5.3.2006 | 19:46
Sunnudagspistill - 5. mars 2006

Tvö mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:
- Árni Magnússon er á útleið úr stjórnmálum. Hann víkur úr pólitísku starfi eftir þriggja ára veru í félagsmálaráðuneytinu og jafnlangan tíma sem þingmaður Reykvíkinga og heldur til starfa í Íslandsbanka. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, tilkynnti um ákvörðunina og augljóst á honum að hann sér eftir Árna úr forystunni, rétt eins og Finni Ingólfssyni á sínum tíma. Tekur Jón Kristjánsson sæti Árna og Siv Friðleifsdóttir verður heilbrigðisráðherra í stað Jóns. Spái ég í það hvort að þessi tímamót boði það að yngra forystufólk sjái frekar hag í vellaunuðum toppstöðum en hita og þunga stjórnmálanna. Fyrst og fremst veikist þó staða Framsóknarflokksins við þessi tíðindi.
- Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er hafin. Framboðslisti flokksins var samþykktur á fjölmennum fundi í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Kaupangi á fimmtudag. Tel ég þetta sterkan og öflugan lista og fer ég yfir hlut ungliða í kjölfar prófkjörsins 11. febrúar sl. og viðbrögð mín og fleiri við þeim úrslitum. Fer ég yfir þá ákvörðun að taka ekki sæti á listanum og ennfremur að ég muni halda áfram í pólitísku starfi flokksins hér á Akureyri af krafti. Var ég ráðinn til starfa að kosningabaráttu flokksins í vikunni og hef þar störf bráðlega. Líst mér vel á kosningabaráttuna framundan!
Saga dagsins
1865 Möðruvallakirkja í Hörgárdal í Eyjafirði brann. Arngrímur lærði Gíslason listmálari, gerði mynd af brunanum og er sú sögulega mynd talin vera fyrsta teiknaða atburðamyndin er gerð er af Íslendingi.
1936 Bette Davis hlaut óskarinn fyrir stórleik sinn í kvikmyndinni Dangerous - Davis var ein af svipmestu leikkonum síns tíma og lék í mörgum ógleymanlegum myndum - Bette hlaut svo verðlaunin aftur tveim árum síðar. Hún lést árið 1989.
1953 Josef Stalin leiðtogi Sovétríkjanna, deyr af völdum heilablóðfalls. Hann var þá 73 ára að aldri og hafði ríkt í Sovétríkjunum sem leiðtogi flokksins frá 1922 og landsins allt frá dauða Lenin árið 1924.
1974 Yom Kippur-stríðinu lýkur með brottflutningi ísraelshers frá Vesturbakkanum við Súez-skurð.
1997 Þýska flutningaskipið Vikartindur strandaði í vonskuveðri í Háfsfjöru, austan við Þjórsárós. Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði 19 manna áhöfn skipsins. Varðskipsmaður fórst við björgunaraðgerðir.
Snjallyrðið
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2006 | 17:55
Árni Magnússon hættir í stjórnmálum

Á blaðamannafundi í Alþingishúsinu kl. 17:15 í dag tilkynnti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, þá ákvörðun Árna Magnússonar félagsmálaráðherra, um að hætta afskiptum af stjórnmálum og víkja af hinu pólitíska sviði. Hefur hann verið ráðinn til starfa í Íslandsbanka og mun hefja þar störf innan skamms og víkja samhliða því af þingi. Í kjölfar þess var tilkynnt að Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, tæki við félagsmálaráðuneytinu og að Siv Friðleifsdóttir tæki við heilbrigðisráðuneytinu af Jóni. Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður, er fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, en vegna náms hans í Skotlandi mun Sæunn Stefánsdóttir taka sæti Árna á þingi fyrst um sinn eða þar til að Guðjón Ólafur kemur aftur til landsins.
Það er vægt til orða tekið að brotthvarf Árna Magnússonar boði mikil tímamót. Til fjölda ára hefur verið litið á hann sem nánasta trúnaðarmann Halldórs Ásgrímssonar í stjórnmálum og einn af helstu forystumönnum flokksins og krónprins Halldórs á formannsstóli í Framsóknarflokknum. Árni Magnússon sagðist á blaðamannafundinum að ákvörðunin hefði tekið sig sjálf að mörgu leyti. Hann hefði verið búinn að missa áhugann á stjórnmálum og tekið ákvörðun með sjálfum sér um það að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum á næsta ári og fara til annarra verkefna. Honum hefði boðist freistandi staða hjá Íslandsbanka og ákveðið að taka henni og víkja fyrr en ella hefði orðið úr stjórnmálum. Það lá í loftinu lengi vel í dag að uppstokkun væri framundan í ríkisstjórninni og að hún væri innan Framsóknarflokksins.
Flestir spámenn töldu þó líklegast að þar væri verið að boða brotthvarf Jóns Kristjánssonar úr stjórnmálum. Hann hefur enda setið í ríkisstjórn í fimm ár og verið þingmaður frá árinu 1984. Mörgum fannst líklegast að hann væri að hætta. Það að Árni boði brotthvarf sitt úr stjórnmálum kom flestum verulega á óvart og greinilegt var á svipbrigðum Halldórs Ásgrímssonar að honum þykja breytingarnar miður, enda Árni lengi unnið mjög náið með honum. Það er hinsvegar merkilegt að forystumaður sem lengi hefur verið talinn krónprins síns flokks hætti í pólitík og fari til verka í viðskiptageiranum. Kannski er það eitt merki þess að yngra forystufólk vill frekar vinna að öðru en stjórnmálum.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2006 | 16:21
Spádómar um Óskarsverðlaunin 2006

Óskarsverðlaunin verða afhent í 78. skipti í Los Angeles á morgun. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman. Ég ætla á þessum laugardegi að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég hef verið kvikmyndaáhugamaður allt mitt líf, dýrkað kvikmyndir sem ástríðu og lífsins áhugamál og fylgst alla tíð vel með Óskarnum. Ég ætla því að spá í spilin og vona um leið að aðrir hafi gagn og gaman af.
Kvikmynd ársins
Brokeback Mountain
Capote
Crash
Good Night, and Good Luck
Munich
Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Brokeback Mountain er næm og falleg ástarsaga samkynhneigðra kúreka á sjöunda áratugnum - fjallar um sannar tilfinningar og ást sem lifir í skugga fordóma. Umtöluð en öflug mynd sem hittir í hjartastað. Capote er hrífandi mynd, sem skartar frábærum leik og næmri sýn á ævi og verk rithöfundarins Trumans Capote. Crash er hröð og öflug kvikmynd með mikla fyllingu sem fjallar um ólíkt fólk og líf þess og störf í Los Angeles sem fléttist með flottum hætti saman - mynd sem fangar huga áhorfandans. Good Night, and Good Luck er grípandi og þétt mynd George Clooney sem hrífur kvikmyndaáhugafólk upp úr skónum. Munich er fágætur gullmoli meistara Spielbergs sem jafnast á við gamalt og gott rauðvín, verður sífellt betri og er algjörlega ómótstæðileg - lýsir atburðarás eftirleiksins á Ólympíuleikunum 1972.
Spá: Ég tel að slagurinn standi á milli Brokeback Mountain og Crash. Ég tel öruggt að Brokeback Mountain muni fá verðlaunin og verða sigurvegari kvöldsins. Myndin fjallar um áleitið efni og skilur í raun mikið eftir sig. Hún lýsir forboðinni ást - löngun og heitum tilfinningum með miklum glans. Hún hreif mig allavega upp úr skónum og skildi mikið eftir sig í hjarta mér. Það sama á við um flesta þá sem ég þekki sem hana hafa séð. Ég tel blasa við að hún muni heilla hjarta akademíunnar þetta árið líka.
Leikstjóri ársins
George Clooney - Good Night, and Good Luck
Paul Haggis - Crash
Ang Lee - Brokeback Mountain
Bennett Miller - Capote
Steven Spielberg - Munich
Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2005. Steven Spielberg er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin; hefur hlotið þau tvisvar - fyrir Schindler's List árið 1993 og Saving Private Ryan árið 1998. Hann leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins - mynd sem skilur mikið eftir sig og heillar áhorfandann. Paul Haggis á skilið tilnefningu fyrir frábær verk sitt í Crash, en það er svipmikil mynd sem hefur hitt beint í mark. Ang Lee færði á hvíta tjaldið litríka og fallega ástarsögu kúrekanna tveggja - mynd um sanna ást. Bennett Miller gerði Capote stórbrotna og algjörlega ógleymanlega. Good Night, and Good Luck er eiginlega sú mynd sem ég heillaðist einna mest af í hópi hinna tilnefndu þetta árið og Clooney verðskuldar svo sannarlega tilnefningu.
Spá: Það er enginn vafi á því í mínum huga að allir eiga þessir menn skilið að fá virðingu fyrir verk sín. Þó stendur Ang Lee algjörlega upp úr fyrir sína góðu mynd - hina tæru ástarsögu um tvo menn sem fá ekki að njótast vegna fordóma samfélagsins. Þessi mynd stendur að mínu mati upp úr kvikmyndagerð ársins 2005 og hann hlýtur að hljóta verðlaunin. Hann var nærri því að hljóta Óskarinn árið 2001 fyrir Crouching Tiger, Hidden Dragon og var þá talinn sigurstranglegur en Steven Soderbergh hlaut þau þá fyrir Traffic. Ef Lee vinnur verður hann fyrsti asíski leikstjórinn til að fá gyllta kallinn. Hann á þann heiður skilið.
Leikari í aðalhlutverki
Philip Seymour Hoffman - Capote
Terrence Howard - Hustle & Flow
Heath Ledger - Brokeback Mountain
Joaquin Phoenix - Walk the Line
David Strathairn - Good Night, and Good Luck
Fimm flottir aðalleikarar þarna á ferð. Enginn þeirra hefur áður hlotið verðlaunin. Philip Seymour Hoffman kom mér á óvart með glæsilegri túlkun sinni á Truman Capote í hinni litríku mynd um þennan umdeilda rithöfund. Hann varð frægur fyrir sögur á borð við Breakfast at Tiffany's og sögurnar af lífsstíl hans eru og verða svipmiklar. Allt þetta túlkar Hoffman með snilld. Terrence Howard er sagður brillera í flottu hlutverki í Hustle & Flow. Heath Ledger er hreint ógleymanlegur sem Ennis Del Mar í Brokeback Mountain og túlkar kúrekann í sálarflækjum ástarhitans með snilldarbrag. Joaquin Phoenix verður hinn goðsagnakenndi countrysöngvari Johnny Cash með glans og túlkar hann með bravúr og syngur meira að segja lögin hans. David Strathairn er svo algjörlega stórfenglegur í hlutverki fréttahauksins Edward R. Murrow, sem las fréttir á CBS.
Spá: Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Þeir eiga allir séns á að vinna að mínu mati. Ætti ég að velja myndi Joaquin Phoenix hreppa hnossið fyrir að leika Johnny Cash með slíkum snilldartöktum að hann fellur beint í hlutverkið og leikur þetta mesta goð sveitasöngvatónlistarinnar með klassabrag - ekki bara það hann syngur einnig lögin hans með snilld. Hann verður að goðinu. Þó er líklegast að keppnin standi á milli Hoffman og Ledger. Þeir voru báðir frábærir í túlkun sinni og heilluðu mig. Hoffman hlýtur að hafa forskotið fyrir túlkun sína á Capote. Hoffman hefur oft verið sniðgenginn við verðlaunaafhendingar og ekki notið sannmælis. Vonandi er hans stund komin núna. Það væri gleðiefni ef svo yrði.
Leikkona í aðalhlutverki
Dame Judi Dench - Mrs. Henderson Presents
Felicity Huffman - Transamerica
Keira Knightley - Pride & Prejudice
Charlize Theron - North Country
Reese Witherspoon - Walk the Line
Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Judi Dench og Charlize Theron hafa hlotið verðlaunin áður. Dame Judi hlaut óskarinn árið 1998 fyrir túlkun sína á Elísabetu I Englandsdrottningu í Shakespeare in Love og Charlize árið 2003 fyrir leik sinn í Monster. Judi Dench er sem ávallt fyrr stórbrotin og óviðjafnanleg, nú í Mrs. Henderson Presents. Felicity Huffman vinnur leiksigur ferils síns í Transamerica og er hreinlega stórkostleg í erfiðri rullu. Það geislar af Keiru Knightley í hlutverki sínu í Pride & Prejudice. Charlize blómstrar í hlutverki sínu í North Country og gerir sínu hlutverki góð skil og er burðarás góðrar kvikmyndar. Reese Witherspoon brillerar í Walk the Line og verður hreinlega June Carter Cash í túlkun sinni - gerir þetta með stórfenglegum hætti. Reese á leiksigur ferilsins og vinnur algjörlega hug og hjarta áhorfandans.
Spá: Að þessu sinni er hópurinn ansi jafn en sumar bera þó meira af en aðrar. Allar eru þessar leikkonur að mínu mati í essinu sínu og skila af sér hreint ógleymanlegum frammistöðum. Þó standa tvær uppúr að mínu mati: þær Felicity Huffman og Reese Witherspoon. Ég spái að sú síðarnefnda muni vinna, enda mjög sterk í sínu hlutverki. Reese hefur eins og sá sem forskotið hefur í karlaflokknum, Philip Seymour Hoffman, verið talin léttvæg á leiksviði kvikmyndanna og ekki verið verðlaunuð fyrir verk sín. Hún hefur hlotið frægð fyrir verk á borð við Election og Legally Blonde. Ég tel að hennar gyllta stund verði um helgina og hún hljóti verðlaunin. Hún á það skilið fyrir flotta túlkun á June Carter Cash. Í hjartanu finnst mér þó að Felicity eigi að vinna - ohhh hún var svo æðislega góð í Transamerica.
Leikari í aukahlutverki
George Clooney - Syriana
Matt Dillon - Crash
Paul Giamatti - Cinderella Man
Jake Gyllenhaal - Brokeback Mountain
William Hurt - A History of Violence
Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Aðeins William Hurt hefur hlotið verðlaunin áður - hann hlaut þau fyrir leik sinn í Kiss of the Spider Woman árið 1985. George Clooney er hjartaknúsari kvikmyndaheimsins í dag og hefur lengi brætt hjarta kvennanna. Í pólitísku fléttumyndinni Syriana fer hann algjörlega á kostum í hlutverki CIA-leyniþjónustumannsins Bob Barnes. Flott mynd - glæsileg túlkun. Í Crash fer Matt Dillon vel með hlutverk löggu og skilar sínu listavel. Paul Giamatti átti að hljóta tilnefningu í fyrra fyrir flotta túlkun sína í Sideways en hlýtur virðingarsess þessu sinni fyrir flottan leik í Cinderella Man. Jake Gyllenhaal var alveg frábær í Brokeback Mountain og bræðir hjarta þeirra sem á horfa fyrir næma og flotta túlkun á manni í sannkallaðri ástarflækju. William Hurt er sem fyrr listagóður og á flotta endurkomu á hvíta tjaldið í A History of Violence.
Spá: Allir verðskulda þessir frábæru leikarar heiður fyrir sitt verk. Að mínu mati stendur þó baráttan fyrst og fremst á milli þeirra Clooney og Gyllenhaal. Satt best að segja er mér erfitt að gera upp á milli þeirra. Helst vildi ég að þeir báðir fengju verðlaunin. Að mínu mati var Gyllenhaal alveg rosalega flottur í Brokeback Mountain og fara vel frá erfiðu og krefjandi hlutverki - hann náði allavega að heilla mig. Aftur á móti var Clooney að brillera í sinni rullu í Syriana. Mér hefur aldrei fundist Clooney hafa náð hærra í túlkun í kvikmynd. Ég tel að hann muni vinna. Þó gæti þetta farið á hvorn veginn sem er. Ég verð sáttur svo framarlega að annar þeirra vinni gyllta kallinn. Þeir bera af í þessum flokki að þessu sinni.
Leikkona í aukahlutverki
Amy Adams - Junebug
Catherine Keener - Capote
Frances McDormand - North Country
Rachel Weisz - The Constant Gardener
Michelle Williams - Brokeback Mountain
Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum góðu kvikmyndum. Aðeins Frances McDormand hefur unnið verðlaunin áður. Hún vann óskarinn fyrir túlkun sína á Marge Gunderson í hinni ógleymanlegu Fargo árið 1996 - mynd sem er fyrir löngu orðin klassík. Amy Adams var að mínu mati alveg glettilega góð í kvikmyndinni Junebug - lagði allt sitt í hlutverkið og gott betur en það og á tilnefninguna svo sannarlega skilið. Catharine Keener stóð sig vel í hlutverki sínu í Capote og var glettilega góð. Frances McDormand brillerar enn eina ferðina á sínum ferli - nú í hlutverki sínu í North Country. Rachel Weisz vinnur sannkallaðan leiksigur í krefjandi hlutverki Tessu í The Constant Gardener. Michelle Williams var heillandi og eftirminnileg í hlutverki Ölmu í Brokeback Mountain og sannar að hún er listilega góð leikkona.
Spá: Allar eru þessar leikkonur alveg frábærar og skara satt best að segja algjörlega fram úr á sviði leiklistar í sínum myndum. Þó er enginn vafi á því í mínum huga að Rachel Weisz ber algjörlega af. Hún allavega hitti mig í hjartastað með næmri og eftirminnilegri túlkun sinni á aktívistanum Tessu Quayle sem er myrt á afskekktu svæði í Norður-Kenía. Saga hennar er rakin eftir dauða hennar og komumst við fljótt að því að hún skilur eftir sig merkilega arfleifð sem eiginmaður hennar rekur og áhorfandann þyrstir í að kynnast betur eftir því sem líður á. Rachel gjörsamlega brillerar með þessari túlkun sinni og hún er að mínu mati hjarta og sál þessarar stórbrotnu myndar. Það kemur ekkert annað til greina í mínum huga en að hún vinni þessi verðlaun. Ætla ég svo sannarlega að vona að svo fari. Hún ber af sem gull af eiri að mínu mati.
Saga dagsins
1213 Hrafn Sveinbjarnarson goðorðsmaður á Eyri (Hrafnseyri) við Arnarfjörð, var veginn, 47 ára að aldri. Hrafn var bæði annálaðasti læknir hér á þjóðveldisöld og einn af áhrifamestu mönnum landsins.
1937 Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Frank Capra hlaut óskarsverðlaunin fyrir leikstjórn sína í Mr. Deeds goes to Town - þetta varð annar leikstjóraóskar Capra, en hann vann þrjá á glæsilegum ferli.
1971 Uppstoppaður geirfugl, sá síðasti í heiminum, var sleginn Íslendingum á uppboði í London, en safnað hafði verið fyrir honum um land allt fyrir uppboðið. Fuglinn er nú á Náttúrufræðistofnuninni.
1975 Breski leikarinn og leikstjórinn Sir Charles Chaplin var aðlaður af Elísabetu II Englandsdrottningu - Chaplin var þá loksins heiðraður eftir að hafa verið sniðgenginn til fjölda ára. Hann lést á jóladag 1977.
1987 Happaþrenna Happdrættis Háskólans kom á markað - varð fyrsta skafmiðahappdrættið hérlendis.
Snjallyrðið
Whatever you do may be insignificant, but it is very important that you do it.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2006 | 14:05
Alli Gísla tekur við landsliðinu í handbolta
Akureyringurinn og KA-maðurinn Alfreð Gíslason var í gær formlega ráðinn til starfa sem landsliðsþjálfari Íslands í handbolta. Fagna ég þessari ákvörðun mjög. Alfreð er einn öflugasti handknattleiksmaður Íslands á 20. öld og varð íþróttamaður ársins 1989, á hátindi atvinnumannaferils síns. Alli Gísla hóf feril sinn hér heima á Akureyri með KA og spilaði þar til að hann hélt út.
Hann kom aftur heim er atvinnumannaferlinum erlendis lauk árið 1992 og varð þjálfari KA í handbolta og leiddi liðið til bikarmeistara- og Íslandsmeistaratitils áður en hann hélt til Þýskalands í þjálfun. Ég tel það mikið gleðiefni að Alli Gísla taki við þjálfun landsliðsins og óska honum til hamingju með starfið.
Það er svo auðvitað okkur Akureyringum öllum mikið gleðiefni að okkar öflugasti maður í handboltanum komi nú aftur heim á klakann og taki við þessu stóra og ábyrgðarmikla verkefni.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2006 | 02:26
Hlýleg og öflug ræða litríks leiðtoga

Það var fjölmenni á góðum fundi í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna á Akureyri á fimmtudagskvöldið. Þetta var öflugur og góður fundur eins og ég sagði frá hér á vefnum í gær. Að mínu mati stóð þar upp úr einn maður og ræða hans. Halldór Blöndal er maður sem við öll hér virðum - við virðum hann fyrir verk sín og forystu í þágu Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og bæði í Norðurlandskjördæmi eystra og Norðausturkjördæmi. Á fundinum fór Halldór yfir stjórnmálaástandið og vék að úrslitum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins hér í bæ fyrir tæpum mánuði. Þótti mér það í senn notalegt og mikið gleðiefni að Halldór skyldi þar víkja að hlut unga fólksins og hvetja okkur til að sækja fram af krafti í kjölfar úrslitanna og nota þau sem lærdóm og lexíu á pólitískri vegferð. Fannst mér ræða hans bera af öllum öðrum þetta kvöld. Hann er reynslumikill stjórnmálamaður - talar af festu og krafti til félaga sinna og stuðningsmanna.
Halldór er heiðursfélagi í Verði og var sæmdur þeirri nafnbót á 75 ára afmæli félagsins í febrúar 2004. Þá nafnbót átti Halldór svo sannarlega skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið. Hann hefur verið í pólitík af miklum krafti og hefur haft mikla reynslu fram að færa í allt okkar starf. Við metum enda hann og verk hans mikils. Hann er leiðtogi í okkar hópi - leiðtogi sem gustar af og öllum þykir vænt um. Halldór snertir streng í brjósti okkar með krafti sínum og litríkri forystu. Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því.
Hefur Halldór Blöndal verið farsæll í sínum verkum hér - sinnt forystustörfum og unnið í umboði okkar hér mjög lengi. Hann sat á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Stjórnaði Halldór Alþingi af krafti þau sex ár sem hann gegndi forsetastörfum þar. Hann vann að því að efla virðingu og kraft þingsins sem stofnunar. Honum var mjög umhugað um virðingu þingsins, sást það vel er forseti Íslands synjaði lagafrumvarpi eins og frægt varð.
Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. En hann er mikill karakter, sennilega sá öflugasti sem flest okkar í flokksstarfinu hér nyrðra höfum kynnst. Hann er leiðtogi.
Þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans. En ég vil þakka Halldór fyrir ræðuna hans á fimmtudagskvöld. Hún færði mér kraft og styrk til komandi verkefna og hann kom á staðinn og talaði með öflugum hætti til okkar allra - færði okkur ungliðunum kraft eftir prófkjörshasarinn og það sem á eftir fylgdi. Hann kom sem sannur leiðtogi og flutti okkur heilsteyptan og kjarnyrtan boðskap og færði okkur styrk og festu í starfið sem nú tekur við eftir að listinn okkar er til.
Halldór talaði af festu og líka með mannlegum hætti. Hann talaði um fráfall móður formanns Sjálfstæðisflokksins og ferð varaformanns okkar til Indlands í stað formannsins með fallegum hætti, vék að komandi verkefnum og hvatti svo okkur ungliðana til dáða, verandi heiðursfélagi okkar í Verði. Fannst mér reyndar mjög gaman af því að hann talaði um okkur unga sjálfstæðismenn og setti sig bæði í spor okkar og talaði til okkar með föðurlegri leiðsögn sem ég met mikils. Halldór var stjarna fundarins að mínu mati. Helgi Vilberg ritstjóri Íslendings, tók upp meginpart ræðunnar og hefur sett á Íslending. Það er ómetanlegt að eiga þessa myndklippu af ræðunni hans Halldórs. Ég vil hvetja lesendur til að líta á þessa góðu klippu.
Ræða Halldórs Blöndals - 2. mars 2006
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2006 | 01:00
Nýtt útlit á bloggvefnum

Ég hef haldið vefdagbók á þessum bloggvef mínum frá því í október 2002. Hér er hægt að finna í senn skoðanir mínar og pælingar á stöðu mála í tæp fjögur ár - hvort sem að það eru stjórnmál, kvikmyndir, mannlífsmyndir eða þjóðlífspælingar. Ég hef haft gríðarlega gaman af þessum skrifum og þetta er fyrir lifandis löngu orðinn fastur partur af tilverunni minni.
Ég hef mjög mikinn áhuga á því að skrifa um málefni dagsins í dag og fjalla um daginn og veginn með mínum hætti. Vefurinn hefur verið mjög íhaldssamur eins og eigandinn og litlar útlitsbreytingar hafa orðið. Ég var í eitt ár með það grunnútlit sem ég lagði af stað með í október 2002 og hef frá októbermánuði 2003 verið með nákvæmlega eins útlit. En nú hafa miklar breytingar orðið. Mikil uppstokkun blasir nú við fastagestunum mínum. Líst mér vel á útlitið og vil þakka fyrir gott verk Hrafnkels Daníelssonar við breytingarnar á vefnum. Takk Keli fyrir gott verk!
Ég er mjög sáttur við breytingarnar. Vonandi eigum við samleið lengi enn - það er gaman að fleiri en ég hafa gaman af þessum pælingum. Það er mikið fylgst með skrifunum og ég fæ mikil viðbrögð á þau almennt séð. Það er mjög gaman að heyra í lesendum - skoðanir þeirra og pælingar á þau mál sem ég skrifa um. Það að skrifa á netinu er mjög áhugavert og ég ætla að halda áfram á fullum krafti. Vonandi eru lesendur sáttir við breytingarnar og hafa áhuga á að fylgjast með áfram með sama hætti og áður.
bestu kveðjur
Stefán Friðrik Stefánsson
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna á Akureyri kom saman til fundar í Kaupangi við Mýrarveg hér á Akureyri í gærkvöldi. Þar var samþykktur framboðslisti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri við sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Að mínu mati hefur kjörnefnd tekist vel til að manna listann og skilað af sér góðri vinnu. Við hjá Verði getum verið sátt við lausn mála og ég tel að kjörnefnd hafi tekið gott tillit til okkar sem á Varðaraldri erum. Ég talaði af krafti um það að hlutur ungliða yrði að verða góður og ég er sáttur við útkomuna. Á listanum eru fjórir einstaklingar sem eru ungliðar í flokksstarfinu og hafa verið virk í flokksstarfinu. María, Hanna Dögg og Bergur Þorri sitja öll í stjórn Varðar og Vigdís Ósk á sæti í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar. Þarna er fólk með mikla reynslu í sveitarstjórnarmálum, öflugir nýliðar á listanum sem bæði hafa starfað af krafti fyrir flokkinn og svo aðrir sem koma alveg ný inn til verka. Þetta er blanda góðs fólks og þarna er að mínu mati sterk liðsheild - góð liðsheild til verka í þessari kosningabaráttu og á næstu árum.
1. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri
2. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi
3. Elín Margrét Hallgrímsdóttir símenntunarstjóri
4. Hjalti Jón Sveinsson skólameistari
5. Þórarinn B. Jónsson bæjarfulltrúi
6. María Egilsdóttir hjúkrunarfr./ljósmóðir
7. Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri
8. María H. Marinósdóttir háskólanemi
9. Baldur Dýrfjörð starfsmannastjóri
10. Jóhanna Hlín Ragnarsdóttir hárgreiðslumeistari
11. Bjarni Jónasson efnafræðingur
12. Guðmundur Jóhannsson þjónustustjóri
13. Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi
14. Sigbjörn Gunnarsson fyrrv. sveitarstjóri
15. Hanna Dögg Maronsdóttir sölustjóri og markaðsfulltrúi
16. Unnsteinn E. Jónsson verksmiðjustjóri
17. Vigdís Ósk Sveinsdóttir háskólanemi
18. Kristinn Fr. Árnason bústjóri
19. Bergur Þorri Benjamínsson háskólanemi
20. Ragnheiður Jakobsdóttir rekstrarfræðingur
21. Margrét Kristinsdóttir húsmæðrakennari
22. Óli D. Friðbjörnsson fyrrverandi verslunarmaður
Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akureyri ákvað í vikunni að ráða mig til starfa að kosningabaráttu flokksins hér í bænum. Mun ég vinna með þessu góða fólki á næstu mánuðum og hlakkar mér til þess sem framundan er. Mun ég taka til starfa í Kaupangi formlega við það verk föstudaginn 10. mars nk. þegar að ég hef losnað úr öðrum verkefnum og get einhent mér í starfið á fullu. 10. mars er góð dagsetning í mínum huga - enda afmælisdagur föður míns, Stefáns Jónasar Guðmundssonar. Góður dagur til að byrja að vinna góð verk að mínu mati. Það er margt framundan og öflug vinna sem blasir við - ekkert nema mikil vinna. Ég hef alla tíð verið tilbúinn til verka í innra starfi flokksins og líst því vel á komandi verkefni. Það eru góðir og spennandi tímar framundan.
Ég hef mikið talað um tækifærin og verkefnin sem framundan væru seinustu dagana hér á vefnum. Ég tel að ég hafi valið mér rétt verkefni - starf í kosningabaráttu og það að hlúa að innra starfinu er eitthvað sem er heillandi í mínum augum. Ég tel að ég hafi valið farsælan og góðan vettvang fyrir mína krafta í þessari kosningabaráttu. Þótti mér það mjög freistandi þegar að Björn Magnússon formaður fulltrúaráðsins, bauð mér þetta verkefni og þá miklu og spennandi vinnu sem í því felst. Það að vera á kafi í kosningabaráttu er nefnilega freistandi og öflugt verkefni. Ég legg í það verkefni einbeittur og hress. Pólitík hefur verið mitt líf og yndi mjög lengi og ég hef áhuga á þessum verkefnum. Því líst mér vel á það sem framundan er.
Í dag eru 85 dagar til sveitarstjórnarkosninga. Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins á Akureyri er formlega hafin - við höfum valið það fólk sem situr á framboðslista flokksins. Við höfum einnig hafið kosningabaráttuna og ég mun taka til starfa við það verkefni að tala máli flokksins og vinna að því að innra starf okkar verði bæði kraftmikið og fjörugt þessa 85 daga sem framundan eru. Við ætlum að hafa gaman af þessu - vinna vel saman og gera þetta bæði að skemmtilegri og öflugri kosningabaráttu.
Ég er til í slaginn - við erum til í slaginn. Þetta verður lífleg og góð barátta - háð með góðu fólki og við vinnum fyrir flokkinn okkar af þeim krafti og metnaði sem fylgir kosningabaráttu. Framundan eru 85 dagar af líflegri og góðri vinnu vonandi og mér hlakkar til verkefnisins með þessum 22 sem skipa listann og öllum öðrum sem vilja vinna með okkur. Öll skiptum við máli og ég hvet alla sem vilja vinna með okkur að ganga til liðs við okkur og verða hluti af liðsheildinni okkar.
Fram til sigurs þann 27. maí nk!
Saga dagsins
1943 Leikkonan Greer Garson hlaut óskarsverðlaun fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mrs. Miniver - hún hélt lengstu þakkarræðu í Óskarssögunni, 7 mínútna langa, er hún tók formlega við verðlaununum.
1965 Kvikmyndin The Sound of Music var frumsýnd í Los Angeles - myndin sló öll aðsóknarmet og hlaut 5 óskarsverðlaun, t.d. sem besta kvikmynd ársins. Einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar.
1991 Lögreglumenn í Los Angeles réðust á blökkumanninn Rodney King - leiddi til allmikilla óeirða.
1997 Söngkonan Björk Guðmundsdóttir tók við tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs í Osló-borg.
2003 Davíð Oddsson sagði í viðtali hjá RÚV að sér hefðu verið boðnar mútur af Baugi - ummælin lét Davíð falla í morgunþættinum Morgunvaktinni á Rás 1. Davíð var með þessu að svara fyrir harkalegar árásir Baugs, Fréttablaðsins og Samfylkingarinnar að honum í kosningabaráttunni til þings árið 2003.
Snjallyrðið
If you always do what interests you, at least one person is pleased.
Katharine Hepburn leikkona (1907-2003)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2006 | 12:00
Spádómar Framsóknarleiðtogans

Seinustu vikur hefur mikið verið talað í fjölmiðlum um spádómsgáfu forsætisráðherrans, Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins. Nýlega gekk hann skrefið til fulls í ESB-spádómum sínum og spáði því að Ísland væri orðið aðili að ESB innan áratugar, nánar til tekið árið 2015. Á sama tíma varð forsíðufregn í Fréttablaðinu að forsætisráðherrann spáði Chelsea sigri í fótboltaleik sama dag og hann hitti Tony Blair í Downingstræti 10. Leikurinn tapaðist hjá Eið Smára og félögum og síðan hefur forsætisráðherrann lítið opinberað snilli sína í getraunagiski. Reyndar missteig hann sig verulega er hann talaði um að hann væri fyrsti forsætisráðherra landsins sem sótti forsætisráðherra Bretlands heim í embættisbústað hans að Downingstræti 10 frá árinu 1976. Móðgaði hann þar Steingrím Hermannsson, forvera sinn á formannsstóli, verulega – hann hafði enda heimsótt frú Margaret Thatcher í desember 1988. Klúður framsóknarleiðtogans var vandræðalegt. Steingrímur var fljótur að leiðrétta eftirmann sinn opinberlega.
Svo virðist sem að Halldór Ásgrímsson hafi styrkst á valdastóli eftir að Davíð Oddsson sté af hinu pólitíska sviði. Reyndar verður seint sagt að Halldór hafi náð að verða jafn öflugur á valdastóli og Davíð varð á 13 ára sögulegum ferli sínum sem forsætisráðherra og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins. Fram að brotthvarfi Davíðs hafði Halldór aldrei verið veikari í sessi í forystu flokksins. Samt hefur gengi hans og flokksins verið brokkgengt. Flest virtist ganga honum í óhag á árinu 2004 - hver könnunin eftir annarri birtist sem sýndi dalandi persónufylgi hans og hann virkaði mjög veiklulegur pólitískt á árinu. Hann hefur aðeins rétt úr kútnum seinustu mánuðina, en samt ekki tekist að ná yfirburðarstöðu. Staða Framsóknarflokksins er mjög veik og hefur reyndar ekki verið veikari allan stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar landsins. Satt best má segja það með afgerandi hætti að Framsóknarflokkurinn virki á stjórnmálaáhugamann eins og mig eins og sífellt minnkandi flokkur sem á sífellt minni möguleika á að ná ráðandi stöðu eftir næstu kosningar.
Deilur um Evrópumál hafa einkennt Framsóknarflokkinn. Þess sáust skýr og afgerandi merki á flokksþingi Framsóknarflokksins í febrúar 2005. Átök og erjur voru einkunnarorð þingsins hvað varðaði Evrópustefnu flokksins. Þar var ekki bara tekist á í lokuðum herbergjum um stefnuna og stöðu mála, heldur fyrir opnum tjöldum. Var mjög merkilegt að sjá þar formanninn og varaformanninn Guðna Ágústsson rífast um það mál og opinbera með því mjög ólíka sýn til Evrópusambandsins og málefna tengdu því. Segja má að þessi átök eigi rót sína að rekja nokkur ár aftur. Engin launung er á því að Halldór Ásgrímsson gerðist mjög ESB-sinnaður á síðasta kjörtímabili og vildi að flokkurinn færi fram með þau mál í kosningum. Svo fór ekki, flokkurinn studdi ekki þá afstöðu. Eftir kosningarnar 2003 hefur Halldór verið mun rólegri í tíðinni og lítið gerst í þessum málum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem endurmynduð var í maí 2003 eftir kosningarnar, kom enda skýrt fram að aðildarviðræður við ESB væru ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili.
Það var alveg ljóst að sprengju var varpað inn í íslenska pólitík þegar drög að ályktunum flokksþings framsóknarmanna voru kynnt í aðdraganda flokksþingsins 2005. Lagt var til í utanríkismálakaflanum að aðildarviðræður myndu hefjast við Evrópusambandið á þessu kjörtímabili og að kosið yrði um aðild að ESB, eigi síðar en í alþingiskosningum árið 2011. Þetta var mikil stefnubreyting af hálfu flokksins, hann hafði enda aldrei stigið þetta skref fyrr og um var auðvitað að ræða mál sem var algjörlega í ósamræmi við stjórnarsáttmálann. Var með ólíkindum að fylgjast með þessu dómgreindarleysi framsóknarmanna og vinnubrögðum þeirra. Þessi drög urðu þó umfram allt til að afhjúpa hversu djúpstæður ágreiningur var uppi um stöðu mála innan flokksins. Guðni Ágústsson sté fram og sagði tillögurnar ekki sér að skapi og kom með það mat sitt að ekkert hefði gerst sem hefði breytt stöðu mála. Vildi hann halda í fyrri stefnu og með því styrkja EES-samninginn. Fór svo að ályktunin var samþykkt sem útvötnuð ESB-pæling en ekkert meira.
Hefði ályktun af þessum toga verið samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna hefði án vafa hrikt mjög í stoðum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það varð ekki og forystumenn Framsóknar beygðu sig undir vilja andstæðinga aðildar. Stóra rullu í þeirri þróun spilaði aðkoma Steingríms Hermannssonar fyrrum forsætisráðherra. Hann sté þar í pontu og gagnrýndi mjög harkalega Evrópusinnana í flokknum. Þrátt fyrir að ESB-andstæðingar innan flokksins hafi haft þar sigur varð það ekki til að stöðva Halldór og hans fylgismenn í flokknum. Nú er ESB-tal hans hafið og eiginlega markar það þáttaskil að hlusta á forsætisráðherra Íslands tala nú um aðild sem afgerandi möguleika á næsta áratug. Blasað hefur við vilji formannsins að gera ESB að kosningamáli í næstu kosningum og koma umræðunni af stað. Greinilegt er að stefnt er að því að setja Evrópumálin inn sem kosningamál á næsta flokksþingi sem væntanlega verður undir lok þessa árs, en Framsóknarflokkurinn fagnar 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Er hann elsti starfandi flokkur landsins.
Það má vel vera að Framsóknarflokkurinn ætli að gerast Evrópusinnaðri en Samfylkingin í aðdraganda þingkosninganna 2007. Ef svo er þarf hann fyrst að takast á við andstæðinga aðildar innan flokksins. Þeir eru svo sannarlega til staðar og gott dæmi er varaformaður flokksins, landbúnaðarráðherrann Guðni Ágústsson. Hinumegin eru svo t.d. Halldór og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, sem oftar en einu sinni hefur opnað á aðildarpælingar að ESB. Ekki get ég spáð með afgerandi hætti um það hvort að aðild að ESB verði eitt af aðalbitbeinum kosningabaráttunnar á næsta ári en hitt er víst að það verður umdeilt mál, enda er meirihluti þjóðarinnar greinilega ekki fylgjandi aðild. ESB-draumsýn Halldórs eru engin tíðindi enda hefur hann svo oft opnað á þessar pælingar sínar. En hvort honum tekst að koma stefnu sinni í gegnum flokkskerfið í aðdraganda næstu kosninga skal ósagt látið. Hinsvegar má búast við að það muni skekja undirstöður flokksins ef sú verður raunin og varla við því að búast að hinn aldni flokkur standist þær væringar sem fylgdu því.
En það er svosem ekki undrunarefni að forsætisráðherrann vilji trúa því að Ísland verði orðið aðili að ESB innan 2015. Ekki er það þó glæsileg framtíðarsýn eða spádómur og ekki deili ég gleði hans yfir þeim pælingum og spámennsku sem hann kynnti nýlega. Efast ég reyndar um að við sjálfstæðismenn deilum þeim fögnuði forsætisráðherrans og satt best að segja er það skýr afstaða landsfundar og forystu okkar að taka ekki þátt í því draumahjali. Ef þetta verður aðalmál kosningabaráttu má því búast við afgerandi ágreiningi stjórnarflokkanna hvað varðar þetta mál. Ekkert annað er í spilunum eins og er. Afstaða okkar í Sjálfstæðisflokknum er enda skýr og afgerandi hvað varðar ESB og mögulegt tal um aðild að því stóra og óaðlaðandi bákni.
Saga dagsins
1940 Þýsk herflugvél réðst að togaranum Skutli frá Ísafirði - fyrsta árásin að íslensku skipi í stríðinu.
1956 Bandarísk herflutningavél með 17 manns innanborðs hrapaði í sjóinn við Reykjanes - allir fórust.
1957 Heilsuverndarstöðin í Reykjavík vígð - tók 7 ár að byggja hana og var fyrsti hlutinn vígður 1953.
1982 Bíóhöllin opnaði í Breiðholti - það rúmaði 1040 manns í sæti í sex sölum. Bíóhöllin þótti án vafa vera höll í kvikmyndamálum þá. Bygging hennar og opnun markaði mikil þáttaskil í bíómálum hérlendis.
2000 Augusto Pinochet fyrrum forseta Chile, var sleppt úr stofufangelsi í Bretlandi - Pinochet hafði verið haldið þar frá októbermánuði 1998, vegna afbrota sinna á valdatíma stjórnar sinnar, 1973-1990.
Snjallyrðið
Life can only be understood backwards; but it must be lived forwards.
Søren Kierkegaard heimspekingur (1813-1855)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2006 | 01:39
Heilsteypt og góð stjörnuspá

Eins og fyrr segir hefur þetta ár verið mér lærdómsríkt það sem af er. Í gær fékk ég senda stjörnuspá frá vini mínum sem hann sagði að ætti að hressa mig og efla. Ég leit yfir og var ánægður með spádóminn og orðin sem þar komu fram. Fyndnast fannst mér talið um verkefni í upphafi ársins en öflugt gengi þegar líða tæki á árið. Merkileg stjörnuspá allavega. Ætla ég að birta hana hér á vefnum:
"Árið 2006
- Eflist þegar líða tekur á árið
- Lánsemi áberandi
- Sætir sigrar
Hér er minnst á Satúrnus og sálufélaga þegar árið framundan er skoðað hjá fólki fætt undir stjörnu steingeitar. Hið síðarnefnda er umræðuefni sem má ræða endalaust. Þegar talað er af sannleika er sú manneskja hinsvegar ekki til sem er ekki sálufélagi þinn. En ef steingeitin þráir maka eða elskhuga árið 2006 þá er ekki gott að hún temji sér áhugaleysi meðan hún bíður eftir að samband komist á eða fólk sem hún kýs að tengjast tilfinningalega verði á vegi hennar. Ef þú sýnir óskum þínum áhugaleysi rætast þær aldrei.
Satúrnus áhrifastjarna þín eflir þig þegar þú lítur í kringum þig árið framundan. Þú hreinsar til á tilfinningasviðinu, skoðar hvar ótti þinn leynist eða höfnunin, afneitunin, gagnrýnin og dómharkan sem beinist jafnvel að þér sjálfri/sjálfum. Þú stígur dansinn í mars og þér líður vel, áhrifastjarna þín, Satúrnus, sér til þess. Heilsa þín og hamingja eflist 2006. Þú ert kannski ekki 100% öruggur með framgang verkefnis í upphafi árs en það rætist úr því.
Þú ert lánsöm/lánsamur og þig hungrar í lífið og sigurinn er sætur í þínum huga. Þar sem þú ert fædd/ur á myrkustu dögum vetrar þarfnast þú sólarljóssins í ríkum mæli og leitar þar af leiðandi uppi félagsskap fólks sem er jákvætt, uppbyggjandi og ástríkt. Þú kemst handan við regnbogann."
Svo mörg voru þau orð. Líst vel á þetta og horfi tvíefldur fram á veginn.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)