15.3.2006 | 19:51
Sátt í deilunni um vatnalögin

Sátt náðist í gærkvöldi í vatnalagadeilunni sem geisað hefur á Alþingi seinustu dagana. Málþóf stjórnarandstöðunnar hefur verið fyrir neðan allar hellur. Í gær skrifaði ég ítarlega færslu um þetta mál og vísa á hana til að fara nánar yfir þetta mál. Fyrir öllu hvað varðar virðingu Alþingis er að samkomulag hafi náðst í þessum efnum. Samkomulagið felur í sér að frumvarpið verður að lögum á þessum þingvetri en gildistaka laganna verður þann 1. nóvember 2007, tæpu hálfu ári eftir næstu alþingiskosningar. Með þessu er gert ráð fyrir því að annarri umræðu um frumvarpið, sem staðið hefur yfir í samtals rúmar 35 klukkustundir, ljúki á Alþingi í dag og hin þriðja hefst innan skamms og málið afgreitt mjög fljótlega.
Átakapunkturinn er því leystur og þess í stað mun það verða þingmeirihluta eftir næstu kosningar að taka af skarið endanlega um hvort lögin taki endanlega gildi. Þetta er niðurstaða sem báðir aðilar geta unað mjög vel við og leysir þann vanda sem uppi var. Eins og fram kom í skrifum mínum í gær er rétt að menn leysi þetta mál og haldi uppi virðingu þingsins. Það hefur verið með ólíkindum að horfa upp á stjórnarandstöðuna vega að lýðræðinu með vinnubrögðum sínum. Þingmenn hafa verið að lesa upp úr bókum og vitna í hluti sem efnislegri umræðu um þetta mál kom ekkert við. Þetta var algjörlega fyrir neðan allt. Annars vísa ég á færsluna í gær í þessum efnum. Þar kom allt fram sem máli skiptir hvað þetta mál allt varðar.
Fyrir öllu er að þingstörf getið haldið áfram af sama krafti og var. Þetta mál boðar uppfærslu 83 ára gamalla laga og því skilja fáir málatilbúnað stjórnarandstöðunnar. En lausnin er þess eðlis að báðir geta sætt sig við hana. Það er stutt í þingkosningar og það er réttast að menn kjósi hreinlega um málið og hvort þau lög sem verða senn að afgreidd taki endanlega gildi eftir eitt og hálft ár. Þetta er lausn sem greiðir fyrir þingstörfum og með því geta menn tekið til starfa af krafti á þingi og haldið uppi virðingu þess sem stofnunar. Það er gott að fólk getur haldið frá málþófi og unnið þar með þeim sóma sem einkennir lýðræðislega löggjafarstofnun sem Alþingi á ávallt að vera.
Saga dagsins
1905 Bæjarsíminn í Reykjavík var formlega opnaður með því að leikið var á fiðlu í símann. Þá höfðu 15 símar verið tengdir. Er Landssíminn var stofnaður, 1912, voru á fjórða hundrað talsímar í borginni
1978 Mikil sprenging varð í ratsjárflugvél frá varnarliðinu skömmu fyrir flugtak á Keflavíkurflugvelli.
1983 Litlu munaði að farþegaþota frá Arnarflugi og herflugvél lentu í árekstri við Vestmannaeyjar.
1942 Bandarísk flugvél hrapaði í Vatnsmýrinni í Reykjavík - 8 menn fórust.
2003 Samningar um álver Alcoa á Austurlandi formlega undirritaðir við hátíðlega athöfn á Reyðarfirði.
Snjallyrðið
Only those who dare to fail greatly can ever achieve greatly.
Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður (1925-1968)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2006 | 17:31
Stormur í vatnsglasi á þingi

Kostulegt hefur verið að fylgjast með störfum Alþingis seinustu dagana. Nýlega lagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fram á Alþingi frumvarp til nýrra vatnalaga. Er það lagafrumvarp sem ætlað er að uppfæra vatnalög sem sett voru árið 1923. Það er ekki ofsögum sagt að þingstarf hafi stíflast í kjölfarið en stjórnarandstaðan hefur viðhaft málþóf í annarri umræðu um lagafrumvarpið og sumir þingmenn talað svo klukkutímum skiptir. Hefur ekki verið talað jafnmikið um neitt þingmál frá því að umræður voru um frumvarp til fjölmiðlalaga vorið 2004, sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti, synjaði um samþykki sitt í júníbyrjun sama ár. Er með öllu óvíst nú hvenær að málið kemst til þriðju umræðu þingsins og stefnir reyndar allt í að það verði eina málið sem verði rætt í þingsölum í þessari viku.
Allt þinghald er því úr skorðum og stefnir allt í að þinghaldi muni ekki takast að ljúka á tilsettum tíma í fyrstu viku maímánaðar. Rætt hefur verið um af stjórnarþingmönnum að funda í páskahléi við litla hrifningu stjórnarandstöðunnar. Umræðan heldur áfram kvölds og morgna. Seinustu dagana hafa kvöldfundir verið og t.d. um seinustu helgi átti að funda á laugardegi sem kallaði fram ólgu hjá stjórnarandstöðunni. Stjakaði Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins, við Sigurði Kára Kristjánssyni alþingismanni, er sá síðarnefndi kom úr ræðustól. Hefur reyndar verið með ólíkindum að fylgjast með tali þeirra þingmanna sem farið hafa í ræðustól. Sumir hafa mætt með þykkan bunka af blöðum og jafnvel ljóðabækur og hafa talað algjörlega út í eitt og eytt tímanum í hjal um atriði sem með litlum hætti tengjast málinu.
Tal og gjörðir stjórnarandstöðunnar minna mig og eflaust marga fleiri á farsann og delluna sem einkenndu talið í umræðunni um fjölmiðlalögin fyrir tveim árum. Vinnubrögðin eru eins. Reyndar mætti segja mér að þau hafi gaman af þessu og hugsa ekki um neitt nema egóið sitt í stöðunni. Ég hef heyrt hluta af þingumræðum og fyrir satt best að segja löngu síðan hætti ég að skilja bæði taktík stjórnarandstöðunnar og málatilbúnað þeirra í þessu máli. Þau eru algjörlega komin út á tún og skynja sig sennilega sem kastljós fjölmiðlanna og njóta athyglinnar sem þetta furðulega vinnulag þeirra vekur. Fannst mér slappur málatilbúnaður stjórnarandstöðunnar afhjúpast vel í Kastljósi í gærkvöldi þar sem að Jóhann Ársælsson og Valgerður Sverrisdóttir ræddu stöðu málsins. Eftir viðtalið sáu allir að stjórnarandstaðan er bara í einum allsherjar leik í þessu máli.
Í dag fer félagi minn, Friðrik Ársælsson stjórnarmaður í SUS, yfir málið í góðum pistli á vef SUS. Hvet alla til að lesa skrif hans. En já ég hef verið mikið hugsi seinustu daga yfir því hversvegna akkúrat þetta mál verður sennilega mest rædda og teygðasta þingmál þessa þingvetrar. Væntanlega er það til þess að það geta andstæðingarnir notað sem tylliástæðu til að leika sólóista og baða sig í kastljósi fjölmiðlanna. Mér grunar það. Allavega er ég hættur að skilja þessa umræðu alla saman. Hún er orðin svo döpuð og innihaldsrýr af málefnalegum skoðanaskiptum að átakanlegt er eiginlega á að horfa. Reyndar verður seint sagt að þessi stjórnarandstaða sé sterk í málefnalegum rökræðum. Hún er svo döpur og eiginlega allt að því slöpp að fólk botnar ekkert í henni.
Er það eiginlega ekki ástæðan fyrir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum vonarstjarna vinstrimanna en nú skærasti akkilesarhæll Samfylkingarinnar, nær ekki að komast hvorki lönd né strönd með þennan flokk og er að daga uppi pólitískt? Það tel ég allavega. Samfylkingin undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er að verða eins og skrælnað laufblað á haustdegi: uppþornað og líflaust. Samfylkingin hefur virkað sífellt daprari eftir að Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar. Það er því ekki furða að hún þarf á afdönkuðum stjórnmálamönnum eins og Jóni Baldvin og Jóni Sigurðssyni að halda til að komast eitthvað áleiðis á pólitískum ferli sínum eins og staðan er orðin. Allavega pælir maður sisvona meðan að maður undrar sig á málefnagjaldþroti stjórnarandstöðunnar sem talar og talar á Alþingi - um formbreytingu á úreltum vatnalögum.
Það er ekki furða að það hvarfli að þeim sem fylgjast með þessu blaðri stjórnarandstöðunnar að hún sé einmitt að skrælna upp af vatnsskorti pólitískt. Grunar mig það satt best að segja. Annars er svo merkilegt við tal stjórnarandstöðunnar í umræðunum um frumvarpið um vatnalögin að nákvæmlega enginn fræðimaður eða sérfræðingur á sviði eignaréttar hefur birst í umræðunni og bakkað upp talsmáta og orðbragð stjórnarandstöðunnar. Hún stendur algjörlega ein í elgnum í þingumræðunni. Tek ég undir með stjórnarþingmönnum að þetta er ekkert annað en handahófskennd og órökstudd gagnrýni á frumvarpið sem stjórnarandstaðan heldur uppi. Ætla ég að vona að Sólveig Pétursdóttir stýri þinginu af krafti næstu vikurnar og minni á hver það sé sem er húsbóndi á hinu háa Alþingi.
Saga dagsins
1911 Kristján Jónsson varð ráðherra Íslands - sat í embætti í 16 mánuði.
1950 Ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar tók við völdum - sat í þrjú ár.
1969 Fiðlarinn á þakinu var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu - sýnd samfellt í rúmlega þrjú ár. Róbert Arnfinnsson fór á kostum í hlutverki Tevje.
1987 Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði níu manna áhöfn Barðans sem var í nauð skammt utan við Dritvík.
1994 Markús Örn Antonsson segir af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, eftir að hafa setið á stóli í tæplega 3 ár, eða frá því Davíð Oddsson lét af embætti. Við borgarstjóraembættinu tók Árni Sigfússon. Hann gegndi embættinu þá 75 daga sem voru til borgarstjórnarkosninga, en Sjálfstæðisflokkurinn beið ósigur í þeim kosningum og R-listinn komst til valda. Árni sat í borgarstjórn til ársins 1998 og varð bæjarstjóri í Reykjanesbæ árið 2002.
Snjallyrðið
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Einar Benediktsson skáld (1864-1940) (Einræður Starkaðar)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2006 | 20:47
Maureen Stapleton látin

Bandaríska óskarsverðlaunaleikkonan Maureen Stapleton lést í dag, áttræð að aldri. Stapleton lést á heimili sínu í smábænum Lenox í Massachusetts, en þangað flutti hún er hún hætti leik undir lok 20. aldarinnar og sást seinustu árin lítið opinberlega, en sneri aftur undir lok ævi sinnar í síðasta kvikmyndahlutverk ferilsins, sem frú Lundt í Living and Dining, árið 2003. Hún var ein kraftmesta og eftirminnilegasta leikkona sinnar kynslóðar og hafði gríðarleg áhrif í leiklistargeiranum í Bandaríkjunum fyrir frægan feril sinn sem kvikmynda- og sviðsleikkona til fjölda ára. Hún var heiðursfélagi í bandarísku kvikmyndaakademíunni og gegndi til fjölda ára trúnaðarstörfum fyrir samtök leikara í Bandaríkjunum og um leið opinber talsmaður leikara lengi. Hún var heiðruð af bandarísku leikarasamtökunum árið 1998 fyrir æviframlag sitt til leiklistar. Hún var alla tíð þekkt fyrir það að fara eigin leiðir og tjáði skoðanir sínar óhikað - sannkölluð kjarnakona sem setti svip sinn á leiklistarsögu 20. aldarinnar.
Maureen Stapleton var ein örfárra leikara í Bandaríkjunum sem hafði hlotið öll leiklistarverðlaun sem hægt var að vinna: Óskarinn, Golden Globe, Tony-verðlaunin og Emmy-verðlaunin. Hún hóf ung leik á heimaslóðum en hlaut fyrst almenna frægð sem slík árið 1951 fyrir stórleik sinn í uppfærslu leikverksins The Rose Tattoo eftir Tennessee Williams á Broadway. Hlaut hún sín fyrstu Tony-verðlaun fyrir leik sinn. Mörgum að óvörum hlaut hún ekki hlutverkið er leikverkið var kvikmyndað nokkrum árum síðar. Féll hlutverkið í skaut Önnu Magnani sem hlaut óskarinn fyrir túlkun sína árið 1956. Á næstu árum eftir það sló Stapleton margoft í gegn fyrir leik sinn á sviði í Broadway og varð á nokkrum árum ein fremsta sviðsleikkona Bandaríkjanna. Árið 1958 lék hún í fyrsta skipti í kvikmynd. Frumraun hennar á hvíta tjaldinu var hin ógleymanlega túlkun á Fay Doyle, hinni andlegu þjáðu og bitru eiginkonu í kvikmyndinni Lonelyhearts. Myndin sló um leið í gegn og hún var frumsýnd og túlkun Stapleton rómuð um allan heim.
Hlaut Stapleton fyrstu tilnefningu sína til Óskarsverðlaunanna fyrir leik sinn en vann ekki, mörgum að óvörum, og missti verðlaunin til Wendy Hiller. Jafnskjótt og hún kom í Hollywood hvarf hún þaðan og aftur þangað sem hún mat sinn heimavöll í leiklistinni, sviðstúlkun á sterkum kvenpersónum. Hún sneri aftur á hvíta tjaldið eftir marga leiksigra í leikhúsinu árið 1963 sem Mama Mae Peterson í Bye Bye Birdie. Árið 1970 fór hún algjörlega á kostum í hlutverki Inez Guerrero, eiginkonu manns sem hefur í hyggju að sprengja upp flugvél yfir Atlantshafinu, í kvikmyndinni Airport. Stapleton þótti ná hápunkti magnaðs leikferils með túlkun sinni og snerti streng í brjósti áhorfenda sem eiginkonan Inez sem reynir allt sem hún getur til að koma í veg fyrir áætlun eiginmannsins. Sérstaklega nær hún hápunkti í lokasenu myndarinnar þegar henni verða ljós örlög eiginmannsins og flugvélarinnar. Myndin sló í gegn, enda stjörnum prýdd, en hún tapaði enn og aftur óskarskapphlaupinu, þá fyrir Helen Hayes, sem í sömu mynd sló í gegn sem hin aldna (fluglaumufarþeginn) Ada Quonsett.
Maureen Stapleton var tilnefnd mörgum sinnum til Emmy-verðlaunanna fyrir leik í sjónvarpsmyndum á sjöunda og áttunda áratugnum og hlaut verðlaunin nokkrum sinnum. Hún var meira að segja tilnefnd til Grammy-tónlistarverðlaunanna árið 1975 fyrir leiklestur sinn á skáldsögunni To Kill a Mockingbird, sem var það ár gefinn út á hljómplötu. Hún hlaut þriðju óskarsverðlaunatilnefningu sína árið 1978 fyrir túlkun sína á Pearl í kvikmynd Woody Allen, Interiors. Enn og aftur tapaði hún verðlaununum, þá fyrir Maggie Smith. Hún hlaut loksins Óskarsverðlaunin árið 1982 fyrir litríka túlkun sína á rithöfundinum og anarkistanum Emmu Goldman í kvikmyndinni Reds, í leikstjórn leikarans Warren Beatty, sem var einn af lærlingum hennar í leiklistarskóla áður fyrr. Valdi hann Stapleton í hlutverkið eftir mikla umhugsun, enda þótti honum Goldman og Stapleton líkar persónur. Myndin, sem lýsir æviferli John Reed, er þriggja tíma löng og kraftmikil. Ætla ég mér að horfa á hana aftur á næstu dögum, enda tilefni til að rifja upp leik Stapleton.
Stapleton varð gáttuð er hún hlaut loksins verðlaunin. Fræg voru viðbrögð hennar er úrslitin voru tilkynnt, hún gapti af undrun og viðstaddir á verðlaunaafhendingunni hylltu hana með lófaklappi og stóðu úr sætum fyrir henni er hún tók við óskarsstyttunni. Eftir það dró Stapleton sig hægt og rólega í hlé. Hún fór enn og aftur á kostum árið 1985 í kvikmyndinni Heartburn árið 1985 og lék á móti Meryl Streep og Jack Nicholson. Ári síðar heillaði hún nýjar kynslóðir kvikmyndaunnenda í gamanmyndinni Money Pit í hlutverki hinnar kostulegu Estelle, sem selur ungum hjónum húsið sitt sem er í meira lagi gallað. Tom Hanks og Shelley Long léku parið og myndin sló í gegn og Stapleton sannaði sig sem gamanleikkona en ekki hin sterka karakterleikkona sem hún var þekktust fyrir að vera. Sama ár fór hún á kostum í kvikmyndinni Cocoon. Seinustu árin lék hún smá hlutverk í kvikmyndum en dró sig hægt og rólega í hlé og eins og fyrr segir lék hún sitt síðasta kvikmyndahlutverk árið 2003.
Maureen Stapleton var ein af fremstu leikkonum sinnar kynslóðar og setti sterkan svip á leiklistar- og kvikmyndasögu Bandaríkjanna á 20. öld. Fyrst og fremst minnast kvikmyndaunnendur hennar fyrir stórleik í Lonelyhearts, Airport og Reds. Allar voru þessar myndir óviðjafnanlegar, einkum vegna leiks hennar á þeim sterku kvenpersónum sem hún túlkaði. Hvet ég kvikmyndaunnendur til að sjá þessar frábæru myndir og minnast með því þessarar frábæru leikkonu. Allar þessar myndir á ég og nú tekur við að líta á þær enn einu sinni. Flottar myndir. En svo mikið er víst að Maureen Stapleton var kjarnakona, hún túlkaði líka langoftast á hvíta tjaldinu og á leiksviði kjarnakonur með skoðanir og tilfinningar sem voru túlkaðar með snilld. Hún var þannig karakter enda sjálf og fór aldrei dult með stjórnmálaskoðanir sínar og vangaveltur á lífinu og tilverunni.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2006 | 19:00
Sterk staða Akureyrarbæjar

Það er gott að vera Akureyringur núna. Það er ekki hægt að segja annað en að gleðilegt sé að sjá hversu góð og öflug staða bæjarins er. Þetta kemur mjög vel fram að mínu mati í heildarniðurstöðum ársreikninga Akureyrarbæjar fyrir árið 2005 sem kynntir voru í síðustu viku. Staða mála sem þar var kynnt telst vissulega mun betri en áður var stefnt að. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er enda jákvæð um rúmlega 360 milljónir króna en áætlun hafði áður gert ráð fyrir 144,2 milljóna króna hagnaði. Hagnaður sveitarfélagsins er enda helmingi meiri en stefnt hafði verið að áður. Veltufé frá rekstri nemur tæpum 1,7 milljörðum og eignir sveitarfélagsins eru bókfærðar á rúma 22 milljarða króna. Ársreikningarnir voru kynntir í bæjarráði á fimmtudag og umræður verða í bæjarstjórn 21. mars og 4. apríl.
Í yfirlýsingu Akureyrarbæjar um stöðu mála segir: "Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum en í B-hluta eru fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Rekstur Akureyrarbæjar gekk afar vel á árinu og er heildarniðurstaða ársins betri en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir og fjárhagurinn traustur. Rekstrarniðurstaða samtæðunnar var jákvæð um ríflega 360 milljónir króna en áætlun hafði gert ráð fyrir 144,2 milljóna króna hagnaði á árinu. Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 1.675 millj. kr. og handbært fé frá rekstri 1.669,6 millj. kr."
Það er því ekki hægt að segja annað en að staðan sé góð. Sveitarfélagið stendur vel og við getum ekki annað en litið til næsta kjörtímabils glöð og hress.
Saga dagsins
1964 Alþingi var afhent áskorun 60 kunnra Íslendinga, svonefndra sextíumenninga, þar sem skorað var á þingið að takmarka útsendingar Keflavíkursjónvarpsins við herstöðina. Sendistyrkurinn hafði þá nýlega verið aukinn. Óttuðust menningarpostularnir að bandarískt sjónvarp til allra landsmanna hefði alvarleg áhrif og skaðaði menningarlíf. Á þeim grundvelli var helst mótmælt. Við tilmælum þeirra var formlega orðið 3 árum síðar. Þá hafði sjónvarpsstöð á vegum ríkisins verið stofnuð.
1974 Græna byltingin - skýrt var frá áætlunum borgarstjórnar um að skipuleggja opin svæði og gera göngustíga, hjólreiðabrautir og útivistarsvæði í Reykjavík. Græna byltingin var umfangsmesta átak Reykjavíkurborgar í umhverfismálum og var lykilmál á borgarstjóraferli Birgis Ísleifs Gunnarssonar, en hann var borgarstjóri árin 1972-1978.
1977 Hreinn Halldórsson varð Evrópumeistari í kúluvarpi innanhúss - Hreinn varð þriðji Íslendingurinn sem vann til Evrópumeistaratitils í frjálsum íþróttum - Hreinn varð kjörinn íþróttamaður ársins 1977.
1983 Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð - náðu kjöri á þing í kosningunum 1983 og áttu fulltrúa á löggjafarþinginu allt til ársins 1999. Kvennalistinn varð einn hluti af Samfylkingunni árið 2000.
1996 Thomas Hamilton, 43 ára skoskur maður, myrðir 16 skólabörn og kennara þeirra í barnaskóla í smábænum Dunblane í Skotlandi - hann var ekki tengdur skólanum en trylltist eftir að hann var rekinn sem skátahöfðingi. Hamilton svipti sig lífi eftir árásina og því var málið aldrei upplýst að fullu.
Snjallyrðið
Accept the challenges so that you can feel the exhilaration of victory.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2006 | 23:33
Sunnudagspistill - 12. mars 2006

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Ráðherrabreytingar urðu á þriðjudaginn. Árni Magnússon vék þá af hinu pólitíska sviði og Jón Kristjánsson varð félagsmálaráðherra en Siv Friðleifsdóttir varð heilbrigðisráðherra. Árni tekur eftir helgina til starfa hjá Glitni. Spái ég í spilin hvað gerist nú hjá Framsóknarflokknum í kjölfar þessa og því að Siv Friðleifsdóttir verður meira áberandi í forystusveit stjórnmála sem heilbrigðisráðherra og leiði líkum að því hvort að Framsóknarflokkurinn haldi áfram að dala eftir að hafa veikst við brotthvarf Árna. Ennfremur fjalla ég um hverja megi telja krónprinsa Framsóknarflokksins nú eftir að sá sem áður hafði þann titil hefur hætt í stjórnmálum og haldið til starfa í gömlu SÍS-höllinni.
- Valgerður Sverrisdóttir hefur verið mikið í fréttum í vikunni. Hún vakti athygli með pistlum sínum þar sem hún leiddi líkum að því að taka mætti upp Evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. Fyrir vikið fékk hún ákúrur ýmissa sérfræðinga og ekki síður samstarfsflokksins og ESB-stuðningsmanna hérlendis. Skoðanir Valgerðar um Evruna urðu strax umdeildar og létu sumir þau orð falla að þau væru óábyrg og væri undarlegt að viðskiptaráðherra Íslands fjallaði með þessum hætti um málin. Meðal þeirra var Styrmir Gunnarsson. Leiddu skrif hans til kuldalegs pistils Valgerðar í hans garð í gær.
- Slobodan Milosevic fyrrum forseti Júgóslavíu, lést um helgina í varðhaldi alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag í Hollandi, án þess að dómur yrði kveðinn yfir honum. Fer ég yfir blóðugan og kuldalegan valdaferil hans og helstu punkta úr æviferli hans. Harma ég, eins og flestir sem hafa tjáð sig um dauða Milosevic, að hann hafi látist áður en dómur var kveðinn upp yfir honum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2006 | 20:47
Valgerður fer í fýlu við Styrmi

Það var merkilegt að lesa vef Valgerðar Sverrisdóttur í gær. Þar lét hún Styrmi Gunnarsson ritstjóra Morgunblaðsins, fá það óþvegið í kjölfar þess að hann skrifaði í staksteinum á þá leið að gera verði þá kröfu til ráðherra að þeir hafi lágmarksþekkingu á þeim málaflokki sem þeim sé trúað fyrir. Greinilegt er að Valgerður finnst að vegið sé að sér eftir kostulegt tal hennar um að taka upp Evru en ganga ekki í ESB. Eins og flestallir hafa sagt seinustu daga einkenndist það tal ráðherrans af þekkingarleysi og var með öllu óraunhæft. Það er því varla undrunarefni að ritstjóri Morgunblaðsins tali með þeim hætti og í raun taki undir það sem fyrr hafði verið sagt, t.d. af fræðimönnum og fólki með þekkingu í þessum efnum. Afstaða þeirra kom skýrt fram og leiddi auðvitað til skrifanna í Morgunblaðinu.
Í fyrrnefndum pistli segist Valgerður hafa átt stormasöm samskipti við ritstjórann og lýsir einkafundi þeirra fyrir nokkrum árum. Segist hún telja skýringuna á þeirri óvild sem hún telur ritstjóra Morgunblaðsins bera í sinn garð helst vera þá að hann telji sig ekki sýna honum sæmandi virðingu með því að mæta ekki á einkafundi með honum með reglubundnum hætti. Hún sé hins vegar ekki sú manngerð sem láti þennan karl (eins og hún orðar það) vaða yfir sig ítrekað með niðurlægjandi ummælum og muni hún áfram svara fyrir sig. Harkaleg skrif og að svo mörgu leyti í takt við Valgerði, sem er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Annars hefur þetta ekki verið góð vika fyrir Valgerði og margir sennilega hugsi eftir vikuna hvort hún sé alltaf svona örg þegar á móti blæs.
Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum og úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Þá hlaut flokkurinn aðeins Valgerði kjörna og Framsókn missti fyrsta þingmann Norðurlandskjördæmis eystra í fyrsta skiptið til Sjálfstæðisflokksins. Þetta voru seinustu kosningarnar í gamla kjördæminu og tók Valgerður við af Guðmundi Bjarnasyni sem þá fór í Íbúðalánasjóð. Valgerður var mjög skapvond þessa kosninganótt og sagði í viðtali við Gísla Sigurgeirsson eitthvað á þá leið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki gott af því að fá svona góða útkomu sem þá væri og ætti enga innistæðu fyrir því. Var hún mjög þung á brá og skaut í allar áttir svo frægt varð.
Í þingkosningunum 2003 var hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins. Síðan þá hefur flest gengið flokknum á móti og Valgerður átt þónokkuð erfitt á mörgum vígstöðum, ekki síst hér á heimaslóðum í nyrðri hluta kjördæmisins. Henni tókst að klúðra málum austur í Mývatnssveit svo eftir var tekið og Mývetningar hefðu á orði að Valgerður myndi sennilega ekki sjást þar fyrr en færi að styttast í næstu kosningar. Margt fleira mætti telja t.d. útboð við viðgerðir á varðskipunum sem sliguðu mjög Slippinn. En það er ekki pláss til að telja allt upp sem fólk talar um hér. En nú er spurning hvernig Framsóknarflokknum gengur í Norðausturkjördæmi að ári. Ef marka má kannanir hefur flokkurinn tapað miklu fylgi og sér sennilega ekki fyrir endann á því.
Það er því skiljanlegt að Valgerður sé pirruð. Hatur hennar og ergelsi í garð ritstjóra Morgunblaðsins vakti athygli mína og pistlaskrifin voru harkaleg og greinileg fýla sem þar kom fram í garð ritstjórans. Það er eins og það er. Sennilega er ekki furða að forystumenn Framsóknarflokksins séu í fýlu eins og staðan er. Enn undarlegra er að þeir fari í fýlu við þá sem reyna að benda þeim á villur síns vegar. En svona er Valgerður bara og stíll hennar kemur engum á óvart sem hana þekkja hér um slóðir. En það er greinilegt að þetta var ekki vikan hennar Valgerðar. Það blasir alveg við. Enda ekki gott fyrir hana að hafa fengið bæði samstarfsflokkinn og helstu Evrópuspekingana á móti sér með svo undraverðum og skjótum hætti.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2006 | 17:35
Slobodan Milosevic látinn

Slobodan Milosevic fyrrum forseti Júgóslavíu, lést í gærmorgun í fangaklefa sínum í Haag í Hollandi. Hann hafði verið látinn í nokkrar klukkustundir er fangaverðir vitjuðu forsetans fyrrverandi í klefanum klukkan 9:14 að staðartíma. Tilkynnt var formlega um látið í hádeginu að íslenskum tíma. Milosevic hafði verið staddur þar í tæp fimm ár og komið margoft fyrir rétt seinustu árin, sakaður af stríðsglæpadómstólnum um stríðsglæpi og þjóðarmorð í valdatíð sinni. Flest bendir til þess að Milosevic hafi orðið bráðkvaddur, en hann hafði seinustu árin verið hjartveikur og með of háan blóðþrýsting. Rannsókn er hafin á dauða hans og krufning fer fram í dag til að skera endanlega úr um hvert banamein hans hafi verið.
Slobodan Milosevic fæddist þann 20. ágúst 1941 í bænum Pozarevac í Júgóslavíu, og var því 64 ára er hann lést. Hann gekk í Kommúnistaflokk Júgóslavíu árið 1959 og starfaði þar alla tíð af krafti og komst ungur í fremstu víglínu flokksins. Í kjölfar dauða einræðisherrans Títós árið 1980 komst Milosevic til æðstu valda í landinu. Hann varð pólitískur lærisveinn Ivan Stambolic, sem var formaður kommúnistaflokksins 1984-1986 og forseti Serbíu 1986-1989. Síðar sinnaðist þeim og hann var myrtur árið 2000. Grunur hefur alla tíð leikið á því að Milosevic hafi átt þátt í dauða hans og jafnvel fyrirskipað hann. Milosevic varð eftirmaður Stambolic sem leiðtogi flokksins og sat á þeim stóli á árunum 1986-1989 og byggði upp völd sín með klækjum og brögðum.
Slobodan Milosevic varð forseti Serbíu eftir að Stambolic var hrakinn frá völdum og sat á forsetastóli Serbíu á árunum 1989-1997. Á þeim tíma varð hann aðalmaðurinn að baki ófriðnum sem ríkti á Balkanskaga mestan hluta tíunda áratugarins. Júgóslavía klofnaði upp í smærri fylkingar og ófriður og vargöld urðu einkunnarorð svæðanna. Mannskætt stríð ríkti og Milosevic réðst að nágrönnum sínum og fyrrum bandamönnum með vægðarlausum hætti. Hann var aldrei feiminn við það að ganga frá eða svíkja samherja sína. Jafnvel nánustu bandamenn hans gátu átt von á því að hann myndi snúa við þeim baki ef það hentaði honum svo. Að því kom að hann varð að láta af forsetaembætti Serbíu við lok seinna tímabils síns árið 1997.
Svo fór að hann tók helstu völd fyrrum embættis og byggði þau upp í kringum nýtt forsetaembætti Júgóslavíu, ríkjasambands sem samtvinnaðist af Serbíu og Svartfjallalandi. Lög voru samþykkt sem tók helstu völd forseta Serbíu og færði þau í hendur forsetaembættis Júgóslavíu. Völd hans voru því óskert er hann var kjörinn forseti Júgóslavíu árið 1997. Að því kom að almenningur fékk nóg af einræði og kúgun valdatíðar Milosevic. Almenningur reis upp gegn honum árið 2000 og stjórnarandstaðan sameinaðist um Vojislav Kostunica í kosningunum. Svo fór að Milosevic tapaði kosningunum og Kostunica komst til valda. Fyrst í kjölfarið fór lítið fyrir honum en yfirvöld handtóku hann í aprílmánuði 2001. Hann var framseldur til Haag í júlí 2001.
Milosevic var ákærður fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag fyrir þjóðarmorð, stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Var ákæran yfir honum í um 70 liðum alls. Réttarhöld gegn Slobodan Milosevic hófust snemma árs 2002 og sá ekki fyrir endann á þeim þegar hann féll frá. Er það mjög dapurlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ekki hafi réttarhöldunum verið lokið eða endanlegur dómur verið kveðinn upp yfir hinum grimmilega einræðisherra Slobodan Milosevic er hann lést í Haag. Er hann enginn harmdauði þó.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2006 | 16:03
Davíð talar af list um efnahagsmálin

Um þessar mundir er hálft ár liðið frá því að Davíð Oddsson tilkynnti á blaðamannafundi í Valhöll um þá ákvörðun sína að láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Skömmu síðar sagði hann af sér ráðherraembætti og þingmennsku og eftirmaður hans á formannsstóli var kjörinn á landsfundi í október. Nokkrum dögum síðar varð Davíð Oddsson seðlabankastjóri. Það er alveg óhætt að segja það að flestir sjá eftir Davíð Oddssyni úr hringiðu stjórnmálanna hér á Íslandi. Stjórnmálalitrófið varð mun litlausara við brotthvarf hans. Hann var aðalleikari í stjórnmálum hérlendis í aldarfjórðung. Það er ekki laust við að Davíðs sé sárt saknað, ekki bara af stjórnarsinnum heldur og ekki síður stjórnarandstæðingum. Í þann aldarfjórðung sem Davíð Oddsson var í íslenskum stjórnmálum: í borgarstjórnar- og landsmálapólitík var hann lykilmaður og mikil viðbrigði því er hann hætti.
Nú er það hlutverk Davíðs Oddssonar að koma öðru hverju í fjölmiðla og kynna okkur horfur í efnahagslífinu, kynna okkur stöðu mála og spá um hvert stefna beri. Flestir, bæði stjórnarsinnar sem og stjórnarandstæðingar, hafa fylgst með því betur en áður hvað sagt sé við Kalkofnsveg og þegar að Davíð fer í viðtal fangar hann athygli stjórnmálaáhugamanna. Reyndar er það nú svo að það er mun skemmtilegra að fylgjast með efnahagsumræðunni en var áður. Enda er það svo að Davíð Oddsson er snillingur í að koma fyrir sig orði og tjá sig um helstu málin og getur með hnyttnum og öflugum hætti talað um málin og fangað með því bæði athygli almennings og talað máli sem almenningur skilur. Þetta tekst honum meira að segja í Seðlabankanum þegar að hann talar um gengishalla, verðbólgu, stofnfjárvexti og hvað þau öll heita annars þessi hugtök sem hinum almenna borgara gengur illa almennt að skilja.
Ég er einn þeirra sem sakna Davíðs úr forystusveit stjórnmála. Mér finnst pólitíkin vera daufari og ekki eins heillandi eftir að hann fór. Það er bara mín tilfinning. Kannski er það vegna þess að ég vann svo lengi í flokknum undir forystu hans og leit upp til hans sem leiðtoga og stjórnmálamanns. Annars finnst mér fleiri tala svona en ég og ekki er það allt sjálfstæðisfólk. Hann var þannig stjórnmálamaður að talaði hann hlustuðu allir og hann átti mjög auðvelt með að tala til fólks og gera það með miklum krafti. Hann var stjórnmálamaður sem talaði í fyrirsögnum eins og einn núverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það svo skemmtilega á síðasta ári. Gleymi ég því aldrei er hann hélt ræðu í Valhöll í janúar í fyrra skömmu áður en hann hélt í heilsubótarleyfi til Flórída. Var tekið við hann viðtal og var það fréttaefni í marga daga eftir að hann fór út.
Sérstaklega fannst mér hann komast vel að orði um gengismálin í vikunni og orða stöðu mála með skemmtilegum hætti. Hann sagði að við hefðum stigið trylltan dans og mættum ekki tapa okkur í hita dansins. Ennfremur kom með þau skondnu ummæli að við yrðum að fara að öllu með gát og passa okkur á að missa ekki sýn á stöðunni og verða ekki eins og börn sem gleyma sér við tertuát í barnaafmæli. Skondið orðalag og ummæli sem eftir var tekið. Svona tala ekki nema menn sem hafa mikla yfirsýn og hafa þá listigáfu að geta talað og náð athygli allra með því. Það er enginn vafi á því að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson mun vekja athygli þjóðarinnar í störfum sínum og jafnvel glæða enn meira áhuga landsmanna á efnahagsmálum. Það er allavega ljóst að hann orðar stöðu efnahagslífsins með mjög litríkum hætti og landsmenn fylgjast með af enn meiri áhuga en áður.
Saga dagsins
1916 Alþýðusamband Íslands, ASÍ, var stofnað og þar með einnig Alþýðuflokkurinn. Fyrsti formaður Alþýðuflokksins og jafnframt fyrsti forseti ASÍ var Jón Baldvinsson - sögu Alþýðuflokksins lauk árið 2000 með formlegum hætti. Tengsl ASÍ og Alþýðuflokksins liðu að mestu undir lok á sjötta áratugnum.
1945 Dagbókarhöfundurinn Anne Frank lést í Bergen-Belzen fangabúðunum, 15 ára að aldri. Henni og fjölskyldu hennar tókst í nokkur ár að leynast fyrir hersveitum nasista á heimili sínu í Amsterdam. Á meðan því stóð skrifaði Anne dagbók um það sem gerðist og lýsti lífi hennar og fjölskyldunnar til loka. Sagan var síðar gefin út og varð margverðlaunuð fyrir ritsnilli. Hún var færð í leikbúning og eftir henni gerð ógleymanleg kvikmynd af George Stevens árið 1959. Ein eftirminnilegasta saga 20. aldarinnar.
1965 Fyrsta íslenska bítlaplatan kom út - á plötunni voru tvö lög með Hljómum: Bláu augun þín og Fyrsti kossinn. Lögin urðu bæði mjög vinsæl og voru eftir Gunnar Þórðarson og við texta Ólafs Gauks.
2001 Hverastrýtur á botni Eyjafjarðar voru friðlýstar, fyrstar náttúruminja hérlendis í hafi við landið.
2003 Zoran Djindjic forsætisráðherra Serbíu, myrtur í Belgrad, fimmtugur að aldri. Zoran Djindjic var einn af allra vinsælustu stjórnmálamönnum í sögu Serbíu. Hann var lengi borgarstjóri í Belgrad og leiddi síðar forystu stjórnarandstöðunnar gegn Slobodan Milosevic, sem var felldur af valdastóli árið 2000. Hann studdi Vojislav Kostunica í forsetakjöri 2000 og varð þá forsætisráðherra Serbíu og sat til loka.
Snjallyrðið
Be faithful in small things because it is in them that your strength lies.
Móðir Teresa (1910-1997)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2006 | 20:11
Skemmtileg málefnavinna

Í allan dag var ég staddur á Öngulstöðum ásamt góðum hópi sjálfstæðisfólks hér á Akureyri. Vorum við að vinna í málefnavinnu Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og tókum góðan tíma í að hefja vinnuna í dag - um næstu helgi höldum við svo öll til Hríseyjar og hittum félaga okkar þar. Verður þar ánægjulegt að eiga góðan dag í boði þeirra og verður skemmtilegt að sækja góða félaga heim.
Í mínum hópi var fyrst og fremst verið að ræða skólamálin. Þar var lífleg og góð umræða um málaflokkinn og vorum við mjög sammála um áherslur og samhljóða í verkum. Sérstaklega fannst mér gaman að kynnast áherslum Hjalta Jóns og Ellu Möggu, en þau eru bæði þaulreynd í málaflokknum. Áttum við öll góðan dag saman í þessari vinnu og margar flottar hugmyndir fæddust og þetta var virkilega lifandi og hressileg skoðanaskipti. Hafði alveg virkilega gaman af þessu.
Við upphaf fundar rétti Sigrún Björk okkur hvíta boli. Öll merktum við á þá texta af okkar vali og til að lýsa okkur. Fannst okkur þetta mjög skondið og voru því allir viðstaddir í hvítum bolum merktum af þeim sjálfum og á þeim rituð orð til lýsingar persónunni skrifuð af henni sjálfri. Hlógum við mikið yfir því sem hver og einn ritaði og við komumst að mörgu skemmtilegu um hópinn með þessu. Flott og góð hugmynd.
Á minn ritaði ég:
Stefán Friðrik
bjartsýnn
jákvæður
pólitískur nörd
sjálfstæður
skapheitur
kvikmyndafrík
KA-maður
Brekkusnigill
Aftan á voru rituð spakmæli sem ég met mest: Frelsið er yndislegt, Lifðu lífinu lifandi og Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Þetta var mjög skapandi og góður dagur. Það var mikið hlegið yfir kaffibollunum og við unnum vel saman sem heild og hópurinn fór enn þéttari og sterkari heim en hann var fyrir fundinn. Öll erum við sammála um hvert markmið næstu vikna séu og vinnan var lifandi og áhugaverð, eins og stefnt var að.
Dagurinn var því mjög vel heppnaður og færði fólk vel saman í upphafi kosningabaráttunnar. Fórum við öll hress og full orku heim eftir góðan dag. Ég vil færa öllum þeim sem mættu á vinnufundinn í dag kærar þakkir fyrir góðan dag og skemmtilega málefnavinnu. Þetta var svo sannarlega skemmtilegur dagur í góðra vina hópi.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2006 | 20:00
Hrífandi Hildur Vala brillerar

Í dag er ár liðið frá því að Hildur Vala Einarsdóttir sigraði Idol-stjörnuleit - hún hafði vikurnar á undan sungið sig inn í hug og hjarta landsmanna. Hún var náttúrutalent sem blómstraði á nokkrum mánuðum og heillaði þjóðina. Um seinustu helgi hélt Hildur Vala tónleika í Akureyrarkirkju. Fór ég á tónleikana og naut þeirra mjög vel. Kirkjan var þéttsetin og rúmlega 200 manns viðstaddir. Þetta voru fallegir tónleikar. Hildur Vala syngur af hjarta og sál. Ég vildi bara skrifa hér og þakka fyrir góða tónleika. Það er alltaf gott að fá sanna listamenn hingað - listamenn sem hitta beint í hjartastað. Þannig listamaður er Hildur Vala.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2006 | 02:08
Valgerður hikar í ESB-aðdáun sinni

Fyrr í vikunni ritaði ég hér um Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og skrif hennar á heimasíðu sinni um Evruna. Er óhætt að fullyrða að skrif hennar hafi vakið litla hrifningu flestra og satt best að segja veltu margir því fyrir sér hvað væri að gerast með ráðherrann og leiðtoga Framsóknarflokksins hér í Norðausturkjördæmi. Reyndar má segja að þetta kjörtímabil hafi verið henni erfitt allt frá því að flokkurinn vann sigur í þingkosningunum vorið 2003 og hlaut fjóra þingmenn hér kjörna. Síðan hefur flest farið aflaga fyrir þeim fjórmenningum: Valgerði, Jóni, Dagnýju og Birki Jóni. Vel hefur sést í skoðanakönnunum Gallups að Framsókn hefur dalað verulega hér og mælist sem stendur með tvo þingmenn inni. Það hefur svo opinberast vel að framsóknarmenn hér á Akureyri og í firðinum eru lítt hrifnir af Valgerði og verkum hennar þessa stundina. Hún er komin í nokkrar pólitískar ógöngur greinilega.
Ekki hefur hún slegið í gegn seinustu daga innan Sjálfstæðisflokksins með tali sínu um Evruna. Geir H. Haarde utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var ekkert að skafa af því í viðtali í kvöldfréttum útvarps á fimmtudagskvöldið og talaði af krafti um óraunhæf skrif viðskiptaráðherrans. Geir sem þá var staddur í opinberri heimsókn í Noregi var öflugur í viðtalinu sem heyrðist í þeim fréttatíma og þótti mér gott að sjá hversu sammála við Geir erum í þessum efnum. Tel ég að þetta eigi við um okkur sjálfstæðismenn alla, enda höfum við talað með mjög afgerandi hætti í Evrópumálunum. Reyndar hefði ég vart trúað því að Valgerður myndi stíga svo óvarlegt skref á þessum tímapunkti en hef lengi heyrt hversu hrifin hún er af ESB og Evrunni. Reyndar má varla á milli sjá hvort þeirra er hrifnara af ESB: hún eða forsætisráðherrann Halldór Ásgrímsson. Það er þó merkilegt hversu varlega hún stígur með skrifum sínum og talar ekki fyrir ESB-aðild enn um sinn.
Það er þó ljóst að forysta Framsóknar hefur lengi ætlað sér að keppa við Samfylkinguna í yfirboði í ESB-fræðum í komandi þingkosningum. Það sást vel í ræðu forsætisráðherra nýlega þar sem hann spáði því að Ísland yrði komið í ESB á árinu 2015. Sú framtíðarsýn hans var þó dregin að nokkru til baka þegar að hann sagðist ekki hafa verið að segja þetta öruggt heldur væri bara um spádóm að ræða og ekki öruggt að spádómar yrðu að veruleika. Það er reyndar svo að það er aldrei víst að spádómar verði að veruleika séu menn framsóknarmenn. Er það mjög ánægjulegt að svo sé, varð mér þá að orði. Það er greinilegt að formenn stjórnarflokkanna eru ekki sammála um að dást að ESB. Geir tók strax fram eftir ræðu Halldórs að þetta væri ekki framtíðarsýn sem hann styddi og hann tók fram í viðtalinu í vikunni, er hann kommenteraði á pistilinn hennar Valgerðar, að hann spáði því að Ísland yrði ekki aðili að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili, ekki heldur því næsta, og ekki um fyrirsjáanlega framtíð.
Það er því ljóst að muni Framsóknarflokkurinn sækja fast að fylgja Samfylkingunni eftir í ESB-órunum fyrir komandi þingkosningar að ekki semst á milli manna um þær áherslur í óbreyttu stjórnarsamstarfi. Lengi var afstaða Sjálfstæðisflokksins á landsfundum sínum hvað varðar Evrópusambandið persónugerð við Davíð Oddsson fyrrum formann flokksins og forsætisráðherra. Nú er Davíð horfinn á braut og afstaðan er óbreytt. Það sem meira er að Geir hefur tekið mjög afgerandi til orða hver hans skoðun sé og auðvitað minnt á landsfundarsamþykktir frá landsfundinum haustið 2005. Reyndar varð ég ekki hissa á tali Valgerðar um Evruna en varð hinsvegar hissa á því að hún talaði um leið þá ekki fyrir ESB-aðild. Það er reyndar kostulegast af því öllu að hún tali fyrir Evru en um leið vilji ekki feta skrefið í átt til ESB rétt eins og Halldór gerði svo greinilega um daginn. Það er reyndar svo fyndið við Valgerði að hún er oft ófyrirsjáanleg og getur verið ólíkindatól, en það er eins og það er bara.
Valgerður hefur alla tíð verið í vinstriarmi Framsóknarflokksins og verið lítt um okkur sjálfstæðismenn gefið. Margar frægar sögur eru til héðan af þessum slóðum sem og víðar úr pólitísku starfi sem lýsa hug hennar til Sjálfstæðisflokksins. Sumar eru betur ósagðar á þessum vettvangi sem og öðrum en það er oft gaman af að heyra sögur af Valgerði og skapinu hennar sem er rómað meðal pólitískra samherja hennar og andstæðinga. Reyndar hefur mér lengi þótt vænt um Valgerði af svo mörgu leyti en oft líka verið hissa á tali hennar og snöggu skapi. Hinsvegar er ég viss um að hún væri ekki þar sem hún er í dag og hún hefði aldrei komist í forystusveit Framsóknarflokksins hér á þessum slóðum nema vegna þess að hún hefur skap og er kjarnakona. Hún hefur barist á eigin vegum fyrir sínum frama og verið í stjórnmálum af krafti og verið með mikinn neista í verkum sínum. En hún hefur ekki hikað við að berjast eins og ljón við pólitíska andstæðinga og oft bitið harkalega frá sér. En þannig er hún bara og menn vita hvernig hún er hér.
En ég varð hissa á pólitísku nefi Valgerðar Sverrisdóttur er kom fram í þessum margfræga pistli í vikunni og er eins og margir algjörlega ósammála henni. Hinsvegar er henni auðvitað frjálst að hafa aðrar skoðanir og setja þær fram á sínum ágætu vef og tala þar af krafti af sinni pólitísku hugsjón og sannfæringu fyrir skoðunum sínum. Það geri ég og met í raun alla sem það gera, þó skoðanir og áherslur séu aðrar. En hinsvegar vekur auðvitað athygli þegar að viðskiptaráðherra þjóðarinnar skrifar slíkan pistil og vekur upp margar spurningar. Fyrst og fremst vaknar sú spurning í huga mér hvort að Framsóknarflokkurinn ætli að tala af hálfum hug eða heilum til Evrópusambandsins í næstu kosningum. Ástæða þess að ég tel að Valgerður tali með varúð er ágreiningur innan flokksins um afstöðuna til ESB og kannski hafa ESB-sinnarnir séð að ekki verði afstöðunni um ESB-aðild náð fram innan flokksins fyrir kosningarnar 2007, enda gæti það riðið flokknum að fullu. Má vel vera.
Það vita allir að Framsóknarflokkurinn er sundursprunginn og stendur verulega illa að nær öllu leyti. Krónprins flokksins er farinn af flokksfleyinu og genginn til liðs við banka úti í bæ og eftir stendur flokkurinn með forsætið í ríkisstjórn landsins en verulega óvinsæll. Það er kannski engin furða að ESB-sinnarnir innan flokksins séu farnir að draga í land með ESB-talið og því feti Valgerður ekki í fótspor Samfylkingarinnar og talar með þeim hætti og sást í vefskrifum hennar um Evruna. Það tel ég. Enda er Framsóknarflokkurinn ekki beint líklegur til afreka og fær í kosningavetur í landsmálum ætli hann að sundrast innbyrðis vegna ESB-afstöðunnar á þeim tímapunkti. Þetta blasir við öllum sem fylgjast með pólitík. En fyrst og fremst er ESB- og Evruhjal með öllu óraunhæft og tal seinustu daga eftir skrif ráðherrans staðfesta það. Er það vel.
Saga dagsins
1984 Guðlaugur Friðþórsson synti í land um 5 km þegar bátnum Hellisey frá Eyjum hvolfdi og sökk. Guðlaugur lifði einn sjóslysið af.
1985 Mikhail Gorbachev tekur formlega við völdum í Sovétríkjunum - varð áhrifavaldur á söguna og lykilþátttakandi í endalokum kalda stríðsins og sögulegum samningum við Bandaríkin um eyðingu kjarnorkuvopna og langdrægra vopna. Hann hlaut svo friðarverðlaun Nóbels 1990 fyrir framlag sitt til þessara verkefna. Gorbachev einangraðist heima fyrir og sá ekki fyrir endalok Sovétríkjanna. Hann varð valdalaus við fall Sovét árið 1991 og hefur verið þögull þátttakandi í stjórnmálum alla tíð síðan.
1996 John Howard tekur við embætti forsætisráðherra Ástralíu eftir kosningasigur hægrimanna - þá hafði Verkamannaflokkurinn leitt stjórn landsins samfellt í 13 ár - Howard varð 25. forsætisráðherra landsins og hefur setið í embætti síðan. Howard er einn af sigursælustu leiðtogum hægrimanna í Ástralíu og stefnir á framboð árið 2007.
2004 Hryðjuverkaárás í Madrid á Spáni - fjöldi bakpokasprengja sprungu í lestum í samgöngukerfi borgarinnar. Tæplega 200 manns létust í árásinni. Upphaflega var ETA, aðskilnaðarsamtök Baska, kennt um hryðjuverkin. Síðar kom í ljós að Al-Qaeda stóð þar að baki. Árásin var gerð fáum dögum fyrir þingkosningar í landinu. Stjórnvöld kenndu ETA um hryðjuverkin. Neituðu þau lengi að kanna aðra möguleika, t.d. þátttöku Al-Qaeda. Trúnaðarbrestur varð milli kjósenda og stjórnvalda og fór svo að hryðjuverkaöflunum tókst ætlunarverk sitt: að fella hægristjórn landsins í þingkosningunum nokkrum dögum eftir hryðjuverkið.
2005 Hildur Vala Einarsdóttir kjörin poppstjarna Íslands árið 2005 í æsispennandi úrslitakeppni í Idol-stjörnuleit í Vetrargarðinum í Smáralind. Keppti hún um sigurinn í keppninni við Aðalheiði Ólafsdóttur. Hildur Vala heillaði þjóðina og söng sig inn í hjörtu landsmanna með svipmikilli túlkun og næmu látbragði.
Snjallyrðið
Anyone who stops learning is old, whether at twenty or eighty. Anyone who keeps learning stays young. The greatest thing in life is to keep your mind young.
Henry Ford bílaframleiðandi (1863-1947)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2006 | 17:05
Málefnavinna um helgina

Eins og kom fram fyrr í vikunni er málefnavinna Sjálfstæðisflokksins á Akureyri hafin af fullum krafti og hafa fróðlegir og góðir fyrirlestrar um málefni baráttunnar verið í Kaupangi alla vikuna og fólk til í slaginn. Á morgun hefst hin eiginlega vinna á fullu og þá verður fundur um framtíðaráherslu í málefnum Akureyrarbæjar, kjörtímabilið 2006-2010, haldinn á Öngulstöðum í Eyjafjarðarsveit. Allir sem vilja vinna í málefnavinnu flokksins eru eindregið hvattir til að mæta og taka þátt - láta með því rödd sína heyrast í vinnunni og vera með af krafti!
Ég hóf í dag störf í Kaupangi og tók til við að leggja í verkefnin sem mikilvægt er að vinna að. Líst mér vel á það sem framundan er. Kosningabarátta okkar er því formlega hafin. Hvet ég alla sem vilja ræða málin til að koma í Kaupang alla virka daga milli kl. 9:00 og 16:00 til að fá sér heitt kaffi og rabba. Allar frekari upplýsingar um skrifstofuna og málefni kosningabaráttunnar er að finna á Íslendingi - líst mér vel á verkefnin sem fylgja kosningabaráttunni.
En nú er það málefnavinnan. Ég hvet alla til að mæta á morgun í Öngulstaði og taka þátt í vinnunni með okkur.

Faðir minn, Stefán Jónas Guðmundsson, er 61 árs í dag. Ég vil nota tækifærið og óska honum innilega til hamingju með daginn. Ég vil ennfremur þakka honum kærlega fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig seinustu vikurnar. Stuðningur hans og hlýhugur er mér ómetanlegur.
Saga dagsins
1934 Dregið var fyrsta sinni í Happdrætti Háskólans - síðan hefur HHÍ verið ein meginstoða skólans.
1941 Togaranum Reykjaborg var sökkt norður af Skotlandi eftir árás þýsks kafbáts - alls 13 fórust.
1944 Flugfélagið Loftleiðir hf. var formlega stofnað - tæpum 30 árum síðar, árið 1973, sameinaðist það Flugfélagi Íslands hf. undir nafninu Flugleiðir. 10. mars 2005 breyttist nafn Flugleiða í FL Group.
1967 Þrjú timburhús, sem voru á horni Lækjargötu og Vonarstrætis í Reykjavík brunnu til grunna, og hús Iðnaðarbankans skemmdist mikið - um var að ræða einn af mestu eldsvoðum á Íslandi á 20. öld.
1991 Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans - Davíð bar sigurorð af Þorsteini Pálssyni þáverandi formanni, í kosningu á fundinum. Davíð hlaut 733 atkvæði en Þorsteinn, sem verið hafði formaður flokksins í rúm 7 ár, hlaut 651 atkvæði. Davíð tók við embætti forsætisráðherra landsins, 30. apríl sama ár, og sat á forsætisráðherrastóli landsins samfellt í 13 ár, eða allt til haustsins 2004, lengur en nokkur annar í sögu Stjórnarráðs Íslands. Davíð varð utanríkisráðherra við ráðherrahrókeringar í ríkisstjórninni 2004 og hætti formlegri þátttöku í stjórnmálum árið 2005 og varð seðlabankastjóri.
Snjallyrðið
What is success? I think it is a mixture of having a flair for the thing that you are doing; knowing that it is not enough, that you have got to have hard work and a certain sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2006 | 22:48
Umsögn um steingeitina

Fékk ég í gær að gjöf kort með upplýsingum um stjörnumerki mitt, steingeitina. Ég á afmæli 22. desember, en tímabil merkisins er 22. desember til 19. janúar. Ég hef löngum verið mikill áhugamaður um stjörnuspár og að kynnast merkilegum hlutum. Um daginn sagði ég frá merkilegri stjörnuspá sem ég fékk senda. Það er því svo sannarlega viðeigandi að birta textann í þessari stjörnuspá þar sem steingeitinni er lýst.
Á kortinu stendur eftirfarandi (hvort þetta sé lýsing á mér er spurning, en óneitanlega er margt þarna sem vinir mínir eflaust heimfæra á undirritaðan og jafnframt telja lýsa mér allvel): "Steingeitin er alvarlegasta stjörnumerkið og oft er sagt að hún fæðist gömul og verði yngri eftir því sem árin færist yfir. Steingeitin er mjög skipulögð og vanaföst. Steingeitin vill hafa lífið í föstum en þó markvissum skorðum. Steingeitin er haldin fullkomnunaráráttu og óttast fátt meira en að missa sjálfsstjórn og þar með tök á tilverunni.
Hún verður mjög óörugg ef hún hefur ekki gamalgrónar reglur og hefðir til að styðjast við og ef þær eru ekki til staðar er hún fljót að búa til reglur sjálf. Steingeiturnar eru jafnan mjög athugular, fróðastar allra, skynsamar og metnaðargjarnar og dæmigerðar geitur vita allra merkja fyrst hvað þær ætla sér í lífinu. Steingeitin er tilfinningavera en á erfitt með að vinna úr flækjum og innri áföllum. Mikilvægt er að kenna steingeitinni að tjá tilfinningar sínar, slaka á og sjá bjartari hliðar tilverunnar. Einn helsti kostur steingeitarinnar er litrík kaldhæðni."
Svo mörg voru þau orð. Þegar að ég las þetta fyrst fannst mér eins og ég liti í spegil. Spurning hvað öðrum finnst, en mér grunar að flestir séu mér sammála. En já það er gaman af svona pælingum og að stúdera í svona efnum. Allavega get ég ekki sagt að þessi stjörnuspá lýsi ólíkum karakter og þeim sem undirritaður býr yfir.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2006 | 11:28
Húsfreyjan á Lómatjörn alveg úti á túni

Valgerður Sverrisdóttir varð viðskiptaráðherra á gamlársdag 1999. Hún var þá enginn nýgræðingur á sviði stjórnmála, hafði enda setið á þingi fyrir Norðurlandskjördæmi eystra í tólf ár, allt frá árinu 1987. Hún varð leiðtogi Framsóknarflokksins í NE í kosningunum 1999 og leiddi hann svo í hinu nýja Norðausturkjördæmi árið 2003. Valgerður hefur því setið á þingi í 19 ár og verið ráðherra í rúm sex ár og stefnir í að verða þaulsetnasti viðskiptaráðherra landsins sitji hún kjörtímabilið á enda. Hún hefur verið fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis á þessu fyrsta kjörtímabili í hinu stóra kjördæmi og verið umdeild hér á tímabilinu, þó að Framsókn hafi unnið sigur í seinustu kosningum og náð fjórum af tíu þingmönnum kjördæmisins þá. Ástæða þess að Valgerður varð viðskiptaráðherra hafði þó ekkert með það að gera að hún væri sérfræðingur í málefnum viðskipta eða iðnaðar - heldur betur fjarri því.
Valgerður varð viðskiptaráðherra vegna þess að hún var á ráðherrabiðlista Framsóknar eftir kosningarnar 1999. Eins og eflaust flestir muna átti upphaflega að setja Pál Pétursson út úr ráðherraliði flokksins eftir þær kosningar en hann vildi ekki fara og samið um að hann færi á miðju tímabilinu. Samkomulag tókst um að Siv yrði umhverfisráðherra en að Valgerður, sem þá var formaður þingflokksins, biði eftir að Páll hætti, væntanlega á árinu 2000 og yrði þá félagsmálaráðherra. Svo fór, mörgum að óvörum, að viðskiptaráðherrann Finnur, sem talinn hafði verið krónprins Halldórs úr flokknum hætti í pólitík og fór í Seðlabankan. Niðurstaðan: Valgerður tók við ráðuneytum hans. Margir hafa oft furðað sig á því að Valgerður sé ráðherra í þessum ráðuneytum. Sé litið yfir feril Valgerðar er enda fátt sem fær fólk til að verða fullvíst um að hún hafi sérfræðiþekkingu á málaflokknum. Enda eitthvað allt annað sem réði því að hún fór þangað.
Valgerður hefur frá árinu 1974 verið bóndi á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi, er faðir hennar hætti þar búskap. Sé litið yfir feril hennar má greinilega sjá að hún er sannkölluð kjarnakona og afrekað mjög miklu. Það má líka segja með sanni að Valla hefur verið ákveðin og sótt fram af krafti á sínum ferli og unnið sig upp í flokksstarfinu. Hún er ekki þæg slæðukona sem hefur verið hafin upp til skýjanna á þann stall sem hún er á. Hún hefur verið lengi í pólitík og unnið sig markvisst upp, eins og allir sjá sem kynna sér verk hennar. En hinsvegar gerist það oft að hinn almenni áhugamaður um stjórnmál verður hugsi yfir því sem Valgerður gerir og segir sem ráðherra málaflokkanna sem hún sinnir. Gott dæmi þótti mér vera tíðindi gærdagsins. Valgerður ritaði í gær pistil á vef sinn þar sem að hún veltir því fyrir sér hvort að Ísland gæti tekið upp evruna og gengið í myntbandalag Evrópu, án þess að ganga í Evrópusambandið. Segir hún það mögulegt.
Ég las þennan pistil í gær og eftir þann lestur varð mér að orði hvort að viðskiptaráðherra Íslands væri alveg komin á tún í verkum sínum. Það er eiginlega fyrir neðan allt að viðskiptaráðherra í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn láti svona óábyrgt hjal frá sér fara að mínu mati. Ég veit að Valgerður hefur verið mikill ESB-sinni seinustu árin, þótt bóndi í Höfðahverfi sé, og hún hefur tekið upp allt tal Halldórs með mjög afgerandi hætti. Enginn vafi leikur á því að hún ómar skoðanir Halldórs í þessu máli sem öðru, enda vita allir að þau eru mjög náin í pólitísku samstarfi og tali Valgerður með afgerandi hætti má vera viss um að hún sé að tala máli hans og ómi skoðanir þær sem hann hefur sjálfur dálæti á. Eins og við má búast var þessum pistli tekið sem óraunhæfu hjali og í raun óábyrgu hjá viðskiptaráðherranum. Það sást best í viðtali við Tryggva Þór Herbertsson forstöðumann Hagfræðistofnunar HÍ á NFS í gærkvöldi.
Í sama fréttatíma reyndi Svavar Halldórsson fréttamaður, að ná tali af Valgerði um þetta mál fyrir utan þinghúsið. Mikill flóttasvipur var á Valgerði við það tækifæri og hún svaraði með alveg kostulegum hætti því að það væri ekkert óeðlilegt að fabúlera svona um stöðu mála og láta svona skoðanir og skrif frá sér fara. Greinilegt var að hún væri kominn á harðasprett frá skrifunum og reyna að eyða hjalinu sem mest hún mátti. Skiljanlegt er það, enda er þessi pistill og þessi skoðun alveg óraunhæft hjal og í raun fyrir neðan allar hellur að viðskiptaráðherra þjóðarinnar láti slíka vitleysu frá sér fara. Auðvitað sjá allir menn sem vilja líta raunhæft á málin að Evrópusambandsaðild er forsenda þess að taka upp evruna.
Hvorugt er að mínu mati gjöfult við þessar aðstæður og þetta því tómt mál um að tala hvað mig varðar. Enda er skiljanlegt að flóttasvipur sé kominn á ráðherrann. Enda er tal hennar algjörlega úti á túni sýnist mér. Það er greinilegt að hún er komin á flótta frá skrifunum á vefnum og raunar veitti ekki af því að góðir menn og skynsamir taki að sér að fræða ráðherra viðskiptamála um grunnstöðu málanna svo hún geti skrifað með raunhæfum hætti um lykilmál í verkahring hennar á vef sínum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2006 | 11:01
Flokksráðsfundur á Akureyri

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað undir lok seinasta árs að efna til fundar hér á Akureyri helgina 7. - 8. apríl nk. í flokksráði Sjálfstæðisflokksins, formanna félaga og flokkssamtaka, frambjóðenda til sveitarstjórna í kosningunum þann 27. maí í vor og þeirra sem stýra kosningastarfinu. Það er okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og við má búast mun fundurinn að mestu leyti snúast um kosningarnar eftir tæpa 80 daga og ennfremur um hitamál stjórnmálanna á þeim tímapunkti. Mikil vinna er framundan vegna komandi kosninga og mjög mikilvægt að fólk hittist þessa helgi til að bera saman sínar bækur um stöðu mála.
Ég og Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, munum vinna að því að skipuleggja fundinn hér á Akureyri og tryggja að hann verði vel heppnaður og eftirminnilegur þeim sem koma hingað norður til okkar. Það verður mjög áhugavert að vinna með því góða fólki sem vinnur fyrir flokkinn sunnan heiða að því að skipuleggja fundinn svo að hann verði öflugur og góður. Það er mikilvægt að sjálfstæðismenn um allt land beri saman bækur sínar svo skömmu fyrir kosningar og eigi notalega helgi og skemmti sér vel.
Það er svo sannarlega nauðsynlegt að fundurinn verði vel sóttur og við tökum öll þátt í að gera hann að ánægjulegri samverustund og marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan eftir tæpan mánuð!
Saga dagsins
1700 Góuþrælsveðrið - í þessu mikla aftakaveðri fórust alls 15 skip og með þeim alls 132 sjómenn.
1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói í Reykjavík - þeim var stjórnað af Róbert Abraham Ottóssyni. 9. mars 1950 telst formlegur stofndagur hljómsveitarinnar.
1961 Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi og stofnandi KFUM og KFUK, lést, 92 ára að aldri - hann var einn öflugasti kristniboðsleiðtogi landsins á 20. öld og stofnaði t.d. íþróttafélagið Val í Reykjavík.
1973 Samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að N-Írland verði áfram partur af breska samveldinu - 57% kjósenda samþykktu tillöguna. Miklar deilur hafa alla tíð verið vegna stöðu mála og óeirðir allmiklar.
1997 Flutningaskipið Dísarfell sökk um 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði - skipverjar höfðust við í flotgöllum í tvær klukkustundir. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, bjargaði 10 skipverjum en 2 létust.
Snjallyrðið
Always vote for principle, though you may vote alone, and you may cherish the sweetest reflection that your vote is never lost.
John Quincy Adams forseti Bandaríkjanna (1767-1848)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2006 | 16:52
Spjallað á netinu

Seinustu árin hefur Netið sífellt orðið stærri þáttur í daglegu lífi Íslendinga. Að flestra mati er það fyrir lifandis löngu orðinn ómissandi þáttur í verkum hvunndagsins. Sjálfur hef ég notað Netið með mjög öflugum hætti allt frá því að ég fékk mér fyrst tölvu. Ég hef alltaf hrifist af þessari tækni og verið virkur á þessu sviði. Ég hef verið með heimasíður á netinu í rúm fjögur ár og skrifað þar með mjög virkum hætti. Fyrst og fremst hef ég haft gaman af þessu og notið þess að rita þar pælingar mínar - kynna skoðanir mínar fyrir öðrum. Fullt af fólki hefur áhuga á að skoða og ekki kvarta ég yfir því að fólk vill kynnast skoðunum mínum. Þessi skrif hafa skipt mig miklu máli og ég hef í gegnum þessa þátttöku, bæði með beinni þátttöku í stjórnmálum og með skrifum um stjórnmál kynnst miklum fjölda fólks. Þau samskipti eru mikils virði.
Þeir sem hafa bloggsíður kynnast því hversu hratt netið vinnur og hversu auðvelt er þar hægt að tjá sig af krafti um málefni samtímans og skipta máli með því að tjá sig. Þetta er lifandi vettvangur sem margir nýta sér af krafti - er það vel að mínu mati. Einn þáttur þessa hefur birst í blómlegri þjóðmálaumræðu á flokkspólitískum vefsíðum og ennfremur fleiri stöðum þar sem málin eru rædd skorinort, af fólki sem vill tjá skoðanir sínar á málefnalegan hátt og tjá skoðanir sínar undir nafni. Spjallvefir hafa ennfremur orðið stór þáttur netsamskipta um helstu hitamál samtímans. Með þeim hefur oft skapast málefnaleg og góð umræða, t.d. um pólitík. Enginn vafi er á því að spjallvefir eru almennt skemmtilegt og nokkuð áhugavert tjáningarform þar sem gefinn er kostur á að tjá skoðanir og jafnframt ræða þær við annað fólk sem hefur ekki síður eitthvað til málanna að leggja.
Spjallvefir hafa verið að eflast mjög í gegnum seinustu fimm til sjö árin. Lengi vel var Innherjavefur Vísis aðalvettvangur þeirra sem vilja ræða um málefni samtímans en frá árinu 2003 hefur vefurinn málefnin.com verið þeirra vinsælastur. Þar safnast daglega saman fleiri tugir fólks til að ræða um allt frá harðri pólitík til slúðurs um fólk úti í bæ. Ekkert mannlegt virðist vera spjallvefunum og þátttakendum þar óviðkomandi. Meginpartur þeirra sem skrifa á þessum spjallvefum er nafnlaust fólk - fólk sem vill ekki láta nafns síns getið en skrifar undir dulnefni sem enginn getur rakið nema mögulega eigandi vefsins. Að undanförnu hafa spjallvefir þó fengið á sig sífellt neikvæðari merkingu. Nafnleyndin er í mörgum tilfellum skiljanleg að mínu mati - vilji fólk ekki þekkjast einhverra hluta vegna en jafnframt tjáð skoðanir sínar á málefnalegan hátt er það ekki óeðlilegt hlutskipti að velja sér.
En að mínu mati vill þó oft nafnleyndin snúast upp í að fólk noti hana til að vega að nafngreindu fólki með skítkasti og ómerkilegheitum og skrifa á ómálefnalegan hátt. Slíkur verknaður er eitthvað sem aldrei á að gera á opinberum vettvangi. Alveg sama hvort fólk skrifar undir nafnleynd eða kemur hreint fram undir eigin nafni skal standa vörð um málefnaleika og heiðarleg skrif í hvívetna. Leitt er frá því að segja að svo er það ekki alltaf, mýmörg dæmi eru fyrir því að fólk noti nafnleyndina til að vega úr launsátri að fólki og snúa umræðunni upp í hreina þvælu. Sjálfur hef ég haft gaman af að tjá mig á spjallvefum. Ég byrjaði á innherjavefnum árið 1999 og hef síðan verið mjög virkur að skrifa á spjallvefum. Hef ég þar ekki verið feiminn við að leggja nafn mitt við mínar skoðanir, enda þykir mér eðlilegt að ræða við annað fólk og koma með mitt sjónarhorn á helstu hitamál samtímans.
Hef ég fylgst með spjallvefum í öll þessi ár og því bæði verið virkur áhorfandi og beinn þátttakandi þar að. Hef ég á þessum tíma kynnst bæði góðu fólki sem vill tjá sig málefnalega hvort sem er undir nafnleynd eða undir nafni og hinsvegar öðru fólki sem misnotar nafnleyndina með allómerkilegum hætti. Hef ég óskað eftir málefnalegum umræðum og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á þetta allt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi slíks að fólk gangi alltof langt í skítkastinu undir nafnleynd.
Að mínu mati er nafnleyndin verulega oft misnotuð á nokkuð áberandi hátt á slíkum spjallvefum og sumir geta ekki rætt málefnalega á þeim forsendum að vera nafnlausir. Svo einfalt er það. Óneitanlega er gaman af því að fylgjast með stjórnmálum, sjálfur hef ég skrifað á svona vefi og rabbað við aðra vegna þess áhuga. En það er skuggahlið á þessum efnum og á það verður að benda. Nafnleyndin er oft misnotuð með áberandi hætti og með því fellur skuggi líka á þá sem eru þar á heiðarlegum forsendum jafnt sem þá sem óorðinu valda. Því miður eru vefirnir alltof mikið dæmdir eftir svörtu sauðunum sem þarna dvelja. Er það miður. Seinustu daga höfum við tekið eftir nýjustu umræðunni um Málefnavefinn. Eigandinn treysti sér ekki til að verja það efni sem einn setti inn og lokaði vefnum vegna þess. Hann vildi ekki bera hina lagalegu ábyrgð.
Ég tel að alltof lengi hafi vafi leikið á því hver taki ábyrgð á skrifum nafnleysingja. Það sjá allir að sumt nafnlaust fólk sem birtir skoðanir á vefunum gerir það til að þekkjast ekki og notar það tækifæri til að vega að öðru fólki á ómerkilegan hátt. Það þarf að komast á hreint endanlega hver ber hina endanlegu ábyrgð á skrifum þeirra sem þannig haga sér. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu. Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt.
Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.
Saga dagsins
1700 Tugir fiskibáta fórust í gríðarlegu stormviðri við Reykjanesskaga - alls 136 manns drukknuðu.
1843 Alþingi Íslendinga var formlega endurreist með tilskipun konungs - kom saman 1. júlí 1845.
1868 Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld lést, 49 ára að aldri - hann varð þekktur fyrir skáldsögur og kvæði. Jón ritaði fyrstu skáldsögu Íslendinga, Piltur og stúlka, sem þykir meistaraverk enn í dag.
1975 Kvikmyndaleikstjórinn George Stevens lést, sjötugur að aldri - Stevens var einn af svipmestu kvikmyndaleikstjórum 20. aldarinnar í Bandaríkjunum og gerði margar af eftirminnilegustu kvikmyndunum í gullaldarsögu Hollywood. Stevens hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í stórmyndinni ódauðlegu Giant árið 1956.
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kallar Sovétríkin veldi hins illa í víðfrægri ræðu í Flórída.
Snjallyrðið
Look at a day when you are supremely satisfied at the end. It's not a day when you lounge around doing nothing; its when you had everything to do, and you've done it.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Árni Magnússon hætti þátttöku í stjórnmálum í dag. Á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á tólfta tímanum í morgun var hann leystur frá störfum og Jón Kristjánsson tók við ráðuneyti hans og Siv Friðleifsdóttir tók við heilbrigðisráðuneytinu. Fyrr um morguninn hafði hann beðist formlega lausnar frá þingmennsku. Árni keyrði því frá Bessastöðum sem hver annar maður í samfélaginu - stjórnmálaferlinum var lokið. Ekki var stjórnmálaferill Árna Magnússonar langur. Satt best að segja taldi ég þegar að hann tók við félagsmálaráðuneytinu vorið 2003 að þar væri kominn krónprins Framsóknarflokksins. Krónprins sem Halldór hefði slíkt dálæti á að leiðtogastólinn væri örugglega hans síðar meir. Það kemur óvænt að það sé svo Árni sem víki fyrr af sviðinu en Halldór. Að mörgu leyti er kaldhæðnislegt hvernig tveir lykilmenn Halldórs hafa farið út: Árni og Finnur.
Margir hafa rætt seinustu dagana hvað búi að baki því að Árni hætti þessu öllu og fær sér þægilega og vel launaða vinnu í banka. Ég tel að hann hafi verið búinn að fá nóg. Einhvernveginn var eins og neistinn væri farinn fyrir nokkru. Ég tók sérstaklega eftir þessu undir lok seinasta árs. Ekki bara það að skuggi máls Valgerðar Bjarnadóttur hafi þjakað hann heldur fannst mér hann orðið fjarlægur pólitíkinni og þrasinu í henni. Það hefur svo sést vel á þessu ári að Árni hefur smám saman verið að draga sig til baka og nú stígur hann út, mörgum að óvörum. Ég las í gær athyglisverðan pistil Guðjóns Ólafs Jónssonar lögmanns, sem tekur sæti á þingi í stað Árna, um hrókeringarnar á Hriflunni, vef flokksins í borginni. Hann segist þar vera miður sín yfir breytingunum. Skil ég vel að hinum almenna flokksmanni þyki miður að maður af kalíberi Árna hætti og gefist upp á stjórnmálum.
Í raun er staða Framsóknarflokksins frekar döpur, eins og ég hef sagt frá og ekki undrunarefni þó að hik komi á fólk sem þar starfar nú. En að mörgu leyti finnst mér merkilegt að Árni skuli hafa farið svo fljótt út. Ég hef skilning á því að hann hafi fengið nóg og vilji helga sig fjölskyldunni sinni. En enn og aftur vaknar lykilspurning: af hverju gerist það æ oftar að hæfileikaríkt ungt fólk hafi sífellt minni áhuga á stjórnmálum og störfum í þágu samfélagsins síns og leitar á annan vettvang? Kannski er svarið það að fólk vilji frekar vera utan kastljóss fjölmiðla og fá góð störf á öðrum vettvangi vegna þess. Vissulega er fjölmiðlaumhverfið mjög óvægið og hvasst oft á tíðum og það er ekki öllum gefið að taka þátt í þeim darraðardans sem þátttaka í framlínu stjórnmála er. Það þarf að vera mikill áhugi og ástríða til að knýja fólk áfram til verka í slíkum ólgusjó. En það er áhyggjuefni ef fólk leggur ekki í þá áhugaverðu siglingu og vinnu sem fylgir stjórnmálum.
Væntanlega eru margir innan Framsóknarflokksins hugsi núna. Árni er farinn og Siv hefur komið í hans stöðu innan stjórnarinnar en er í öðru ráðuneyti. Lengi var litið á Siv og umhverfismálin sem hliðarreit í pólitíkinni og hún talin léttvæg, þó að margir viti sem er að hún er öflugur pólitíkus á framsóknarmælikvarðann. En nú er hún komin með ögrandi verkefni og öfluga stöðu innan ríkisstjórnarinnar. Hún hefur eflst mjög sem stjórnmálamaður við að hafa í dag tekið við heilbrigðismálunum. Nú mun reyna á hana. Gangi henni illa í starfi mun hún aftur síga sem pólitíkus en takist henni vel til mun vegur hennar aukast mjög. Það er engin furða að framsóknarmenn velti því fyrir sér hver verði nú álitinn krónprins Halldórs. Varla mun hann vera lengi í pólitík úr þessu. Líta menn greinilega mjög núna til þeirra þriggja: Guðna, Valgerðar og Sivjar. Aðrir koma vart til greina eins og staðan er nú.
Nema þá að Árni ætli sér að vera í bankanum og slappa af og hyggi svo á endurkomu þegar að Halldór stígur af sviðinu á komandi árum? Það er aldrei að vita. Altént er krónprins framsóknarmanna farinn og menn leita að nýjum til að máta við titilinn. Varla flokkast Guðni orðinn sem krónprins. Hann er að verða frekar slitinn pólitískt og greinilegt að Halldór vill ekki að hann taki við. Væntanlega lítur hann helst til Valgerðar að óbreyttu. Samvinna þeirra er þekkt fyrir að vera mikil og þau hafa unnið saman í marga áratugi, allt frá því í SUF forðum daga. Valgerður er enda í hans liði og þegar að hún talar af krafti er hún að tala pólitísku máli Halldórs - þetta vita allir sem þekkja til Framsóknar og þessara tveggja. En nú kemur Siv aftur og nú reynir á hana.
Hver verður krónprinsinn nú þegar að sá sem áður bar þann titil hefur haldið til starfa í bankanum í gömlu SÍS-höllinni? Stórt er spurt - við fylgjumst öll vel með.
Saga dagsins
1902 Sögufélagið var stofnað - lykilmarkmið félagsins allt frá upphafi var að vinna að því að gefa út ítarlegt og nákvæmt heimildarrit um sögu íslensku þjóðarinnar, allt frá miðöldum til nútímasögunnar.
1922 Ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Eggerz tók við völdum.
1946 Leikkonan Joan Crawford hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mildred Pierce - hún var ein af svipmestu leikkonum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum kvenpersónum. Hún lést árið 1977. Mikið var deilt um einkalíf leikkonunnar eftir að dóttir hennar, Christina Crawford, gaf út bók um ævi sína og lýsti móður sinni sem skapmikilli og bráðri og hefði beitt sig andlegu ofbeldi til fjölda ára. Sú saga var færð í kvikmyndabúning í myndinni Mommie Dearest árið 1981. Í myndinni fór leikkonan Faye Dunaway algjörlega á kostum í hlutverki hinnar goðsagnakenndu leikkonu og túlkaði skapgerðarbresti hennar og sjálfsdýrkun með snilldarhætti.
1981 Dægurlagið Af litlum neista, flutt af Pálma Gunnarssyni, sigrar í fyrstu söngvakeppni Sjónvarpsins.
1996 Tímaritið Séð og heyrt hóf göngu sína - blaðið var allt frá stofnun umdeilt en vinsælt slúðurrit.
Snjallyrðið
Trust yourself. Create the kind of self that you will be happy to live with all your life. Make the most of yourself by fanning the tiny, inner sparks of possibility into flames of achievement.
Golda Meir forsætisráðherra Ísraels (1898-1978)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2006 | 17:20
Málefnavinnan hafin af krafti

Eins og vel hefur komið fram hefur framboðslisti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verið samþykktur og nú tekur kosningabaráttan við. Málefnavinna okkar er farin af stað. Verðum við með fróðlega fyrirlestra um málefni baráttunnar áður en hin eiginlega vinna hefst og er ljóst að spennandi vinna er framundan. Í gærkvöldi flutti Gunnar Gíslason fyrirlestur um skólamál í Kaupangi sem var í senn áhugaverður og fræðandi. Skólamálin eru stór og áberandi málaflokkur í sveitarfélagi nútímans - málaflokkur sem skiptir sífellt meira máli. Hafði ég gaman af fyrirlestrinum og var skemmtileg umræða meðal hópsins að lokinni umfjöllun Gunnars. Vorum við mun lengur að ræða málin en stefnt hafði verið að. Fræðandi kvöldstund um skólamál í Kaupangi semsagt í gær.
Sérstaklega fannst mér áhugavert að heyra lifandi og góða umræðu um málaflokkinn. Er það ekki óeðlilegt, enda í okkar hópi fólk sem þekkir skólamálin inn og út, t.d. Ella Magga, Hjalti Jón skólameistari, Jón Kr. og fleiri. Framundan eru fleiri fyrirlestrar. Á morgun verður kynning á íþrótta-, tómstunda- og menningarmálum sem þeir Kristinn Svanbergsson og Þórgnýr Dýrfjörð munu hafa yfirumsjón með. Í kjölfarið mun Guðmundur Jóhannsson formaður umhverfisráðs Akureyrarbæjar, flytja fyrirlestur um umhverfis- skipulags- og byggingarmál. Á fimmtudagskvöldið mun Karl Guðmundsson flytja fyrirlestur um félags- og heilbrigðismál og í kjölfarið fjallar Valur Knútsson um atvinnumál. Mjög áhugaverðir fyrirlestrar sem ég mun fylgjast vel með. Það er ljóst að spennandi málefnavinna er framundan.
Hvet ég alla sem vilja vinna með okkur til að láta sína rödd heyrast í vinnunni framundan og vera með okkur af krafti í komandi verkefnum. Það er alveg ljóst á umræðunni í gærkvöld um skólamálin að áhugaverð og lífleg vinna tekur nú við. Sérstaklega tel ég að það verði gaman að vera í skólamálahópnum og móta kosningastefnuna okkar í þeim málaflokki. Frá 10. mars verður svo skrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Kaupangi við Mýrarveg opin frá 9:00 til 16:00 alla virka daga. Ég tek þann dag til starfa. Verður áhugavert að hefja slaginn og taka til starfa við þau verkefni sem framundan eru.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2006 | 18:09
Siv tekur sæti í ríkisstjórn að nýju

Stærstu pólitísku tíðindi ársins það sem af er hljóta auðvitað að teljast frétt helgarinnar: brotthvarf Árna Magnússonar úr stjórnmálum. Það leikur enginn vafi á því að fólk varð undrandi á því að hrókeringarnar í ríkisstjórninni skyldu vera vegna þess að Árni hefði ákveðið að hætta en ekki Jón Kristjánsson eins og talað var um meðan mesta óvissan var í gær. Þessar hrókeringar leiða auðvitað til athyglisverðra breytinga eins og fyrr hefur verið sagt frá hér. Mestu tíðindin eru auðvitað þau að með brotthvarfi Árna losnar ráðherrastóll fyrir Siv Friðleifsdóttur. Siv er þó auðvitað enginn nýliði í ríkisstjórn, enda var hún umhverfisráðherra á árunum 1999-2004 og hefur setið á þingi frá 1995.
Það þótti mörgum mikil tíðindi þegar að Siv missti ráðherrastól sinn haustið 2004 til að rýma til fyrir forsætisráðherrastóli Halldórs Ásgrímssonar. Þá fór umhverfisráðuneytið yfir til Sjálfstæðisflokksins og Sigríður Anna Þórðardóttir leysti Siv af. Siv stóð eftir sem óbreyttur þingmaður, þó hún væri leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins. Hún naut þess ekki að vera úr kraganum og með flest atkvæði þingmanna flokksins á höfuðborgarsvæðinu á bakvið sig, merkilegt nokk fleiri en forsætisráðherrann og formaður flokksins. Það var auðvitað með ólíkindum að Siv sem verið hafði ráðherra samfellt í fimm ár væri sett út en ekki Árni sem hafði þá aðeins verið ráðherra í rúmt ár.
Siv kemur nú aftur af krafti og tekur sæti Jóns Kristjánssonar í heilbrigðisráðuneytinu en hann fer í staðinn í stól Árna í félagsmálaráðuneytinu. Siv getur allavega ekki kvartað yfir að vera verkefnalaus næstu 14 mánuðina - fram til þingkosninga í maí 2007. Hún tekur við stærsta ráðuneytinu - því erfiðasta að margra mati. Þar bíða mörg verkefni og endalausar áskoranir fyrir ferskan stjórnmálamann. Siv hefur alltaf verið öflugur stjórnmálamaður að mínu mati. Hún hefur öflugan og ferskan vef - hún hefur að mínu mati alltaf verið í takt við nútímann í pólitík og uppfært sig eftir þörfum nútímastjórnmála. Þó að Siv sé andstæðingur minn í stjórnmálum hef ég lengi virt hana og verk hennar - hún er í pólitík af ástríðu.
Jón Kristjánsson skiptir um ráðuneyti greinilega mjög þreytulegur og mæddur á svip. Það er ekki óeðlilegt að hann sé alsæll að skipta um ráðuneyti og verkefni. Það hefur sést vel á honum seinustu vikur að hann hefur fengið nóg af heilbrigðismálunum. Reyndar verður fróðlegt að sjá hvort að Jón fer aftur fram í kosningum að ári. Sögusagnir hér í Norðausturkjördæmi herma að Jón ætli sér að hætta að ári og setjast í helgan stein austur á Egilsstöðum, enda orðinn þá 65 ára og getur tekið því rólega á góðum eftirlaunum, eftir að hafa verið ráðherra í sex ár. Jón hefur verið lengi í stjórnmálum, setið á þingi frá 1984 og verið ráðherra frá 2001. Það kæmi fáum á óvart þó að hann myndi hætta.
Mörgum að óvörum hefur það nú gerst að Árni Magnússon hefur rýmt til fyrir Siv Friðleifsdóttur. Það hefði fáum órað fyrir því fyrir ári þegar að deilur risu sem hæst í Kópavogi milli nánustu stuðningsmanna þeirra innan flokksins og voru greinileg átök milli þeirra um virðingarsess. Siv fór særð úr ríkisstjórn og ekki sátt við sinn hlut og hefur frá haustinu 2004 ekki hikað við að fara eigin leiðir og verið spör á allt lofshjal um forystu flokksins og setið til hliðar og sinnt skyldum sem ritari flokksins og umsjónarmaður innra starfsins í flokksapparatinu. Halldór tekur hana nú aftur inn í stjórn og er greinilega að reyna að lægja öldur í flokknum eftir langar væringar sem hafa skaðað hann verulega.
Það væri synd að segja að Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar sé flokkur sem sé í sæluvímu í íslenskum stjórnmálum. Það eina og hálfa ár sem Halldór hefur verið í forsæti ríkisstjórnar hefur flest aflaga farið sem mögulega hefur getað farið svo. Eftir stendur Halldór með flokk í pilsnermælingu og veit vart sitt rjúkandi ráð. Ofan á allt annað er krónprinsinn farinn af fleyinu og hann berst á hæl og hnakka við óánægða liðsmenn innan þingflokksins. Það dylst engum að forsætisráðherraferillinn hefur ekki verið nein sæla fyrir Halldór - altént ekki sú sæla sem að var stefnt væntanlega vorið 2003, er samið var um skiptingu ráðuneyta með þeim hætti sem nú er.
Siv Friðleifsdóttir tekur að nýju sæti í ríkisstjórn forsætisráðherra og formanns flokks sem virðist á hverfanda hveli í íslenskum stjórnmálum. Að óbreyttu mun Framsóknarflokkurinn vart verða annað en sem hver annar hornkarl í íslenskri pólitík eftir þingkosningarnar 2007. Halldór er að reyna með því að upphefja Siv að snúa vörn í sókn og sækja á ný mið í kjölfar þess. Þetta blasir við. Það er alveg ljóst að Halldór Ásgrímsson ætlar fram að ári og hefur þegar reynt að koma sér í rétta gírinn fyrir kosningarnar. En kannski ráðast örlög Framsóknar að miklu leyti af því hvernig aðstoðarmanni hans gengur með flokkinn í borgarmálunum í vor. Nái flokkurinn ekki sæti í borgarstjórn mun flokkurinn ganga í gegnum mikla kreppu.
Og þá er ekki víst að upphefð Sivjar gagnist Halldóri. Altént er ljóst að brotthvarf Árna veikir Framsóknarflokkinn, því þar sér flokkurinn að baki krónprinsinum hans Halldórs, manni sem hefur bæði misst áhugann á stjórnmálum og framavonum á þeim vettvangi. En hver verða örlög Framsóknarflokksins? Þessi níræði flokkur virðist vera í miklum erfiðleikum og það sjá allir sem pólitískt nef hafa að ekki er Halldór að græða mikið á forsæti sínu og forystu í stjórnmálaumræðunni. Þvert á móti - hann dalar sífellt. Það er ekki nema von að flótti sé kominn á lykilmennina hans Halldórs nú þegar styttist í tvennar kosningar og flokkurinn á hverfanda hveli.
Er annars ekki miklu betra að vera flottur maður í risastórum banka á alþjóðavísu og með himinhá laun heldur en að vera ráðherra í sífellt vaxandi erfiðleikum innan minnkandi stjórnmálaflokks þegar að svo er komið sögu. Jú, sennilega er það miklu meira freistandi þegar litið er á þessa valkosti sem blöstu við félagsmálaráðherranum fráfarandi.
Saga dagsins
1830 Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða, skammt út af Reykjanesi, og stóð það í rúma 2 mánuði.
1873 Ofsaveður gerði við suðausturströnd landsins og talið að 15 franskar fiskiskútur hafi þá farist.
1905 Coot, fyrsti togari í eigu Íslendinga, kom til Hafnarfjarðar - togarinn var keyptur frá Skotlandi
1983 CDU (kristilegir demókratar) vinna sigur í þýsku þingkosningunum - Helmut Kohl sat áfram á kanslarastólnum, en hann hafði tekið við embættinu ári áður - Kohl var kanslari samfellt í 16 ár, eða allt til ársins 1998, er flokkurinn beið þá ósigur í þingkosningum. Kohl sat lengst í embættinu á 20. öld.
1998 Frost mældist -34,7°C í Mývatnssveit - það var mesta frost sem hafði mælst hérlendis í 80 ár.
Snjallyrðið
To wear your heart on your sleeve isn't a very good plan; you should wear it inside, where it functions best.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2006 | 07:02
Óskarsverðlaunin 2006

Eins og venjulega var skemmtilegt að fylgjast með herlegheitunum þegar Óskarsverðlaunin voru afhent í Los Angeles nú í nótt í 78. skiptið. Crash hlaut mörgum að óvörum óskarsverðlaunin sem besta kvikmynd ársins 2005 og hlaut tvenn önnur verðlaun á meðan að hinn taíwanski Ang Lee vann leikstjóraóskarinn fyrstur asískra leikstjóra fyrir Brokeback Mountain sem hlaut þrenna óskara en tapaði óvænt kapphlaupinu um bestu myndina. Ég ætla nú að fara yfir helstu flokkana og tjá mig örlítið um úrslitin.
Kvikmynd ársins
Fyrirfram þótti mér ljóst að slagurinn í þessum flokki yrði á milli úrvalsmyndanna Brokeback Mountain og Crash. Í spá minni hér á vefnum á laugardag spáði ég Brokeback Mountain sigri. Það gerðu reyndar flestir kvikmyndaáhugamenn beggja megin við Atlantshafið. Það urðu því margir sem göptu af undrun þegar að Jack Nicholson tilkynnti að Crash hefði orðið fyrir valinu og hlotið aðalverðlaun kvöldsins. Ég verð að viðurkenna að ég taldi að akademían myndi láta fordómana lönd og leið og verðlauna Brokeback Mountain sem var án nokkurs vafa besta myndin í flokknum. En svona er þetta. Crash er mjög öflug og góð mynd. Hún er með mjög kraftmikilli fyllingu í söguþræði og lítur mjög vel út. Margir misstu af Crash þegar að hún gekk hér fyrir tæpu ári, enda fáum órað fyrir að hún hlyti óskarinn. Þetta er mynd sem skilur mikið eftir sig - allir að sjá hana núna!
Leikstjóri
Taíwaninn Ang Lee hlaut óskarinn fyrir leikstjórn sína í Brokeback Mountain. Þótti mörgum sigur hans benda til þess að akademían ætlaði að fara alla leið og verðlaunina myndina sem hina bestu. Það fór ekki svo. Þetta er ekki ósvipuð stemmning og 1998 þegar að Spielberg tók verðlaunin en svo tapaði Saving Private Ryan kapphlaupinu um bestu mynd. Sennilega hefur akademían ekki viljað fara alla leið að þessu sinni og verðlauna mynd sem tekur á ást samkynhneigðra manna. En með þessu kemst Lee í sögubækurnar, enda fyrsti asíski leikstjórinn sem vinnur verðlaunin. Ekki einu sinni Akira Kurosawa náði að vinna þann gyllta á sínum ferli. Lee hlaut nærri því verðlaunin árið 2001 fyrir hina glæsilegu Crouching Tiger, Hidden Dragon - tilþrifamikla bardagamynd með fallegum landslagsmyndum og heillandi leik. En nú fór Lee loksins heim með styttuna og átti hana svo sannarlega skilið.
Leikari í aðalhlutverki
Philip Seymour Hoffman hlaut mjög verðskuldað óskarinn sem leikari í aðalhlutverki fyrir glæsilega túlkun sína á Truman Capote, einum eftirminnilegasta rithöfundi Bandaríkjanna á 20. öld. Hoffman náði slíkum tökum á karakternum að annað eins hefur varla sést. Hann náði meira að segja kostulegum talanda og framkomu Capotes svo vel að þeir sem þekktu rithöfundinn héldu vart vatni yfir hrifningu á meistaraleik hans. Hann varð Capote í túlkun sinni, náði svipbrigðum hans og töktum með glæsibrag og vann mikinn leiksigur og hlaut loksins uppreisn æru sem leikari. Ég hef lengi virt Hoffman mikils sem leikara og fagna því mjög að hann hafi hlotið gyllta karlinn.
Leikkona í aðalhlutverki
Reese Witherspoon hlaut óskarinn sem leikkona í aðalhlutverki fyrir stórfenglega túlkun sína á June Carter Cash, eiginkonu country-goðsins Johnny Cash, í kvikmyndinni Walk the Line, sem segir sögu þeirra í rúm tíu ár, frá þeirra fyrstu kynnum þar til að þau giftast undir lok sjöunda áratugarins. Reese vann sannkallaðan leiksigur í hlutverki kjarnakonunnar June og vann í leiðinni hug og hjörtu kvikmyndaunnenda fyrir ógleymanlega túlkun sína. Reese hefur löngum verið þekkt fyrir túlkun á fáfróðum ljóskum með attitude en sannaði með klassaleik að hún á erindi meðal þeirra bestu í Hollywood í dag og kom, sá og sigraði á óskarsverðlaunahátíðinni þetta árið. Glæsileg leikkona sem hefur sannað sig svo um munar og verðskuldaði sigur í þessum flokki.
Leikari í aukahlutverki
George Clooney hlaut ekki leikstjóraóskarinn en hann hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Syriana eins og ég hafði spáð. Mér fannst þessi pólitíska fléttumynd gjörsamlega frábær og Clooney sýndi og sannaði fyrir mér í eitt skipti fyrir öll með túlkun sinni að hann er ekki bara sætt andlit, heldur leikari með fjölhæfa túlkun og öflugur í karakterleik. Eftir stendur ógleymanlegur karakter í öflugri mynd sem ég mæli hiklaust með. Clooney hefur fyrir margt löngu sannað að hann er bæði tilþrifamikill leikari og hæfileikaríkur - ekki síðri sem leikstjóri þó. Hann átti sigurinn svo sannarlega skilið, þó að mér þætti í hjartanu að Gyllenhaal hefði átt að vinna.
Leikkona í aukahlutverki
Rachel Weisz hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á aktívistanum Tessu Quayle í kvikmyndinni The Constant Gardener. Ég fór lofsamlegum orðum um leik hennar eftir að sá myndina og endurtók þau orð í spá minni um verðlaunin um helgina. Hún átti svo sannarlega skilið að vinna þessi verðlaun, enda mjög svipmikil í hlutverkinu og í raun hjarta og sál myndarinnar. Við sjáum strax í byrjun hver örlög Tessu verða en sagan um karakterinn kemur svo smá saman fram þegar að líða tekur á myndina. Rachel heillaði mig með litríkum leik og ég var sæll með það að hún skyldi hljóta hnossið fyrir sitt góða verk. Hvet eiginlega alla til að sjá þessa mynd og njóta hennar - algjört konfekt fyrir kvikmyndaáhugamenn. Mynd með mikilli fyllingu sem skilur mikið eftir sig.
Þetta var skemmtileg Óskarsverðlaunahátíð, og var margt af skemmtilegu efni í útsendingunni. Sérstaklega fannst mér áhugavert að sjá klippur með ógleymanlegum kvikmyndum í sögu kvikmyndalistarinnar og heyra fallega og notalega kvikmyndatónlist. Tónlist í kvikmyndum er jú stór hluti þeirrar upplifunar sem fylgir því að sjá kvikmynd. Kvikmynd með góðu handriti en lélegum gæðum eða jafnvel tónlist rýrist fljótt í huganum. Til að kvikmynd verði ógleymanleg og áhugaverð í huganum þarf hún að hafa breiða skírskotun og hafa margt fram að færa. Það er svo sannarlega fátt sem jafnast á við það að horfa á góðar klippur ógleymanlegra mynda og heyra öll flottu stefin sem sett hafa svip á þessar myndir. Svo var óneitanlega hjartnæmt, eins og ávallt að sjá þegar að látinna listamanna var minnst. Meðal þeirra sem kvöddu á árinu voru snillingar á borð við Anne Bancroft, John Mills, Teresa Wright og Shelley Winters.
Jon Stewart kynnti óskarinn að þessu sinni. Fannst mér honum takast bara mjög vel upp og vera með góða og hressilega brandara. Hló mjög af upphafsatriðinu hans, en margir alveg óborganlegir brandarar hittu þrælbeint í mark. Jon stóð sig semsagt vel fyrsta sinnið en náði engan veginn að toppa snillinga á borð við Billy Crystal og Steve Martin, sem hafa stjórnað með bravúr seinustu árin. Mörg smærri verðlaun vöktu athygli, enda er verið að verðlauna allan geirann í kvikmyndagerð. S-Afríska kvikmyndin Tsotsi eftir Gavin Hood var valin besta erlenda kvikmynd ársins. Rapplagið It's Hard Out Here For a Pimp úr Hustle & Flow var valið besta lagið - er þetta í annað skiptið sem rapplag vinnur óskarinn en Eminem vann fyrir Lose Yourself úr 8 Mile fyrir þrem árum. Tónlistin úr Brokeback Mountain eftir Gustavo Santaolalla var valin sú besta - átti það skilið enda mjög hrífandi og vel flutt.
Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Robert Altman hlaut heiðursverðlaun á hátíðinni fyrir æviframlag sitt til kvikmyndagerðar. Altman hefur leikstýrt mörgum af eftirminnilegustu kvikmyndum sögunnar, en aldrei hlotið leikstjóraóskar eða viðurkenningu fyrir bandarísku akademíunni fyrir verk sín. Var því kominn tími til að heiðra þennan fræga leikstjóra. Hann hefur fimm sinnum hlotið tilnefningu: fyrir MASH, Nashville, The Player, Short Cuts og Gosford Park. Var hann hylltur er hann tók við verðlaunum sínum og stóðu allir úr sætum og heiðruðu þennan fræga kvikmyndagerðarmann. Ræða hans var hjartnæm og hæfði þessu góða tilefni að mínu mati - Altman sló þarna algjörlega í gegn. Best af öllu fannst mér þegar að hann minntist á það að hann hefði farið í hjartaígræðslu fyrir ári og væri með hjarta þrítugrar konu og hann ætti því mörg herrans árin eftir enn - væri ekki hættur þó að sá gyllti væri loks kominn!
Paul Haggis og Robert Moresco hlutu óskarinn fyrir frumsamið kvikmyndahandrit fyrir kvikmyndina Crash, sem var sigurvegari kvöldsins eins og fyrr segir. Svipmikil og stórfengleg kvikmynd sem hitti beint í mark og allir verða að sjá sem misst hafa af. Flott handrit ásamt góðum leik er aðall þessarar flottu myndar. Larry McMurtry og Diana Ossana hlutu óskarinn fyrir besta handrit byggt á áður birtu efni, fyrir Brokeback Mountain sem er byggð á sögu Annie Proulx. Breska teiknimyndin Wallace & Gromit hlaut eins og flestir höfðu búist við óskarinn sem besta teiknimyndin. King Kong og Memoirs of a Geisha urðu sigursæl og hlutu þrenn verðlaun. Dion Beebe fékk óskarinn fyrir kvikmyndatökuna í Memoirs of a Geisha. Því miður hlaut íslenska stuttmyndin Síðasti bærinn ekki verðlaunin og missti þau til írsku stuttmyndarinnar Six Shooter.
En eftir stendur að ekkert er öruggt þegar þessi verðlaun eru annars vegar og það geta alltaf óvæntustu hlutir gerst. Það fengu Ang Lee og aðstandendur Brokeback Mountain að reyna þetta árið rétt eins og meistari Martin Scorsese í fyrra, þegar að verðlaun sem flestir töldu örugg í höfn fóru svo á allt annað stað. En þótt verðlaunaafhendingin hafi verið bragðdaufari þetta árið náðu þau þó að koma á óvart og voru alls ekki fyrirsjáanleg - enda voru flestir gapandi hissa og vissu varla hvað átti að gera þegar að Crash hlaut aðalverðlaun kvöldsins. En þessi hátíð er að mínu mati alltaf jafn skemmileg - þetta er uppskeruhátíð kvikmyndaheimsins og hún er ómissandi. Fastur punktur í tilverunni ár hvert!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)