmaður í lykilmálum. Alito er mjög tryggur íhaldsmaður hvað varðar þau lykilmál sem deilt hefur verið um seinustu árin. Hann er allavega talinn svo líkur hæstaréttardómaranum íhaldssama Antonin Scalia, að hann er almennt uppnefndur Scalito. Þessi brandari hefur löngum þótt lífseigur og rifjast upp nú þegar hann hefur baráttuna fyrir staðfestingu þingsins í embættið.

Bakgrunnur Alito er mjög honum til styrktar hvað varðar stuðning repúblikana í þinginu. Bush gerði sér allavega grein fyrir því hvaða stuðning þarf til að dómaraefnið komist heilt í land - vandræði Miers og harkaleg endalok staðfestingarferlisins sannfærðu hann vel um það. Því var skipaður tryggur íhaldsmaður með þær grunnskoðanir sem forsetinn telur þurfa til að dómaraefnið nái í gegnum hið langvinna og harðvítuga ferli. Búast má við umtalsverðum deilum og hefur það sést vel seinustu vikur af tali demókrata - verið er að spila um mun meira nú en þegar Roberts kom fyrir dómsmálanefndina í haust. Nú er verið að fylla í skarð Söndru, sem var þekkt sem swing vote í réttinum. Búast má við að demókratar berjist hatrammlega gegn því að yfirlýstur íhaldsmaður taki við af Söndru. Þegar hafa þekktir demókratar tjáð andstöðu sína við Alito og líklegt að nokkur átök verði í þinginu. Um mun meira er enda verið að spila nú en þegar Roberts kom fyrir þingið.

Samuel Alito

Samuel Alito er fæddur í Trenton í New Jersey hinn 1. apríl 1950. Hann útskrifaðist frá Princeton-háskóla árið 1972 og fór í Yale lagaskólann að því loknu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1975. Árin 1976-1977 starfaði hann sem aðstoðarmaður alríkisdómarans Leonard I. Garth. Árin 1977-1981 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra New Jersey-fylkis. 1981-1985 var Alito aðstoðarmaður Rex E. Lee lagasérfræðings Hvíta hússins. Árin 1985-1987 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í ráðherratíð Edwin Meese. 1987-1990 var Alito saksóknari New Jersey-fylkis. Frá árinu 1990 hefur Alito verið alríkisdómari við áfrýjunardómstólinn í Philadelphiu. Hann hefur flutt tólf mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og býr því yfir víðtækri reynslu. Alito og eiginkona hans, Martha, búa í West Caldwell í New-Jersey. Þau eiga tvö börn, soninn Phil og dótturina Lauru. Eins og sést á upptalningu á verkum Alito hefur hann gríðarlega reynslu að baki og erfitt verður að finna að verkum hans sem lagasérfræðings.

Það er jafnan talin ein helsta arfleifð forseta Bandaríkjanna á hverjum tíma hverja hann tilnefnir til setu í hæstarétti Bandaríkjanna. Með vali sínu getur forsetinn sett mark sitt á stefnu réttarins og samfélagið á hverjum tíma ennfremur. Til dæmis mun það væntanlega verða ein helsta arfleifð forsetatíðar George W. Bush að á þeim tíma varð hinn 55 ára gamli John G. Roberts forseti réttarins - einkum í ljósi þess hversu ungur hann er og hversu víðtæk áhrif Roberts-rétturinn mun hafa um langt skeið. Eins og vel hefur komið fram í uppstokkunarferlinu í réttinum seinustu mánuði verður dómaraefni forsetans að hljóta staðfestingu meirihluta öldungadeildar Bandaríkjaþings og því er forsetinn auðvitað ekki einráður um það hverjir veljast þar til setu. Þingið verður að samþykkja þann kost sem forsetinn telur vænlegastan. Hæstiréttur Bandaríkjanna er stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Bandarískir hæstaréttardómarar eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Gott dæmi um þetta er að William H. Rehnquist sat í réttinum í 33 ár (frá því í forsetatíð Richard M. Nixon) og var forseti hans í tæpa tvo áratugi, árin 1986-2005. Tveir dómaranna eru undir sextugu, Roberts sem er 55 ára gamall og Clarence Thomas sem verður 58 ára á þessu ári. Er Roberts var staðfestur til setu í réttinum hafði ekki losnað þar sæti í áratug, en síðast áður hafði verið skipað í réttinn árið 1994 er Bill Clinton tilnefndi Stephen Breyer. Segja má því með sanni að Alito sé einn virtasti og hæfasti dómari í Bandaríkjunum. Ólíkt Harriet Miers hafa demókratar fátt á hann er staðfestingarferlið hefst. Verður merkilegt að fylgjast með því er hann kemur fyrir dómsmálanefndina og svarar þar spurningum um lagaleg álitaefni og hitamál samtímans.

Samuel Alito

Þrátt fyrir kurteislegt yfirbragð við upphaf staðfestingarferlisins í Washington í gær var alvarleikinn áberandi. Við blasir að Arlen Specter og Patrick Leahy, leiðtogar repúblikana og demókrata í nefndinni, eru ósammála um ágæti hins tilnefnda og búast má við að demókratar verði mjög aðgangsharðir í spurningum. Þegar er ljóst að demókratarnir Dianne Feinstein, Edward Kennedy og Charles Schumer muni verða mjög hvassir í ferlinu og hafa hótað því að reyna að hindra staðfestingarkosningu fyrir deildinni svari hann ekki spurningum um mikilvæg málefni eins og málefni samkynhneigðra og fóstureyðingar. Búast má við að Alito fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. Greinilegt er að andstæðingar íhaldsgildanna eru að búa sig undir átök í samfélaginu og spurning hvað gerist með demókratana sem helst hafa haldið uppi andmælum við tilnefningunni. Það er alveg ljóst að ef átök verða vegna skipanarinnar fyrir þinginu muni þau verða mjög harkaleg.

Frjálslyndir telja Samuel Alito ekki viðeigandi dómaraefni - hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Alito sé alfarið andvígur fyrri afstöðu Hæstiréttar til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade frá árinu 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann til muna. Þó hefur Alito ekki fullyrt í fjölmiðlum að það verði að gera. En demókratar óttast stöðu mála með Alito sem oddaatkvæðið í mikilvægum málum er hann hefur tekið sæti Söndru Day O'Connor. En nú ræðst hvert ferlið stefnir. Það er þó alveg ljóst að staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík, ef harka leggst í málið. En almennt talið af sérfræðingum sem tjáð hafa sig í fjölmiðlum að líkur á hvassyrtu staðfestingarferli hafi aukist til muna. Muni aðgangsharka demókrata í ferlinu í dómsmálanefndinni velta mjög á svörum Alito er demókratarnir fara að spyrja um hitamálin fyrrnefndu.

Samuel Alito

Tel ég viðbúið að búast megi við átökum fyrir þinginu vegna skipunar Bush forseta á kaþólikkanum Alito í Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar verða átakapunktarnir klassískir - en umfram allt harðir. Þar takast á grunnpólar, með og á móti íhaldssömum sjónarmiðum. Verður sá slagur mjög hvass, enda mun sá sem tekur sæti Söndru Day O'Connor í réttinum hafa umtalsverð áhrif á skipan mála á komandi árum og framvindu hitamálanna sem allir þekkja. Því má búast við að það muni reyna mjög bæði á Alito, sem berst fyrir staðfestingu þingsins, og ekki síður George W. Bush, sem skipar hann til setu í réttinum.

Saga dagsins
1884 Ísafold, sem varð fyrsta stúka góðtemplara, var formlega stofnuð í Friðbjarnarhúsi á Akureyri.
1942 Ford bílaverksmiðjurnar hófu framleiðslu á jeppum, sem varð notaður fyrst sem farartæki í hernaði. Jeppinn náði fljótt miklum vinsældum og hefur síðan orðið eitt helsta farartæki samtímans.
1944 Laxfoss strandar í byl út af Örfirisey - mannbjörg varð. Endurbyggt en fórst síðar við Kjalarnes.
1957 Harold Macmillan fjármálaráðherra Bretlands, tekur við embætti sem forsætisráðherra Breta.
1994 Þyrla varnarliðsins bjargar 6 mönnum af Goðanum í Vöðlavík á Austfjörðum - einn maður fórst.

Snjallyrðið
Hvað er nú tungan? - Ætli engin
orðin tóm séu lífsins forði.
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði.
Sr. Matthías Jochumsson prestur og skáld (1835-1920) (Íslensk tunga)


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í fyrsta sunnudagspistli ársins 2006 fjalla ég um þrjú mál:

- í fyrsta lagi fjalla ég um áramótapistil minn sem birtist á gamlársdag á vef SUS og það sem í mínum huga stendur uppúr frá liðnu ári, ennfremur fjalla ég um áramótauppgjör forsætis- og utanríkisráðherra og fróðlegar umræður í Kryddsíld á fréttastöðinni NFS á gamlársdag. Mörgum að óvörum útnefndi fréttastofa NFS, Davíð Oddsson seðlabankastjóra, sem mann ársins 2005. Sérstaklega beini ég sjónum mínum í umfjölluninni að grein Geirs H. Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu á gamlársdag. Þar beinir Geir helst sjónum sínum að þeim skattalækkunum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur staðið fyrir á þessu kjörtímabili. Ýmsar breytingar urðu þar um áramótin, t.d. var eignarskattur afnuminn og tekjuskattur lækkaði.

- í öðru lagi fjalla ég um veikindi Ariels Sharons forsætisráðherra Ísraels, sem fékk alvarlegt heilablóðfall í vikunni. Það hefur sýnt sig seinustu daga að ísraelska þjóðin er þrumu lostin vegna veikindanna og óvissustaðan er mikil. Einkum er það auðvitað viðbúið sérstaklega vegna þess hversu stutt er til kosninga í landinu og raun ber vitni. Mikil óvissa hefur einkennt ísraelsk stjórnmál allt frá því að Sharon baðst lausnar í nóvember og boðað var til þingkosninga þann 28. mars. Jafnframt tilkynnti Sharon að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið og stofna nýjan flokk, Kadima. Nú horfir svo við að kosningabaráttan er að hefjast á fullum krafti. Við upphaf hennar liggur forsætisráðherra landsins og vinsælasti stjórnmálamaður landsins í dái á sjúkrahúsi.

- í þriðja lagi fjalla ég um stöðuna í breskum stjórnmálum en Charles Kennedy leiðtogi frjálslyndra, hefur sagt af sér eftir að boðuð hafði verið vantraustskosning gegn honum. Með þessu lauk tæplega sjö ára löngum leiðtogaferli Kennedys. Merkilegt er hvernig ferlinum lauk. Árið 2005 var enda sigursælasta ár flokksins í áttatíu ára sögu hans og hann náði sínum bestu kosningaúrslitum frá stofnun. Á meðan að frjálslyndir glíma við innri vandamál styrkist sífellt staða David Cameron og íhaldsmanna.


Spennumyndir eftir sögum
Agöthu Christie


Agatha Christie (1890-1976)

Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi spennusagna bresku skáldsagnakonunnar Agöthu Christie. Hún var drottning spennusagnanna á 20. öld - enginn var betri en Agatha í þessum geira. Hún kunni betur þá list en nokkur annar að segja flotta spennusögu sem hélt plottinu leyndu allt til loka. Á ég nokkrar af bókum hennar og ennfremur fjölda kvikmynda eftir sögum hennar. Lengi hef ég metið mest spennusögur hennar um leynilögreglumanninn Hercule Poirot. Að öðrum ólöstuðum var hann besta spennusagnahetjan hennar. Að kvöldi þorláksmessu bar svo við að Ríkissjónvarpið sýndi eina bestu myndina eftir sögum hennar, Evil under the Sun. Um kvöldið, er öllum jólaundirbúningi var lokið, settist ég því niður og horfði á þessa flottu mynd. Ótrúlegt en satt var það í fyrsta skiptið í um áratug sem ég sá myndina. Reyndar fyrsta skiptið sem ég sá hana einn. Mér fannst myndin ennþá betri í það skiptið en oft áður. Horfði ég á með miklum áhuga, þó að ég vissi auðvitað allt plottið frá upphafi til enda bakvið morðið á Arlenu Stuart, aðalpersónunni sem myrt er um miðbik myndarinnar. Myndin er sólrík og flott - allt smellur saman.

Það er enda oft svo að maður skynjar betur plottið með því að fara yfir atburðarásina vitandi niðurstöðuna. Þá sér maður enn betur smáatriðin sem máli skipta. Best er þó auðvitað að sjá myndina fyrsta sinni, vitandi ekki um neitt hver hinn seki er - þá getur maður spáð og spekúlerað í niðurstöðunni og reynt að vita hver hinn seki er. Þegar ég sá myndina fyrst árið 1989 þóttist ég viss nær alla atburðarásina hver hinn seki væri. Vitaskuld var það vitlaust mat og Agatha kom mér á óvart - ekki í fyrsta skiptið né hið síðasta. Hún var sannkallaður snillingur í fléttumyndun hinnar fullkomnu skáldsögu. Í Evil under the Sun leikur óskarsverðlaunaleikarinn Sir Peter Ustinov aðalsöguhetjuna. Hann varð ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir leik sinn á spæjaranum í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratugnum. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik í aukahlutverki, í kvikmyndunum Spartacus og Topkaki. Lést hann í marsmánuði 2004. Oft átti hann stórleik á glæsilegum ferli, t.d. sem Poirot (enginn kom einkaspæjaranum betur til skila á hvíta tjaldinu en hann að mínu mati).

Um jólin hélt ég áfram að horfa á Poirot-myndir - þetta voru því sannkölluð spennujól og gaman að horfa á þessar myndir aftur. Sá t.d. Death on the Nile (aðra Poirot-mynd með Ustinov) og Murder on the Orient Express (þar sem Albert Finney leikur Poirot með snilldarbrag). Báðar eru í sérflokki. Þær eru alltaf viðeigandi - flottar og vel gerðar. Ég hvet alla unnendur góðra spennumynda um að horfa á þessar myndir - hafi þeir tækifæri til. Nú ef ekki er að fara út í næsta bókasafn og fá bækur Agöthu og kynna sér meistaraverk hennar. Oft er ekki síðra að lesa bækurnar og skapa söguhetjurnar í huga sér og kynna sér plottið betur áður en horft er á myndirnar.

Saga dagsins
1895 Framsókn, fyrsta kvennablaðið hérlendis, hefur göngu sína á Seyðisfirði. Kom út allt til 1903.
1928 Knattspyrnufélag Akureyrar, KA, stofnað á Akureyri - alla tíð stærsta íþróttafélagið á Akureyri.
1959 Charles De Gaulle hershöfðingi, tekur við forsetaembættinu í Frakklandi - var við völd til 1969.
1965 Sigríður Sigurðardóttir handknattleikskona, var kjörin íþróttamaður ársins, fyrst allra kvenna.
1996 Francois Mitterrand fyrrv. forseti Frakklands, lést úr krabbameini, 79 árs að aldri. Mitterrand gegndi embætti forseta landsins, lengur en nokkur annar, í rúm 14 ár, eða á tímabilinu 1981-1995.

Snjallyrðið
Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við.
Minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum, ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,
heyrirðu storminn kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina
sem aldrei gleymi, meðan lífs ég er.
Valdimar Hólm Hallstað skáld (1905-1996) (Í fjarlægð)


Engin fyrirsögn

Veikindi Ariel Sharon


Ariel Sharon

Sl. miðvikudagskvöld var Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, fluttur á Hadassah-sjúkrahúsið öðru sinni. Fljótlega kom í ljós að hann hefði fengið heilablóðfall öðru sinni og það væri mun alvarlegra en hið fyrra sem hann fékk um miðjan desembermánuð. Sharon sýndi þá engin merki alvarlegrar heilabilunar eða þess að veikindin hefðu sett mark á hann að neinu alvarlegu ráði. Sharon var útskrifaður af sjúkrahúsinu tveim dögum síðar. Birtist hann skælbrosandi er hann yfirgaf spítalann og sagði heilsu sína góða. Fréttir bárust þó af því að læknar hefðu fyrirskipað honum að leggja af, en hann hefur til fjölda ára verið of þungur og barist við offituvandamál. Í þetta sinn var sýnt að staða mála væri grafalvarleg. Var hann færður í bráðaaðgerð eftir að komið hafði í ljós í sneiðmyndatæki alvarleg heilablæðing. Var forsætisráðherrann á skurðarborðinu í tæpa sjö klukkutíma. Að því loknu var heili Sharons kannaður að nýju í sneiðmyndatækinu. Kom önnur blæðing í ljós og önnur aðgerð tók við, að þessu sinni í rúma fjóra tíma. Sólarhring síðar tók við þriðja aðgerðin.

Umheiminum varð ljóst að veikindi Sharons væru lífshættuleg. Þeir sem þekkja til veikinda af þessu tagi vita að heilablóðfall er dauðans alvara. Það boðar enda aldrei gott þegar að sjúklingur er á skurðarborðinu í aðgerð á heila í tæpa tólf tíma á innan við sólarhring. Blæðing í heilanum boðar enda í fjölda tilfella mikinn skaða, lömun og getur auðvitað leitt til dauða. Þegar um er að ræða jafnáhrifamikinn mann og forsætisráðherra Ísraels lamast auðvitað stjórnmálalitrófið. Enda hefur það sýnt sig seinustu daga að ísraelska þjóðin er þrumu lostin vegna veikindanna og óvissustaðan er mikil. Einkum er það auðvitað viðbúið sérstaklega vegna þess hversu stutt er til kosninga í landinu og raun ber vitni. Mikil óvissa hefur einkennt ísraelsk stjórnmál allt frá því að Sharon baðst lausnar og boðað var til þingkosninga þann 28. mars. Jafnframt tilkynnti Sharon að hann hefði ákveðið að segja skilið við Likud-bandalagið, sem hann hafði leitt frá árinu 1999. Hann var einn af stofnfélögum í flokknum árið 1973 og lykilforystumaður innan hans alla tíð.

Ariel Sharon

Í nóvember tilkynnti Sharon um stofnun nýs flokks síns, miðjuflokksins Kadima. Nú horfir svo við að kosningabaráttan er að hefjast á fullum krafti. Við upphaf hennar liggur forsætisráðherra landsins og vinsælasti stjórnmálamaður landsins í dái á sjúkrahúsi. Um leið og ljóst varð að kvöldi miðvikudags að Sharon hefði fengið annað heilablóðfall og þyrfti að fara í aðgerð var ákveðið að Ehud Olmert aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, tæki við völdum hans. Segja má að sú staða sé nú komin upp að Olmert sé orðinn forystumaður í ísraelskum stjórnmálum. Litlar sem engar líkur eru enda á því að skriðdrekinn Sharon nái að sigrast svo á þessum veikindum að hann geti snúið til starfa að nýju. Reyndar má telja kraftaverki líkast ef Sharon tekst að halda lífi eftir þessi alvarlegu veikindi og þrjár heilaskurðaðgerðir á innan við þrem sólarhringum. Jafnvel kraftaverkamaður á borð við Sharon er ekki líklegur til að snúa aftur í forystu stjórnmálaheimsins eftir slíkt áfall. Reyndar hefur verið sagt seinasta sólarhringinn að líðan hans sé betri en pólitísk endurkoma er þó mjög ólíkleg.

Það er því mikið tómarúm sem fylgir stöðu mála í ísraelskum stjórnmálum þessa stundina. Ariel Sharon var enda bæði umdeildasti stjórnmálamaður Ísraels undanfarna áratugi og jafnframt sá vinsælasti. Telja má líklegt að Olmert muni nú takast á hendur það verkefni að leysa Sharon af hólmi og leiða Kadima inn í þingkosningarnar þann 28. mars. Vandinn sem blasir við Olmert er auðvitað tvíþættur. Í fyrra lagi er ekki formlega búið að byggja Kadima upp sem stjórnmálaflokk - hann var stofnaður utan um áherslur Sharons og vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Í seinna lagi blasir við honum það verkefni að stjórna Ísrael næstu 100 dagana, fram yfir kosningarnar, og halda þeim öfluga svip sem var á landsstjórninni á taflborði stjórnmálanna undir stjórn Sharons þrátt fyrir að hún væri í raun fallin. Olmert er ekki öfundsverður af sínu hlutskipti. Það er þó margt sem verður til þess að hjálpa honum. Hann virðist hafa óskoraðan stuðning innan Kadima til forystustarfa deyji Sharon eða verði það varanlega heilaskaddaður að hans njóti ekki við.

Ehud Olmert

Ehud Olmert sem fæddur er árið 1945, og er því tæplega tveim áratugum yngri en Sharon, er einn nánasti samstarfmaður hans og fylgdi honum úr Likud um leið og Sharon fór úr honum. Olmert var borgarstjóri í Jerúsalem í tíu ár, árin 1993-2003, og hefur gegnt fjórum ráðherraembættum á ferlinum. Hann er nú utanríkisráðherra í stjórn Sharons. Segja má að Olmert sé mjög líkur Sharon á hinu pólitíska taflborði og sé sá eini sem geti tekið við keflinu af Sharon og leitt hjörðina saman í kosningar. Það stefnir í spennandi kosningar þann 28. mars njóti Sharons ekki við. Forveri Sharons á leiðtogastóli í Likud, Benjamin Netanyahu, sem var forsætisráðherra Ísraels 1996-1999 og leiðtogi Likud 1993-1999, hefur verið kjörinn leiðtogi flokksins að nýju. Það stefnir því í spennandi baráttu milli Olmerts og Netanyahus um hægrafylgið. Segja má að Netanyahu stjórni nú leifunum af Likud, öfgasinnaðasta armi flokksins og sæki fram, enda geti staðan varla versnað fyrir þá í ljósi þess að Likud hefur verið að mælast með um 15 þingsæti seinustu vikur í stað um 40.

Likud hefur til fjölda ára verið stærsti flokkur landsins og berst nú við Kadima um að leiða hægrihliðina. Á vinstrihliðinni er Verkamannaflokkurinn, miklu vinstrisinnaðri en lengi áður, nú undir forystu verkalýðsleiðtogans Peretz. Segja má að kosningarnar í mars snúist um hvort að pólitískt hugarfóstur Ariels Sharons verði eitthvað meira en nafnið eitt - hvort þess bíði eitthvað líf og raunhæf stjórnarforysta í Ísraels í skugga minningarinnar um skriðdrekann öfluga Ariel Sharon. Ef marka má kannanir á Kadima líf án Sharons framundan. Það gæti þó breyst er alvörubarátta hefst. Kadima leggur nú í kosningabaráttu undir forystu Ehud Olmert - í skugga þess liggur hinn sterki og kraftmikli Ariel Sharon á sjúkrahúsi í Jerúsalem og berst fyrir lífi sínu. Stjórnmálaferill hans virðist á enda en við blasir að mesta barátta hins aldna leiðtoga verði að berjast fyrir lífi sínu en ekki forsætisráðherrastólnum í kosningum.

Ariel Sharon

Það sem átti að verða sigurferð hins aldna höfðingja á vettvangi stjórnmálanna virðist nú runnið út í sandinn vegna heilsuleysis. Lífsbaráttan ein stendur nú eftir fyrir skriðdreka ísraelskra stjórnmála.

Saga dagsins
1919 Theodore Roosevelt 26. forseti Bandaríkjanna, lést, 61 árs að aldri. Hann var forseti 1901-1909.
1923 Halldór Laxness var skírður og fermdur til kaþólskrar trúar í Clervaux-klaustri í Lúxemborg. Með þessu tók hann formlega upp kaþólska dýrlingsnafnið Kiljan. Halldór var kaþólskur allt til æviloka. Trú Halldórs staðfestist er hann var kvaddur að hætti kaþólskra við sálumessu sína í febrúarmánuði 1998.
1949 Leikstjórinn Victor Fleming lést, 59 ára að aldri. Fleming leikstýrði á löngum ferli fjölda góðra kvikmynda, þeirra þekktastar eru án vafa stórmyndirnar Gone with the Wind og The Wizard of Oz.
1968 Rannsóknarstöð Hjartaverndar í Reykjavík, tekin í notkun. Tilkoma hennar markaði þáttaskil í hjartalækningum og aðstöðu til rannsókna. Fyrsti yfirlæknir þar var Ólafur Ólafsson, síðar landlæknir.
2001 George W. Bush ríkisstjóri í Texas, formlega kjörinn sem forseti Bandaríkjanna, er öldungadeild Bandaríkjanna staðfestir formlega úrslit forsetakosninganna 2000. Það kom í hlut Al Gore varaforseta, sem forseta öldungadeildarinnar að stjórna fundinum og lýsa formlega yfir kjöri Bush. Gore hafði verið mótframbjóðandi Bush í kjörinu og hlotið fleiri atkvæði á landsvísu en tapað í kjörmannakjöri.

Snjallyrðið
Þar sem lækir fleygjast
hvítum vængjum
ofan hlíðina
gegnt upprisu dagsins
drúpi ég höfði
einn með sorg minni og þrá
trúin á regnbogann
byrgð undir hellu
sem enginn morgunn fær lyft

En magn jarðar
finn ég undir fótum mér
finn ég í brjósti
taugar slagæðar líf
mátt upprunans
sem rofið gæti steininn
vakið nýtt líf
nýja trú.
Snorri Hjartarson skáld (1906-1986) (Dögun)


Engin fyrirsögn

Áramótakveðja 2006


Áramót

Í upphafi ársins 2006 vil ég þakka lesendum þessa vefs samfylgdina í gegnum tíðina og jafnframt óska þeim farsæls og gleðilegs árs. Ennfremur vil ég færa þeim öllum kveðju sem ég hef kynnst í gegnum skrifin hér fyrir gagnleg skoðanaskipti og umræður um stjórnmál með einum eða öðrum hætti. Ég hef kynnst mörgum í gegnum skrifin og pólitíska þátttöku á liðnu ári og fyrir það þakka ég af heilum hug, samskipti við fólk um pólitík eða aðra þætti eru nú sem fyrr mjög mikilvæg og gagnleg þegar málefni samtímans eru rædd. Ég vil þakka öllum þeim sem litu á vefinn á liðnu ári fyrir að lesa pistla mína og hugleiðingar um hitamál samtímans.

Árið sem að baki er var einkar viðburðaríkt og eftirminnilegt. Margir stórviðburðir áttu sér stað. Fyrir þá sem skrifa um málefni samtímans var nóg að fjalla um. Á seinasta ári ritaði ég rúmlega 130 pistla, vikulega birtust sunnudagspistlar um helstu fréttir hverrar viku og margir ítarlegir pistlar um fleiri málefni voru ritaðir og ég hélt úti þessum bloggvef með nær daglegri umfjöllun um helstu málefnin. Ég lít því yfir árið með gleði í huga. Margt gott gerðist á þessu merka ári, mörg ný tækifæri komu til sögunnar og mörg krefjandi verkefni eru að baki. Vonandi verður árið 2006 jafn viðburðaríkt og spennandi eins og hið liðna ár.

Áramótaþættirnir


Áramót

Venju samkvæmt var horft á áramótaþættina af miklum áhuga. Í hádeginu á gamlársdag hófst Pressuballið á NFS. Þar var mjög áhugavert spjall um málefnin við ýmsa blaða- og fréttamenn. Svansí, Þorsteinn J. og Inga Lind stjórnuðu þættinum af miklum krafti og hann var virkilega áhugaverður. Um tvöleytið fór ég að horfa á Kryddsíld Stöðvar 2. Þar voru leiðtogar flokkanna gestir venju samkvæmt. Nú eru Davíð og Össur horfnir á braut og Geir og Ingibjörg Sólrún komin í þeirra stað. Spjallið var mjög líflegt og skemmtilegt, venju samkvæmt. Farið var yfir helstu fréttir ársins á innlendum vettvangi og eins og nærri má geta var mest rætt um brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum, stöðuna í borgarmálum og endalok R-listans.

Mjög ánægjulegt var að Davíð Oddsson var valinn maður ársins af NFS. Hann er svo sannarlega vel að því kominn. Þór Jónsson átti mjög gott viðtal við Davíð í þættinum. Davíð var senuþjófur þáttarins, þó hann hafi vikið af hinu pólitíska sviði. Klukkan þrjú hófst áramótaþátturinn á bæjarsjónvarpsstöðinni Aksjón, Gaffalbitar. Þar tóku Birgir, Hilda Jana, Þráinn og Sigrún á móti góðum gestum. Undir lokin var rætt við bæjarstjóra, Oktavíu, Hermann Jón, Sigrúnu Stefánsdóttur og Odd Helga um bæjarmálin í skugga þess að Oktavía hefur sagt skilið við Samfylkinguna sem hún leiddi í kosningunum 2002. Var mjög áhugavert spjall þar og sérstaklega merkilegt að sjá spennuna milli Oktavíu og Hermanns Jóns. Var rætt um pólitík af krafti.

Um kvöldið var ég með matarboð og bauð góðum gestum þar upp á svínabóg og góðan eftirrétt. Að því loknu var farið að brennu úti í þorpi og mjög notaleg og góð stund sem þar var. Síðar um kvöldið var horft á áramótaskaupið. Þótti mér það óvenjuslappt núna, vægast sagt. Nokkur fyndin atriði voru en í heildina var þetta það daprasta sem ég man eftir. Alveg með ólíkindum að RÚV geti ekki fundið fyndið fólk til að semja og leikstýra þessum árvissa viðburði sem svo mikilvægt er að sé vandað mikið og vel til. Þetta skaup er það lélegasta sem ég hef séð frá því ég man eftir mér. Mjög mikið drasl, svo ég orði þetta pent. Var það svo lélegt að maður var farinn út að skjóta upp flugeldum áður en því lauk.

Eftir miðnættið fór ég í áramótateiti hjá Hönnu systur og var þar til um tvö. Þá fór ég á skemmtistað með góðu fólki og skemmti mér vel fram á rauðanótt. Á nýársdag var horft á gamlar og góðar kvikmyndir og slappað vel af. Rifjaði ég upp góð kynni mín af Íslenska drauminum, frábærri íslenskri mynd. Alltaf hægt að hlæja vel að henni. Að kvöldi nýársdags horfði ég ásamt fleirum á góða dagskrá á Stöð 2. Þar voru flottir tónleikar og myndin Dís með Álfrúnu frænku minni Örnólfs. Horfði svo á afgang hinnar stórfenglegu myndar As Good as it Gets með eilífðartöffaranum Jack Nicholson. Var því mjög góð helgi hér á þessum bænum.

Kvikmyndir ársins 2005


Kvikmyndir

Á gamlársdag birti ég á vef mínum lista yfir bestu kvikmyndir ársins 2005. Á listanum sem ég setti saman voru eftirtaldar eðalmyndir: Sin City, Der Untergang, Oldboy, Hotel Rwanda, Million Dollar Baby, The Aviator, King Kong, Sideways, Batman Begins, A Little Trip to Heaven, Vera Drake, Ray, Finding Neverland, Harry Potter and the Goblet of Fire, Cinderella Man, Closer, The Sea Inside, Charlie and the Chocolate Factory, Star Wars: Episode III – The Revenge of the Sith og Kinsey. Allt eru þetta toppmyndir.

Enginn vafi er í mínum huga um að Sin City skari fram úr öðrum sem sýndar voru hér í bíó í fyrra. Þetta er mögnuð úrvalsmynd frá þeim Robert Miller og Robert Rodriguez. Er hún byggð á teiknimyndasögunum Sin City eftir Miller og er teiknimyndasögustílnum viðhaldið með snilldarlegum hætti. Stórbrotið meistaraverk þar sem bókstaflega allt gengur upp kvikmyndalega séð: tónlist, handrit, kvikmyndataka og leikur, allt er í úrvalsflokki. Mjög frumleg og fersk mynd sem segir þrjár sögur sem tengjast allar. Sannkölluð kvikmyndabomba. Útkoman er mynd sem að mínu mati stendur algjörlega uppúr í kvikmyndagerð ársins. Hiklaust besta kvikmynd ársins 2005.

Saga dagsins
1597 Heklugos hófst með miklum eldgangi og jarðskjálftum - varð eitt stærsta Heklugos sögunnar.
1888 Kristín Bjarnadóttir kaus fyrst kvenna til bæjarstjórnar í Reykjavík og varð fyrst kvenna til að notfæra sér kjörrétt til sveitarstjórna sem veittur var 1882. Kosningaréttur kvenna var lögfestur 1915.
1925 Benito Mussolini tilkynnir að hann taki sér einræðisvald á Ítalíu - sat þar við völd allt til 1943.
1948 Þýskur togari bjargaði fjórum skipverjum sem hrakist höfðu í nær átta sólarhringa á hafi úti á vélbátnum Björgu eftir að vél bátsins bilaði - voru þeir orðnir kaldir og hraktir er þeim var bjargað.
1990 Íslandsbanki hóf formlega starfsemi - bankinn var stofnaður með sameiningu Alþýðubankans, Verslunarbankans, Iðnaðarbankans og Útvegsbankans. Tók hann yfir mestöll fyrri viðskipti bankanna.

Snjallyrðið
Þú, sem fyrr með ást og orku kunnir
efla mentir þessa klakalands,
fljetti nú það mál, sem mest þú unnir,
minning þinni lítinn heiðurskrans.
Biðjum þess, að íslenskt mál og mentir
megi hljóta þroska, rík og sterk.
Göngum allir fram sem braut þú bentir!
Blómgist æ þitt drengilega verk.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Landið)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband