Sjálfsörugga glimmergellan brillerar

Silvía Nótt

Glimmergellan veraldarvana og sjálfsörugga Silvía Nótt (í magnaðri túlkun landsbyggðarstelpunnar hógværu Ágústu Evu Erlendsdóttur) kom, sá og sigraði í forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hér heima á klakanum í byrjun ársins með laginu Til hamingju Ísland. Hún sló í gegn og hafði alla forkeppnina afgerandi forskot hvað varðar athygli og umgjörð atriðisins. Sigur hennar var enda afgerandi og aldrei í hættu.

Í kvöld var frumsýnt myndband við lag hennar. Nú er lagið komið á ensku til að fá skírskotun út fyrir Ísland og heitir það nú Congratulations. Myndbandið er litríkt og hressilegt - rétt eins og flytjandinn. Silvía Nótt er með þetta allt á hreinu og mun ekki eiga í neinum erfiðleikum með að ná athygli Evrópubúa með framkomu sinni og litríku lagi. Vonandi gengur Silvíu Nótt vel í Aþenu í forkeppninni þann 18. maí.

Congratulations


Skemmtilegt rými á netinu

laptop

Fyrir nokkrum dögum benti góður vinur minn mér á vefinn MySpace.com. Þar er hægt að skrá sig inn og vera í góðu sambandi við vinina. Þarna er flott samfélag og skemmtilegir valkostir. Hvet alla til að skella sér þarna inn og bætast í hópinn.

Mitt rými á MySpace.com


Björgunarþyrlu til Akureyrar

Björgunarþyrla

Eins og vel hefur komið fram eru þáttaskil framundan í varnarmálum Íslands og bandaríski herinn er búinn að tilkynna brotthvarf sitt héðan með haustinu. Það er því ljóst að hlutverk Keflavíkurflugvallar breytist. Rætt er um hvernig eigi að mæta þessum breytingum og oftar en ekki ber Landhelgisgæsluna oft á góma í því samhengi. Það blasir við öllum að Gæsluna verður að styrkja verulega. Í morgun kynnti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, á ríkisstjórnarfundi tillögur sínar í málinu. Þær gera ráð fyrir því að staðan verði leyst í tveim áföngum. Er ætlað að lokatillögur um framtíðarskipulag þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar liggi fyrir innan 2 mánaða og að tillögur til bráðabirgðalausnar séu ljósar innan þriggja vikna. Telur Björn að til bráðabirgða sé vænlegt að leigja þyrlur í nánu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar en til langframa sé stefnt að því að kaupa eða leigja nýjar þyrlur. Hefur verið skipuð nefnd til að vinna að lokatillögum, sem liggja eigi fyrir bráðlega.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær lagði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, fram tillögu, sem var samþykkt, er bendir á mikilvægi þess að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett hér á Akureyri. Eins og bent er á í tillögu Kristjáns Þórs er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er. Óskaði bæjarráð samhliða samþykkt tillögu bæjarstjóra eftir viðræðum við ríkisstjórn Íslands um uppbyggingu björgunarstarfs Íslendinga í kjölfar brottflutnings þyrlusveitar varnarliðsins. Tillaga bæjarstjóra var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs.

Það er viðeigandi við þau þáttaskil sem nú blasa við og ljóst er að fjölga verður björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun. Það er algjör óþarfi að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er t.d. um Keflavíkurflugvöll sem einhverja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar og dreifi kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Það blasir við öllum að óháð því hvernig viðræður við Bandaríkjastjórn sem fram fara í Reykjavík í næstu viku þarf að efla Landhelgisgæsluna til mikilla muna og stokka upp allt kerfi hennar samhliða þeirri uppstokkun.

Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla. Að mínu mati mæla öll rök með því að hér sé björgunarþyrla og rétt að stjórnvöld hagi málum með þeim hætti að ekki séu allar þær þyrlur, sem til staðar verða eftir að Landhelgisgæslan hefur verið efld með þeim hætti sem við blasir að verður að gera, staðsettar á suðvesturhorni landsins. Það er við hæfi að horft sé til Akureyrar í þeim efnum að dreifa kröftunum hvað varðar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

Saga dagsins
1948 Breski leikarinn Sir Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir hreint stórfenglega túlkun á prinsinum Hamlet - Olivier var einn fremsti leikari og leikstjóri Breta á 20. öld og fór á kostum í dramatískum myndum og skapaði einnig ógleymanlega karaktera á hvíta tjaldinu á löngum leikferli sínum. Sir Laurence varð bráðkvaddur í júlímánuði 1989. Hann var valinn besti leikari Bretlands á 20. öld við lok aldarinnar árið 2000.
1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið formlega í notkun - húsið var helgað minningu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval listmálara, en borgin eignaðist flest listverk hans.
1987 Albert Guðmundsson segir af sér ráðherraembætti - var það vegna ásakana um að hann hefði ekki talið fram til skatts sérstakar greiðslur, sem fyrirtæki í eigu hans hafði fengið frá fyrirtækinu Hafskip hf. á meðan hann var fjármálaráðherra á árunum 1983-1985. Varð skipafyrirtækið gjaldþrota í árslok 1985 og Útvegsbankinn tapaði þar stórfé en Albert var formaður stjórnar Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans 1980-1983. Albert gekk í kjölfarið úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði með stuðningsmönnum sínum Borgaraflokkinn, sem hlaut 7 þingmenn í kosningunum 1987. Albert sat á þingi fyrir flokkinn til 1989 og varð sendiherra í Frakklandi. Hann lést í apríl 1994.
1989 Eitt af verstu olíuslysum í sögu Bandaríkjanna á 20. öld á sér stað þegar að olíuflutningaskipið Exxon Valdez strandar við Alaska - síðar kom það í ljós að skipstjórinn hafði verið drukkinn. Leiddi til málaferla og deilna. Varð slysið álitshnekkir fyrir Exxon sem neyddist til að borga metfé í skaðabætur.
2002 Leikkonan Halle Berry hlaut óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á Leticiu Musgrove í Monster´s Ball - Berry varð fyrsta þeldökka aðalleikkonan í sögu akademíunnar til að hljóta þessi leikverðlaun.

Snjallyrðið
Everytime you smile at someone, it is an action of love, a gift to that person, a beautiful thing.
Móðir Teresa (1910-1997)


Vangaveltur um umferðarslys

Lágheiði

Ansi oft er umræða um banaslys í umferðinni upptalning á þeim sem látist hafa í umferðinni og hversu mörg slys hafa átt sér stað. Í gær hlustaði ég einmitt á frétt þar sem fjallað var um stöðu mála með því að telja upp hversu margir hefðu látist í bílslysum á árinu. Eins og allir vita hafa alltof margir látist í umferðarslysum hérlendis þetta árið, sem og mörg hin fyrri. Það er dapurlegt að heyra þessar tölur og heyra sögu sumra slysanna. Það er oft sagt að meirihluti banaslysa í umferðinni sé á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka en nú ber svo við að fleiri slys eru í þéttbýli það sem af er árinu. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum.

Á árinu 2004 létu t.d. 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Í fyrra voru sem betur fer færri sem létust. Það sem af er þessu ári hafa alltof mörg slys orðið og margir látist, þar á meðal nokkur fjöldi af ungu og efnilegu fólki - öflugu fólki sem mikil eftirsjá er að. Á bakvið þessar nöpru tölur um látna í umferðarslysum eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Það hefur sérstaklega verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum þar sem látist hafa ungir strákar hér í Eyjafirði. Það er vægt til orða tekið að hér ríki mikil sorg og fólk í sárum. Það er nokkuð um liðið síðan að önnur eins sorg hefur ríkt hér vegna umferðarslysa. Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys.

Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Þetta voru í senn táknrænar auglýsingar og vöktu fólk til umhugsunar.

Í grunninn séð vekur það okkur öll vonandi til lífsins í þessum efnum að sjá þær skelfilegu tölur um fjölda látinna í umferðarslysum og fjölda slysa almennt. Ég vona það allavega. Dapurleg umferðarslys seinustu ára og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er mikilvægt að við séum vel á verði og munum að við verðum að taka slysin úr umferð!


Málefnafundur Varðar í kvöld

Fálkinn

Í kvöld ætlum við hjá Verði að hefja formlega kosningastarf okkar fyrir komandi kosningar með fundi í Kaupangi undir yfirskriftinni "Hvað vill ungt fólk á Akureyri?" Ætlum við þar að bjóða öllu ungu fólki sem er áhugasamt um bæjarmálin til að ræða við okkur um áherslur sínar í stórum málaflokkum í komandi kosningum: atvinnu-, skóla- og forvarnamál. Fundurinn verður mjög léttur og fyrst og fremst ætlað að vera pólitískt skemmtilegur og líflegur. Þegar að þátttakendur hafa skipt sér upp í vinnuhópa tekur við vinna í málaflokkunum og er ætlað að hóparnir róterist á kortérs fresti þar til að allir hafa setið í öllum málaflokkum og innlegg allra í hvern málaflokk hafa komist að. Þetta skapar líflegt og gott fundaform og allir fá að segja sitt um öll mál.

Í miðjunni ætlum við að fá okkur léttar veitingar og spjalla og að því loknu munu hópstjórar kynna hugmyndir hópanna og tillögur þeirra. Fundarstjóri er María Marinósdóttir, frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í vor en hópstjórar verða ég, Hanna Dögg Maronsdóttir og Jóna Jónsdóttir. Væntum við skemmtilegra umræðna og líflegs kvölds. Ég hvet alla áhugasama um bæjarmálin og vilja leggja sitt af mörkum í málefnavinnu okkar að mæta og taka þátt. Hittumst hress í kvöld!

Saga dagsins
1663 Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskupsdóttir, lést í Skálholti, 21 árs að aldri - við útför Ragnheiðar var sálmur sr. Hallgríms Péturssonar, Allt eins og blómstrið eina, fluttur í fyrsta skipti. Einn þekktasti sálmur landsins og er hann sá sálmur sem oftast er spilaður við jarðarfararathafnir í kirkjum landsins.
1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - tilkoma Sundhallarinnar markaði talsverð þáttaskil í íþróttamálum hérlendis.
1950 Leikkonan Olivia de Havilland hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á hefðarmaddömunni Catherine Sloper í kvikmyndinni The Heiress - De Havilland hlaut áður óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í To Each his Own. Hún var ein vinsælasta leikkona gullaldarsögu Hollywood og túlkaði margar sterkar kvenpersónur á hvíta tjaldinu. De Havilland hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag að kvikmyndum í mars 2003.
1998 Leikarinn Jack Nicholson hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á sérvitringnum Melvin Udall í kvikmyndinni As Good as it Gets. Þetta var þriðji óskar hans, en hann hafði áður hlotið verðlaunin fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo´s Nest og Terms of Endearment. Hefur verið tilnefndur til verðlaunanna tólf sinnum, oftar en nokkur annar karlleikari. Á þessari sömu óskarsverðlaunahátíð hlaut kvikmyndin Titanic alls ellefu óskarsverðlaun. Titanic varð vinsælasta kvikmynd 20. aldarinnar í bíó.
2003 Breska leikkonan Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir litríka túlkun sína á skassinu Velmu Kelly í Chicago.

Snjallyrðið
A loving heart is the beginning of all knowledge.
Thomas Carlyle heimspekingur (1795-1881)


Vönduð leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar

Þorsteinn Pálsson

Það voru margir undrandi undir lok janúarmánaðar þegar að tilkynnt var að Þorsteinn Pálsson fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins, flaggskips Baugsmiðlanna hjá 365-prentmiðlum. Þorsteinn hafði þá fyrir stuttu lokið störfum í utanríkisþjónustunni en hann var á sex árum sínum sem sendiherra starfandi sem slíkur í London og Kaupmannahöfn. Í þau verkefni fór hann að stjórnmálaferlinum loknum en hann var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi 1983-1999, forsætisráðherra 1987-1988 og formaður Sjálfstæðisflokksins 1983-1991. Hann gegndi á þeim ferli sínum fjölda ráðherraembætta auk forsætisráðherraembættis, en hann var fjármálaráðherra 1985-1987, iðnaðarráðherra 1987 og sjávarútvegs- dóms- og kirkjumálaráðherra 1991-1999.

Þorsteinn var ekki nema 52 ára gamall er hann vék af hinu pólitíska sviði og hélt út til sendiherrastarfa. Hann var aðeins 58 ára er hann hætti þeim störfum í haust og margir veltu þá vöngum yfir því hvað tæki þá við, enda bjuggust fáir við að hann myndi setjast með hendur í skaut með mörg herrans ár enn eftir af virkum starfsárum. Lengi var spáð í það hvort að hann yrði ritstjóri Morgunblaðsins og væri ætlað að taka við blaðinu er Styrmir Gunnarsson myndi fara á eftirlaun. Svo fór þó ekki og niðurstaðan varð sú að hann settist að við Skaftahlíð og tók við Fréttablaðinu - því dagblaði sem útbreiddast er hérlendis skv. fjölmiðlakönnunum seinustu árin. Þorsteinn var enginn nýgræðingur á ritstjórastóli hjá prentmiðli, enda var hann ritstjóri dagblaðsins Vísis 1975-1979, áður en hann tók við starfi framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands. Á þeim tíma vakti Þorsteinn athygli fyrir lífleg og góð leiðaraskrif og vekja athygli með skoðunum sínum á mönnum og málefnum.

Mér hefur fundist í senn fróðlegt og áhugavert að lesa leiðaraskrif Þorsteins Pálssonar eftir að hann kom sér fyrir á ritstjóraskrifstofum Fréttablaðsins við Skaftahlíð. Þar skrifar enda lífsreyndur maður með mikla og fjölþætta reynslu af lífinu og tilverunni. Þar talar reyndur maður á sviði stjórnmála og fjölmiðla og er ennfremur vel kunnugur lífinu utan landsteinana. Þorsteinn er enda víðsýnn maður og getur skrifað með jafnöflugum hætti um alþjóðastjórnmál sem hina hversdagslegu rimmu íslenskra stjórnmála. Þorsteinn Pálsson hefur skrifað líflega og kraftmikla leiðara í Fréttablaðinu að mínu mati seinustu vikurnar og ég hef af mun meiri áhuga lesið leiðaraskrifin en áður hjá því annars ágæta blaði. Það er mjög áhugavert að kynna sér skoðanir Þorsteins og ekki síður að sjá hver afstaða hans er til hitamála, jafnt hér heima sem og erlendis. Sérstaklega hefur mér þótt áhugavert að lesa skrif hans um hitamálið hér heima þessa stundina, varnarmálin.

Í leiðurum Þorsteins Pálssonar heldur á penna maður sem er veraldarvanur á flestum sviðum. Skrifin eru enda þess eðlis að þau vekja athygli. Þar talar maður sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra og jafnframt verið dómsmálaráðherra. Það efast því enginn um það að hann sé öflugur penni með víðtæka reynslu og þekkingu. Ég tel að Fréttablaðið hafi öðlast mun betri ásýnd með innkomu Þorsteins í forystusveit blaðsins. Með hann og Kára Jónasson við stjórnvölinn hefur Fréttablaðinu tekist að fá flottari og reynslumeiri ásýnd en blaðið hafði meðan að Gunnar Smári Egilsson var þar og ritaði leiðara. Þeir leiðarar misstu oft marks og þóttu vera í senn lágkúrulegir og yfirgripslitlir. Það verður seint sagt um skrif Þorsteins Pálssonar sem eftir langa fjarveru frá stjórn prentmiðla hefur snúið aftur á þenn vettvang reynslunni ríkari og skrifar sem maðurinn með reynsluna og kraftinn.

Ég fylgist með skrifum hans af áhuga og skemmti mér yfir skrifunum. Þar talar maður sem miðlar reynslu á víðtækum vettvangi til lesenda og kryddar leiðarana ennfremur með víðsýni og fróðleik. Það er alltaf gaman af slíkum pennum. Ég fagna því að skoðanir Þorsteins birtist okkur á þessum vettvangi. Það er alltaf gaman af öflugum mönnum með skoðanir og fróðlega yfirsýn á stöðu nútímastjórnmála og miðlar reynslu þess sem gerst hefur áður í leiðaraskrifum.


Héðinsfjarðargöng verða brátt að veruleika

Héðinsfjarðargöng

Um þessar mundir er ár liðið frá því að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, hélt fjölmennan og öflugan fund í Bátahúsinu á Siglufirði og tilkynnti um tímaramma Héðinsfjarðarganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Með því vannst loks fullnaðarsigur í baráttu okkar Eyfirðinga og Siglfirðinga fyrir tilkomu ganganna. Sú barátta var í senn löng og ekki síður mörkuð bæði af vonbrigðum og áfangasigrum, sem fært hafa okkur nær lokatakmarkinu. Í gær var fyrsti ramminn í því ferli sem tilkynnt var fyrir ári opnaður með því að tilboð í framkvæmd ganganna voru formlega opnuð. Tékkneska verktakafyrirtækið Metrostav og Háfell áttu lægsta boðið. Hljómar það upp á 5,7 milljarða króna, en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðar hinsvegar upp á 6,5 milljarða króna. Hæsta tilboðið kom frá Marti Contractors og Íslenskum aðalverktökum, en það hljóðaði upp á tæpa 9 milljarða, eða 3,2 milljörðum yfir lægsta boðinu í framkvæmdina.

Ég var einn þeirra sem var viðstaddur fund Sturlu á Siglufirði fyrir ári. Það var ógleymanlegur fundur, vegna þess að gleði íbúanna var svo mikil. Mjög skemmtilegt að hitta Siglfirðinga þann dag og ræða þessi mál og fleiri. Fundurinn var enda fjölmennasti fundur sem þar hafði verið haldinn. Framkvæmdir við göngin munu hefjast í júlímánuði. Stefnt er að því að framkvæmdum muni ljúka eigi síðar en við árslok árið 2009, á 50 ára afmælisári Siglufjarðarkaupstaðar. Er Sturla lýsti þessum tímaramma yfir var klappað og mikil gleði meðal viðstaddra. Var virkilega gaman að fara vestur þennan dag, vera viðstaddur fundinn og heyra hljóðið í fólki þar og ræða málin. Hef ég sjaldan verið viðstaddur fund þar sem allir voru eins glaðir og sameinaðir um að hefja sig yfir pólitískt dægurþras og nöldur um hitamál samtímans og sameinast um að taka höndum saman og horfa til framtíðar.

Í ávarpi sínu við þetta tækifæri í fyrra fór Halldór Blöndal forseti Alþingis og fyrrum samgönguráðherra, yfir sögu málsins. Halldór lagði mikla áherslu á málið í ráðherratíð sinni og verið einn ötulasti baráttumaður þess. Framlag hans í baráttunni fyrir Héðinsfjarðargöngum er enda ómetanlegt. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri hér á Akureyri, flutti ennfremur ræðu við þetta tilefni og lýsti þar reynslu sinni af því hvernig göng og betri samgöngur hefðu haft áhrif á byggðir landsins. Sagðist hann hafa verið sem bæjarstjóri á Dalvík vitni að þeirri breytingu sem varð á samfélaginu við utanverðan Eyjafjörð með tilkomu jarðganga í gegnum Ólafsfjarðarmúla. Hann minntist einnig á það þegar hann var bæjarstjóri á Ísafirði og varð vitni að þeirri byltingu sem varð á samfélaginu á Vestfjörðum, svæðinu sem nú myndar sveitarfélagið Ísafjarðarbæ, er jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar voru opnuð.

Göngin verða mikil og öflug samgöngubót fyrir alla hér á þessu svæði. Þau bæði styrkja og treysta mannlífið og byggðina alla hér. Allar forsendur mála hér breytast með tilkomu Héðinsfjarðarganga á næstu árum. Með þeim verður svæðið hér ein heild. Nú þegar hafa Siglufjörður og Ólafsfjörður sameinast í eitt sveitarfélag, þar sem kosið verður til sveitarstjórnar fyrsta sinni í vor og stendur nú t.d. yfir samkeppni um nafn á það. Var ég mjög ósáttur við frestun framkvæmda við göngin árið 2003 og andmælti þeirri ákvörðun mjög. Við hér á þessu svæði vorum vonsvikin og slegin yfir þeirri slæmu og óverjandi ákvörðun stjórnvalda. Enn situr eftir gremja í garð þeirra sem lofað höfðu að göngin kæmu til á réttum tíma í kosningabaráttunni vorið 2003 en sviku það eftir kosningar. En það eru eðlileg viðbrögð. En nú er staðið við tímaramma málsins og það er fyrir mestu að menn fari nú á fullt við allar framkvæmdir.

Ég hef tekið eftir því að margir eru andsnúnir því að göng komi þarna til sögunnar og tengi Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og verði með því öflugur hluti af Norðausturkjördæmi og nái samgöngulegri tengingu við svæðið. Ég er stoltur af því að hafa barist fyrir tilkomu þessara ganga og mun þegar tíminn líður horfa til þessarar baráttu með stolti, einkum vegna þess að sigur vannst í baráttunni við þá sem eru andsnúnir því að göngin komi. Ég hef næstum alla mína ævi búið í Eyjafirði. Ég skammast mín ekki fyrir að vinna að hag þessa svæðis og vera þekktur af því að vera baráttumaður fyrir því að heildin þar styrkist. Það er grunnur minnar tilveru að heildin hér verði sterk og að því mun ég alltaf vinna. Að mínu mati eru þessi göng, þessar framkvæmdir, hagsmunamál fyrir okkur öll og mikilvægt að þau komi. Það styrkir allt svæðið hér.

Saga dagsins
1924 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Jóns Magnússonar tekur við völdum - stjórnin sat í tvö ár, eða allt til andláts Jóns í konungsheimsókn á Austurlandi. Hann lést að Skorrastað í Norðfirði þann 23. júní 1926.
1960 Samþykkt á þingi að taka upp söluskatt af starfi og þjónustu - honum var formlega breytt í virðisaukaskatt við lagabreytingu árið 1990.
1972 Geirfugladrangur, vestur af Eldey, hrundi og sökk í sæ - hann kemur nú aðeins upp úr sjó á fjöru.
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kynnir stjörnustríðsáætlun sína - áætlun Reagans forseta varð mjög umdeild á níunda áratugnum.
1999 Breska leikkonan Dame Judi Dench hlaut óskarinn fyrir leik sinn í myndinni Shakespeare in Love - Dench er ein virtasta leikkona Breta og var hún kjörin besta leikkona Bretlands á 20. öld árið 2001.

Snjallyrðið
I have no regrets. I wouldn't have lived my life the way I did if I was going to worry about what people were going to say.
Ingrid Bergman leikkona (1915-1982)


Háskólinn á Akureyri styrktur í sessi

Borgir

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, um aukafjárveitingu að upphæð 60 milljónir króna til Háskólans á Akureyri. Þar af eru 40 milljónir ætlaðar til greiðslu á húsaleigu og með þessu er komið að fullu til móts við þann aukna húsnæðiskostnað sem fylgi hinu nýju rannsóknarhúsi að Borgum. Með þessu er HA gert kleift að fjölga ársnemendum sínum um 30-40 á árinu 2006, umfram þá aukningu sem þegar hafi verið heimiluð. Með þessu er t.d. skapað svigrúm til að bjóða upp á framhaldsnám í lögfræði sem muni hefjast nú strax í haust.

Fögnum við hér fyrir norðan þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar og auðvitað tillögu menntamálaráðherrans. Það er okkur mjög mikið ánægjuefni að staða Háskólans á Akureyri sé styrkt með þessum hætti. Við höfðum óhikað tjáð þá skoðun okkar að skólann yrði að styrkja í ljósi allra aðstæðna. Það er mjög gott að ráðherrann hafi tekið af skarið og ríkisstjórnin tekið undir þá ákvörðun hennar að tryggja aukafjárveitingu til skólans. Með þessum gleðitíðindum ætti óánægjutali innan skólans að heyra sögunni til, sem er gleðilegt. Þeir sem unna HA ættu að geta glaðst í dag.


Laila Freivalds segir af sér

Laila Freivalds

Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, sagði af sér embætti í dag. Hún hafði þá setið á ráðherrastóli í tvö og hálft ár, eða allt frá hinu skelfilega morði á forvera hennar, Önnu Lindh, í september 2003. Skipan Lailu í embætti utanríkisráðherra kom mörgum á óvart, enda fannst mörgum undarlegt að henni yrði valið það hlutskipti að taka við af Lindh, sem var einn vinsælasti stjórnmálamaður Svíþjóðar er hún lést og hafði verið talin krónprinsessa sænska Jafnaðarmannaflokksins til fjölda ára. Laila hafði hinsvegar alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og ekki allir á eitt sáttir um ágæti hennar innan Jafnaðarmannaflokksins. Hún varð t.d. að segja af sér embætti dómsmálaráðherra árið 2000 vegna fasteignahneykslis. Það þótti því til marks um ákveðni forsætisráðherrans að skipa hana til starfans í stað hinnar vinsælu Önnu Lindh, sem hafði verið sameiningartákn vinsælda innan flokks og meðal þjóðarinnar.

Laila Freivalds hefur verið umdeild og umtöluð í utanríkisráðherratíð sinni. Hún og Göran Persson forsætisráðherra, sættu harðri gagnrýni í ársbyrjun 2005 fyrir það hvernig sænsk stjórnvöld tóku á stöðu mála eftir að flóðbylgjan mikla skall á ströndum landa við Indlandshaf í árslok 2004. Þóttu viðbrögð hennar slæm, en hún batt ekki enda á jólaleyfi sitt er staða mála varð betur ljós, þ.e.a.s. að fjöldi Svía hefðu farist í harmleiknum. Frægt varð að hún ákvað að stytta ekki leyfið og hélt í leikhús um kvöldið frekar en að koma aftur til Stokkhólms og skeytti í engu ábendingum aðstoðarmanna sinna. Sama átti við um Persson. Síðar báðu þau þjóðina opinberlega afsökunar á afglöpum sínum. Í fyrra kom málið aftur er það fór fyrir rannsóknarnefnd og töldu þá flestir að Freivalds myndi þurfa að segja af sér en hún stóð málið í heild af sér. Ástæða afsagnarinnar er hinsvegar ásakanir um að hún hafi brotið stjórnarskrá með því að láta loka vefsíðu sem birti skopmyndir af Múhameð spámanni. Er enda lögbrot að stjórnvöld hafi slík afskipti.

Laila Freivalds sagði á blaðamannafundi í morgun að hún hefði sjálf átt frumkvæði að afsögninni. Trúa fáir því mati og bendir flest til þess að Persson hafi skipað henni að segja af sér. Tilgangurinn er enda næsta augljós, enda er fylgi ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð dalandi og persónulegt fylgi forsætisráðherrans hefur fallið verulega á kjörtímabilinu. Kosningar verða í Svíþjóð í september og skv. skoðanakönnunum eiga borgaralegu stjórnmálaöflin góða möguleika á að velta Persson og stjórn hans úr sessi. Það kemur því fáum beinlínis að óvörum að Persson fórni Lailu Freivalds, sem hefur alla tíð verið einn af allra óvinsælustu stjórnmálamönnum Svíþjóðar og var mun umdeildari í utanríkisráðherratíð sinni en hún var sem dómsmálaráðherra. Við brotthvarf sitt úr stjórn er hún sökuð um að ljúga til um aðild sína að málinu sem varð henni að falli og eins um aðdraganda eftirmála flóðbylgjunnar á Indlandshafi, þar sem hún sniðgekk allar ábendingar um að taka af skarið í viðbrögðum.

Það hafði blasað við lengi að Freivalds myndi missa ráðherrastólinn fyrir kosningar en margir töldu að tilefnið yrði annað. Persson skynjar að það er á brattan að sækja í þingkosningunum í haust og hefur metið það sem svo að Lailu Freivalds væri betra að fórna en valdaferlinum sjálfum. Reyndar fannst mörgum merkilegt að Laila skyldi gerð að utanríkisráðherra allt frá upphafi. Hún þótti útbrunninn stjórnmálamaður og hafa á sér ásýnd óheiðarleika. Hefur enda jafnan verið talið að hún hafi verið valin til starfans vegna þess að hún myndi ekki skyggja um of á forsætisráðherrann. Svo gæti þó farið að afglöp hennar í starfi kosti kratana sigur í haust og greinilegt er að Persson leggur áherslu á að hún fari svo að því verði bjargað sem mögulega sé hægt að bjarga.

Fyrst í stað mun Bosse Ringholm aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar, gegna embætti utanríkisráðherra. Almennt er talið að Persson reyni að bæta ímynd sína með því að skipa sterkan og öflugan stjórnmálamann, jafnvel aðra konu, til embættisins. Reyndar er mjög hugleitt í Svíþjóð hver taki við Jafnaðarmannaflokknum af Persson, sem leitt hefur flokkinn samfellt í áratug. Aðeins Tage Erlander og Olof Palme hafa leitt flokkinn lengur. Óháð því hvort Persson sigrar í kosningunum í haust blasir við að leiðtogaskipti verði í sænska Jafnaðarmannaflokknum bráðlega. Brotthvarf Lailu Freivalds breytir engu um það.

Saga dagsins
1874 Amtmannsstofan á Möðruvöllum í Hörgárdal brann. Hún var reist í stað húss sem brann tæpri hálfri öld áður. Ennfremur voru þar nokkuð margir kirkjubrunar, sem sagt er frá í sögufrægum ritum í firðinum.
1955 Bandaríski leikarinn Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á Frank Pulver í kvikmyndinni Mister Roberts. Hann hlaut verðlaunin aftur árið 1974, þá fyrir Save the Tiger. Lemmon var einn af bestu gamanleikurum Bandaríkjanna á 20. öld og þekktur fyrir grínleik sinn. Hann lést í júnímánuði 2001.
1974 Undirskriftir 55.522 Íslendinga voru afhentar forseta sameinaðs Alþingis þar sem varað var við uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Undirskriftasöfnunin gekk undir nafninu Varið land.
1994 Leikkonan Holly Hunter hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni mállausu kjarnakonu Ödu McGrath í kvikmyndinni The Piano.
1999 Leikstjórinn Steven Spielberg hlaut leikstjóraóskarinn fyrir kvikmynd sína, Saving Private Ryan. Þetta var í annað skiptið sem hann hlaut óskarinn. Áður hlaut Spielberg verðlaunin sama dag fimm árum áður, þá fyrir leikstjórn sína í hinni eftirminnilegu Schindler's List.

Snjallyrðið
Life without liberty is like a body without spirit.
Kahlil Gibran skáld (1883-1931)


ISG leitar í smiðju Jóns Baldvins

Jón Baldvin Hannibalsson

Það er greinilegt að Jón Baldvin Hannibalsson er orðinn einskonar nýr Gylfi Þ. Gíslason kratanna. Maður sem þau hefja upp til skýjanna og líta upp til og leita ráðlegginga hjá. Það vita það enda allir sem vilja vita að áhrif Gylfa Þ. í stjórnmálum hérlendis voru mun lengur sýnileg en bara á lykiltímabili stjórnmálaferils hans. Hann var virðulegur gamall stjórnmálamaður sem leitað var til lengi vel til að ræða málefni samtímans og hann sló oftar en ekki í gegn með boðskap sínum. Greinilegt er að kratar nútímans hafa búið til samskonar íkon úr Jóni Baldvin - nýkomnum heim að loknum verkum sínum í utanríkisþjónustunni í Washington og Helsinki. Þegar að minnst var 90 ára afmælis Alþýðuflokksins sáluga var Jón Baldvin einn formanna Alþýðuflokksins ræðumaður við athöfn í Ráðhúsinu þar sem þessa gamla flokks (sem reyndar enn er til óformlega séð) var minnst með nokkum tregablöndnum hætti.

Það er greinilegt að Jón Baldvin og Ingibjörg Sólrún eru samherjar í pólitík innan Samfylkingarinnar. Hann studdi hana enda til formennsku í flokknum í fyrra með opinberum hætti meðan að annar fyrrum formaður Alþýðuflokksins, Sighvatur Björgvinsson, studdi Össur með áberandi hætti. Það var enda mjög greinilegt að á meðan að Jón Baldvin baðaði sig í sviðsljósinu í erfidrykkju Alþýðuflokksins sat Sighvatur stúrinn úti í horni gleymdur og utan kastljóssins. Afmælishátíðin í Ráðhúsinu var enda greinilega fjölmiðlamoment ISG og JBH. Saman komu þau fram í Silfri Egils og töluðu fjálglega um kratastefnu í pólitík og fleira sem þeim þótti við eiga á þessum merkisdegi í sögu Alþýðuflokksins sáluga. Fjarvera núverandi formanns Alþýðuflokksins, Guðmundar Árna Stefánssonar sendiherra, var reyndar mjög áberandi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Eins og flestir muna eflaust flúði hann á náðir utanríkisþjónustunnar til að þurfa ekki að vinna með Ingibjörgu Sólrúnu.

Jón Baldvin er mælskur stjórnmálamaður og hefur sagnakraft eins og Vestfirðinga er von og vísa. Sama frásagnarkraft hefur Össur fyrrum kratahöfðingi greinilega, eins og sást í nýlegum skrifum hans um Afríkuferðina. Þau skrif leiftruðu af frásagnargleði og tilfinningum fyrir staðnum - lesandanum fannst enda eins og hann væri staddur í ferðinni. Einn af helstu kostum Jóns Baldvins er skemmtilegur frásagnarhæfileikinn og það er engu líkt að hlusta á hann tala t.d. um alþjóðastjórnmál eða utanríkispólitík. Þó að maður sé oft á tíðum mjög ósammála honum er frásögn hans þess eðlis að maður hlustar af áhuga. Reyndar verð ég að viðurkenna að mér fannst Jón Baldvin breyttur við heimkomuna er sendiherratímabilinu lauk. Gott ef hann hljómaði ekki eins og gamli byltingarmaðurinn sem hann varð áður en hann flúði á náðir Alþýðuflokksins. Kannski er það þess vegna sem hann nýtur sín svo vel þessa dagana með Ingibjörgu Sólrúnu, sem er gamaldags rauðsokka í forystu jafnaðarmannaflokks.

Jón Baldvin er miklu vinstrilitaðri nú að mínu mati en hann var t.d. sem fjármála- og utanríkisráðherra er stjórnmálaferill hans var í sem mestum blóma. Nú er talað um að hann komi kannski aftur. Það er reyndar kostulegt ef að ISG telur sig ekki eiga viðreisnarvon í pólitískum slag við Geir H. Haarde nema að fá liðsinni krata eins og Jónanna tveggja. Reyndar er ljóst að þeir eru í miklum metum hjá henni, enda sátu þeir báðir hjá henni í krataminningarsamkundunni á meðan að Sighvatur sat eins og gleymdi maðurinn nokkuð til hliðar. Reyndar finnst mér oft merkilegt að sjá hvernig að Jón Baldvin getur talað og talað án þess að rifja upp eigin afrek og reyna að upphefja sig á fjölda mála sem margir komu að. Hann minnir mig oft á Steingrím Hermannsson sem oft segir sögur af afrekum sem hann stóð fyrir en síður frá vondu málunum nema að reyna að geta þess að hann hafi hvergi verið nærri. Gott dæmi um þetta má lesa í ævisögum Steingríms sem komu út í þrem bindum og voru skrifaðar af borgarstjóraefni Samfylkingarinnar.

Nú er greinilegt að Jón Baldvin er aðalutanríkispostuli Samfylkingarinnar. Nú er sagt frá því í fréttum að honum sé ætlað að leiða þverpólitískan hóp til að ræða um varnarmálin og móta einhvern vísi að nýrri utanríkisstefnu. Þetta er mjög merkilegt að sjá reyndar, enda er greinilegt að ISG skrifar ræður um varnarmálið og talar um það með ráðgjöf Jóns Baldvins að leiðarljósi. Hann er greinilega að ráðleggja henni í þessum málum, sem er reyndar vart undrunarefni enda veitir ISG og Samfylkingunni ekki af að eignast utanríkisstefnu fyrir það fyrsta. Hún hefur um nokkurt skeið verið á verulegu reiki og ekki seinna vænna fyrir krataflokkinn að reyna að grafa hana upp eða að fá fyrrum utanríkisráðherra síðasta kratatímabils í sögu ríkisstjórnar Íslands til að lesa þeim upp grunninn að einhverri stefnuáætlun eða mótun að stefnu. Reyndar er samt skondið að heyra talað um þennan hóp undir forystu Jóns Baldvins sem þverpólitískan vettvang. Það er fyndinn leikur að orðum þykir mér satt best að segja.

Ingibjörg Sólrún hefur verið formaður Samfylkingarinnar í tæpt ár. Það er ekki hægt að segja að það tímabil hafi verið sælutímabil fyrir Samfylkinguna. Það er vissulega merkilegt þegar að hún er farin að leita til Jóns Baldvins um að semja utanríkisstefnu fyrir Samfylkinguna og telur rétt að treysta ráðleggingum hans með þessum hætti. Ingibjörg Sólrún telur sig ekki geta talað trúverðugt í varnarmálum nema leita eftir ráðleggingum sér reyndari manna og fá þá til að vinna einhverja stefnu í málaflokknum. Hún hefur reyndar á nokkrum dögum farið nokkra hringi í varnarmálunum en nú er Jón Baldvin greinilega farinn að ráðleggja henni og beina henni á þær leiðir sem hann telur vænlegastar og nú tekur hann til verka við að vinna einhverja trúverðuga stefnu fyrir Samfylkinguna. Er það mjög merkilegt.

Reyndar má spyrja sig að því hvort að sú utanríkisstefna verði ekki mátulega vinstrilituð og í takt við úrelt sjónarmið. Grunar mig að svo muni verða.


Snúinn ökkli

Ökkli

Jæja, ég varð fyrir því óláni seinnipartinn í dag að hrasa svo illa að ég varð að fara á slysadeildina. Niðurstaðan er sú að ég sneri upp á ökklann og er því draghaltur. Hitti reyndar góðan vin minn í biðinni á slysadeildinni og ræddum við um margt og mikið á meðan. Fannst merkilegt að eftir allt saman myndum við enda saman í bið á slysadeild. Alveg kostulegt. Ég fékk hina fínustu umönnun og fór við svo búið heim og sleppti fundi í kvöld sem var um bæjarmál. Hringdi í Björn Magnússon og bað hann að bera fundinum kveðju mína. Fannst honum og Guðmundi reyndar skondið að fá símtal um að ég væri með snúinn ökkla enda höfðum við hist aðeins nokkrum klukkutímum áður og átt saman langan og góðan fund.

Þetta var alveg skelfilega sárt fyrstu stundirnar eftir óhappið en ég drattast svona um eins og haltur gamall maður. :) Reyndar hefur mér ekki liðið djöfullegar í fætinum í mörg ár, allt síðan í slysinu forðum er ég fór illa á öðrum fætinum. En þetta er enginn heimsendir og ég ætla að halda áfram á fullu eftir fremsta megni. Mæti í vinnuna á morgun auðvitað, enda ég ekki þeirrar gerðar að láta mig vanta lengi. Ég er þannig týpa að ég held alltaf áfram - sama hvað gerist. Ég er semsagt alveg þrælsnúinn, eins og venjulega reyndar. :)

Saga dagsins
1939 Þýsk sendinefnd kom til Reykjavíkur, tæpu hálfu ári fyrir upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Fóru þeir fram á að fá að koma upp flugbækistöð hérlendis. Beiðninni var hafnað af stjórnvöldum.
1948 Breski leikarinn Ronald Colman hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Anthony John í kvikmyninni - var einn af virtustu leikurum Bretlands á 20. öld. Colman lést árið 1958 úr lungnasýkingu.
1952 Bandaríski leikarinn Humphrey Bogart hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Charlie Allnut í kvikmyndinni The African Queen. Bogart var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og hlaut vinsældir fyrir kraftmikla og litríka túlkun á sterkum og hnarreistum karakterum. Hann lést í janúar 1957 úr krabbameini. Bogart var valinn besti leikari 20. aldarinnar við aldamótin 2000.
1991 Ásgeir Hannes Eiríksson flutti stystu þingræðuna í sögu Alþingis Íslendinga. Við umræðu um álversbyggingu á Keilisnesi tók Ásgeir Hannes til máls og sagði aðeins 4 orð: "Virðulegi forseti. Álverið rísi!".
2003 Sprengjum Bandamanna rignir yfir stjórnsýslubyggingar Íraka og helstu höfuðstöðvar Saddam Hussein í höfuðborginni Bagdad - fljótt dró úr mætti Baath-stjórnarinnar og ljóst varð allt frá upphafi að auðvelt yrði að fella hana. Árásirnar lömuðu forystu landsins og landhernaður hófst í kjölfar þess. Stjórnin féll 20 dögum síðar.

Snjallyrðið
Disciplining yourself to do what you know is right and importance, although difficult, is the highroad to pride, self-esteem, and personal satisfaction.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)


Sunnudagspistill - 19. mars 2006

Stefán Friðrik

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:

- Þáttaskil urðu í varnarmálum Íslands í vikunni þegar að fyrir lá einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að binda enda á umsvif Bandaríkjahers á Íslandi. Þau munu heyra sögunni til í síðasta lagi þann 1. október og hefur forsætisráðherra nú sent forseta Bandaríkjanna bréf til að leita viðbragða frá honum um það hvað taki nú við í tvíhliða varnarsamningi þjóðanna. Fer ég yfir skoðanir mínar í þessu máli og fjalla um þáttaskilin sem blasa við. Mér fannst vinnubrögð bandarískra stjórnvalda með öllu óviðunandi af helstu bandalags- og vinaþjóð okkar að ræða. Við þurfum þá alvarlega að íhuga hvernig samskiptin eru metin ef þetta eiga að teljast vinaleg samskipti milli tveggja þjóða sem eiga gagnkvæm og virðuleg samskipti. En nú er beðið þess að forseti Bandaríkjanna svari bréfinu og betur verður hægt að kortleggja stöðuna er það svar liggur fyrir.

- Í vikunni var frumvarp Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra til vatnalaga samþykkt á Alþingi. Áður hafði verið samið um afgreiðslu þess eftir um 40 klukkustunda umræður um það. Að óbreyttu hefði stefnt í eitt allsherjar málþóf í 10-15 daga en dagana fyrir samkomulagið hafði ekkert annað en umræðan um það verið á dagskrá þingsins og stefndi í að þinghald myndi riðlast mjög vegna þess. Fjalla ég um málið og umræðuna sem var um það - jafnframt fer ég yfir þá málefnafátækt sem einkennir stjórnarandstöðuna.

- Það blandast engum hugur um það að staða Akureyrarbæjar sé góð. Það er mjög gott að vera Akureyringur eins og staða mála er. Nýlega voru kynntar heildarniðurstöður ársreikninga Akureyrarbæjar fyrir árið 2005. Staða mála telst betri en áður var stefnt að. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er enda jákvæð um rúmlega 360 milljónir króna en áætlun hafði áður gert ráð fyrir 144,2 milljóna króna hagnaði - semsagt tvöfaldur hagnaður. Mikið gleðiefni það.


Sígur sífellt meir á ógæfuhliðina hjá Blair

Tony Blair

Tæpu ári eftir að Verkamannaflokkurinn vann sinn þriðja kosningasigur í röð í breskum þingkosningum undir forystu Tony Blair skekur enn eitt hneykslið og vandræðamálið hann. Það hefur nú komist í hámæli í breskum fjölmiðlum að Verkamannaflokkurinn hefði þegið 14 milljóna punda lán frá auðmönnum fyrir kosningarnar í fyrra. Skv. fréttum er fullyrt að þessir sömu auðmenn hafi með þessu verið að kaupa sig inn í góð sæti í lávarðadeild breska þingsins og umtalsverð áhrif með því. Ágreiningur virðist vera í breskum stjórnmálum skiljanlega vegna þessa. Nú reyna forystumenn flokksins að tala sig frá því en t.d. bæði John Prescott varaforsætisráðherra Bretlands, og Gordon Brown fjármálaráðherra, segjast nú enga vitneskju hafa haft um stöðu mála fyrir kosningar í fyrra og fyrst heyrt af málinu í umfjöllun breskra fjölmiðla seinustu daga. Fæstir virðast þó trúa því.

Er alveg ljóst að málið hefur haft skaðleg áhrif á stöðu Blairs og ekki síður Verkamannaflokksins. Ef marka má nýjustu skoðanakannanir eykst forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn um tvö prósentustig og fylgi forsætisráðherrans hefur aldrei mælst lægra. Slær það út fyrra lágmark, sem var sumarið 2003 þegar tal um eftirmála innrásarinnar í Írak og sjálfsmorð vopnasérfræðings David Kelly reið yfir. Aðeins rétt tæp 36% landsmanna styðja forsætisráðherrann beint og það sem verra er fyrir hann að tæp 60% landsmanna telja með vissu að hann hafi prívat og persónulega heitið auðmönnum sæti í lávarðadeildinni fyrir að veita nægum fjármunum í kosningabaráttu Verkamannaflokksins vorið 2005. Greinilegt er að Blair lætur þetta yfir sig ganga, enda þarf hann ekki oftar að fara í kosningabaráttu og þegir um stöðuna. Hinsvegar birtast Prescott og Brown báðir, enda munu þeir báðir fara í næstu kosningar og almennt talið öruggt að Brown taki við af Blair.

Tony Blair hefur nú setið sem leiðtogi Verkamannaflokksins í tæp 12 ár og verið forsætisráðherra í tæp 9 ár, frá 2. maí 1997. Hann varð leiðtogi breska Verkamannaflokksins er John Smith, forveri hans, varð bráðkvaddur sumarið 1994 og náði að sveigja flokkinn inn á miðjuna og vann þingkosningarnar 1997 með því að gera Verkamannaflokkinn að miðjuflokki sem náði að höfða til fleiri hliða en fyrri leiðtogar hans höfðu gert. Verkamannaflokkurinn varð nútímalegri og meira heillandi en t.d. undir forystu Neil Kinnock sem var með flokkinn mun meira til vinstri og náði aldrei að leiða flokkinn til sigurs, að því er margir segja einmitt vegna vinstriáherslu sinnar. Blair stokkaði upp öll vinnubrögð og áherslur innan flokksins er hann tók við valdataumunum innan hans og náði að gera flokkinn að stórveldi í breskum stjórnmálum á ný. Lykillinn að því hversu miklum vinsældum hann átti að fagna ber að þakka því að hann hafði ásjónu heiðarlegs stjórnmálamanns.

Flestum má ljóst vera að breskir kjósendur hafa fengið nóg af Blair og telja hann núorðið gerspilltan sem ómast í fyrrnefndri könnun en 70% telja stjórn Blairs jafnspilla og ríkisstjórn John Major á tíunda áratugnum, þar sem hvert hneykslismálið reið yfir. Blair hefur virkað þreytulegur og úr tengslum við kjarnann, bæði í flokknum og hinn almenna kjósanda, seinustu mánuðina. Í byrjun nóvember 2005 beið hann þó sinn táknrænasta ósigur á ferlinum - þá tapaði hann í fyrsta skipti í atkvæðagreiðslu í breska þinginu. Tekist var þar um það hvort að ákvæði þess efnis að halda mætti mönnum í allt að 90 daga í stað 14 í gæsluvarðhaldi án formlegrar ákæru væru þeir grunaðir um hryðjuverkastarfsemi. Tapið varð nokkuð afgerandi og skaðlegt fyrir hann. Spurningin sem nú blasir við flestum stjórnmálaspekúlöntum í Bretlandi er tvíþætt - í fyrra lagi hversu lengi mun hann sitja sem forsætisráðherra og í seinna lagi mun hann geta komið málum sínum í gegn úr þessu?

Við fyrri spurningunni er svarið einfalt. Flestir spá því að hann eigi skammt eftir sem stjórnmálaleiðtogi. Hann hefur þegar tilkynnt að hann gefi ekki kost á sér aftur í þingkosningum. Flestir spá því að hann hafi veikst svo mikið að hann muni þurfa að láta af embætti fyrr en hann hefði óskað sér. Við seinni spurningunni er komið það svar að hann geti varla stjórnað sem kraftmikill leiðtogi nema leita málamiðlana við órólegu deildinni - hún hefur örlög hans að því er virðist í hendi sér. Dagar hans sem leiðtoga sem fari sínu fram séu taldir. Við Blair blasir nú sama ástand og var undir lok valdaferils forvera hans, John Major, fyrir tæpum áratug. Major varð seinustu ár valdaferils síns að lifa sínu pólitíska lífi í skugga andstæðinganna innan flokksins sem höfðu hreðjatak á honum og verkum hans - jafnvel lykilákvörðunum. Major, sem margir vilja kalla lame-duck leader, hefur enda sagt í ævisögu sinni frá því að valdaár sín hafi verið beisk og mörkuð því að hann gat ekki farið sínu fram.

Greinilegt er að líða tekur að lokum hjá Blair. Viðbrögð Prescott og Brown einkennast af því að bjarga sér sjálfum. Það stefnir óneitanlega nokkuð í húsbóndaskipti í Downingstræti 10 á þessu ári. Blair fari af hinu pólitíska sviði og inn komi Gordon Brown. Það muni friða óánægjuöflin innan Verkamannaflokksins og ekki síður gera hann vinstrisinnaðri en var undir leiðsögn Blairs. Blair er ekki gamall maður, aðeins 53 ára - en er vissulega orðinn mjög pólitískt þreyttur og mæddur eftir áföll seinustu mánaða. Það stefnir því allt í að Blair sé á útleið þegar á þessu ári. Það vissu allir nema kratar reyndar í fyrra en þeir virðast vera að vakna til lífs með það að Blair er þeim akkilesarhæll í stöðunni. Viðbrögð helstu lykilmanna er að beina ábyrgðinni frá sér yfir á leiðtogann. Tilgangurinn er næsta augljós og það sem meira er að líkurnar á snöggum valdaskiptum innan Verkamannaflokksins fyrir árslok fara stöðugt vaxandi.

Saga dagsins
1908 Kona tók í fyrsta skipti til máls á fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur - Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og lagði hún til í ræðu sinni að fé yrði veitt til sundkennslu fyrir stúlkur. Tillaga Bríetar var þar samþykkt einróma.
1982 Argentínumenn reyna að taka völdin á Falklandseyjum - leiddi til langra stríðsátaka við Breta sem lauk með sigri þeirra síðarnefndu.
1984 Sextán pólskar nunnur komu til landsins, og settust þær að í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, þar sem þær hafa dvalið alla tíð síðan.
1995 Við Skeiðsfoss í Fljótum í Skagafirði mældist snjódýpt 279 sentimetrar - snjódýpt hafði hérlendis þá aldrei mælst meiri hér en þá.
2003 Innrás Bandamanna í Írak hefst - aðfararnótt 19. mars 2003 rann út tveggja sólarhringa frestur sem Bandaríkjastjórn veitti Saddam Hussein og tveim sonum hans til að yfirgefa landið. Kl. 03:15 að íslenskum tíma, flutti svo George W. Bush forseti Bandaríkjanna, stutt ávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórninni væri hafin. Fyrirskipaði hann árásir á valin skotmörk í upphafi sem höfðu það að markmiði að draga úr mætti stjórnarinnar. Einræðisstjórn Íraks féll í byrjun apríl og var Saddam Hussein handtekinn í desember 2003.

Snjallyrðið
You must not lose faith in humanity. Humanity is an ocean; if a few drops of the ocean are dirty, the ocean does not become dirty.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)


Ógleymanleg kvikmyndaperla

James Stewart og Grace Kelly í Rear Window

Flestir sem þekkja mig vita að ég er algjör kvikmyndafíkill og eflaust fer það ekki framhjá þeim sem líta á heimasíður mínar. Ég á enda gríðarlega mikinn fjölda mynda. Þær sem ég hef mest gaman af eru gamlar eðalmyndir kvikmyndasögunnar. Þegar að ég vil virkilega njóta lífsins set ég gamla eðalmynd í DVD-spilarann og horfi á með miklum áhuga. Uppáhalds leikstjóri minn er (að öllum öðrum annars ólöstuðum) Sir Alfred Hitchcock. Það er enginn vafi á því að ferill Hitchcocks var algjörlega einstakur. Hann var einn fremsti kvikmyndagerðarmaður 20. aldar - meistari spennumyndanna, sannkallaður snillingur í að ná fram því besta frá leikurum sínum og skapa ógleymanlegar stórmyndir. Á ferli sínum leikstýrði hann tæplega 70 kvikmyndum. Fáir leikstjórar hafa sett meira mark á kvikmyndagerð og sögu kvikmynda. Sannkallaður meistari meistaranna í kvikmyndaheiminum.

Ég á flestallar kvikmyndir meistara Hitchcocks og hef lagt mikla rækt við að safna þeim. Nokkrar á ég enn eftir að safna en sumum náði ég í ferð minni til Washington í október 2004. Meðan að flestir ferðafélaganna í þeirri ferð voru að versla föt og annan óþarfa lá ég í myndaverslunum að kaupa mér DVD-diska. Sennilega trúa því fáir þegar að ég segi það en ég segi það samt hér: ástríða mín á kvikmyndum er í hjartanu meiri en fyrir stjórnmálum. Það að horfa á góða kvikmynd, spá í öllum meginþáttum hennar og pæla svo í heildarrammanum á eftir er sannkallað listform og satt best að segja er það sönn og heilsteypt ástríða. Þegar að ég vil komast í gírinn aftur horfi ég á góða mynd eða les bók. Ég er reyndar þannig karakter að ég verð alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Það er kannski þess vegna sem þessir vefir eru meira en bara lúkkið. Hér hafa sjaldan liðið dagar vegna skrifa. Þetta er vegna þess að þetta er ástríða og áhugamál frá hjartans rótum.

Í kvöld gleymdi ég mér algjörlega og setti í spilarann eina af eðalmyndum meistara Hitchcocks. Rear Window, gerð á árinu 1954, er ógleymanlegt meistaraverk úr safni hans. Hún segir frá ljósmyndara sem fótbrotnaði í kjölfar vinnuslyss, neyðist til að hanga heima og hefur lítið fyrir stafni og hundleiðist það, vægast sagt. Hans tómstundaiðja heima við verður að nota sjónkíkinn sinn til að fylgjast mannlífinu hjá nágrönnum hans og uppgötvar hann sér brátt til mikillar skelfingar að einn þeirra hefur myrt eiginkonu sína og hefur hulið spor sín svo vel að líkið mun aldrei finnast nema hann leysi málið sjálfur. En þá vandast málin, hvernig getur hann sannfært aðra um að nágranninn hafi framið verknaðinn og að hann hafi nokkru sinni átt sér stað. Sú eina sem virðist trúa honum er kærastan hans Lisa, en það er ekki nóg, hann verður að fá liðsinni lögreglunnar áður en nágranninn kemst að hann hefur verið staðinn að verki, þá gæti allt verið orðið of seint.

Hér gengur bókstaflega upp til að skapa ómótstæðilegt meistaraverk. Óskarsverðlaunaleikarinn James Stewart vinnur einn af stærstu leiksigrum sínum í hlutverki ljósmyndarans L.B. Jeffries og ber hann myndina uppi, er á skjánum allan tímann og er hrein snilld að fylgjast með þessum leikara sem er hiklaust einn af allra bestu leikurum tuttugustu aldarinnar í þessu stórfenglega hlutverki sem margir höfðu hafnað áður en hann tók því, m.a. hafði Humphrey Bogart, Spencer Tracy og Cary Grant verið boðið hlutverkið. Óskarsverðlaunaleikkonan Grace Kelly er sannkallað augnayndi í hlutverki Lisu Freemont, hinnar trygglyndu og vellauðugu unnustu Jeffries. Grace var sjaldan betri og flottari en hér á ferlinum. Ein besta gamanleikkona síðustu aldar, hin frábæra Thelma Ritter, fer á kostum í hlutverki sjúkranuddarans Stellu. Hnyttnir og góðir brandarar verða að gullmolum í meðförum hennar. Síðast en ekki síst er Raymond Burr flottur hér, en aldrei þessu vant leikur hann vonda kallinn (helst þekktur fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Perry Mason).

Rear Window er ein af þessum úrvalsmyndum kvikmyndasögunnar sem allir verða hreinlega að sjá. Hafði ég ekki séð hana nokkuð lengi og naut hennar sem ég væri að sjá hana í fyrsta skiptið. Þannig eru eðalmyndir - þær eru alltaf ferskar og heilsteyptar sama hvort verið sé að horfa á í fyrsta skiptið eða það tuttugasta ef út í það er farið. Ég er allavega kvikmyndaáhugamaður af hjartans náð og tel það mjög áhugaverðan og góðan kost að vera áhugamaður um kvikmyndir. Þeir sem einu sinni hafa helgað hjartað sitt kvikmyndum og pælingum um það vita vel hverju ég er að lýsa. Þetta er alveg eðall.

Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Það segi ég allavega fyrir mig - verandi kvikmyndáhugamaður af ástríðu. Hvet ég enda alla til að njóta kvikmynda sem sannrar ástríðu. Það bætir alla.

Umfjöllun SFS um Sir Alfred Hitchcock


Skemmtilegur dagur út í Hrísey

Hrísey

Ég var að koma heim að loknum skemmtilegum degi úti í Hrísey - í morgun fórum við sjálfstæðismenn á Akureyri út í eyju. Áttum við góðan dag í hópi góðra flokksfélaga úti í eyju og skemmtum okkur vel. Við hittumst upp við Kaupang rúmlega hálf níu í morgun og héldum með rútu út á Árskógssand. Á leiðinni áttum við gott spjall og fórum yfir málefni kosningabaráttunnar og það sem er að gerast í bæjarmálunum. Mundi keyrði rútuna og Sigrún Björk hafði skipulagt ferðina vel ásamt fleirum. Í ferjunni hitti ég góðan félaga frá Dalvík og ræddum við um pólitíkina þar, en eins og ég hef áður bent á guggnaði Samfylkingin á því að bjóða fram lista í eigin nafni. Var gaman að fara yfir málin þar og ekki síður hafði ég gaman af því að heyra hvernig talað er enn um Húsabakka. Annars er rétt að benda á að D-listinn eitt framboða árið 2002 ljáði máls á því í kosningabaráttunni að loka skólanum og beitti sér fyrir því. Var það rétt ákvörðun án nokkurs vafa.

Er út í eyju kom funduðum við á veitingastaðnum Brekku og héldum áfram í kosningaundirbúningnum. Fórum við yfir mikilvæg meginatriði og áttum mjög gott spjall um málin. Er ánægjulegt hversu samhentur hópurinn er og fer af krafti inn í næstu verkefni í kosningaundirbúningnum. Að fundi loknum löbbuðum við yfir í Sæborg og áttum þar góða stund í skemmtilegum leikjum. Sú skemmtilega hugmynd kom upp að para okkur tvö og tvö saman. Áttum við að reyna að komast að einhverju nýju um hinn aðilann sem við vissum ekki áður. Var mjög gaman að heyra af þessu. Við Guðmundur Jóhannsson lentum saman og við áttum hið fínasta spjall í að fara yfir hvað við vissum ekki um hvorn annan. Undir lok ferðarinnar fórum við öll yfir það hvað við komumst að. Var þetta mjög gaman og mikið hlegið saman yfir þessu. Eftir hádegið fórum við í Hákarlasafnið - flott safn sem verið er að byggja upp. Það er áhugavert að líta þangað og kynna sér það sem þar er.

Undir lokin fórum við í ferð um eyjuna á dráttarvél og fengum góða yfirferð um það sem þar er að gerast. Þeir Narfi Björgvinsson og Kristinn Árnason kynntu okkur stöðu mála og komu með góða fróðleiksmola um eyjuna. Síðdegis héldum við svo heimleiðis eftir góðan dag. Það var gaman að fara út í eyju og vil ég þakka þeim Narfa og Kristni fyrir höfðinglegar móttökur. Það er alltaf gaman að fara út í Hrísey og njóta kyrrðar og notalegs umhverfis þar.

Saga dagsins
1760 Landlæknisembættinu var komið á fót - Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir, fyrstur manna.
1772 Björn Jónsson skipaður fyrsti lyfsalinn hérlendis - áður var lyfsala hluti af skyldum landlæknis.
1926 Útvarpsstöð, sú fyrsta hérlendis, tók formlega til starfa í Reykjavík - fyrstur í útvarpið þá talaði Magnús Guðmundsson atvinnumálaráðherra. Sagði hann í ræðu sinni að miklar vonir væru bundnar við þessa miklu og nýju uppgötvun mannsandans. Stöðin hætti fljótlega starfsemi en hún markaði söguleg skref, engu að síður í íslenskt fjölmiðlalíf. Ríkisútvarpið hóf útsendingar fjórum árum síðar.
1938 Spencer Tracy hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Manuel í kvikmyndinni Captains Courageous. Tracy hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Boys Town. Tracy var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum. Hann lést í júní 1967, örfáum dögum eftir að hann lauk vinnu við sína síðustu mynd, Guess Who's Coming to Dinner?, þar sem hann fór á kostum með Katharine Hepburn, sem hann bjó með lengi og lék með í fjölda mynda.
1971 Hæstiréttur Danmerkur kvað upp úrskurð sem ruddi úr vegi síðustu hindrun fyrir afhendingu handritanna til Íslendinga. Fyrstu handritin voru afhend formlega mánuði síðar við hátíðlega athöfn.

Snjallyrðið
In the sweetness of friendship let there be laughter, and sharing of pleasures. For in the dew of little things the heart finds its morning and is refreshed.
Kahlil Gibran skáld (1883-1931)


Í minningu Sesars Þórs

Sesar Þór Viðarsson

Sesar Þór Viðarsson var jarðsunginn í dag. Hann lést fyrir tæpum hálfum mánuði í hörmulegu bílslysi, langt um aldur fram. Mikil sorg hefur verið hér í Eyjafirði seinustu dagana í kjölfar snögglegs og sorglegs fráfalls Sesars. Öllum sem þekktu Sesar Þór er orða vant. Ég vil votta fjölskyldu hans innilega samúð mína - þau hafa verið sterk í sorginni og hafa virðingu okkar allra sem með fylgjast. Guð blessi minningu Sesars Þórs.


Hvað er eftir af varnarsamningnum?

Geir H. Haarde og Halldór Ásgrímsson

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hefur ritað bréf til George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Innihald bréfsins er skýrt: hvað tekur við í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna eftir 1. október? Þann dag munu umsvif Bandaríkjahers á Íslandi heyra sögunni til. Þáttaskil hafa orðið - um þau þáttaskil hef ég áður ritað um á þessum vef. Nú verða Íslendingar að fá skýr svör frá Bandaríkjunum og þeim sem með einhliða og með afskaplega ómerkilegum hætti slitu á mikilvægustu bönd þessa varnarsamnings. Það er eðlilegt að við spyrjum forseta Bandaríkjanna að því hvað sé nú orðið eftir af varnarsamningnum - með hvaða hætti þeir ætli að standa við skuldbindingar sínar. Nú tekur við vinna við frágang mála og eðlilegt að kanna hvort eitthvað sé orðið eftir í þessum varnarsamningi sem orð er á gerandi. Skýr svör verða að koma frá Washington um það með hvaða hætti þeir meta Ísland og samskipti landanna seinustu 55 árin - hvernig þeir meta varnarsamning landanna.

Þessi varnarsamningur er tvíhliða. Það er því algjörlega fyrir neðan allt þegar að einhver skrifstofublók í bandaríska utanríkisráðuneytinu hringir í Geir Hilmar Haarde, leiðtoga stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og jafnframt utanríkisráðherra og tilkynnir einhliða og allt að því kuldalega nöpur vinnubrögð sem binda enda á grunngildi varnarsamningsins. Það var enda svo að varnarviðræðurnar náðu aldrei neinu marktæku flugi á þeim þrem árum sem þær stóðu. Það er rétt að ég tel sem Valur Ingimundarson benti á að þær viðræður voru alla tíð sýndarviðræður af hálfu Bandaríkjanna. Það var ekkert sem stóð eftir þær nema þá að reyna að hugga okkur og reyna að segja okkur á eins fjarlæglega kuldalegan hátt að við ættum bara að sætta okkur við einhliða rof á tvíhliða varnarsamningi. Mér fannst Valur Ingimundarson tala um þetta mál af festu og með mjög góðum hætti í viðtölum sem fréttamenn NFS og Sjónvarpsins áttu við hann. Valur þekkir málið vel, hefur ritað um það margar vandaðar bækur og hefur mikla þekkingu á stöðunni.

Það er eðlilegt að íslenska ríkisstjórnin spyrji bandarísk yfirvöld að því hvað sé eftir af varnarsamningnum í þeirra augum. Það má vel vera að Íslendingar ætlist til of mikils af Bandaríkjunum. En nú er mikilvægt að skýr svör komi. Mér finnst að varnarsamningurinn heyri algjörlega sögunni til ef þetta verður framhald mála sem við blasi og eðlilegt að endalok þessa varnarsamnings séu formlega staðfest sé þetta það sem á að verða túlkun samningsins sem við okkur blasir. Davíð Oddsson talaði af festu um málið fyrir þrem árum og ég hef alla tíð verið mjög sammála honum. Fari orrustuþoturnar og björgunarþyrlurnar er von að spurt sé: hvað varð um skuldbindinguna - hvað varð um grunngildi varnarsamningsins frá 1951. Mér finnst það eiginlega móðgun við Íslendinga að tala um að Bandaríkin ætli að standi við varnarsamninginn með því að færa allt hér á brott og halda að með því sé staða mála viðunandi. Það er það ekki. Það er þá eðlilegast að Bandaríkin tali hreint út um hvers þeir meta þennan 55 ára gamla varnarsamning og tengsl þjóðanna.

Mér fannst vinnubrögð bandarískra stjórnvalda með öllu óviðunandi af helstu bandalags- og vinaþjóð okkar að ræða. Við þurfum þá alvarlega að íhuga hvernig samskiptin eru metin ef þetta eiga að teljast vinaleg samskipti milli tveggja þjóða sem eiga gagnkvæm og virðuleg samskipti. Það hefði verið algjört lágmark að fulltrúar okkar hefðu verið kallaðir til Washington og leitað leiða að tilkynna þessi endalok varnarliðsins á Íslandi með sameiginlegum hætti. Þess í stað er eitt símtal og ein skilaboð - ein endalok á tvíhliða varnarsamningi. Þetta er óviðunandi að mínu mati. Ég verð að viðurkenna að vinnubrögð Bandaríkjastjórnar komu mér á óvart, enda taldi að einhliða vinnubrögðin árið 2003 myndu leiða til þess að yrði tekin einhver ákvörðun um brotthvarf hersins yrði það gert sem samkomulag og reynt að landa málinu svo báðir aðilar færu frá því sáttir. Þessi vinnubrögð eru því afskaplega einfaldlega að mínu mati fyrir neðan allar hellur. Þetta er svona eins og að senda maka sínum SMS með skilaboðunum: "Hæ elskan þetta er búið, fann aðra - eigum við ekki samt að vera vinir áfram."

Ég ætla að vona að Bandaríkjastjórn ljái máls á því að ljúka þessum tengslum með virðingu fyrir okkur að leiðarljósi sé þeim ekki alvara að standa við skuldbindingar sínar við okkur. Það ætti að vera öllum ljóst að þessu er í raun lokið - herinn og öll umsvif hans eiga að fara í haust og með því taka við þáttaskil. Fjöldaatvinnuleysi er framundan á Suðurnesjum sé ekkert að gert og mikilvægt er að bregðast við því að björgunarþyrlurnar fari á brott. En framundan tekur við spurningin: hvað er í stöðunni. Þetta er enginn heimsendir fyrir okkur svosem - Íslendingar hafa verið þekktir fyrir að komast í gegnum þrengingar með bros á vör og leysa málin. Það gerist í þessu máli sem öðrum. Að mínu mati þarf að efla Landhelgisgæsluna verulega til að standa undir björgunarhlutverkinu. Nú liggur því á að kaupa nýjar þyrlur og bregðast við atvinnuástandinu á Suðurnesjum, sem er grafalvarlegt svo ekki fastar að orði kveðið.

Það er engin furða að forsætisráðherra sendi forseta Bandaríkjanna bréf og spyrji að því hvað sé eftir af varnarsamningnum. Það er enginn vafi á því í mínum huga að Bandaríkjamenn verða að veita sýnilegar varnir hérlendis, ella er varnarsamningurinn frá árinu 1951 einskis virði og vart annars úrkosta en að líta í aðrar áttir. Það verður fróðlegt að sjá svar forseta Bandaríkjanna við bréfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Með því svari er betur hægt að gera sér grein fyrir stöðunni og því hvað sé eftir af varnarsamningnum. Í dag samþykkti stjórn SUS eftirfarandi ályktun sem að mínu mati er mjög góð og tekur vel á málinu og samtvinnar vel þær skoðanir sem ég tjáði í pistli á vef SUS í gær:

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna skorar á íslensk stjórnvöld að hvika hvergi frá þeirri stefnu sinni að tryggja varnir Íslands, þrátt fyrir einhliða breytingar af hálfu Bandaríkjastjórnar á varnarsamstarfi ríkjanna. Sú ákvörðun stjórnvalda í Washington að fjarlægja fjórar herþotur af Miðnesheiði hefur að mati SUS engin grundvallaráhrif á öryggishagsmuni Íslands.

SUS treystir því að viðræður Íslands og Bandaríkjanna um breytingar á farsælum varnarsamningi ríkjanna frá 1951 snúist áfram um að tryggja raunverulegar varnir landsins í ljósi breyttra aðstæðna á alþjóðavettvangi. Íslendingar hljóta fyrst og fremst að treysta á raunverulegar og trúverðugar varnir, þó svo að sýnilegar og táknrænar varnir hafi vissulega ákveðið gildi. Skýr og klár skuldbinding af hálfu Bandaríkjanna um að verja Ísland á hættutímum er og verður áfram besta tryggingin fyrir öryggi landsins.

Um áratugaskeið stafaði Íslendingum veruleg ógn af útþenslustefnu Sovétríkjanna og miklum hernaðarmætti þeirra á norðurslóð. Helsta vörn Íslands var aðildin að NATO. Í Varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 fólst enn frekari vernd gegn þessari vá. Ógnin af hernaðarumsvifum Sovétríkjanna var sýnileg, raunveruleg og sífellt aðsteðjandi. Á þessum tíma gegndu orrustuþotur og margvíslegur annar viðbúnaður varnarliðsins lykilhlutverki fyrir varnir Íslands. Það er fagnaðarefni að Íslendingum stafar ekki lengur ógn af Sovétríkjunum, þeim ríkjum sem þau mynduðu eða öðrum þjóðum í okkar heimshluta.

Aldrei má þó horfa framhjá því að mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að standa vörð um öryggi og frelsi þeirra sem dvelja á Íslandi. Við Íslendingar höfum sem betur fer aldrei þurft að starfrækja her og vonandi mun aldrei koma til þess óyndisúrræðis. Það þýðir aftur á móti að við þurfum að gera annars konar ráðstafanir til að tryggja lágmarksvarnir landsins. Að mati ungra sjálfstæðismanna verður það best gert með áframhaldandi veru Íslands í NATO, ásamt nánu öryggis- og varnarsamstarfi við Bandaríkin og aðrar nágrannaþjóðir sem tekur mið af þeim hættum sem helst gætu steðjað að Íslendingum nú og í náinni framtíð.


Nú er bara að bíða svars frá Washington - svars um það hvað Bandaríkjamenn vilja gera í stöðunni og hvort eitthvað sé eftir af þeim tvíhliða varnarsamningi sem hefur verið í gildi í 55 ár, allt frá árinu 1951. Ég er sammála formönnum stjórnarflokkanna í því að hér verða að vera sýnilegar varnir til marks um að þessi varnarsamningur sé enn til staðar - við verðum að hafa einhver sýnileg merki þess að hann sé ekki bara orðin tóm. Hversu mikil þáttaskilin verða í haust ræðst því að mínu mati mjög mikið óneitanlega af svarinu sem kemur úr Hvíta húsinu á næstu dögum.

Saga dagsins
1917 Tíminn, flokkspólitískt blað Framsóknarflokksins, kom út í fyrsta skipti - Tíminn kom út allt til ársins 1996, er það sameinaðist Degi.
1953 Leikarinn Gary Cooper hlaut óskarinn fyrir meistaralega túlkun sína á Will Kane í kvikmyndinni High Noon. Cooper hlaut verðlaunin áður fyrir leik sinn í myndinni Sergeant York árið 1942. Cooper var einn af svipmestu leikurum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæll fyrir kraftmikla og mannlega túlkun á sterkum karakterum, t.d. í The Pride of the Yankees og Meet John Doe. Cooper hlaut heiðursverðlaun kvikmyndaakademíunnar í apríl 1961 fyrir æviframlag sitt til kvikmynda. Hann lést úr krabbameini rúmum mánuði síðar.
1987 Beinar kosningar um prestsembætti voru afnumdar með lögum.
1988 Fyrsta glasabarnið fæddist hérlendis nákvæmlega 10 árum eftir að fyrsta barnið fæddist á heimsvísu með slíkum hætti.
2001 Kosið var um það í beinni atkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um framtíðarskipulag flugvallar í Vatnsmýrinni og um skipulagslegt byggingarfyrirkomulag alls svæðisins - mjög dræm þátttaka var í kosningunni. Andstæðingar flugvallarins náðu þó naumlega sigri kosningunni. Úrslitin breyttu þó litlu, enda er enn tekist á af krafti um málið. Forsendur flugvallarmála eru og verða átakamál að óbreyttu.

Snjallyrðið
A week is a long time in politics.
Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands (1916-1995)


Samfylkingin guggnar á framboði á Dalvík

Svanfríður Inga Jónasdóttir

Lengi hef ég fylgst af áhuga með bæjarmálunum á Dalvík. Þar hóf ég enda beina þátttöku í pólitík fyrir rúmum áratug og fetaði mín fyrstu skref í pólitísku starfi Sjálfstæðisflokksins. Þekki ég enda vel bæði aðalleikarana í pólitíkinni þar og ekki síður þá sem vinna bakvið tjöldin í flokkunum þar. Þar virðist stefna í mikla uppstokkun í bæjarmálum fyrir komandi kosningar og er nú þegar t.d. ljóst að vinstriflokkarnir bjóða þar ekki fram með neinum hætti. Það vakti athygli mína fyrir nokkrum vikum að tilkynnt var að Svanfríður Jónasdóttir fyrrum kennari og alþingismaður, myndi leiða framboðslista í nafni Samfylkingarinnar og óháðra og að Marinó Þorsteinsson bæjarfulltrúi minnihlutans, myndi verða í öðru sætinu. Þetta var ákvörðun félagsfundar í Samfylkingunni í Dalvíkurbyggð að því er fram kom í umfjöllun á þeim tíma og því hafði ákvörðun um framboð undir S-listabókstaf flokksins verið ákveðið.

Í dag heyrði ég af því að ákvörðun hefði verið tekin að Samfylkingin myndi ekki bjóða fram í sínu nafni í kosningunum í vor í Dalvíkurbyggð. Þess í stað hefur verið gengið frá skipan framboðslista sem ber listabókstafinn J. Tíðindin við hann eru nokkur í augum þeirra sem þekkja stjórnmálin í Dalvíkurbyggð og hafa tekið þátt í flokkspólitísku starfi þar. Það er að vístu að gerast enn eina ferðina (sennilega fjórðu kosningarnar í röð) að ekki eru framboð vinstriflokkanna beint í boði. En nú er ekki heldur um að ræða hreint vinstraframboð. J-listinn er enda skv. yfirlýsingu sem birt hefur verið algjörlega óháður þeim stjórnmálaflokkum sem bjóða fram á landsvísu. Það er ennfremur tekið skýrt fram að engin stjórnmálasamtök eða flokkar standi að J-listanum. Þetta eru mikil tíðindi, enda hafði fyrr verið boðað að Samfylkingin byði fram undir forystu Svanfríðar. Ofan á allt annað er allt önnur manneskja en Marinó sem fyrr er nefndur og hann kominn í það þriðja. Þetta eru kostulegar breytingar óneitanlega.

Svanfríður Jónasdóttir hefur verið áberandi í stjórnmálunum á Dalvík mjög lengi, löngu áður en ég man eftir mér þar. Fyrst þegar að ég kynntist henni um miðjan níunda áratuginn var hún kennari - enginn venjulegur kennari heldur kennari með mjög afgerandi pólitískar skoðanir. Hún var virk í bæjarpólitíkinni samhliða störfum sínum og var skömmu síðar farin burt frá Dalvík - orðin varaformaður Alþýðubandalagsins og varð pólitískur aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar í fjármálaráðuneytinu 1988-1991. Þá kom hún aftur norður og tók til við að kenna aftur í Dalvíkurskóla. Svanfríður var orðin breytt við heimkomuna, hún hafði misst varaformannsstólinn í hörðum varaformannsslag við Steingrím J. og hafði vikið af braut samstarfs við hann í Norðurlandskjördæmi eystra. Er hún kom aftur fór hún að kenna ensku og sögu í skólanum. Heimavöllur Svanfríðar var að mínu mati alla tíð kennslan. Hún var mjög góður kennari og er flestöllum sem hún kenndi eftirminnilegust sem slík.

Eftir að ég hafði yfirgefið Dalvíkurskóla og haldið á brott kom Svanfríður aftur í stjórnmál. Hún leiddi I-lista vinstrimanna vorið 1994 í kosningum á Dalvík. Hún varð forseti bæjarstjórnar að kosningunum loknum og ári síðar varð hún alþingismaður kjördæmisins fyrir Þjóðvaka, sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur. Fjórum árum síðar leiddi hún framboðslista Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi eystra. Það voru mikil læti þá innan Samfylkingarinnar í kjördæminu en Svanfríður náði kjöri en Samfylkingin hlaut mun minna fylgi í NE en VG. Svanfríður tilkynnti svo mörgum að óvörum sumarið 2002 að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í þingkosningum árið eftir í nýju kjördæmi. Síðan hefur lítið farið fyrir henni í pólitík en undir lok ársins 2004 þegar að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar sprakk vegna skólamála að Húsabakka kom til tals að hún yrði bæjarstjóri í nýjum meirihluta. Svo fór að meirihlutinn var endurreistur og ekki varð Svanfríður bæjarstjóri þá.

Ef marka má yfirlýsingu J-listans er Svanfríður bæjarstjóraefni listans að þessu sinni. Er það svosem engin stórtíðindi að svo sé, enda hefur Svanfríður lengi verið virk í bæjarmálum á Dalvík og fyrr verið nefnd sem bæjarstjórakandidat vissra afla. Tíðindin eru þau að Samfylkingin leggur ekki í framboð. Hér er með afgerandi hætti því lýst yfir að fyrrum leiðtogi Samfylkingarinnar í kjördæminu sé að leiða lista sem sé þverpólitískur og með engar tengingar til stjórnmálaflokkanna. Þetta eru merkileg þáttaskil sem eru verða í pólitíkinni útfrá og satt best að segja varð ég að spyrja Kristján Þór að því á málefnafundinum í kvöld hvað væri að gerast útfrá. Það er alveg ljóst að ég verð að líta í kaffi til Svönsu vinkonu minnar um helgina og fá að heyra meira af stöðu mála útfrá. Það er hinsvegar ljóst að stutt er í að framboðslisti okkar sjálfstæðismanna útfrá liggi fyrir.

Það verður væntanlega spennandi kosningabarátta útfrá í vor og ætla ég mér að fylgjast vel með henni, enda þekki ég alla þá sem í forystusveit flokksins þar mjög vel og hef unnið með flestu af því fólki í pólitík. En það er fróðlegt að Svanfríður leggi ekki í framboð fyrir flokk og leiði framboð sem afneitar með öllu einum flokki og einni stefnu, heldur er í framboði algjörlega á eigin vegum. Þetta hefðu mér einhverntíma þótt tíðindi allavega, en kannski er eitthvað annað og meira að gerast í pólitíkinni útfrá en það að Samfylkingin komi ekki saman neinum lista á eigin vegum. Merkilegt, segi ekki meira en það.


Spennandi verkefni framundan

Sjálfstæðisflokkurinn

Vika er nú liðin síðan að ég hóf störf í Kaupangi. Það hefur verið góður tími. Næg verkefni blasa við næstu vikurnar og það er mjög áhugavert verkefni að vinna í því sem framundan er. Seinustu dagana hef ég verið á fullu að vinna að því að öll grunngögn kosningabaráttunnar séu í lagi og málefnavinnan hefur einnig verið fyrirferðarmikil seinustu vikuna. Við erum því komin á fullt í baráttunni og fullt af verkefnum sem ég hef verið að huga að þessa fyrstu viku sem ég hef verið þarna. Fullt af fólki hefur litið við og það er alltaf kaffi á könnunni og ávallt gaman að ræða við þá sem líta við. Bæjarmálin eru heit í umræðunni skiljanlega núna. Rætt er um skipulagsmálin af miklum hita út um allan bæ og svo eru auðvitað framboðslistarnir að taka á sig endanlega mynd. Nú hafa fjögur af fimm núverandi framboðum gengið frá skipan á lista sína í kosningunum í vor. Hin eiginlega kosningabarátta hefst af miklu krafti bráðlega.

Þessa fyrstu viku hef ég verið í góðu sambandi við það úrvalsfólk sem vinnur fyrir sunnan í Valhöll. Flestöll hafa þau haft samband og fært mér góðar kveðjur og við kortlagt verkefnin framundan. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra í Óskari Friðrikssyni, sem hefur með miklum krafti stýrt utankjörfundarkosningunni af hálfu flokksins í marga áratugi og leitt þau mál sem því fylgja. Óskari kynntist ég fyrst fyrir tíu árum. Þá var ég ungur framhaldsskólanemi hér á Akureyri sem vildi styðja Pétur Kr. Hafstein í forsetakosningum. Ég hringdi suður í aðalkosningaskrifstofuna hans Péturs í Borgartúni og bar upp erindi mitt um að ég vildi styðja hann og gerast meðmælandi. Óskar varð fyrir svörum. Honum leist það vel á mig að ekki aðeins varð ég meðmælandi heldur var ég settur í það verkefni að safna meðmælendum hér fyrir norðan og fyrr en varir var ég kominn í innsta kjarnann í starfinu hér á Akureyri og vann við mörg verkefni á kosningaskrifstofunni.

Þarna kynntist ég kjarna kosningabaráttu vel og síðast en ekki síst kynntist góðu fólki. Óskar er mikill kostamaður og alltaf gaman að ræða við hann. Hann var greinilega ánægður með að ég hefði verið settur til verka hérna á skrifstofunni og við ræddum heillengi um hvað væri framundan og ekki síður fyrri daga í kosningabaráttu. Fórum við m.a. að ræða kosningabaráttu almennt hér í Norðausturkjördæmi og Óskar var með mörg góð ráð og skemmtilegar sögur að segja sem fyrri daginn. Óskar er flokknum mikilvægur og oft hefur hann verið kletturinn í að tryggja að allt okkar fólk kjósi og haldið svo vel utan um það að við í flokknum getum aldrei með fullnægjandi hætti heiðrað hann og verk hans í þágu flokksins. Svo ræddi ég við þær Petreu og Bryndísi og sem fyrr gaman að tala við þær og greinilega voru þær ánægðar með að ég væri kominn þarna til starfa. Það er gott og heilsteypt fólk sem heldur utan um málin fyrir sunnan og heiður að vinna með svona góðu fólki.

Í kvöld var langur og góður málefnafundur hjá okkur. Það er góð stemmning í hópnum og vinnan er skemmtileg og ekki síður gagnleg. Gott fólk leiðir hópana og við erum samhent í vinnunni. Fundurinn okkar í kvöld sannfærði mig um það að þessi kosningabarátta verður lífleg og skemmtileg. Fullt af góðum hugmyndum komu fram um seinustu helgi og vinnan heldur áfram af krafti. Um næstu helgi er ferðinni heitið út í Hrísey og þar ætlum við okkur að eiga góðan og skemmtilegan dag með mætum flokksfélögum út í eyju. Ég var reyndar fyrst núna að koma heim eftir langan dag upp í Kaupangi, hef verið þar frá klukkan hálf níu í morgun. Næg verkefni og skemmtileg vinna framundan. Það er alltaf gaman að vera þátttakandi í kosningabaráttu. Ég finn það að þessi hlið kosningabaráttunnar er ekki síður mikilvæg en hin og ég tel að mínir kraftar fái góðan vettvang til verka í þessari kosningabaráttu.

Saga dagsins
1237 Gvendardagur - dánardagur Guðmundar góða Arasonar Hólabiskups - hann var biskup frá 1203.
1940 Sænski rithöfundurinn Selma Lagerlöf lést, 81 árs að aldri - Selma varð bæði ein af virtustu og þekktustu rithöfundum Norðurlanda og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels, fyrst kvenna, árið 1909.
1976 Harold Wilson forsætisráðherra Bretlands, segir af sér embætti og tilkynnir ennfremur að hann hætti formlega þátttöku í stjórnmálum. Kom tilkynning hans öllum að óvörum, aðeins fimm dögum eftir sextugsafmæli hans. Wilson hafði þá verið leiðtogi breska Verkamannaflokksins í 13 ár og var forsætisráðherra 1964-1970 og aftur frá 1974. Hann var sigursælasti leiðtogi breskra vinstrimanna á 20. öld, ásamt Tony Blair. Eftirmaður hans í embætti varð James Callaghan og var við völd í 3 ár.
1978 Aldo Moro leiðtoga kristilega demókrataflokksins og fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, rænt af Red Brigade, hópi öfgasinnaðra vinstrimanna. Moro var forsætisráðherra Ítalíu 1963-1968 og 1974-1976. Moro var haldið föngnum af samtökunum í 55 daga, þar til þau drápu hann. Lík hans fannst í maí 1978.
1983 Reykjavíkurborg keypti Viðey af íslenska ríkinu - endurbótum lauk þar formlega á árinu 1988.

Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)


Herinn að fara - pólitískar áskoranir framundan

Orrustuþota

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu íslenskum stjórnvöldum í dag um þá einhliða ákvörðun sína að draga stórlega úr starfsemi Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári, nánar tiltekið í septemberlok. Ákveðið hefur verið að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verði fluttar þá á brott. Við blasir að þáttaskil verða samhliða þessu. Á þessu ári eru 55 ár liðin frá því að varnarsamningurinn milli Bandaríkjanna og Íslands tók gildi og síðan hafa Bandaríkjamenn gegnt þýðingarmiklu hlutverki hér á landi og tóku í raun við varnarhlutverki landsins og hefur síðan verið litið á aðkomu Bandaríkjanna sem mikilvægan þátt í varnarmálum Íslands. Sú breyting sem nú blasir við hlýtur að túlkast sem stór og mikil breyting á þeim tengslum. Í raun stendur aðeins varnarskuldbindingin eftir en öllum má ljóst vera að án þess viðbúnaðar sem fylgir vélunum blasir við gjörbreytt staða mála. Það er því öllum ljóst að við blasir ný staða sem verður að vinna úr.

Viðræður um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna vegna breyttra aðstæðna í heimsmálum hófust árið 1993, en áður hafði blasað við í fyrsta skipti vilji Bandaríkjamanna til breytinga. Í janúar 1994 var undirrituð bókun til tveggja ára um framkvæmd varnarsamstarfsins. Með henni var ákveðið að orrustuþotum varnarliðsins skyldi fækkað úr tólf í fjórar. Þá var ákveðið að leggja niður starfsemi hlustunarstöðvar og fjarskiptastöðvar. Árið 1996 var samþykkt ný bókun um framkvæmd varnarsamningsins til næstu fimm ára. Þrátt fyrir að bókunin hafi einungis átt að gilda til ársins 2001 hófust formlegar viðræður ekki um endurnýjun hennar. Þar komu í raun til ýmsar tafir á málum í Bandaríkjunum: fyrst vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2000, hryðjuverkanna í New York og Washington 11. september 2001 og að lokum vegna þingkosninga vorið 2003. Í raun má segja að fjöldi Íslendinga hafi í aðdraganda þingkosninganna vonað það besta í stöðunni en búist við hinu versta. Var málið rætt mikið skiljanlega í kosningabaráttunni þá í Suðurkjördæmi.

Bandarísk yfirvöld lögðu fram í byrjun maímánaðar 2003 fram sömu ákvörðun og í raun liggur nú fyrir, tæpum þrem árum síðar, semsagt að orrustuþoturnar 4 og björgunarsveitin myndi fara héðan. Gert var ráð fyrir að innan mánaðar myndu þessar breytingar hafa átt sér stað. Kom þessi einhliða ákvörðun á tvíhliða varnarsamningi þá fram algjörlega á hinum versta mögulega tíma. Íslensk stjórnvöldu voru gáttuð á tímasetningi, en sama daginn og Davíð Oddssyni var kynnt þessi ákvörðun voru 8 dagar til þingkosninga. Á þessum tímapunkti blasti við í skoðanakönnunum að ríkisstjórn stjórnarflokkanna myndi falla í kosningunum og stæði verulega tæpt. Það er alveg ljóst að stjórnarflokkarnir hefðu getað notfært sér þetta mál með því að gera það allt opinbert og valda fjaðrafoki með því að benda á málefni tengd þessu. Það gerðu þau ekki og stóðust þær freistingar. Staða mála í maí 2003 var fyrst kynnt í júlíbyrjun sama árs, eftir að umræður komust á sporið milli landanna.

Til þess kom ekki að stjórnarmeirihlutinn félli í þingkosningunum 2003, hann hélt velli og stjórnin sat áfram, eftir að hafa verið endurmynduð. Í kjölfar þess hófust formlegar samningaviðræður milli landanna um framtíð varnarsamningsins. Sú spurning hefur komið fram lengi síðan hvort tímasetningin hafi verið sett fram vegna þess að líkur voru uppi á því að stjórnin stæði illa á þeim tímapunkti og líklegt væri að nýir stjórnarherrar myndu verða auðveldari viðureignar í þessu en þau sem fyrir voru. Þetta var mikið rætt sumarið 2003. Reyndar má segja að málið hafi allt verið tæpt þá. Fylgdi sögunni þessa sumardaga fyrir þrem árum að til að breyta fyrrnefndri ákvörðun þá hefði þurft stuðning George Robertson lávarðar, þáv. framkvæmdastjóra NATÓ. Þá fyrst hefðu íslensk stjórnvöld náð á æðstu staði innan bandaríska stjórnkerfisins og Bush forseti, breytt þessari fyrrnefndu ákvörðun sem ber vott um pólitískt dómgreindarleysi bandarískra stjórnvalda og vinnur gegn tvíhliða varnarsamningi landanna.

Það er alveg greinilegt að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur lagt blessun sína yfir þessa ákvörðun mála. Lengi hefur verið leitt rökum að því að haukarnir í Washington (Rumsfeld, Cheney og Rice) hafi viljað þessa ákvörðun í gegn sumarið 2003 en þá hafi Colin Powell þáv. utanríkisráðherra og Íslandsvinur með meiru, staðið í veginum. Forsetinn beitti sér síðan fyrir samningaviðræðum og hafa þær gengið misvel. Fyrst voru þær brösuglegar að sjá en flestir töldu að nýlegar viðræður Geirs H. Haarde utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, við Condoleezzu Rice utanríkisráðherra, í Washington hefði breytt gangi mála og að líkur væru á sameiginlegri lausn í málinu. Því er ekki að neita að það hefði litið mun betur út fyrir samskipti þjóðanna hefði verið hægt að semja með viðunandi hætti um lausn mála en ekki harkalega einhliða lendingu eins og því miður stefnir allt í nú. Reyndar er verulega slæmt að Íslendingar séu ekki virtir meira en þetta af Bandaríkjamönnum og enn og aftur dembt yfir okkur einhliða ákvörðunum frá Washington.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri, var forsætisráðherra Íslands í maíbyrjun 2003 er í fyrra skiptið lá á borðinu einhliða ákvörðun Bandaríkjanna þess efnis að þoturnar og viðbúnaður Bandaríkjanna færi héðan. Þá tók hann á málinu af krafti og leiddi það af miklum krafti. Davíð kom fram einbeittur og öflugur sumarið 2003 og sennilega keyrði málið úr mesta ólgusjónum sem þá blasti við. Hann kom einnig fram í fjölmiðlum sumarmánuðina 2003 þegar að óvissan var svo mikil að enginn vissi nema að snúið yrði aftur við blaðinu og aftur keyrt í fyrrnefnda ákvörðun. Sérstaklega man ég vel eftir viðtali hans við Brynhildi Ólafsdóttur það sumar sem tekið var í bústað forsætisráðherra á Þingvöllum. Þá var Davíð í essinu sínu, vígreifur og talaði af krafti. Það er alveg ljóst að kraftur Davíðs þá skipti máli. Hún náði eyrum stjórnvalda ytra og tæpu ári síðar fór hann í Hvíta húsið og átti einkafund með Bush forseta, skömmu áður en hann lét af embætti forsætisráðherra. Frá því að Davíð vék af hinu pólitíska sviði hafði lítið gerst í málinu fram til fyrrnefnds fundar utanríkisráðherranna.

Vonir höfðu því verið til staðar um að menn myndu landa málinu farsællega. Satt best að segja eru Íslendingar betur undir búnir undir þessa ákvörðun yfirvalda í Washington en að þeir voru sumarið 2003. Á þessum þrem árum hafa enda bæði Suðurnesjamenn og landsmenn almennt meltað betur með sér hvað sé best í stöðunni nú þegar fyrir liggur að meginþorri þess aðbúnaðar sem Bandaríkjamenn hafa haft hér á landi heyrir sögunni til fyrir lok þessa árs, rúmu hálfu ári fyrir þingkosningarnar í maí 2007. Það er reyndar stærsta spurningin núna hvernig Bandaríkjamenn verða í viðræðum sem hljóta nú að verða um hvernig stíga beri næstu skref eftir þessa ákvörðun. Það er eiginlega dapurlegast af öllu að ákvörðunin komi svona verulega á óvart, enda er tímasetningin mjög ankanaleg eftir fundinn í Washington milli utanríkisráðherra landanna. Það mun væntanlega vekja athygli víða um heim hvernig Bandaríkjamenn koma fram við bandalagsþjóð (vinaþjóð) á borð við Ísland sem hefur jafnan átt mjög góð samskipti við Bandaríkin í gegnum tíðina.

Það er alveg óhætt að fullyrða að margir hafi tekið eftir yfirgangi og einhliða ákvörðunum Bandaríkjastjórnar í þessu máli. Það er í þessu máli eins og öðrum að víða er fylgst með framgangi mála og atburðarásinni. Framkoma Samfylkingarinnar í þessu máli hefur jafnan vakið mikla athygli. Hefur komið fram að afstaða þeirra sé sú að hér verði helst áfram sami varnarviðbúnaður og verið hefur og gefið í skyn að það hafi verið stefna Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni vorið 2003 og eindreginn vilji flokksforystunnar. Engu að síður vekur athygli að í forystusveit flokksins er fjöldi herstöðvaandstæðinga. Það telst vart hernaðarleyndarmál að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson og Margrét Frímannsdóttir hafi verið framarlega í flokki herstöðvaandstæðinga í gegnum tíðina. Ennfremur ber að minnast á að af 20 þingmönnum flokksins er helmingur þeirra fólk sem áður var tengt gamla Alþýðubandalaginu og töldust til herstöðvaandstæðinga. Það þarf enginn að efast um að stjórn undir forsæti Samfylkingar hefði tekið öðruvísi á málum en núverandi stjórn hefur gert á tímabilinu.

Það má lengi deila um hvaða örmum viðkomandi aðilar tilheyra í dag, má vel vera að þetta fólk hafi séð ljósið og skipt um skoðun og telji mikilvægt að sannfæra aðra um það nú. Það hefur þó vakið athygli hvernig Samfylkingin hagar málflutningi sínum meðan málið allt er á þessu viðkvæma stigi. Formaður Samfylkingarinnar hefur nú komið fram í sjónvarpi og minnt á það sem hún hefur klifað á að rétt sé að meta stöðuna og skilgreina hættuna og ógnina sem til staðar er í varnarmálunum. Eins og allir vita er til staðar varnarsamningur og ég veit ekki betur en að stjórnvöld vilji og hafi viljað fara eftir þeim samningi. Það er það sem við höfum viljað að Bandaríkin geri. Staða mála hvað varðar okkur er því nokkuð skýr. Það eru Bandaríkjamenn sem hafa tekið þessa ákvörðun og nú er það yfirvalda þar að sýna sitt rétta andlit hvað varðar það að halda á stöðu mála. Það má reyndar íhuga hvort að staða varnarsamningsins sé óbreytt með engan varnarviðbúnað sýnilegan hér á landi en loforð jafnvel um varnarsamning áfram en á þeim forsendum að þyrlurnar fari burt héðan.

Framundan er athyglisvert tímabil í þessu máli öllu. Ríkisstjórnin hittist síðdegis í dag á fundi í Alþingishúsinu. Var það sögulegur fundur, en ekki hefur gerst mjög lengi að ríkisstjórn fundi þar, sennilega ekki lengstan hluta lýðveldistímans. Niðurstaða þess fundar var kynnt af formönnum stjórnarflokkanna, þeim Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra, og Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Það er ljóst af orðum þeirra að nú taka við viðræður við Bandaríkjamenn um hvað taki við og einnig verður þessi breytta staða, sem nú er orðin ljós og vart er óumflýjanleg eins og mál standa að, rædd við önnur ríki í NATO. Fyrir liggur nú að við þurfum að fara í margvíslegar ráðstafanir vegna innanlandsmála Íslands. Þær aðgerðir lúta í senn bæði að atvinnumálum á Suðurnesjum og ekki síður björgunarmál landsins. Um er að ræða ákvörðun sem hefur veruleg áhrif og markar stærstu pólitísku tíðindi ársins 2006 án nokkurs vafa, rétt eins og varnarviðræðurnar árið 2003 voru stór þáttur í stjórnmálalitrófi þess árs.

Varnir Íslands og varnarviðbúnaður þess er nú sem þá mikilvægt mál og við stöndum á krossgötum óneitanlega nú hvað stöðu þessara mála varðar. Það sem er mest afgerandi við þessa ákvörðun er að hér er um að ræða ákvörðun sjálfs forseta Bandaríkjanna, ekki bara embættismanna á neðri stigum stjórnkerfisins. Það blandast því engum hugur um að ákvörðun hefur verið tekin á æðstu stöðum um að gjörbreyting verði. Sú breyting verður ekki umflúin. Er rétt fyrir okkur að líta nú í aðrar áttir og hugsa stöðu mála algjörlega frá grunni. Mikilvægt er að tryggja varnir landsins á komandi árum, það verður ekki gert nema með því að halda lágmarksvörnum. Um það er pólitísk samstaða innan ríkisstjórnar að tryggja varnir landsins. Það hefur komið glögglega fram hjá formönnum stjórnarflokkunum í dag og áður, þegar að Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn. Geir H. Haarde fylgir eftir bæði stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum jafnt og pólitískum ákvörðunum og tali forvera síns í þeim efnum.

Vissulega hefur heimsmyndin breyst mikið á þeirri rúmlega hálfu öld sem bandarískt herlið hefur verið hérlendis. Á því leikur enginn vafi. Hinsvegar er ógnin um hryðjuverk eða önnur voðaverk enn fyrir hendi og Keflavík er mikilvæg enn í dag vegna staðsetningar sinnar fyrir t.d. Bandaríkin. Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið traustir bandamenn Bandaríkjamanna og margsinnis lagt þeim lið í þeim málum sem þeir hafa veitt forystu á alþjóðavettvangi. Ef starfsemi bandaríska hersins verður stokkuð upp munu Íslendingar leita annarra leiða til að verja landið. En nú reynir á hvaða hug bandarísk stjórnvöld bera í raun til Íslendinga og hvaða augum þeir líta á gott samstarf landanna þegar kemur að því að horfa fram á veginn eftir að þessi einhliða ákvörðun forsetans liggur fyrir. Nú þarf að búa svo um hnútana að hér verði áfram sýnilegar lágmarksvarnir þannig að við höfum það sem við teljum nauðsynlegt í þeim efnum þótt þessar þotur hverfi á þessu ári.

Íslensk stjórnvöld leggja væntanlega mikla áherslu á að viðræðum sé hraðað því að brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan í varnarmálum. Það skiptir gríðarlega miklu máli að kortlagt sé hvað taki nú við á þessum krossgötum sem nú hafa orðið í því hlutverki sem Bandaríkin hafa gegnt í varnarmálum Íslands stærstan hluta þess tíma sem liðið hefur frá lokum seinni heimsstyrjaldar fyrir sex áratugum. Það er mikilvægt að við fetum réttan stíg á þessum krossgötum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband