Engin fyrirsögn

Tony BlairHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, gekk í morgun á fund Elísabetar Englandsdrottningar í Buckingham-höll. Á fundi þeirra fór Blair fram á það við drottningu að hún myndi rjúfa þing og boða til þingkosninga fimmtudaginn 5. maí nk. Féllst hún á þá beiðni forsætisráðherrans. Tilkynnti Blair formlega um ákvörðun drottningar á blaðamannafundi við Downingstræti 10, embættisbústað forsætisráðherrans, er hann kom frá höllinni eftir samtal sitt og drottningar. Kynnti hann þar meginlínur kosninganna af sinni hálfu. Það sem helst kom fram í máli hans var að helsta markmið flokksins og af sinni hálfu á næsta kjörtímabili yrði að festa í sessi öflugt efnahagslíf og stöðugleika og tryggja fjárfestingar í opinberri þjónustu. Sagði hann að mikið væri í húfi í þessum kosningum, en nú væru örlög sín í höndum kjósenda. Það væri nú þeirra að meta verk sín í embætti og fella dóm yfir þeim, hvort honum og flokknum skyldi falin forysta áfram, líkt og í tveim seinustu kosningum.

Hefð er fyrir því í Bretlandi að kosningar fari fram á fimmtudegi í byrjun maímánaðar. Kosningabarátta flokkanna er þegar hafin af krafti. Kjörtímabil breska þingsins er 5 ár. Jafnan er þó kosið ári fyrir lok kjörtímabilsins, fer það þó oftast eftir því hversu örugg stjórnarforystan telur sig um sigur. Margaret Thatcher lét t.d. aldrei líða lengra en fjögur ár milli kosninga, en hún fór í gegnum þrennar kosningar: 1979. 1983 og 1987, og vann þær allar. Eftirmaður hennar, John Major lét líða fimm ár á milli kosninga í þau tvö skipti sem hann leiddi flokk sinn í kosningum: 1992 og 1997, þær fyrri vann hann þvert á allar kosningaspár en tapaði þeim seinni stórt fyrir Verkamannaflokknum. Í þeim kosningum komst Blair til valda eftir 18 ára valdaeyðimörk krata í Bretlandi. Með því að ljá Verkamannaflokknum mildari blæ og færa hann inn á miðjuna tókst honum að leiða flokkinn til valda. Blair hélt velli í kosningunum 2001 með svipaðri stefnu og náði að halda nokkurnveginn sínu. Frá þeim tíma hafa Blair og flokkurinn gengið í gegnum hvern öldusjóinn á eftir öðrum.

Deilur um Íraksmálið og innri valdabarátta innan Verkamannaflokksins hafa veikt mjög stöðu forsætisráðherrans og flokksins. Ljóst er að mun minni munur mun verða með stærstu flokkunum í þessum kosningum og langt í frá öruggt að Blair hljóti sigur í þriðju kosningunum í röð, líkt og Margaret Thatcher einni hefur tekist til þessa í breskri stjórnmálasögu. Ef marka má skoðanakannanir hefur Verkamannaflokkurinn meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Seinustu vikur hefur bilið þó minnkað mjög og að óbreyttu stefnir í spennandi kosningar. Það hefur aldrei gerst í sögu Verkamannaflokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Blair stendur á krossgötum á ferli sínum. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli Blair og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Er þar um að kenna að því er fjölmiðlar fullyrða svik þess fyrrnefnda á samkomulagi þeirra fyrir áratug um að hann drægi sig í hlé til að hleypa Brown í forsætisráðuneytið. Lengi hefur orðrómur verið á kreiki um að Brown hafi ekki gefið kost á sér í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins 1994 en stutt Blair, vegna þess að þeir hefðu samið um að Blair yrði leiðtogi flokksins en myndi víkja úr stólnum fyrir Brown þegar hann hefði setið í 7-8 ár.

Eins og allir vita eru nú liðin 8 ár síðan Blair tók við völdum og Brown er orðinn langeygður í biðinni eftir stólnum og hefur viljað seinasta árið að valdaskiptunum kæmi, sem hefði verið lofað samkvæmt þessu. Var málið farið að skaða flokkinn, og sömdu þeir frið fyrir aukaþing flokksins í febrúar til að halda andlitinu út í frá og auka sigurlíkur flokksins. Munu þeir orðið vart talast við nema í gegnum talsmenn sína og starfsmenn í ráðuneytum. Er þeim þó báðum ljóst að slíðri þeir ekki sverðin muni flokkurinn eiga minni líkur á endurkjöri í kosningunum. Þeir séu því sammála um það að stuðla að endurkjöri flokksins en flokkspólitískir andstæðingar nái ekki að notfæra sér sundrungu milli þeirra og jafnvel vinna því kosningarnar. Það er einmitt þetta sem breskir stjórnmálaspekúlantar spá að sé líklegasta ástæða þess að Verkamannaflokkurinn gæti tapað: óeiningin verði þeim fjötur um fót. Ef marka má kannanir er staðan tvísýn og gæti því orðið naumt á mununum. Sem dæmi má nefna nýjustu könnun Daily Telegraph þar sem munar þrem prósentum og í Guardian munar nú bara einu prósenti. Verður fróðlegt að sjá hvað muni gerast á næstunni í þessu máli, en það er ljóst að kosningarnar verða þær mest spennandi frá árinu 1992, þegar litlu sem engu munaði að flokkarnir yrðu hnífjafnir.

RÚVÞað er samdóma álit fólks að Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra, hafi tekist með glæsibrag að ljúka deilum um fréttastofu útvarps og um ráðningu yfirmanns þar með þeirri ákvörðun sinni að ráða Óðin Jónsson fréttamann, til starfans á sunnudag. Með því náði hann að slá öll vopn úr höndum andstæðinga sinna og tókst algjörlega að snúa málinu sér í vil. Er það ánægjuefni að deilur um þessi mál séu nú að baki. Er mikilvægt að allir hlutaðeigandi horfi nú fram á veginn og líti í aðrar áttir. Í dag kom svo útvarpsráð saman til fundar og fór yfir málið og lyktir þess. Greinilegt er að útvarpsstjóri hefur tekið ákvörðun um ráðningu Óðins án samráðs við útvarpsráð. Er það ekki óeðlilegt, enda hafði útvarpsráð áður fjallað um umsóknirnar og lögbundið hlutverk þeirra í ferlinu því að baki. Vakti mesta athygli þar bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu. Þar segir að ráðning Óðins sé í samræmi við afstöðu þeirra á síðasta fundi þar sem þeir hafi lýst þeirri skoðun að velja bæri fréttastjóra úr hópi þeirra fimm umsækjenda sem Bogi Ágústsson mælti með.

Þessi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar er í einu orði sagt rugl, hún heldur engu vatni. Fyrir það fyrsta treystu fulltrúar þessa flokks á seinasta fundi sér ekki til þess að mæla með neinum af fimmmenningunum sem leiddi til þess að Auðun Georg Ólafsson hlaut aðeins einn atkvæði í útvarpsráði. Samfylkingin er ekki trúverðug í þessu máli og vinnubrögð fulltrúa flokksins í ráðinu alveg stórundarleg. Þeim bar skylda til að tjá skoðun sína á því hver væri hæfastur umsækjenda og ætti að taka við stöðunni á þeim tímapunkti. Bókun þeirra í gær er í engu samræmi við álit þeirra þegar málið fór fyrir ráðið. Tvískinnungur þeirra í málinu er algjör. Ef þeim var alvara með því að álit Boga skipti máli áttu þeir að velja úr hópnum einn þeirra fimmmenninganna sem þau töldu hæfastan. Það þýðir ekkert fyrir Samfylkingarfulltrúana að tala með þessum hætti en með þeim hætti afhjúpa þau þó tvískinnung sinn augljóslega. Samfylkingin hefur í ráðinu oft áður tekið þátt í þessu ferli og valið fulltrúa og kosið þá. Eitthvað varð til þess að svo varð ekki nú. Er það kannski ástæðan eins og DV heldur fram að Eiríkur Bergmann Einarsson hafi nauðað í Ingvari Sverrissyni um að kjósa Auðun Georg, stórvin sinn. Þessu heldur Illugi Jökulsson nú fram líka í langri grein. Eitthvað er það, enda er afstaða Samfylkingarfulltrúanna ein tækifærismennska í gegn.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II liggur á viðhafnarbörum í St. Péturskirkju

Lík Jóhannesar Páls páfa II var í gær flutt með mikilli viðhöfn úr Postulahöllinni í Péturskirkjuna. Þar mun það hvíla fram á föstudag en þá verður páfi lagður til hinstu hvíldar í hvelfingu undir kirkjunni við hlið annarra páfa. Tólf menn báru líkbörurnar út um bronshliðið og út á Péturstorgið. Við hlið þeim gengu svissnesku varðliðarnir í sínum skrautlegu búningum og lá reykelsisilmur yfir öllu. Áður en athöfnin hófst, fór Eduardo Martinez Somalo kardináli, sem nú fer með stjórn innri málefna kirkjunnar, með bæn og blessaði lík páfa með vígðu vatni. Var þetta mjög merkileg stund og athyglisvert að fylgjast með henni, en ég sá hluta hennar í beinni netútsendingu BBC. Skömmu eftir athöfnina var kirkjan opnuð almenningi og þeim leyft að fara að viðhafnarbörunum og votta páfa virðingu sína. Var þá þegar komin löng röð af fólki sem beið og jókst röðin sífellt eftir því sem leið á daginn. Seinnipartinn í dag höfðu um hálf milljón manns þegar farið í kirkjuna, en kirkjan verður opin 21 tíma á dag fram að útförinni. Búist er við að um 200 þjóðarleiðtogar verði við útförina og því um að ræða einn merkasta atburð samtímasögunnar. Ákveðið hefur verið að páfi verði jarðsettur í hvelfingunni í St. Péturskirkju, þar sem Jóhannes páfi XXIII var grafinn við andlát sitt árið 1963.

Deiglan

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð, héldu á föstudag fund hér í Deiglunni á Akureyri í samvinnu við Norrænu upplýsingaskrifstofuna á Akureyri. Var þar fjallað um þróun íslenska velferðarkerfisins. Komst ég því miður ekki á fundinn vegna anna, en á sama tíma héldum við ungir sjálfstæðismenn fund á Café Karólínu. Á fundinum fluttu Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, erindi um málið. Hitti ég Sigrúnu að fundinum loknum í miðbænum og ræddum við um niðurstöður fundarins og ræðurnar sem fluttar voru. Var fundurinn vel sóttur og gagnlegur að sögn Sigrúnar. Margar áleitnar spurningar koma eflaust fram. Til dæmis: munu Íslendingar kjósa að halla sér í æ meira mæli að bandaríska velferðarmódelinu eða halda í það norræna? Hver er raunveruleg staða íslenska velferðarkerfisins? Af hverju eru fleiri konur en karlar undir fátækramörkum? Hvernig er hlúð að barnafjölskyldum? Einstæðum foreldrum? Börnum með sérþarfir? Áhugaverður fundur, hefði reynt að fara á hann hefði öðruvísi staðið á. Allavega, gagnlegur fundur og mikilvægt umfjöllunarefni og greinilegt að fólk hefur áhuga á umræðuefninu.

Síminn

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, kynnti á þingi í gær um samkomulag stjórnarflokkanna vegna væntanlegrar sölu Símans. Ríkið á 98,8% hlut í Símanum nú. Samkvæmt yfirlýsingunni á að selja hann allan fyrir lok júlímánaðar í einu lagi til eins hóps kjölfestufjárfesta. Salan mun þó verða háð ýmsum skilyrðum. Skilyrðin eru eftirfarandi: í fyrsta lagi að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, má eignast stærri hlut en sem nemur 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins í Kauphöll. Í öðru lagi að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni sölu. Í þriðja lagi er að Síminn verði skráður á aðallista Kauphallar að uppfylltum skilyrðum hennar. Í fjórða og síðasta lagi að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann. Er ánægjulegt að ákveðið hafi verið að selja Símann og hann verði seldur í einu lagi eins og áður hafði verið ákveðið. Hinsvegar eru að mínu mati undarlegir skilmálarnir sem settir eru og seint hægt að segja að allir séu þeir gáfulegir. En mikilvægast er að fyrirtækið verður selt eins og að hafði verið stefnt.

The Sixth Sense

Var nóg að gera í gærkvöldi. Fór á þrjá fundi frá kl. 17:00 allt fram til 22:00. Það var því ekki komið heim fyrr en á ellefta tímanum. Er heim kom var því tekið því rólega: poppað og horft á góða mynd. Leit á hina stórfenglegu The Sixth Sense með Bruce Willis og Haley Joel Osment. Myndin segir frá virtum barnasálfræðingi, Malcolm Crowe, sem hefur tekið að sér að hjálpa átta ára gömlum strák, Cole Sear, að vinna bug á ótta sínum, en hann er gæddur þeim yfirskilvitlega hæfileika að geta séð hina dauðu og talað við þá. Málið er Malcolm einkar hugleikið því nokkrum árum fyrr hafði hann glímt við svipaðan vanda sem annar drengur átti við að stríða, en mistekist við að leysa. Við tekur flétta sem erfitt er að lýsa í orðum. Það er enginn vafi á því að The Sixth Sense er ein af eftirminnilegustu kvikmyndum tíunda áratugarins. Þar vinnur allt saman til að skapa hina frábæru kvikmynd; góð leikstjórn, frábært handrit, góð myndataka og síðast en ekki síst frábær leikur. Bruce Willis sýnir einn af allra bestu leiktilbrigðum ferils síns sem sálfræðingurinn Malcolm Crowe, Toni Collette er stórkostleg í hlutverki móðurinnar Lynn Sear, en senuþjófur myndarinnar er hiklaust Haley Joel Osment sem er í einu orði sagt stórfenglegur í hlutverki Cole, stráksins sem hefur skyggnigáfuna. Frábær mynd.

Saga dagsins
1940 Hægri umferð var samþykkt á Alþingi - vegna hernáms Breta varð ekki af því, enda voru þeir vanir vinstri umferð. Það var loks á sjöunda áratugnum sem þetta varð að veruleika. Árið 1967 var samþykkt á þingi að breyta lögunum og 26. maí 1968 var formlega fært úr vinstri umferð yfir í hægri
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, tilkynnti um afsögn sína úr embætti - hann hafði þá verið leiðtogi flokksins frá 1940 og forsætisráðherra tvívegis: 1940-1945 og frá 1951. Hann leiddi Bretland í gegnum seinni heimsstyrjöldina og hafði verið ötull talsmaður bandamanna í stríðinu gegn mætti nasista og Hitlers. Churchill var þá rúmlega áttræður, enginn hefur orðið eldri sem forsætisráðherra Bretlands. Churchill andaðist í janúar 1965
1958 Ásgrímur Jónsson listmálari, lést, 82 ára að aldri - hann var brautryðjandi nútímamyndlistar á Íslandi og hélt fyrstu málverkasýningu sína árið 1903. Ásgrímur varð einn fremsti málari aldarinnar
1965 Leikkonan Julie Andrews hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á barnfóstrunni hnyttnu Mary Poppins - hún hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni söngelsku nunnu Mariu í The Sound of Music. Dame Julie er ein af allra fremstu leikkonum Breta á 20. öld og hefur verið rómuð fyrir glæsilegan leik sinn, bæði á leiksviði og í kvikmyndum og næma túlkun sína
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ og vakti bæði hrifningu og deilur. Sýningin varð gríðarlega vinsæl og vakti athygli. Hárið var sett upp aftur í misjöfnum útfærslum árin 1994 og 2004

Snjallyrðið
It's the friends you can call up at 4 a.m. that matter.
Marlene Dietrich leikkona (1901-1992)


Engin fyrirsögn

Lík Jóhannesar Páls páfa II flutt á viðhafnarbörum yfir PéturstorgiðHeitast í umræðunni
Útför Jóhannesar Páls páfa II mun fara fram í Róm á föstudaginn. Jarðarförin hefst klukkan 10 að morgni að ítölskum tíma, 8 að morgni að íslenskum tíma. Þetta var ákveðið á fundi æðstaráðs Vatíkansins í morgun, en eina verkefnið sem ráðið má annast eftir andlát páfa er undirbúningur jarðarfarar hans og skipulagning vals á eftirmanni hans, sem fram mun fara á tímabilinu 18. - 22. apríl nk. Lík páfa var í dag flutt, að viðstöddu miklu fjölmenni, yfir Péturstorgið í St. Péturskirkju, þar sem páfi verður jarðsettur á föstudag. Á næstu dögum mun almenningi verða leyft að kveðja hann hinsta sinni. Búist er við því að vel á þriðja milljón manns muni leggja leið sína til Rómar til að kveðja páfann. Pílagrímar hafa þegar safnast saman við Péturskirkjuna og bíða þess að mega fara og kveðja páfa. Enginn vafi leikur á því að jarðarför Jóhannesar Páls II verði einn helsti viðburður seinni tíma, enda stórmerkilegur maður í sögu 20. aldarinnar kvaddur. Mikill fjöldi þjóðarleiðtoga og forystumanna á víðum vettvangi alheimsstjórnmála mun þar væntanlega koma saman til að sýna virðingu sína við páfann og kaþólsku kirkjuna.

Frá því að tilkynnt var um lát páfa á laugardagskvöld hefur fólk um allan heim minnst hans og 27 ára ferils hans í embættinu. Er það samdóma álit flestra að páfinn hafi verið boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipt sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Jóhannes Páll páfi II skilur því eftir sig merkan feril seinustu þrjá áratugina nú þegar hann kveður. Því fer víðsfjarri að ég hafi verið sammála honum í öllum málum. Hinsvegar met ég mikils forystu hans í friðarmálum, hans rödd var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu og forysta hans hafði áhrif við að berja hann niður í A-Evrópu að lokum. Svo má ekki gleyma sögulegri ferð hans til N-Írlands 1979 sem varð víðfræg. Þrátt fyrir átök þar hélt hann fjölmenna útimessu í Ulster. Það var söguleg messa.

En það sem helst stendur eftir er baráttan gegn einræði kommúnismans. Enda reyndi KGB að láta ráða hann af dögum í maí 1981, litlu munaði að það tækist. Það segir mikið að Lech Walesa leiðtogi Samstöðu og síðar forseti Póllands, minnist páfa með þeim orðum að hann hafi lagt mest að mörkum til þess að fella austantjaldskommúnismann niður. Hann eignar honum 50% árangursins, hitt skiptist á milli stjórnmálamannanna. Þetta er rétt. Framlag JPII til friðarmála mun halda hans merki á lofti. Sama hvað segja má um skoðanir hans t.d. á samkynhneigð, getnaðarvörnum og fleiru deilir enginn um áhrifamátt hans í friðarmálum. Þar markaði hann skref sem aldrei hverfa. Í gær átti ég notalegt spjall við nokkra vini á kaffihúsi. Ræddum við þar páfann og þátt hans í mannkynssögunni. Höfðu þeir lesið skrif mín um páfann hér að kvöldi laugardags, eftir andlát hans, og svo pistil eftir mig sem birtist í gær og fjallaði um páfann. Ræddum við þar um skoðanir páfa á málum og afstöðu mína til hans og framlags hans til trúar- og friðarmála. Enginn vafi leikur á því að ég tel hans framlag skipta sköpum. Eins og fyrr segir er ég ekki sammála öllum hans grunnáherslum, en ég tel persónu hans sýna vel að um mikinn merkismann var að ræða.

Annars tjáði ég vel skoðun mína á verkum og forystu páfa í sunnudagspistli mínum í gær. Helgaði ég pistil minn að öllu leyti í gær páfa og verkum hans og vildi með því tjá þann hug minn að með honum er genginn einn merkasti maður 20. aldarinnar. Sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs.

Óðinn Jónsson fréttastjóriÓðinn Jónsson fréttamaður og varafréttastjóri Ríkisútvarpsins var í gær ráðinn fréttastjóri á fréttastofu Útvarps. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, ákvað eftir hádegið í gær að bjóða Óðni starfið og ræddu þeir málið með þeim afleiðingum að þeir sömdu um að Óðinn tæki við starfinu samstundis. Með ráðningu Óðins í fréttastjórastól fréttastofu Útvarps lýkur langri atburðarás sem hófst er Kári Jónasson lét af störfum sl. haust til að fara til starfa á Fréttablaðinu. Hafði lengi verið talað um hver tæki við starfinu og loks var það auglýst og er kom að ráðningu var deilt um val útvarpsstjóra á Auðuni Georg Ólafssyni, einum af 10 umsækjendum. Ólga vegna ráðningarinnar varð til þess að Auðun Georg afþakkaði starfið. Enginn vafi leikur nú á að fagmaður er orðinn fréttastjóri og yfirmaður á fréttastofu Útvarpsins. Ég tel að Markús Örn hafi gert hárrétt í að taka strax ákvörðun um nýjan fréttastjóra og taka af skarið. Með þessu hefur útvarpsstjóri slegið öll vopn úr höndum andstæðinga sinna og tekist að snúa málinu sér í vil og samið frið við starfsmenn.

Óðinn á að baki langan feril í fréttamennsku. Hann hefur starfað sem fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins frá árinu 1987 og hefur verið varafréttastjóri þar frá því að Sigríður Árnadóttir lét af störfum í janúarlok 2004. Óðinn hefur verið umsjónarmaður Morgunvaktarinnar frá upphafi, í mars 2003, eða í rúmlega 2 ár. Hann hefur haldið vel á þeim þætti að mínu mati og markað honum góða tilveru. Hlusta ég oftast nær á þáttinn snemma á morgnana. Þar er jafnan skemmtileg og góð blanda af málefnum samtímans og fróðleg úttekt á því sem er að gerast og tekið á áhugaverðum málum. Það er grunnmál að mínu mati að fréttastjóri, alveg sama hvort það er á útvarpi eða sjónvarpi meðan ríkið á það, sé fagmaður í fréttamennsku og hafi langan feril á að skipa og geti haldið með trúverðugleika utan um fréttapakkann. Verkefni fréttastofunnar er að segja fréttir og því er fréttastjórinn auðvitað yfirmaður fréttastofu, faglegur stjórnandi frétta. Hann er ekki baunateljari. Því skiptir fréttamannsreynsla miklu í þessum efnum. Ég hef enga hugmynd um það hvað Óðinn Jónsson kýs þegar hann er einn í kjörklefanum. Um það snýst ekki málið. Það snýst um að fréttastjórinn sé fagmaður frétta og hafi reynslu á að skipa. Einfalt mál. Ég tel Óðinn hæfan til verksins og hef væntingar í þá átt að hann nái að vinna af krafti og skapa þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er á fréttastofunni. Reynir nú á það. Ég óska honum til hamingju með starfið og vona að honum muni ganga vel í starfinu á komandi árum.

Punktar dagsins
Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ákvað að fresta því að boða formlega til bresku þingkosninganna í dag vegna fráfalls páfa. Í staðinn mun hann væntanlega tilkynna um kosningarnar á morgun. Verða þær að öllum líkindum haldnar eins og áður hafði verið talið líklegast: þann 5. maí. Er því ljóst að snörp og beinskeytt kosningabarátta er framundan næstu vikurnar í Bretlandi. Hún hefur þó staðið nokkurn tíma nú þegar, segja má að hún hafi hafist af krafti strax í febrúar. Þess er nú bara beðið að þingið verði leyst upp og frambjóðendur og forystumenn flokkanna geti farið heim í hérað og kynnt sig og stefnu sína betur og án skugga þingstarfanna í London. Við blasir að kosningabaráttan verði spennandi, eflaust mun spennandi en kosningabaráttan 1997 og 2001. Þessar tvær kosningar vann Verkamannaflokkurinn með afgerandi mun og aldrei var vafi á sigri flokksins. Skv. nýrri könnun Daily Telegraph í dag getur allt gerst. Munurinn er einungis þrjú prósent: LP hefur 36% en CP hefur 33%. Frjálslyndir hafa 22%. Þessi munur er því mun minni nú en var þegar boðað var áður til kosninganna. Ljóst er að þreytan er orðin nokkur með Blair og kratana og viðbúið að baráttan verði eitilhörð og beitt. Verður fróðlegt að fylgjast með lokahnykk baráttunnar.

Camilla Parker Bowles og Karl Bretaprins

Fyrirhuguðu brúðkaupi Karls prins af Wales og unnustu hans Camillu Parker Bowles hefur verið frestað til laugardags. Átti það upphaflega að fara fram á föstudag, en sú dagsetning gengur ekki lengur, enda stangast hún á við útför Jóhannesar Páls páfa II. Hefði það orðið algjör hneisa fyrir bresku konungsfjölskylduna ef haldið hefði verið til streitu, eins og áður hafði verið lýst yfir, að hafa brúðkaupið á föstudag þrátt fyrir útför páfa. Sérfræðingar í málefnum hirðarinnar voru fljótir að benda á að ákvörðun þess eðlis að hafa brúðkaupið á sama degi og útför páfa hefði orðið PR slys allra tíma fyrir hina álappalegu konungsfjölskyldu. Karl og Camilla hætta ekki á þann dans sem hefði hlotist af því, ofan á allt annað PR ruglið í kringum borgarfógetagiftingu þeirra. Hefur þessi undirbúningur markast af hverju klúðrinu eftir öðru. Hef ég áður rakið það sem hefur átt sér stað. Það nýjasta er að Camilla getur borið prinsessutitil af Wales eftir giftinguna. Er það auðvitað titill Díönu prinsessu, sem hún bar frá því hún giftist Karli allt þar til hún lést sumarið 1997. Varla fer Camilla þó að bera hann nema þau ætli endanlega að gera allt vitlaust.

Akureyri að vori 2003

Akureyrarbær hefur að nýju hafið auglýsingaherferðina Akureyri - öll lífsins gæði! sem stóð áður 2001-2003 með góðum árangri. Er þetta hárrétt ákvörðun og mikilvægt að kynna vel alla kosti bæjarins og þá mikilvægustu punkta sem máli skipta. Unnið hefur verið markvisst að markaðssetningu bæjarins á síðustu árum og markaði skipun umboðsmanna bæjarins í byrjun marsmánaðar upphaf þessarar nýju herferðar þar sem verði lögð hefur verið áhersla á þann árangur sem náðst hafi og að bjartar horfur séu framundan í málum bæjarins. Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum. Akureyri er svo sannarlega í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar.

Bubbi Morthens

Bubbi Morthens hefur lengi verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Ég met mikils tónverk Bubba og framlag hans til íslenskrar tónlistar. Það fer ekki framhjá neinum að hann er einn af fremstu tónlistarmönnum landsins seinustu áratugina. Hefur hann seinustu árin samið hvern smellinn á eftir öðrum og náð að toppa sig sem tónlistarmann með hverri plötunni. Í fyrra samdi hann að mínu mati sitt besta lag til fjölda ára, sannkallaðan gullmola. Er ég að tala um lagið Fallegur dagur. Þetta er glæsilegt lag sem hittir beint í mark. Í dag gaf hann formlega út annað nýtt lag, sem verður ásamt Fallegum degi á nýrri plötu hans sem kemur út á afmælisdegi hans, 6. júní. Er þetta lagið Þú. Hlustaði ég á lagið á tonlist.is um leið og það var kynnt þar í morgun. Er þar komið annað stórfenglegt lag sem hittir beint í mark. Hvet alla til að fara á vefinn og hlusta á þetta frábæra lag Bubba. Greinilegt að Bubbi og Barði í BangGang eru að semja eðalefni saman og samstarf þeirra að skila af sér frábærum lögum.

Saga dagsins
1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað - er félag prentara elsta starfandi verkalýðsfélag landsins
1960 Kvikmyndin Ben-Hur hlýtur 11 óskarsverðlaun - engin kvikmynd hafði fram að þeim tíma hlotið fleiri óskarsverðlaun. Nokkrum áratugum síðar jöfnuðu Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King þetta met myndarinnar og hlutu ennfremur 11 óskarsverðlaun. Aðalleikari myndarinnar, Charlton Heston hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Judah Ben-Hur og Hugh Griffith einnig, en hann túlkaði Sheik Ilderim. Leikstjóri myndarinnar, William Wyler hlaut á sömu óskarshátíð bæði leikstjóraóskarinn og heiðursóskar fyrir æviframlag sitt. Ben-Hur er ein besta kvikmynd 20. aldarinnar
1968 Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King, er var einn af ötulustu málsvörum mannréttinda blökkumanna á 20. öld, skotinn til bana á svölum hótelherbergis í Memphis í Tennessee-fylki, 39 ára að aldri. James Earl Ray var dæmdur fyrir morðið en hann hélt alla tíð fram sakleysi sínu. Hann lést í fangelsi árið 1998, en reyndi í mörg ár að vinna að því að mál hans væri tekið upp á nýjan leik
1979 Zulfikar Ali Bhutto fyrrum forseti og forsætisráðherra Pakistans, tekinn af lífi - Bhutto sat á forsetastóli landsins 1971-1973 og forsætisráðherra 1973-1977 er honum var steypt af stóli. Dóttir hans, Benazir Bhutto, varð forsætisráðherra Pakistans árið 1988, fyrst allra kvenna í íslömsku ríki
1995 Ragnar Th. Sigurðsson og Ari Trausti Guðmundsson komust á Norðurpólinn, fyrstir Íslendinga

Snjallyrðið
Good works are links that form a chain of love.
Móðir Teresa (1910-1997)


Engin fyrirsögn

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Jóhannes Páll páfi II liggur á viðhafnarbörum í Vatíkaninu

Kaþólskir menn og kristnir um allan heim hafa í dag minnst Jóhannesar Páls páfa II, sem lést í Vatíkaninu í Róm í gærkvöldi, 84 ára að aldri. Um leið og andlát hans var formlega tilkynnt í gærkvöldi komu rúmlega 100.000 manns saman á Péturstorginu og minntist hans og bað saman til heiðurs honum. Fylgdist ég með þeirri merku athöfn í beinni netútsendingu á sjónvarpsstöð Vatíkansins. Sérlega áhrifamikið var þegar klukkunum var hringt til heiðurs honum og til að marka þau sögulegu þáttaskil sem átt höfðu sér stað. Ennfremur var táknrænt að sjá þegar bronsdyrum Vatíkansins var lokað, sem merki um það að páfi væri látinn. Hurðin verður ekki opnuð að nýju fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Nú, er páfi hefur lokið jarðvist sinni, tekur sérlegur aðstoðarmaður páfa, Eduardo Martinez Somalo kardináli, við daglegum skyldum hans fram yfir vígslu nýs páfa. Somalo hefur verið nánasti aðstoðarmaður páfa í tvo áratugi. Skrifstofa utanríkis- og innanríkismála Vatíkansins er nú með öllu umboðslaus og ekki er því hægt að sinna diplómatískum málefnum fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Engin ákvarðanataka má eiga sér stað nema minniháttar tengd daglegum athöfnum.

Þjóðarsorg verður í mörgum ríkjum í dag og næstu daga vegna andláts páfans. Í heimalandi hans, Póllandi, hefur verið lýst yfir sex daga þjóðarsorg en þriggja daga á Ítalíu. Samhliða því að vera páfi var Jóhannes Páll II auðvitað trúarlegur leiðtogi rómversku kirkjunnar og því er mikil sorg þar, rétt eins og í Póllandi. Angelo Sodano kardináli, söng í morgun sálumessu til heiðurs páfa á Péturstorginu. Við þá athöfn voru viðstaddir fjöldi trúarleiðtoga kaþólsku kirkjunnar og erlendir erindrekar á hennar vegum og tæplega 140.000 manns voru saman komin á Péturstorginu. Við þetta tækifæri var lesið seinasta ávarpið sem páfi samdi fyrir dauða sinn. Á sömu stund var flutt annað ávarp hans við minningarathöfn í Krakow í Póllandi þar sem Jóhannes Páll II var erkibiskup til fjölda ára, áður en hann var kjörinn páfi í október 1978. Mikill hátíðarblær var yfir athöfninni á Péturstorginu í morgun og sérlega áhrifaríkt að sjá hversu mjög fólk tók andlát páfa nærri sér og bar mikla virðingu fyrir trúarlegu starfi hans seinustu áratugina. Sodano kardináli, flutti falleg minningarorð um páfa við þetta tækifæri.

Um hádegið, eftir athöfnina á Péturstorgi var lík páfa lagt á viðhafnarbörur í Höll miskunnseminnar í Vatikaninu. Fór þar fram mjög hátíðleg stund, þar sem æðstu forystumenn Ítalíu, stjórnarerindrekar og leiðtogar kaþólsku kirkjunnar minntust páfa. Carlo Azeglio Ciampi forseti Ítalíu, og Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu, voru þar viðstaddir ásamt eiginkonum sínum. Lík páfa var sveipað fullum skrúða, hann var á viðhafnarbörunum klæddur rauðum og hvítum klæðum og með gylltan mítur á höfði, sem er til marks um virðingu fyrir honum og verkum hans í embætti. Hafði biskupsstaf verið komið fyrir í annarri hendi hans eins og páfi héldi á honum. Eftir táknræna og virðulega athöfn voru honum flutt blessunarorð og að því loknu var líkinu komið fyrir á börum í Péturskirkjunni þar sem almenningur mun geta kvatt páfa hinsta sinni á næstu dögum. Má búast við að vart muni færri en tvær milljónir manna um allan heim, pílagrímar og fólk víðsvegar að, leggja leið sína næstu daga í Vatíkanið til að kveðja páfann hinsta sinni. Er Jóhannes Páll páfi I lést í september 1978 komu tæplega ein og hálf milljón manns til að kveðja hann hinsta sinni.

Útför páfa mun væntanlega fara fram á fimmtudag, þó það hafi ekki endanlega verið ákveðið blasir við að svo muni að öllum líkindum vera. Mun það verða söguleg stund, enda markar dauði páfans söguleg þáttaskil í sögu kaþólsku kirkjunnar. Hafa aðeins tveir menn ríkt lengur í embættinu og margir þjóðarleiðtogar og forystumenn kristinnar trúar í heiminum munu vera viðstaddir athöfnina, fyrstu útför leiðtoga kaþólskrar trúar í 27 ár. Að athöfn á Péturstorginu og í St. Péturskirkju lokinni mun kista Jóhannesar Páls páfa II væntanlega verða grafin í grafhvelfingu kirkjunnar. Þar eru páfar sögunnar flestir grafnir. Eftir greftrun hans mun taka við svokallað tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála ber að koma saman 15 dögum eftir formlegan dánardag páfa og alls ekki síðar en 18 dögum.

Andlát páfa eftir svo langan tíma í forystu kaþólsku kirkjunnar eru tímamót. Jóhannes Páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hefur þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans hafa gert í 400 ár. Það deilir því enginn um áhrifamátt þessa trúarleiðtoga sem nú hefur kvatt. Hvað sem segja má um skoðanir hans voru áhrif hans mikil og enginn vafi leikur á að hann var einna merkastur af trúarleiðtogum í sögu kaþólsku kirkjunnar.

Jóhannes Páll páfi II kemur fram í glugga íbúðar sinnar í Vatíkaninu í hinsta skipti - 30. mars 2005

Í sunnudagspistli mínum í dag minnist ég Jóhannesar Páls páfa II, eins eftirminnilegasta trúarleiðtoga kaþólskra, manns sem hafði mikil áhrif á sögu 20. aldarinnar. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali að uppruna. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var kjörinn páfi í október 1978 og gegndi embætti, þrátt fyrir slæma heilsu, allt til dauðadags. Hann heimsótti um 130 lönd á 27 ára páfaferli og var víðförlasti páfi sögunnar og flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur annar trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar. Verk páfa og trúarleg forysta verða lengi í minnum höfð. Fer ég yfir ævi hans og feril í embætti og fer ennfremur yfir það ferli sem nú tekur við, er kardinálar þurfa að velja nýjan trúarleiðtoga sinn. Jóhannes Páll páfi II var heillandi og traustur fulltrúi embættis síns og ekki síður trúarinnar. Framlag hans gleymist ekki. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati. Verk hans skipta alla heimsbyggðina miklu máli. Þau hverfa ekki með honum, nú er hann kveður okkur öll hinsta sinni. Gildi verka hans verða að eilífu til staðar fyrir alla kristna menn.

Saga dagsins
1882 Bergur Thorberg landshöfðingi, tilkynnir um stofnun sameiginlegrar geymslu fyrir skjalasöfn æðstu embætti Íslendinga. Með þessari ákvörðun var lagður grunnurinn að Þjóðskjalasafni Íslands
1975 Bobby Fischer heimsmeistari í skák, sviptur titlinum í kjölfar þess að hann tilkynnti að hann myndi ekki keppa um hann við Anatoly Karpov á forsendum FIDE - Fischer varð heimsmeistari árið 1972 í kjölfar sögulegs skákeinvígis við Boris Spassky í Reykjavík. Fischer sneri aftur og keppti við Spassky í Júgóslavíu 1992 til að minnast hins sögulega einvígis í Reykjavík. Með því að keppa þar braut Fischer gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á hendur Júgóslavíu og var hann á flótta undan bandarískum yfirvöldum í 12 ár. Hann var handtekinn í Japan árið 2004, vegna þess að hann hafði ekki gild skilríki. Íslensk stjórnvöld björguðu Fischer úr vandræðum sínum með því að gera hann að íslenskum ríkisborgara í mars 2005. Kom hann til landsins eftir langa ferð frá Japan 24. mars 2005
1978 Leikkonan Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Annie Hall í samnefndri kvikmynd meistara Woody Allen - Keaton er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og hefur hún átt fjölda af glæsilegum leikframmistöðum á ferlinum og þykir jafnvíg á bæði dramatísk og gamansöm hlutverk
1984 Hundahald leyft að nýju í Reykjavíkurborg, en þó gert að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum
2001 Grænmetisskýrslan kynnt - innflytjendur grænmetis og ávaxta sektaðir um 105 milljónir króna

Snjallyrðið
When freedom does not have a purpose, when it does not wish to know anything about the rule of law engraved in the hearts of men and women, when it does not listen to the voice of conscience, it turns against humanity and society.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)


Engin fyrirsögn

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Jóhannes Páll páfi II (1920-2005)Jóhannes Páll páfi II lést í Vatíkaninu í Róm í kvöld, 84 ára að aldri, eftir mikil og erfið veikindi. Seinustu vikur hefur heimsbyggðin öll fylgst með dauðastríði páfa, einbeittum styrk hans og ekki síður ákveðni í að reyna eftir fremsta megni að sinna störfum sínum þrátt fyrir hnignandi heilsu. Hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með páfanum reyna að gera sitt besta til að sinna verkum sínum. Sérstaklega varð ég snortinn að fylgjast með ákveðni hans á páskadag og miðvikudag, þegar ljóst var orðið hvert stefndi í veikindastríði hans: að reyna að ávarpa mannfjöldann og birtast almenningi við Péturstorgið. Gat hann ekki tjáð sig en nærvera hans var gríðarlega sterk og hafði áhrif á alla sem fylgdust með. Var hann ákveðinn í að heimsbyggðin gæti séð með eigin augum þjáningu sína og ákveðni í að reyna að gera sitt besta til að vera þjónn Guðs í störfum sínum. Allt til loka var páfi staðráðinn í að gera það sem honum var frekast unnt til að þjóna almenningi og reyna að sinna embættisskyldum sínum, þjóna trúnni og frelsaranum.

Jóhannes Páll páfi II sat á páfastóli í tæp 27 ár. Hann var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli páfa I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, þeir Pius IX og Saint Peter. Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Upplifði hann ógnir seinni heimsstyrjaldarinnar á unglingsárum sínum en Pólland var hernumið af Þjóðverjum árið 1939. Á æskuárum sínum áður en hann ákvað að nema guðfræði og helga sig kristinni trú var hann kraftmikill íþróttamaður og stundaði einkum knattspyrnu og sund og vann til fjölda verðlauna á unglingsárum í sundi. Hann tók vígslu sem prestur eftir nám sitt árið 1946. Hann kenndi siðfræði við Jagiellonian-háskólann í Kraków og síðar kaþólska háskólann í Lublin til fjölda ára. Árið 1958 var hann skipaður prestur í Kraków og fimm árum seinna, í desember 1963, var hann skipaður erkibiskup í Kraków. Sem prestur og biskup þar varð Karol þátttakandi í starfsemi Vatikansins og tók sæti í æðsta ráði páfadæmisins.

Árið 1967 var hann skipaður kardináli af Páli páfa VI og varð með því orðinn einn af forystumönnum Vatikansins og kaþólsku kirkjunnar. Var hann því orðinn kjörgengur við páfakjör. Reyndi fyrst á það í ágúst 1978 er Páll páfi lést og eftirmaður hans var kjörinn. Hlaut Albino Luciani kjör og tók sér nafnið Jóhannes Páll páfi I. Hann lést eins og fyrr segir 33 dögum eftir vígslu sína. Fór páfakjör fram í október 1978 og þótti fyrirfram líklegast að baráttan um páfatignina myndi standa milli Giuseppe Siri og Giovanni Benelli. Gekk brösuglega fyrir þá að ná tilskyldum meirihluta. Í fyrstu umferð vantaði Benelli 9 atkvæði til að sigra í kjörinu. Varð þá úr að samstaða náðist milli vissra arma í trúarhreyfingunni um að Wojtyla gæfi kost á sér og náði hann kjöri sem málamiðlunarkostur. Var undrun víða um heim við kjör hans, enda var hann lítt þekktur og hafði verið lítt umdeildur í störfum sínum. Margir nefndu hann manninn frá fjarlæga landinu, sem til marks um það að hann gat verið sameiningartákn ólíkra hluta og gæti því tekið við forystunni með lítt umdeildum hætti. Enginn vafi leikur á því að Jóhannes Páll páfi II hafi verið litríkasti og mest áberandi páfi í sögu kaþólsku kirkjunnar og hafi sett einna mest mark á sögu embættisins.

Enginn vafi er á að þrátt fyrir farsæla setu á páfastóli var páfinn umdeildur. Fylgismenn hans staðhæfa að hann hafi átt drjúgan þátt í endalokum kommúnismans með baráttu sinni fyrir frelsi og mannlegri reisn í Póllandi og öðrum A-Evrópuríkjum. Andstæðingar hans segja að páfi hafi hrakið milljónir manna úr kaþólsku kirkjunni með íhaldssemi. Hann hafi líkt og forverar hans verið andvígur því að konur gegni prestþjónustu, hann hafi lagst gegn getnaðarvörnum, ástarsamböndum samkynhneigðra og því að prestar kvænist. Hann hafi verið gamaldags fulltrúi og lagst gegn framþróun og verið andvígur mikilvægum mannréttindaatriðum. Stuðningsmenn hans segja að páfi hafi á löngum ferli verið kraftmikill málsvari mannréttinda og stutt "réttar" mannlegar áherslur, eins og þeir segja. Á löngum ferli var hann áberandi talsmaður grunnmannréttinda: málfrelsis og andvígur stríðum, einræði og blóðsúthellingum. Litlu munaði að páfaferli hans lyki er hann varð fyrir skoti leyniskyttu þann 13. maí 1981, er hann kom inn á Péturstorgið. Það var tyrkneskur múslimi, Mehmet Ali Agca, sem skaut hann. Í 14 tíma lá páfi á skurðarborðinu á sjúkrahúsi í Róm og barðist fyrir lífi sínu. Náði hann heilsu aftur og vakti mikla athygli er hann fór til tilræðismanns síns í fangelsið og fyrirgaf honum.

Jóhannesar Páls páfa II verður að mínu mati, nú við leiðarlok, helst minnst í sögunni fyrir forystu hans í friðarmálefnum, baráttuna gegn kommúnismanum og fyrir það að vera kraftmikill talsmaður gegn stríðshörmungum. Hann ferðaðist víða á löngum ferli og heimsótti 129 lönd á þeim 27 árum sem hann ríkti í embættinu. Hann flutti fleiri hundruð ræður í embætti og mörg þúsund blessunarorð. Helgast það auðvitað af langri setu hans. Ferðalögin helgast af því að hann er fyrsti nútímapáfinn, ef segja má sem svo. Hann notaði embættið með öðrum hætti en forverar hans og var mun virkari út í frá. Hann flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar. Í byrjun júnímánaðar 1989 kom Jóhannes Páll páfi II í opinbera heimsókn til Íslands og dvaldi hér dagana 3. og 4. júní. Hélt hann hátíðlega stund á Þingvöllum og messaði við Kristskirkju í Landakoti. Var ég staddur í Reykjavík á þeim sögulega degi og varð vitni að því er hann predikaði í útimessunni. Þessi stund mun aldrei gleymast mér. Talaði páfi stutt til Íslendinga á íslensku, en Gunnar Eyjólfsson leikari, hafði kennt páfa íslensku í aðdraganda Íslandsferðarinnar. Var páfi alla tíð þekktur fyrir tungumálakunnáttu sína. Jafnan flutti hann blessunarorð á Péturstorginu á um 60 tungumálum. Sjálfur gat hann reiprennandi talað 13 tungumál.

Nú, þegar páfi hefur kvatt þennan heim og er kominn á annað tilverustig tekur við staðlað sorgarferli skv. fornum hefðum og venjum kaþólsku kirkjunnar. Í kjölfarið tekur við það verkefni að velja eftirmann Jóhannesar Páls páfa II. Við blasir að næsta páfakjör, sem framundan er, verði sögulegt. Um verður að ræða fyrsta páfakjörið sem fer fram í kastljósi fjölmiðla í nútímaumhverfi fjölmiðla. Skiljanlega geta fjölmiðlar þó ekki fylgst með í algjöru návígi, enda eru fundir æðstaráðsins sem velur páfa með öllu lokaðir öðrum en þeim sem eiga þar kjörrétt. Siðareglur við kjör páfa eru mjög skýrar og eru öllum vel þekktar. Við andlát páfa á sjúkrabeði í kvöld var skírnarnafn hans kallað þrisvar: Karol, Karol, Karol! Þar sem hann sýndi þá engin svipbrigði var hann formlega úrskurðaður látinn. Í kjölfar þess gerist sú táknræna stund að bronsdyrum Vatíkansins er lokað sem merki um það að páfi hafi kvatt þennan heim. Hurðin verður svo ekki opnuð að nýju fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Nú, við andlát páfa, tekur sérlegur aðstoðarmaður páfa við daglegum skyldum hann fram yfir vígslu nýs páfa. Að honum og fleiri forystumönnum páfagarðs viðstöddum var hvítri andlitsslæðu sem hylur andlit páfa fjarlægð og beðið var fyrir sálu hans.

Tilkynnt var formlega um lát Jóhannesar Páls páfa II í kjölfarið. Hringur páfa, svonefndur hringur fiskimannsins, sem páfi hlaut við kjör sitt, er færður á fyrsta fund kardínálanna þar sem hringurinn er brotinn. Nú, er páfi hefur skilið við hefur söfnuður kardinálanna, sem sinnir málefnum kirkjunnar ekkert vald lengur. Þá verður skrifstofa utanríkis- og innanríkismála Vatíkansins með öllu umboðslaus og ekki er því hægt að sinna diplómatískum málefnum fyrr en eftirmaður hefur verið kjörinn. Sama hversu stór mál koma til eða atburðir verða er engin undantekning á því. Öllum heimsóknum til Páfagarðs, óformlegum sem formlegum, er frestað og engin ákvarðanataka má eiga sér stað nema minniháttar tengd daglegum athöfnum. Nú tekur eins og fyrr segir við staðlaður sorgartími kaþólskra um allan heim. Kaþólskir syrgja nú fallinn trúarleiðtoga sinn. Kaþólikkar flykkjast í kirkju til að biðja fyrir sálu páfa og helga sig sorg, eins og þeim er skylt. Næstu daga verður lík Jóhannesar Páls páfa II klætt rauðum klæðum og með gylltum mítur á höfði, er það til marks um virðingu fyrir honum og til að biðja fyrir sálu hans. Lík páfans verður fyrir formlega útför fært í þrefalda kistu og mun pyngja með öllum þeim myntum og orðum páfadóms hans seinustu 27 ár verða lögð við fætur hans.

Áður en lík páfa var flutt úr einkaherbergi hans fékk hann staðlaða syndafyrirgefningu og mun lík hans verða til sýnis í hátíðarsal í Vatíkaninu. Útför Jóhannesar Páls II páfa mun væntanlega fara fram fyrir næstu helgi, líklega á miðvikudag. Að athöfn á Péturstorginu og í St. Péturskirkju lokinni mun kista Jóhannesar Páls páfa II væntanlega verða grafin í grafhvelfingu kirkjunnar. Þar eru páfar sögunnar flestir grafnir. Eftir greftrun hans mun taka við svokallað tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í St. Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála ber að koma saman 15 dögum eftir formlegan dánardag páfa og alls ekki síðar en 18 dögum. Allir kardínálar, nema þeir sem hafa náð áttræðu, geta tekið þátt í kjöri nýs páfa. Ef marka má fréttir erlendra vefmiðla eru um 130 kardinálar sem standast kjörskilyrðin að þessu sinni. Eru kardinálar nú að flykkjast til Rómar og voru margir þegar farnir að leggja leið sína þangað í gær er ljóst varð að páfinn lá banaleguna. Tekur nú æðsta verkefni starfs þeirra við, að velja sér nýjan trúarleiðtoga, í fyrsta skipti í tæpa þrjá áratugi.

Kardinálarnir eru skiljanlega bundnir trúnaði. Mega þeir ekki ræða kosninguna eða neina þætti þess sem gerist nú við fjölmiðla eða aðra en lærða menn. Þar til þeir hafa náð niðurstöðu og páfi verið kjörinn eru þeir læstir inni og þá fyrst má ræða um heppilega kandidata við aðra kardínála innbyrðis og hefja einhvers konar kosningabaráttu. Er kjörfundur er formlega hafinn má honum ekki ljúka eða kardinálar að yfirgefa hann fyrr en niðurstaða er komin, eins og fyrr segir. Fyrir þarf að liggja bæði stór og gild ástæða fyrir brotthvarfi kardinála frá þeirri stundu. Þrjár aðferðir eru til að velja nýjan páfa. Í fyrsta lagi er sú aðferð sem algengust er: að velja páfa með beinni kosningu. Frambjóðandi verður þá að hljóta 2/3 allra atkvæða til að vera kjörinn, í öðru lagi er hægt að kjósa páfa með upphrópun. Þá eru allir kardínálarnir sammála um hver skuli taka við sem páfi og kalla nafn hans upphátt. Að lokum er hægt að velja páfa með málamiðlun. Atkvæðagreiðslan fer fram í Sixtínsku kapellunni. Eftir að samstaða hefur náðst eru atkvæðaseðlarnir brenndir. Reykur leggur þá upp yfir Péturstorgið til marks um niðurstöðuna - páfi hafi verið kjörinn.

Söguleg tíðindi hafa átt sér stað. Páfi til tæplega þriggja áratuga er fallinn frá. Arfleifð hans og verk, forysta í trúarlegum málefnum og friðarbarátta hans verður lengi í minnum höfð. Einn merkasti maður 20. aldarinnar, leiðtogi eins stærsta trúarhóps mannkyns hefur kvatt þennan heim. Við minnumst nú þessa merka manns og lútum höfði og hugsum til persónulegs styrks, einbeitni hans og staðfestu í því verkefni seinustu árin að þjóna Guði og söfnuði sínum til hinstu stundar, þrátt fyrir hnignandi heilsu. Merkismaður er fallinn í valinn. Megi almáttugur Guð blessa þennan dygga þjón sinn. Minning hans mun lengi lifa, í huga okkar sem lifðum það að fylgjast með verkum hans og ekki síður fyrir komandi kynslóðir í sögubókum framtíðarinnar. Jóhannes Páll páfi II var eitt af stórmennum mannkynssögunnar.

Saga dagsins
1725 Eldgos hófst í nágrenni eldfjallsins Heklu í Haukadal og fylgdu því mjög snarpir jarðskjálftar
1928 Jóhanna Magnúsdóttir hlaut lyfsöluleyfi, fyrst íslenskra kvenna - starfrækti lyfjaverslun í 33 ár
1974 Leikarinn Jack Lemmon hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Harry Stoner í Save the Tiger - hann hlaut óskarinn áður fyrir túlkun sína á óbreyttum Pulver í Mister Roberts árið 1954. Lemmon var einn af bestu leikurunum í kvikmyndasögu 20. aldarinnar og varð rómaður fyrir að vera jafnvígur á bæði gamansamar og dramatískar túlkanir á svipmiklum karakterum. Hann lést úr krabbameini í júní 2001
1982 Argentína ræðst inn í Falklandseyjar, breskt yfirráðasvæði við S-Atlantshaf - leiddi þessi innrás Argentínumanna til hernaðar Breta gegn þeim. Lauk þeim átökum með fullnaðarsigri breska hersins
2005 Jóhannes Páll páfi II lést í Vatíkaninu í Róm, 84 ára að aldri, eftir mikil veikindi - Pólverjinn Karol Józef Wojtyla var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali að uppruna. Hann fæddist 18. maí 1920 í smábænum Wadowice í Póllandi. Hann var kjörinn páfi í október 1978 og gegndi embætti, þrátt fyrir slæma heilsu, allt til dauðadags. Hann heimsótti um 130 lönd á 27 ára páfaferli og var víðförlasti páfi sögunnar og flutti fleiri ræður og predikanir en nokkur annar trúarleiðtogi í sögu kristinnar trúar

Snjallyrðið
When you wonder about the mystery of yourself, look to Christ, who gives you the meaning of life. When you wonder what it means to be a mature person, look to Christ, who is the fulfillness of humanity. And when you wonder about your role in the future of the world look to Christ.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband