Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Fjórir dagar eru nú í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Utankjörfundarkosning hefur staðið seinustu daga og lýkur á fimmtudag. Þeir sem vilja kjósa eiga að fara í Kaupang við Mýrarveg milli kl. 13:00 og 18:00 og í Valhöll við Háaleitisbraut á milli kl. 9:00 og 17:00. Ég vil á lokasprettinum þakka fyrir góðar og hlýjar kveðjur frá þeim fjölmörgu flokksmönnum sem ég hef rætt við seinustu daga. Ég met mikils góð orð öflugra stuðningsmanna - fólks sem ætlar að styðja mig í þessu prófkjöri og ennfremur met ég mikils stuðning ættingja minna - sá stuðningur er mér ómetanlegur. Allt þetta met ég mikils núna á lokasprettinum. Fyrst og fremst vona ég að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri verði sigurvegari prófkjörsins á laugardag - útkoman verði sterkur og góður framboðslisti sjálfstæðismanna í kosningunum í maí.


Í dag tilkynnti Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi, um framboð sitt í bæjarstjórnarkosningunum í maí. Stefnir hann að því að leiða áfram L-listann, Lista fólksins, í þeim kosningum. Oddur Helgi telst vissulega nokkur kraftaverkamaður í pólitík. Honum átti að bola burt fyrir kosningarnar 1998 úr bæjarfulltrúahópi Framsóknarflokksins, þar sem hann hafði tekið sæti sem aðalmaður árið 1997. Hann lét ekki bjóða sér varamannssæti á ný og fór í sérframboð og komst inn, þvert á margar spár. Fyrir síðustu kosningar bætti hann verulega við sig fylgi og fór inn við annan mann á lista, Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Oddur Helgi og Marsibil Fjóla hafa verið lítt áberandi á kjörtímabilinu og ekki mikið við að taka afstöðu til mikilvægra mála. Er oft erfitt að sjá hvar þau standa í málum og því verið minna áberandi, en önnur minnihlutaöfl - alltsvo Samfylkingin áður en hún hvarf í bæjarstjórn um jólin þegar að bæjarfulltrúi þeirra fór í annan flokk.

Oddur kynnti framboðið í dag á blaðamannafundi í fyrirtæki sínu, Blikkrás, og greinilega til í slaginn sem framundan er. Ef marka má yfirlýsingu Odds Helga og Lista fólksins í dag um framboð stefnir L-listinn á að bæta við sig manni í bæjarstjórn. Þau eru því að leggja mörkin við að ná inn þriðja bæjarfulltrúanum. Þess sáust merki í grein í Vikudegi í síðasta mánuði að Oddur Helgi væri kominn í gírinn er hann réðst að bæjarstjóranum með áberandi hætti. En já Oddur virðist vera kominn af stað á fullu. Ætlar L-listafólk að kynna framboðslista sinn fyrir komandi kosningar þann 18. mars - rúmum tveim mánuðum fyrir kosningar. Ef marka má orð Odds Helga í dag kom aldrei til greina í hans huga að fara aftur yfir í Framsóknarflokkinn, þrátt fyrir væntanleg leiðtogaskipti þar. Verður fróðlegt að sjá hvort að Oddur heldur fylginu sínu.


Það er orðið langt síðan að ég hef farið í bíó. Ætla mér að líta þangað í kvöld og sjá Munich - nýjustu kvikmynd Steven Spielberg. Lýsir hún því ástandi sem varð á Ólympíuleikunum í München árið 1972 sem leiddi til harmleiks. Myndin hefur fengið góða dóma og ég hlakka til að sjá hana.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Hlúum vel að öldruðum

Vel hefur komið fram í könnunum á síðustu árum að Íslendingar telja sig vera með hamingjusömustu þjóðum heims. Hér nýtur fólk velsældar og lifir góðu og hamingjusömu lífi – lífi tækifæranna. Það metum við öll svo mikils. Eins og við vitum öll eru lífsgæði mikil hjá Íslendingum og framfarir á flestum sviðum mannlífsins. Ungt fólk horfir með gleði til framtíðarinnar – lífsins sem er framundan eftir nám. Tækifærin eru svo mörg sem blasa við ungu fólki í dag. Þegar að ungt fólk fetar framtíðarveginn eru áskoranir og velsæld sem blasa við. Þetta góða og öfluga samfélag var skapað af þeim sem eldri eru, elstu kynslóðunum.

Sú kynslóð sem nú er komin á efri ár lagði grunn að þeirri hagsæld og bjó í haginn fyrir þau tækifæri sem við yngra fólkið njótum svo vel á okkar tímum. Eldri kynslóðirnar byggðu upp t.d. atvinnulífið alveg og það nánast frá grunni, lagði drögin af skólakerfinu sem ungt fólk menntast í og heilbrigðiskerfið sem hefur náð betri árangri en í flestum löndum. Eldri kynslóðirnar sér með eigin augum afrakstur verka sinna – þá byltingu sem átt hefur sér stað í aðbúnaði og umgjörð samfélagsins. Staðreyndin er ennfremur sú að þessi kynslóð er umfram allt mun nægjusamari en þær sem yngri teljast. Þrátt fyrir það á ávallt að búa eins vel að henni og kostur er til.

Það hefur oft verið sagt að það sé langbesti og öflugasti mælikvarðinn á samfélag nútímans hversu vel þau búi að þeim sem elstir eru og yngstir. Það á alltaf að vera mat okkar að hlúa sem allra best að þessum hópum samfélagsins. Þeir sem elstir eru verða að njóta virðingar okkar það þarf að búa sem allra best að henni: því fólki sem hefur lagt grunninn að samfélaginu okkar. Oft vill það gerast að þegar að fólk verður veikt eða of gamalt að það verður utanveltu í samfélaginu. Það má aldrei gerast að elsta kynslóðin sé afskipt í ríkidæmi nútímans. Við unga fólkið verðum ávallt að horfa til gamla fólksins og setja okkur það markmið að eldri borgarar njóti afraksturs erfiðis síns.

Þeir, sem hafa lokið sínu ævistarfi, eiga það svo sannarlega skilið að vel sé að þeim búið. Ávallt þarf að hafa það sem markmið að aldraðir séu virkjaðir til samfélagsþátttöku og tryggt að hlúð sé vel að þeim. Mikilvægur þáttur í nútímasamfélaginu er að tryggja að fólk geti sem allra lengst dvalið á eigin heimili. Það á ávallt að vera forgangsmál okkar unga fólksins að tryggja að eldri borgarar geti lifað í sátt við aðstæður sínar – tryggja þarf ávallt hamingju allra kynslóða. Tryggir það sátt allra. Við sem erum ung verðum alltaf að hafa að leiðarljósi hag eldri borgara, forfeðra okkar - þeirra sem sköpuðu hið góða samfélag sem við lifum í.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Kristján Stefánsson (1920-2006)

Í dag kvöddum við í fjölskyldunni hinstu kveðju ömmubróður minn, Kristján Stefánsson, við fallega athöfn í Akureyrarkirkju. Sr. Svavar Alfreð Jónsson flutti góða minningarræðu um æviágrip og verk Kidda. Voru margir sem komu að jarðarförinni, enda hafði Kiddi eignast á lífsins leið gríðarlega stóran og fjölmennan vinahóp. Athöfnin var í senn látlaus en virðuleg. Tónlistin var vel valin, t.d. forspilið var Intermezzo úr óperunni Cavalleria Rusticana, var það vel í takt við tónlistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð verið miklir óperuunnendur. Eftir athöfnina var erfidrykkja í safnaðarheimilinu og kom þar saman mikill fjöldi fólks.

Í dag birtist minningargrein mín um Kidda í Morgunblaðinu og kveð ég hann þar með fyrir hönd fjölskyldu minnar. Það var napurt upp í kirkjugarði þegar að Kiddi var borinn til hvílu og kuldinn minnti okkur á að það er febrúar. Það er þó alveg snjólaust. Áttum við rólega og góða kveðjustund í kirkjugarðinum. Áður en ég fór þaðan fór ég að þeim leiðum sem mér tengjast og átti þar stutta stund með sjálfum mér. Allt frá bernskuárum mínum hefur Kiddi verið mér mjög kær og verður seint hægt að þakka til fulls allt það góða sem hann hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína. Hann og Stína voru alla tíð mikil stoð fyrir okkur. Eru samverustundir fyrri ára mjög kærar í minningunni.

Á svona stundum sér maður best hvað fjölskylda getur verið samhent og sterk. Ekkert jafnast á við traust fjölskyldubönd. Við leiðarlok kveð ég Kidda með virðingu og þökk fyrir allt sem hann var mér á ævi minni. Minningin um einstakan og traustan mann mun lifa í huga mér alla ævi.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Það styttist í lok prófkjörsbaráttunnar hjá okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri. Eftir sex daga göngum við að kjörborðinu og kjósum forystufólk okkar hér í bænum næstu fjögur árin. 20 frambjóðendur eru í kjöri. Utankjörfundarkosning er þegar hafin. Hún mun standa allt til 9. febrúar. Hún fer fram hér á Akureyri að skrifstofu flokksins í Kaupangi við Mýrarveg: mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga á milli kl. 16:00 og 18:00. Ennfremur er hægt að greiða atkvæði á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll að Háaleitisbraut 1 í Reykjavík, virka daga kl. 9:00-17:00. Ég vil hvetja námsmenn í borginni sem eru héðan frá Akureyri um að fara í Valhöll og greiða atkvæði - taka þátt. Ef fólk verður ekki heima um næstu helgi hvet ég alla til að fara í Kaupang á morgun og kjósa. Það er mikilvægt að flokksmenn greiði atkvæði og velji forystusveit flokksins í kosningunum í maí.

Mörgum finnst prófkjörsbaráttan hér litlaus og skal ég taka undir það. Þó hafa sumir verið í þessu af alvöru: auglýst og skrifað greinar. Er ég einn þeirra. Er ég í þessari baráttu af fullkominni alvöru. Ég hef starfað í Sjálfstæðisflokknum í mörgum verkefnum í rúman áratug, verið flokksbundinn frá 1993 og hef starfað í Sjálfstæðisflokknum hér á Akureyri um nokkurn tíma í forystusveit félaganna. Hef ég áhuga á stjórnmálum og því er það auðvitað sjálfsagt að skella sér í slaginn og láta á þetta reyna. Það er um að gera að taka þátt af þeim krafti sem á að einkenna starfið. Við erum þónokkur í þessum prófkjörsslag sem höfum verið í flokksstarfinu lengi og ennfremur er þarna fólk sem gekk í flokkinn fyrir örfáum vikum og sækist eftir efstu sætum í fyrstu atrennu. Það verður fróðlegt að sjá hvernig lista flokksmenn velja.


Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sigraði með yfirburðum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Nesinu í gær. Var sigur hans sérstaklega glæsilegur vegna þess að hann hlaut mótframboð í efsta sætið. Bjarni Torfi Álfþórsson bæjarfulltrúi, bauð sig fram í fyrsta sætið, en hafnaði í áttunda sætinu og er því á útleið úr bæjarstjórn Seltjarnarness. Var þetta í fyrsta skipti í bæjarmálunum á Seltjarnarnesi sem forystumaður flokksins hlaut mótframboð. Staða Jónmundar er mun sterkari nú en áður eftir þennan góða sigur. Jónmundur var kjörinn forystumaður flokksins í prófkjöri árið 2002 og tók við embætti bæjarstjóra af Sigurgeir Sigurðssyni sem verið hafði bæjarstjóri þar í rúma fjóra áratugi. Jónmundur hlaut 815 atkvæði í fyrsta sætið en rúmlega 1200 kusu í prófkjörinu. Hann hlaut því 2/3 greiddra atkvæða.

Í næstu sætum á eftir urðu Ásgerður Halldórsdóttir forseti bæjarstjórnar, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson og jöfn í næstu sætum urðu Sólveig Pálsdóttir og Ólafur Egilsson sendiherra. Bjarni Torfi stefndi hátt en varð fyrir miklum skelli og hlaut ekki nema rúmlega 30% atkvæða í fyrsta sætið. Hlýtur það að vera honum mikið áfall, rétt eins og sigurinn er mikill persónulegur sigur bæjarstjórans. Nú er prófkjörið að baki og sterkur listi kemur út úr því fyrir flokksmenn á Nesinu. Ég vil óska þeim góðs í kosningabaráttu næstu mánaða. Vonandi mun Sjálfstæðisflokkurinn á Seltjarnarnesi vinna öflugan og góðan kosningasigur í bæjarstjórnarkosningunum 27. maí nk. og halda þeim sterka meirihluta sem flokkurinn hefur haft í tæplega hálfa öld.


Ein af helstu fréttum vikunnar er ráðning Þorsteins Pálssonar fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í ritstjórastól Fréttablaðsins. Það eru mikil þáttaskil að Þorsteinn Pálsson taki við forystusess á flaggskipi Baugsmiðlanna á prentmarkaði. Lengi hafði verið rætt um að hann yrði yfirmaður á Mogganum er Styrmir Gunnarsson myndi víkja af þeim stól. En það hljóta að teljast einhver mestu tíðindi fjölmiðlamarkaðarins hérlendis á seinustu árum að fjölmiðill í eigu Baugs hafi ráðið forvera Davíðs Oddssonar á formannsstóli til ritstjórastarfa. Þorsteinn var auðvitað fjölmiðlamaður til fjölda ára og er enn titlaður blaðamaður í símaskránni. Hann var ritstjóri Vísis í ein fjögur ár. Allavega var hann ritstjóri þegar að blaðið fjallaði af krafti um Geirfinnsmálið og lenti í miðpunkti þess er Ólafur Jóhannesson þáv. dómsmálaráðherra, úthúðaði blaðinu í frægri þingumræðunni.

Annars kemur þetta ekki á óvart. Ari Edwald, sem nú hefur tekið við yfirstjórn Baugsmiðlanna, var pólitískur aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar og vitanlega treystir hann honum manna best til verka. Það á greinilega að skerpa línurnar á Baugsmiðlunum. Merkilegast er þó að Styrmir og Þorsteinn stýri stærstu prentmiðlum landsins, tveim óskyldum blöðum. Það hefðu þótt mikil tíðindi fyrir nokkrum árum er Þorsteinn var einn af áhrifamönnum Sjálfstæðisflokksins. Það sést mjög vel á fréttum seinustu daga og bloggskrifum Samfylkingarþingmanna að Samfylkingarfólk er grautfúlt yfir Baugsmönnum þessa dagana. Það er skiljanlega fúlt þegar að liðið sem það hefur verið að "fíla í botn" hættir að veita þeim athygli. Skil mjög vel gremju þeirra, miðað við fyrri skrif og talsmáta sama fólks seinustu árin: allar strokurnar og klappið fyrir vissum mönnum. Það er ekki annað hægt en að hlæja að þessu öllu saman í raun og veru.

Það verður þó fyndnast af öllu að sjá Þorstein Pálsson og Sigurjón Magnús Egilsson setjast niður saman að búa til eitt stykki dagblað saman í boði Baugs og með Kára Jónasson með þarna mitt á milli. Hlakka til að sjá þetta blað sem kemur út úr þessu.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Í dag eru hundrað ár liðin frá því að Verkamannafélag Akureyrar var stofnað. Það félag var forveri margra helstu verkalýðsfélaganna sem nú starfa hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Stofnun Verkamannafélags Akureyrar á þessum degi fyrir hundrað árum markaði upphaf samfellds starfs verkalýðsfélaganna í bænum og hér við fjörðinn. Haldið var upp á afmælið í dag hér í bænum og kom forseti Íslands hingað norður og heiðraði félögin sem síðan hafa starfað með nærveru sinni. Í tilefni þessa var vígður minnisvarðinn Samstaða, eftir listamanninn Jóhann Ingimarsson (sem rak húsgagnaverslunina Örkin hans Nóa til fjölda ára við Ráðhústorgið) eða Nóa eins og flestir gamalgrónir Akureyringar, eins og ég og fleiri þekkja hann. Verkið er staðsett við tjörnina við Strandgötu á Akureyri og er gjöf Kaupfélags Eyfirðinga til hins vinnandi manns í bænum á þessu aldarafmæli.

Þótti mér leitt að komast ekki að athöfninni vegna annarra verkefna í morgun. Fór athöfnin vel fram, og undir berum himni í góðu veðri, ef marka má frásögn eins þeirra sem var viðstaddur og sagði mér frá athöfninni. Verkið er staðsett skammt frá æskuheimili ömmu minnar, Hönnu Stefánsdóttur, en langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður, byggði sér hús að Strandgötu 43 og rak útgerð þar skammt frá til fjölda ára. Ávörp við athöfnina fluttu Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, sem gaf myndverkið og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, sem afhjúpaði minnisvarðann. Að lokum las Þráinn Karlsson leikari, ljóðið Söngur verkamanna, eftir Kristján frá Djúpalæk. Ljóðið er frá árinu 1953 og var frumflutt á 10 ára afmæli Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar (yngri félagsins).

Eftir hádegið var opnuð sýning í Alþýðuhúsinu á Akureyri, Skipagötu 14, þar sem flestöll verkalýðsfélögin á Akureyri eru til húsa. Þar voru til sýnis myndir og munir sem tengjast þessari aldagömlu sögu og einnig var þar boðið upp á kaffi og með því. Ég leit þangað eftir hádegið og átti þar gott spjall við fjölda fólks. Föðurbróðir minn, Guðmundur Ómar Guðmundsson, hefur í tæpa þrjá áratugi verið formaður Félags byggingamanna og forvera þess, Trésmíðafélags Akureyrar, og var um skeið forseti Alþýðusambands Norðurlands - tók við því embætti af Þóru Hjaltadóttur fyrir eitthvað um 15 árum. Ég hef því lengi fylgst með verkum félaganna hér og verkum Mugga í forystu sinna félaga. Eftir að hafa litið á sýninguna fór ég í Iðnaðarsafnið á Krókeyrinni. Þar er glæsilegt safn, sem hefur verið ötullega byggt upp af Jóni Arnþórssyni og hvet ég Akureyringa jafnt sem gesti okkar til að líta þangað.

Ég vil óska verkalýðsfélögunum hér á Akureyri, sem og almennu verkafólki hér í bænum, innilega til hamingju með þetta merka afmæli. Hvet ég jafnframt alla til að líta á sýninguna í Skipagötunni og kynna sér merka sögu félaganna sem staðið hafa vörð um hag verkafólks í bænum á þessum hundrað árum.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik Stefánsson

Eftirfarandi grein birtist á Íslendingi í dag:


Öflug menningarstarfsemi

Einn af kostum Akureyrar er blómlegt og öflugt menningarlíf. Það er alveg óhætt að fullyrða að menningarlífið hér norðan heiða sé engu líkt, í raun, sé miðað við íbúafjölda og framboð menningarviðburða. Akureyri hefur brag stórborgar hvað menningarlíf varðar. Hér er hægt að velja úr glæsilegum listviðburðum og njóta þeirrar sömu listaflóru og í raun og er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég ræði við sumt vinafólk mitt á suðurhluta landsins, sem sumt álítur mig vera staddan á hjara veraldar, bendi ég þeim á vef bæjarins og svo vefi listasafnsins og menningarvefi og þá verður þeim ljóst að hér er allt í boði sem lista- og menningarvinir þurfa á að halda.

Leikhúsið okkar er fyrsta flokks, listasafnið er stórfenglegt og fullt er af skemmtilegum viðburðum í Listagilinu okkar og sköpuð þar litrík og góð list. Við eigum öflugan Myndlistaskóla, Tónlistaskóla og svona má lengi telja. Menning og listir er fyrsta flokks hér. Marga þekki ég sem farið hafa norður í vetur og litið á leikritið Fullkomið brúðkaup í Leikhúsinu. Hefur sú sýning gengið vonum framar, verið sýnd margoft fyrir fullu húsi og hlotið góða gagnrýni hjá leiklistarspekingum dagblaðanna. Nú er svo komið að þessi ærslafulla og stórfenglega sýning stefnir í að vera metsýning í sögu Leikfélagsins. Aðeins uppsetningin á My Fair Lady fyrir tveim áratugum er enn vinsælli. Nú hafa rúmlega 10.000 manns litið á sýninguna.

Í fyrra var önnur öflug sýning þar í boði – Óliver, sem hlaut góða dóma og var sýnd fyrir fullu húsi margoft. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á síðasta leikári tókst að bæta rekstrarstöðu LA verulega. Var þá um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma var afgangur af rekstrinum. Hátt í 18.000 manns sáu sýningar LA á síðasta leikári og var enginn vafi á því að söngleikurinn Óliver var aðalaðdráttaraflið síðasta vetur - komust færri að en vildu að lokum á þá frábæru sýningu. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Er það mikið gleðiefni að mati okkar sem unnum leikhúsinu og leiklistinni.

Nú seinustu mánuði hafa svo að auki verið mjög spennandi sýningar á Listasafninu – metnaðarfull dagskrá eins og ávallt. Þessa dagana er þar sýningin Hraunblóm þar sem eru til sýnis verk eftir fjölda listamanna. Er það mikið gleðiefni að sjá hversu öflugt Listasafnið okkar er. Það er mikilvægt að allir gestir okkar líti á safnið og kynni sér það sem þar er, rétt eins og við reynum að fá sem flesta í leikhúsið. Annað mikið tromp er tónlistarlífið. Fyrir skömmu voru í Glerárkirkju tónleikar þar sem spilaðir voru Konsert í C dúr eftir Wolfgang Amadeus Mozart (250 ár eru nú um þessar mundir liðin frá fæðingu hans) og Sinfónía nr. 1 eftir Johannes Brahms. Í fyrra var mikill hápunktur menningarlífsins tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands ásamt söngvurunum Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Jóhanni Friðgeir Valdimarssyni.

Við hér fyrir norðan getum verið stolt af góðu orðspori Akureyrarbæjar sem menningarbæjar – miðstöðvar lista og menningar. Það er mikilvægt að við stöndum vörð um þetta orðspor og vinnum alltaf að því að treysta undirstöður þeirra lista sem við viljum að blómstri með þeim öfluga hætti og verið hefur á seinustu árum.

stebbifr@simnet.is


Engin fyrirsögn

Stefán Friðrik

Pantaði mér í dag flugferð til Austurríkis. Þangað fer ég eftir nákvæmlega mánuð á ráðstefnu Demyc að hálfu SUS. Förum við nokkur í þá ferð - formaður og varaformaður SUS og forystufólkið í utanríkismálanefndinni. Hlakka til að fara þessa ferð. Ég hef aldrei til Austurríkis farið og líst því vel á að fara. Þetta verður góð og gagnleg ferð. Fyrst og fremst hlakkar mér aðallega til að skella mér eitthvað í burt og slappa af. Seinustu mánuðir hafa verið mjög þungir hjá mér - mikil keyrsla og nóg um að vera á mörgum póstum, bæði í einkalífinu og í stjórnmálunum. Næg verkefni og nægar áskoranir hafa blasað við mér. Það verður gaman að fara til Vínar. Munum við fara til Wolfgang Schüssel kanslara, í morgunverð og skoða kanslarabústaðinn í miðborg Vínar og ennfremur fara í þinghúsið.

Félagi minn, Páll Heimisson, sem stýrir nefndinni okkar, hefur staðið sig vel í að undirbúa þetta að okkar hálfu og hlakkar mér til að skella mér í þetta. Við munum skemmta okkur vel saman úti og verður eins og ávallt er farið er í slíkar ferðir gaman að hitta erlenda hægrimenn og ræða stöðu mála - alþjóðamálin með víðum hætti.


Í kvöld áttust leiðtogaefni Samfylkingarinnar: Dagur B. Eggertsson, Stefán Jón Hafstein og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, við í Kastljósinu. Prófkjör flokksins verður um þarnæstu helgi - sömu helgi og prófkjör okkar sjálfstæðismanna á Akureyri. Í skugga þessara umræðna birtist ný skoðanakönnun Gallups sem sýnir litla breytingu á mælingu flokkanna í borginni fyrir kosningarnar í vor. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 9 borgarfulltrúa ef kosið yrði nú, Samfylkingin 5 og Vinstri grænir 1. 55% aðspurðra sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Missti ég af þessum umræðum - enda lítið heima þessa dagana og mikið á ferðinni á fundum og í fleiru. Ég tel að þetta sé slagur á milli Stefáns Jóns og Dags. Er í raun sama um hver þeirra muni vinna - í raun bendir afar fátt til þess að í þessu prófkjöri sé verið að velja næsta borgarstjóra í Reykjavík. Það er mikið gleðiefni vissulega. Þessi könnun staðfestir það að Samfylkingin fær fleiri borgarfulltrúa en síðast en nær fjarri því meirihlutastöðu.

Fannst mikið gleðiefni að heyra af þessari skoðanakönnun. Átti jafnvel von á einhverju fylgistapi milli kannana vegna prófkjörsbaráttu Samfylkingarinnar. Það er ekki að gerast. Staða Sjálfstæðisflokksins er miklu sterkari á þessum tímapunkti nú en nokkru sinni á síðustu 15 árum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í upphafi kosningaárs ekki verið að mælast sterkari í borginni frá árinu 1990. Líst vel á þessa könnun og stöðuna sem þarna kemur fram.


Jafnframt birtist skoðanakönnun Gallups á fylgi flokkanna á landsvísu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 43% fylgi - bætir við sig 1% frá síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 27% og Vinstri grænir með 18%, fylgi beggja flokka er óbreytt frá því síðast. Framsóknarflokkurinn tapar hinsvegar 1% og mælist með 10% fylgi en fylgi Frjálslynda flokksins er það sama og síðast eða 2%. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög sterkt um þessar mundir. Formaðurinn að sinna innra starfinu með miklum krafti með fundaferð um allt land - byrjaður að undirbúa næstu þingkosningar. Geir er allt öðruvísi stjórnandi greinilega en Davíð Oddsson hvað það varðar að hann er rólegri og hefur annað vinnulag. Það er ekkert óeðlilegt, enda eru engir tveir leiðtogar algjörlega eins. Geir er greinilega vinsæll, nýtur mikils trausts landsmanna - hefur sterka stöðu. Þessi könnun staðfestir allavega mjög sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins - sem er mikið fagnaðarefni.


Í kvöld var haldinn fundur hjá okkur sjálfstæðismönnum í Hamborg. Þar var rætt um hvernig fólk liti á Sjálfstæðisflokkinn. Framsögur fluttu Gísli Aðalsteinsson formaður málfundafélagsins Sleipnis, sem er málfundafélag okkar sjálfstæðismanna, og Hlynur Hallsson starfandi alþingismaður VG. Að þeim loknum var lifandi og góð umræða um stjórnmál. Helgi Vilberg ritstjóri Íslendings og fyrrum formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, stýrði fundi. Hafði mjög gaman af þessu og var gaman að hitta aðra frambjóðendur sem og aðra flokksfélaga. Við áttum gott spjall og góða kvöldstund yfir heitum kaffibolla í Hamborg á þessu fimmtudagskvöldi.

stebbifr@simnet.is


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband