22.4.2006 | 17:13
Alfreð gerir upp endalok R-listans sáluga

Það leikur enginn vafi á því að Alfreð Þorsteinsson er einn af umdeildustu stjórnmálamönnum seinustu áratuga hérlendis. Deilt hefur verið um verk hans í pólitík og hann hefur algjörlega án þess að hika varið verk sín af krafti og beitt til þess öllum brögðum. Alfreð hefur verið áberandi til fjölda ára í forystu Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þó lengi hafi verið deilt um verk hans í stjórnmálum leikur enginn vafi á því að mest hefur verið deilt um verk hans innan flokksins í R-listanum, sameiginlegu framboði félagshyggjuflokkanna í Reykjavík seinustu 12 árin. Alfreð var einn af lykilmönnunum innan R-listans allan valdatíma hans og var valdamikill í nefndum og ráðum á þeim tíma. Hæst náðu völd hans og áhrif seinustu fjögur árin af valdatímanum en þá var hann leiðtogi flokksins í borginni og fór óhikað sínar leiðir, andstæðingum sem stuðningsmönnum R-listans oft til armæðu.
En nú er komið að leiðarlokum á pólitískum ferli Alfreðs. Eftir 35 daga lýkur ferli hans sem forystumanns flokksins í borgarstjórn og hann lætur af öllum pólitískum störfum fyrir Reykjavíkurborg. Hann er enda ekki í framboði í vor og víkur af hinu pólitíska sviði. Í dag fer hann yfir þennan feril í viðtali við Björn Þór Sigbjörnsson í Fréttablaðinu. Það er að mörgu leyti mjög athyglisvert að lesa það viðtal og fara yfir það sem þar kemur fram. Nú er ferlinum lýkur er hann forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og leiðir flokk sinn. Hann hefur auk þess gegnt stjórnarformennsku veitufyrirtækis borgarinnar, Orkuveitu Reykjavíkur, allan valdatíma R-listans. Mjög hefur verið deilt um verk hans innan Orkuveitunnar þessi tólf ár og meginþungi átakanna um Alfreð og verk hans í borgarmálum hafa enda snúist hvort hann hafi unnið til góðs eða ills innan Orkuveitunnar.
Að mínu mati hefur verið með ólíkindum að fylgjast með óráðsíunni innan Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig henni hefur verið stjórnað undanfarinn áratug af Alfreð, af hálfu allra flokkanna sem myndað hafa R-listann. Nægir þar að nefna ákvörðun OR um að reisa sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn, undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og fyrirtækjarekstur á sviði gagnamiðlunar sem vakið hefur mikla athygli fyrir sukk og óráðsíu. Ekki er hægt að sjá að verk af þessu tagi tengist að nokkru leyti rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og því auðvitað mjög undarlegt að borgarbúum hafi verið gert að taka þátt í honum. Alfreð hefur vegna þessa verið af mörgum talinn einn spilltasti stjórnmálamaður landsins og hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug.
Síðastliðið sumar leið R-listinn formlega undir lok en hann stjórnar eins og vofa í Reykjavík til loka kjörtímabilsins. Sem betur er styttist í að valdatíma R-listans ljúki og eru 35 dagar þar til að breytingar verða á stjórn borgarinnar. Í þessu viðtali kemur mjög vel fram sú skoðun Alfreðs að upphaf endaloka R-listans hafi verið sú ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sameiginlegs borgarstjóraefnis flokkanna, að gefa kost á sér í þingframboð fyrir einn flokkinn. Þá hafi hún misst stuðning Framsóknarflokksins til verka. Flestir vita hvernig þeim hráskinnaleik lauk öllum en Ingibjörg Sólrún sagði af sér embætti borgarstjóra í kastljósi fjölmiðlanna og fór í þingframboð. Hún situr enn sem fulltrúi flokkanna allra í borgarstjórn en er orðin formaður eins þeirra. Alfreð fer vel völdum orðum um viðskilnað ISG við R-listann og telur að glappaskot hennar hafi leitt til þess að R-listinn veðraðist upp mjög hratt.
Allt frá því að Ingibjörg Sólrún var sett af sem borgarstjóri um jólin 2002 hefur Alfreð Þorsteinsson verið valdamesti maðurinn í borgarkerfinu og eflaust hefur hann verið lykilmaður þar mun lengur en svo. Frá þeim tíma hafa verið skýr átök þar um leiðir í verkum og forystuna en þó bundist böndum um að klára kjörtímabilið, þó oft hafi það orðið þeim brösugt með ISG áfram sem borgarfulltrúa og hornkellingu innan meirihlutans. Alfreð kemur með það athyglisverða innlegg að í raun hafi meirihlutaviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks verið við það að hefjast er Ingibjörg Sólrún sagði loksins af sér. Eina ástæða þess að hún sagði af sér var enda til að vernda R-listann. Síðan hefur hann hvorki verið fugl né fiskur og sprakk svo endanlega í fyrra þegar að tekist var á um stólaskiptingar milli flokka en ekki áhersluatriði um borgarmálin sem slík. Athyglisverð endalok á pólitísku hagsmunabandalagi.
Alfreð Þorsteinsson staðfestir í þessu viðtali allt tal andstæðinga R-listans sáluga um að í raun hafi samstarfinu verið lokið í árslok 2002 þegar að ISG hrökklaðist frá völdum í borginni. Síðan var þetta sem stjórnlaust rekald sem stjórnaðist af hagsmunum flokkanna og bitlingum umfram pólitískar hugsjónir og ástríðu á Reykjavíkurborg sem slíkri. Alfreð fer yfir þessi mál í viðtalinu og greinileg undirliggjandi biturð liggur í orðunum um viðskilnað R-listans sem hefur nú sagt sitt síðasta og heldur með Alfreð Þorsteinssyni inn í pólitískar sögubókur Reykjavíkurborgar með kosningunum eftir 35 daga. Það verða ánægjuleg þáttaskil sem þá verða.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2006 | 20:57
Elísabet II Englandsdrottning áttræð

Elísabet II Englandsdrottning er áttræð í dag. Enginn vafi leikur á því að hún sé ein valdamesta konan í sögu mannkyns og sú kona sem mestan svip hefur sett á mannlífið á 20. öld um víða veröld. Margt hefur verið rætt og ritað um þessa merku konu og valdaferil hennar. Ungri var henni falið það lykilverkefni að leiða enska heimsveldið og tók við bresku krúnunni við erfiðar aðstæður, aðeins 25 ára gömul. Til fjölda ára hefur hún leitt England af krafti og verið táknmynd landsins og fulltrúi þeirra. Á þeim tíma hefur verið deilt um konungsveldið og hvort það sé á fallanda fæti eða hafi styrkst í tíð hennar. Um það deilir þó enginn að drottningin hefur helgað ævi sinni í verk í þágu lands síns og lagt mikla elju í að leiða þjóðina af krafti, enda hefur hún notið virðingar hennar og stuðnings í öllu því sem skekið hefur fjölskyldu hennar.
Elizabeth II Englandsdrottning fæddist þann 21. apríl 1926. Þá hefði fáum órað fyrir að hún ætti eftir að verða drottning Englands. Föðurbróðir hennar, Edward, var enda ríkisarfi og þótti allt stefna í að ekki kæmi til þess að Albert bróðir hans og afkomendur hans tækju við krúnunni. Er Elísabet var tíu ára að aldri lést afi hennar, George konungur, og Edward varð konungur í hans stað. Áður en árið 1936 var liðið hafði hann beðist lausnar frá krúnunni. Hann gat ekki gifst konunni sem hann vildi, hinni tvífráskildu Wallis Warfield Simpson, og haldið embættinu um leið. Hann valdi Wallis við mikla gremju móður hans og nánustu ættingja. Í desember 1936 varð því Albert bróðir hans konungur í hans stað og Elizabeth varð krónprinsessa Englands. Albert tók sér titilinn George eins og faðir hans og tók við krúnunni með eiginkonu sína, Elizabeth Bowes-Lyon (sem hann giftist árið 1923), sér við hlið.
George og Elizabeth öðluðust virðingu allrar þjóðarinnar með framgöngu sinni í seinni heimsstyrjöldinni og samhent fjölskyldulíf þeirra og dætra þeirra, Elizabeth og Margaret, var virt af öllum landsmönnum. Hinsvegar voru Edward og kona hans Wallis hötuð af landsmönnum og þeim var að mestu úthýst í fjölskyldunni meðan bæði lifðu, þó svo að þau yrðu bæði grafin í Windsor er yfir lauk. Langt um aldur fram brast heilsa George konungs og hann greindist með krabbamein (sem var haldið leyndu allt þar til yfir lauk og lengur en það í raun). Svo fór undir lok ársins 1951 að hann var allverulega farinn að láta á sjá og ekki varð lengur dulið heilsuleysi hans. Fráfall hans kom þó fyrr en mörgum óraði fyrir. Hann varð bráðkvaddur í Sandringham-höll í janúar 1952. Þá voru Elizabeth og maður hennar, Philip hertogi (sem hún giftist árið 1947) stödd í opinberri heimsókn í Kenía.
25 ára gömul varð Elizabeth drottning Englands og tókst á við hið áhrifamikla embætti með sínum hætti. Þau hjón eignuðust fjögur börn: Charles, Anne, Andrew og Edward. Hún hefur nú setið á valdastóli á Englandi í 54 ár og vantar aðeins 10 ár upp á að slá valdamet formóður sinnar, Victoriu drottningar, sem ríkti í 64 ár og var það tímabil nefnt Viktoríutíminn. Þeim fer auðvitað fækkandi þeim Bretum sem muna aðra tíma en þá að drottning sé handhafi krúnunnar og hennar valdatímabil er auðvitað fyrir löngu orðið sögulegt. Krúnan hefur breyst mikið á valdatímabilinu en að mörgu leyti ennfremur orðið litríkari. Tíðarandinn er enda allt annar nú en þegar að hin 25 ára gamla drottning tók við völdum árið 1952. Drottningin hefur þó erft góða heilsu móður sinnar, er lifði í hálfa öld lengur en eiginmaður hennar, sem lést í marsmánuði 2002.
Til fjölda ára hefur verið rætt um það opinberlega á Bretlandseyjum hvenær að drottningin myndi láta af embætti og Karl sonur hennar taka við krúnunni. Ef marka má stöðu mála er það ekki að fara að gerast strax að Karl verði konungur Englands. Sumir hafa þó leitt líkum að því að William sonur hans verði konungur er amma hans víkur af valdastóli. Svo er það auðvitað inni í myndinni að drottningin sitji til dauðadags. Ef marka má góða heilsu móður hennar og hversu ern drottningin er á áttræðisafmælinu blasir við að hún ríki í Englandi lengi enn og muni því jafnvel verða við völd í meira en sex áratugi.
Umfjöllun BBC um afmæli drottningar
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2006 | 20:56
Fallegur sumardagur á Akureyri
Það var fallegur sumardagur hér á Akureyri í dag - sumarið heilsaði okkur með sólarbrosi og notalegu veðri. Ég fór á fætur snemma í morgun og fékk mér kaffi og ristað brauð og hlustaði á umræðuþátt á NFS á meðan. Að því loknu hélt ég í góðan og hressilegan göngutúr. Labbaði fyrst upp í Kaupang til að senda SMS-boðun á alla flokksmenn um að mæta í vöfflukaffið okkar á Kaffi Akureyri eftir hádegið. Það var auðvelt og notalegt verkefni og hélt ég göngunni áfram að því loknu. Ég labbaði áleiðis Mýrarveginn og hitti á leiðinni góðan vin og fórum við að ræða niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar fyrir NFS í vikunni. Var áhugavert að skiptast á punktum um stöðu mála nú þegar að aðeins rúmur mánuður er í kjördag.
Labbaði ég niður Mímisbraut og hélt Þórunnarstrætið á enda áleiðis að kirkjugarðinum, sem er rétt við hið nýja Naustahverfi. Þar átti ég stund með sjálfum mér. Þar hvíla ástvinir og ættingjar sem mér eru kærir. Þegar ég vil styrkja sjálfan mig og íhuga ýmis mál fer ég þangað uppeftir og á stund með sjálfum mér og hugsa um þá sem mér hefur þótt vænt um - en hafa kvatt þessa jarðvist, sumir alltof snemma. Nokkrir mánuðir eru síðan að kær frændi minn, Kristján Stefánsson, lést og fór ég fyrst að gröf hans. Eftir nokkra stund þar hélt ganga mín áfram. Ég hélt niður í Aðalstræti og labbaði hana áleiðis inn í miðbæ. Að mínu mati er Aðalstræti einstök gata í sögu Akureyrar - þar angar enda allt af sögu og gömlu húsin þar hafa mikinn sjarma og þokka. Heila sögu mætti segja í langri bók um gömlu húsin og þetta elsta hverfi bæjarins. Það er alltaf virkilega gaman að labba Aðalstrætið og kynna sér söguna.
Eftir að heim kom úr þessari löngu göngu tók ég mig til og fór í jakkafötin. Haldið var um hálfþrjú leytið á Kaffi Akureyri. Þar komum við sjálfstæðisfólk saman og fögnuðum sumarkomu með vöfflukaffi. Það var mikið fjölmenni í vöfflukaffinu. Þar skemmtum okkur saman, hittumst og ræddum málin, bæði í kjölfar skoðanakönnunarinnar sem fyrr er nefnd og mörkuðum upphaf hinnar formlegu kosningabaráttu. Pólitíkin var eins og gefur að skilja mikið rædd og greinilegt að við erum komin í kosningagírinn og mikil stemmning hjá okkur. Bökuðu frambjóðendur vöfflur og þáði mikið fjölmenni vöfflur með sultu og rjóma. Var þar mikill fjöldi er hæst lét og mikil stemmning. Var einnig greinilegt að fólk sem var á göngutúr um bæinn leit við með börnin sín og þetta því sannkölluð fjölskylduskemmtun á góðum sumardegi í miðbænum. Við sem tökum þátt í kosningabaráttunni erum bjartsýn á gott gengi og vorum ánægð með daginn.
Eftir góða stund í vöfflukaffinu komst ég að því að ég hafði misst af tímanum og var orðinn of seinn á Vorkomuna í Ketilhúsinu. Ákvað ég því þess í stað að halda inn í minjasafn. Þar hafði verið dagskrá og boðið var upp á kakó og lummur. Notaleg stemmning var í Minjasafnsgarðinum. Þar var nýlokið brúðkaupsathöfn er ég kom að og mikil gleði þar vegna þess. Leit ég á safnið og fékk mér kakóbolla og hélt svo yfir í Nonnahús sem var opið í tilefni dagsins. Það er alltaf gaman að fara í Nonnahús - hús sem er fallegur minnisvarði um heiðursborgara okkar Akureyringa, Jón Sveinsson. Saga Jóns er um margt einstök og alltaf gaman að lesa hana. Nonni ritaði sögu sína af mikilli list og eru þær bækur minnisvarði um ritsnilld hans. Var ánægjulegt að labba um húsið og hitti ég þar góðan vin og ræddum við heillengi saman.
Eftir þetta hélt ég heim eftir góðan og notalegan dag. Sumardagurinn fyrsti hefur hér á Akureyri bæði verið sólríkur og kuldalegur í gegnum árin. Að þessu sinni heilsaði sumarið okkur Akureyringum með sólarbrosi og það metum við öll mikils. Við erum öll með sól í hjarta í dag og markast kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningar með þessu sólarbrosi - framundan er mikil og skemmtileg vinna og sérstaklega ánægjulegt að lykilvinna seinustu viknanna hefjist á svo fögrum og notalegum degi sem þessi dagur var.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2006 | 09:47
Gleðilegt sumar

Ég vil óska lesendum vefsins gleðilegs sumars og þakka fyrir góð samskipti á liðnum vetri. Mikið hefur verið skrifað hér í vetur og margar heimsóknir verið hér inn. Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir að lesa skrifin. Nýlega fór tala heimsókna (frá janúar 2004) yfir 300.000 stykki. Það er mér mikið gleðiefni og sérstaklega gott að sjá hversu mikið hefur verið litið hér á skrifin seinustu vikurnar eftir útlitsbreytinguna. Ég er að skrifa um skoðanir mínar fyrst og fremst fyrir mig og ég er ánægður ef aðrir hafa gaman af þessum skrifum. Við eigum vonandi samleið í sumar og næstu vikurnar fram að sveitarstjórnarkosningum eftir 37 daga.
bestu kveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2006 | 09:32
Vöfflukaffi Sjálfstæðisflokksins á Kaffi Akureyri

Í dag, sumardaginn fyrsta, munum við stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fagna sumarkomu með vöfflukaffi á Kaffi Akureyri í miðbænum. Munu frambjóðendur flokksins baka vöfflur og ræða við bæjarbúa um bæjarmálin. Ég hvet sem flesta til að mæta, fá sér kaffi og vöfflu og ræða um bæjarmálin við sumarkomu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2006 | 22:27
Uppstokkun í Hvíta húsinu
Það er óhætt að segja að mikil uppstokkun sé þessar vikurnar í starfsmannaliði Hvíta hússins og innsta kjarna George W. Bush forseta Bandaríkjanna, í forsetabústaðnum. Nýlega tók Joshua B. Bolten við embætti starfsmannastjóra í Hvíta húsinu af Andrew Card, sem setið hafði á þeim stóli í rúmlega fimm ár. Brotthvarf hans var rakið til sífellt vaxandi óvinsælda forsetans. Það var til marks um stöðu mála að Card, sem verið hafði einn nánasti samstarfsmaður forsetans, myndi hætta störfum og breyting verða á forystu starfsmannahaldsins. Í dag hélt uppstokkunin áfram. Þá tilkynnti Scott McClellan talsmaður forsetans, um afsögn sína. McClellan hefur verið talsmaður Bush forseta allt frá sumrinu 2003, er Ari Fleischer lét af störfum. Hann hafði verið umdeildur alla tíð sem blaðafulltrúi og talsmaður forsetans en tímasetningin þykir merkileg.
Það eru aðeins örfáir dagar síðan að Bolten tók við af Card og greinilegt á þessu að hann vill stokka upp starfsmannakjarnann og hefur til þess stuðning forsetans, sem berst í bökkum vegna aukinna óvinsælda. Fleiri tíðindi urðu í dag er þá tilkynnti Karl Rove, einn af aðalhugmyndafræðingum og PR-mönnum forsetans um afsögn sína sem yfirmaður stefnumótunar í Hvíta húsinu. Við þeim starfa tekur Joel Kaplan. Rove hefur verið einn af helstu mönnunum á bakvið pólitíska velgengni forsetans og má telja herkænsku hans og strategíu einn meginþátt þess að Bush vann forsetakosningarnar í nóvember 2000 og hélt velli í kosningunum í nóvember 2004. Nú þegar að líða tekur á seinna kjörtímabil forsetans hefur fallið verulega á Rove og greinilega þykir kominn tími til að hann verði minna áberandi í forystukjarna forsetans.
Greinilegt er að forsetinn og nýr starfsmannastjóri hans ætla nú að snúa vörn í sókn. Framundan eru mikilvægar þingkosningar í nóvember fyrir Repúblikanaflokkinn. Tapist önnur þingdeildin, eða það sem verra er báðar þeirra, skaðast forsetinn verulega og verður sem lamaður leiðtogi lokahluta valdaferilsins, líkt og svo margir fyrri forsetar repúblikana. Gott dæmi eru enda Bush eldri og Reagan, sem áttu við erfiða stöðu að glíma undir lokin með þingið á móti sér. Þingmenn repúblikana eru óhræddir nú orðið við að gagnrýna Bush og stjórn hans, enda fer Bush ekki í aðrar kosningar. En Repúblikanar óttast greinilega kosningarnar í nóvember og telja ástæðu til að stokka upp og fer sú uppstokkun nú fram í lykilkjarnanum í Hvíta húsinu.
Það verður fróðlegt að sjá næstu vikurnar hvort það hafi eitthvað að segja fyrir stöðu forsetans og flokk hans er styttist í þingkosningarnar. Eitt er þó ljóst: Rove er ekki farinn úr lykilliði forsetans en heldur nú í bakvarðarsveitina í aðdraganda þingkosninganna. Hvort það dugar Bush og repúblikönum að Rove fari í þær stellingar skal ósagt látið.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2006 | 19:49
Gísli S. Einarsson yfirgefur Samfylkinguna

Það eru svo sannarlega stórtíðindi að Gísli S. Einarsson fyrrum alþingismaður Alþýðuflokksins og Samfylkingarinnar, hafi ákveðið að segja skilið við Samfylkinguna og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi. Mun hann verða bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Gísli er þekktur og vinsæll á Skaganum, enda verið viðloðandi margt í sínum heimabæ og notið virðingar og stuðnings íbúanna þar. Það er í senn klókt og flott hjá Gunnari Sigurðssyni bakara og leiðtoga Sjálfstæðisflokksins á Skaganum, að óska eftir liðsinni Gísla við að sigra kosningarnar á Skaganum í vor - landa öflugum bæjarstjórnarmeirihluta og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs og gera Gísla að bæjarstjóra í sínum heimabæ.
Gísli hefur lengi verið í pólitíkinni. Hann varð þingmaður Alþýðuflokksins í Vesturlandskjördæmi sumarið 1993 er Eiður Guðnason varð sendiherra og sat á þingi allt til ársins 2003, seinasta kjörtímabilið fyrir Samfylkinguna. Hann náði ekki kjöri í seinustu kosningum á lista flokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi. Það hefur blasað við um nokkuð skeið að leiðir Gísla og forystu Samfylkingarinnar höfðu skilið. Hann var ekki sáttur við uppstillingu framboðslista Samfylkingarinnar fyrir þingkosningarnar 2003 og taldi sína stöðu ekki góða. Það fór með Gísla eins og svo marga krata í Samfylkingunni að þeir leituðu annað og horfðu þá til Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum. Það er mikil blóðtaka fyrir Samfylkinguna á Akranesi að sjá á bak Gísla Einarssyni, þingmanni sínum og forystumanni til fjölda ára.
En um leið er það styrkleiki fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akranesi að fá Gísla í sínar raðir - vonandi verður hann bæjarstjóri á Skaganum eftir næstu kosningar. Það verður sterk og öflug forysta sem leiðir Sjálfstæðisflokkinn á Skaganum í kosningunum í vor - breiður og góður hópur fólks. Kannast örlítið við Gísla og veit að þar fer kjarnamaður. Ég fagna því að hann hafi gengið til liðs við okkur sjálfstæðismenn og um leið sagt skilið við Samfylkinguna undir forystu Ingibjargar Sólrúnar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2006 | 23:03
Ný könnun á Akureyri - borgarafundur á NFS

Í kvöld fór ég á veitingahúsið Strikið, betur þekktur sem gamli og góði Fiðlarinn, hér í miðbæ Akureyrar á borgarafund NFS vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. 39 dagar eru nú þar til við göngum að kjörborðinu og veljum fulltrúa okkar í bæjarstjórn Akureyrar næsta kjörtímabilið og tökum afstöðu til framboðanna sem í boði eru. Á borgarafundinum var auk forystumanna framboðanna mætt ýmislegt lykilfólk tengt framboðunum fimm sem þegar liggja fyrir. Eftirvænting ríkti enda tilkynnt um niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir NFS á fylgi framboðanna fimm sem þegar liggja fyrir. Aðeins hafði ein skoðanakönnun birst á fylgi framboðanna á árinu er kom að þessari og því var spenna í loftinu eftir að sjá nýja mælingu og stærra úrtak en í fyrri könnun. Var mjög athyglisvert að heyra niðurstöður könnunarinnar.
Úrtakið í könnuninni er 800 manns og svarhlutfallið er 68%. Skv. könnuninni er meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn en naumlega þó. Við í Sjálfstæðisflokknum bætum við okkur nákvæmlega prósenti frá kosningunum 2002 - mælumst með 36,5% fylgi og höldum okkar fjórum mönnum inni. Fylgi Framsóknarflokksins minnkar verulega og mælist nú 14,3% og hefur fallið úr 24,1% úr kosningunum 2002 - flokkurinn hefur aðeins einn bæjarfulltrúa í könnuninni og tapar tveim. Samfylkingin bætir við sig nokkru fylgi og mælist með 22,2% en fékk 13,9% síðast - er með 3 bæjarfulltrúa í könnuninni en fékk einn kjörinn árið 2002. VG bætir við sig nokkru fylgi - mælist með 18,4% en fékk 8,7% í kosningunum 2002 og bætir við sig manni, fengi 2 núna. Listi fólksins missir verulegt fylgi - mælist með 7,9% nú en fékk 17,8 árið 2002 og missir annan mann sinn.
Þessi könnun er að mæla mjög svipað landslag og var í könnun RHA fyrr í mánuðinum. Stærsta breytingin er sú að styrkleikahlutföll VG og Samfylkingarinnar breytist örlítið. Samfylkingin mælist með þrjá og VG tvo - öfugt við fyrrnefnda könnun. Enn vekur mikla athygli fylgishrun Framsóknarflokksins á Akureyri - einu af lykilvígi flokksins á landsbyggðinni. Löngum mældist flokkurinn hér með fjóra til fimm bæjarfulltrúa. Tólf ár eru liðin síðan að flokkurinn vann afgerandi sigur og fékk fimm menn kjörna og Jakob Björnsson þáv. leiðtogi flokksins, varð bæjarstjóri. Fjórum árum seinna klauf Oddur Helgi, bæjarfulltrúi flokksins, sig frá Framsókn og stofnaði Lista fólksins. Fékk Framsókn þrjá menn kjörna bæði 1998 og 2002. Það er merkilegt að sjá mælinguna á Framsókn tvær kannanir í röð og greinilegt áfall þeirra. Er staða mála þeim væntanlega mikið áfall.
Staða Sjálfstæðisflokksins mælist mjög góð. Flokkurinn hefur leitt bæjarmálin samfellt í átta ár og Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri allan þann tíma. Nýleg könnun staðfesti að hans staða er sterk og flokkurinn heldur öflugur í þessar kosningar og nýtur stuðnings bæjarbúa. Það er gott að finna þessa góðu mælingu. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur sannmælis vegna góðrar stöðu bæjarins en athygli vekur hversu illa Framsókn verður úti almennt um allt land, ekki bara hér. VG er að bæta nokkru við sig undir forystu Baldvins og Samfylkingin réttir úr kútnum undir forystu Hermanns. Listi fólksins er í mikilli niðursveiflu og virðist vera að tapa fyrir það að hafa ekkert frumkvæði sýnt á kjörtímabilinu. L-listinn hefur enga einustu tillögu lagt fram sjálft á tímabilinu og ævinlega setið hjá og maldað neikvætt í móinn og bókað sérálit með hjásetu svo eftir hefur verið tekið.
Á borgarafundinum ræddu Kristján Þór, Jói Bjarna, Baldvin Sig, Hermann T. og Víðir Ben um stöðu bæjarmálanna og niðurstöður könnunarinnar. Var þar birt ítarleg samantekt Glúms Baldvinssonar á stöðu bæjarins og sannast þar vel sterk og góð staða Akureyrarbæjar. Enda sást það vel á umræðunum að minnihlutaöflin hafa engin alvöru skotfæri á meirihlutann og gagnrýni þeirra hljómaði sem og hin holasta tóma tunna. Fannst mér þetta felast best í því að leiðtogi VG fannst allt hér mjög slæmt og ekkert hefði verið gert en sú gagnrýni hljómar ótrúverðug eftir umfjöllun Glúms. Heilt yfir fannst mér þetta litlausar umræður og upp úr stóð sterk staða Sjálfstæðisflokksins og meirihlutans, enda voru minnihlutaleiðtogarnir mjög bitlausir og gátu mjög fátt sem ekkert bent á sem aflaga hefði farið. Í heildina voru þetta litlausar umræður
Í heildina var þetta lífleg og góð kvöldstund á Strikinu og áhugavert að fylgjast með umræðunum og spjalla við góða félaga eftir fundinn. Sérstaklega ánægjulegt að hitta Helga frænda, sem var að vinna auðvitað í þessari góðu umfjöllun NFS. Það sem helst stendur eftir kvöldið er málefnasnauður minnihluti - sérstaklega er athyglisvert að sjá endalausar rugltillögur vinstri græna, sem virðast ekki alveg í takt við raunveruleikann. Í kvöld fékk ég reyndar gott komment frá einum vini mínum sem hingað er nýfluttur og sagðist aðspurður um fundinn hafa séð á þessum umræðufundi að minnihlutinn væri litlaus með öllu og Kristján Þór verið eini afgerandi leiðtoginn. Sá sagði með brosi á vör að bæjarpólitíkin væri skrautleg og nefndi undarleg komment Baldvins í því samhengi.
Annars er þessi könnun auðvitað eins og allar aðrar vísbendingar um stöðu mála. Annars er kosningabaráttan nú að fara af stað af krafti - verður snörp og öflug eins og ávallt. Við blasir hressilegur lokasprettur í kosningabaráttunni næstu fimm vikurnar. Það verður fjör hér næstu 39 dagana.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2006 | 23:13
Hvað varð um Framsókn?

Það eru 40 dagar til sveitarstjórnarkosninga og kosningabaráttan er að fara á fullt nú þegar að helgi páskahátíðarinnar er að líða undir lok. Framboðin eru víðast hvar komin á fullt og auglýsingarnar eru byrjaðar að þekja dálksentimetrana í dagblöðunum. Einkum eru það framboðin í Reykjavík sem hafa hafið auglýsingahluta kosningabaráttunnar. Hér norður á Akureyri eru auglýsingar komnar á fullt í Dagskránni, sem er aðalauglýsingamiðillinn hér um slóðir. Allsstaðar vekur athygli hvernig að Framsóknarflokkurinn kynnir sig fyrir þessar kosningar. Þar vekur athygli lógóið exbé sem virðist allsráðandi í kynningu. Vörumerkið Framsóknarflokkurinn virðist horfið út í veður og vind og er sennilega dæmt með öllu ósölulegt þessar vikurnar er styttist óðum í kosningar. Það er svosem varla undarlegt er farið er yfir stöðu flokksins í skoðanakönnunum og í umræðunni almennt.
Ef marka hefur mátt skoðanakannanir hefur ekki blásið byrlega fyrir Halldór Ásgrímssyni og Framsóknarflokknum. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans sem forsætisráðherra hefur verið lítið. Framsóknarflokkurinn hefur náð sögulegu lágmarki í skoðanakönnunum í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Halldór, sem setið hefur á þingi, nær samfellt frá árinu 1974, varð forsætisráðherra í september 2004 og töldu flestir að flokkurinn og hann myndu hagnast á því að taka við embættinu. Það fór svo sannarlega ekki svo. Flokkurinn og Halldór sjálfur hafa því mjög lítið grætt á því að hafa hlotið forsætið í ríkisstjórn stjórnarflokkanna. Hart hefur verið sótt að Halldóri og mörgum finnst honum hafa gengið brösuglega að höfða til landsmanna í forsæti ríkisstjórnar, þrátt fyrir að hafa á að skipa löngum stjórnmálaferli. Það hefur lítið gert fyrir hann að hljóta embættið.
Nú er styttist í kosningar breiðir Framsóknarflokkurinn með eftirtektarverðum hætti yfir nafn sitt og merki og auglýsir sig sem exbé. Þetta er skiljanlega allnokkuð skondið. Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að yrði hápunktur ferils hans. Það eru því sennilega ekki stórtíðindi að auglýsingasérfræðingar ráðleggi honum og flokknum að "poppa sig upp" og reyna að höfða til fólks með nýju lógói og heiti á maskínunni. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Framsóknarflokkurinn á í verulegum erfiðleikum og m.a. hafa ýmsir trúnaðarmenn flokksins lýst skelfingu sinni með gengi flokksins og nýlega hefur krónprins flokksins sagt sig frá vistinni á flokksfleytunni og ráðið sig til vellaunaðra starfa í flottri gluggaskrifstofu hjá Glitni í gamla Sambandshúsinu.
Það er svo sannarlega ekki öfundsvert að vera framsóknarmaður í dag. Annars er fyndið að sjá framsóknarmennina "poppa sig upp" með ýmsum hætti. Nýjasta trixið er að frambjóðendur exbé-flokksins í Reykjavík leggjast öll saman á gólfið og láta taka af sér mynd. Nei, það er þó sárasaklaus mynd og ekkert lóðarí sem menn eru í. Þau leggjast öll með hausana í hring og brosa og eru mjög kammó. Er ég sá þessa auglýsingu hélt ég að slagorðið hlyti að vera: "Við erum sko með hausinn í lagi sama hvað allir aðrir segja". En svo var víst ekki. En þetta er skondin auglýsing og merkilegt að sjá Björn Inga og félaga reyna að flýja verk Alfreðs Þorsteinssonar í borginni í komandi átökum með exbé-lógóið í stað hins gamalkunna lógós Framsóknarflokksins.
Sama gera þau hér fyrir norðan. Nú birtast þau Jói Bjarna, Gerður, Erla Þrándar, Erlingur Kristjáns, Ingimar og Petrea sem skipa sex efstu sæti exbé-listans á Akureyri í auglýsingu skælbrosandi og í hugmyndablaði sent inn í hvert hús hér með exbé-lógóið í bak og fyrir. Þau liggja þó ekki saman á gólfi en eru uppistandandi og í bakgrunni eru snjóug fjöllin norðan heiða. Ég hélt reyndar fyrst að myndin væri tekin í Ölpunum en svo er reyndar ekki. Var nokkuð fljótur að þekkja fjallið, enda með það fyrir augunum alla daga. En það er greinilega keyrt á sama lógói um allt land og þau hér láta snillingana fyrir sunnan kokka slagorð og lúkk á allt dæmið. Og enn og aftur er það exbé sem gnæfir yfir allt.
Spurt er: hvað varð um Framsókn? Er búið að stinga gamla lógóinu og heitinu í glatkistuna framyfir kosningar? Það er svosem varla furða er litið er á stöðu flokksins að reynt sé að búa til framboð á nýjum grunni en ekki þeim grunni sem Framsóknarflokkurinn hvílir á þessar vikurnar.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2006 | 15:50
Óborganleg kímni Lemmon og Wilder

Bandaríski gamanleikarinn Jack Lemmon var að mínu mati einn besti leikari 20. aldarinnar í bandarískum hágæðakvikmyndum. Lemmon var rómaður fyrir túlkun sína í mörgum af bestu kvikmyndum 20. aldarinnar - þekktur fyrir að vera jafnvígur á bæði gamansamar og dramatískar túlkanir á svipmiklum karakterum. Öllum er kunn góð samvinna Lemmons og Walter Matthau í um tíu gamanmyndum - þar sem þeir léku oft á tíðum ógleymanlega karaktera sem þoldu ekki hvorn annan en gátu þó án hvors annars verið í raun. Bestir voru þeir að mínu mati í Odd Couple og Grumpy Old Men myndunum - þær eru algjörlega ómótstæðilegar og passa alltaf við. Matthau og Lemmon áttu vel saman því þeir voru báðir frábærir gamanleikarar í túlkun og þurftu vart annað en að tala við hvorn annan til að vera fyndnir. Þeir voru náttúrutalentar í gamanleik.
Samstarf Billy Wilder og Jack Lemmon var rómað. Út úr því kom ein besta gamanmynd 20. aldarinnar, Some Like it Hot, gerð árið 1959. Í þeirri mynd fara Lemmon og Tony Curtis algjörlega á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Kostuleg atburðarás - ógleymanleg kímni. Þetta er einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun - í senn eitt það besta sem Billy Wilder gerði og túlkun Lemmons er svo fyndin að jafnvel mestu þunglyndisjálkarnir fara að skellihlæja. Lemmon og Wilder voru miklir vinir og unnu mjög vel saman. Lítil perla sem þeir gerðu saman er Avanti frá árinu 1972. Þó að myndin sé í raun alltof löng og sumpart neistann vanti er þetta frábær mynd og þar njóta hæfileikar Lemmons sín vel.
Önnur ógleymanleg mynd sem þeir Lemmon og Wilder unnu saman að er kvikmyndin The Apartment. Þar er að finna marga flottustu brandara kvikmyndasögunnar og óborganlega takta Lemmons. The Apartment er óborganleg og háklassísk sjöföld óskarsverðlaunamynd sem stendur enn í dag fyrir sínu og gott betur en það. Í henni segir af ungum starfsmanni stórfyrirtækis sem lánar yfirmönnum sínum íbúðina sína til að þeir geti skemmt sér með hjákonum sínum. En þegar okkar maður áttar sig á því stelpan hans er ein þeirra líst honum ekki feiknavel á blikuna, og reynir að hætta við allt saman, en það er hægar sagt en gert. Íbúðin hlaut mikla hylli á sínum tíma og var valin besta kvikmynd ársins 1960 en orðið samt sem áður sögulega séð minna fræg en Some Like it Hot. Myndin er þó sannkallaður gullmoli í kvikmyndasögunni og enn í dag stórfyndin og hefur ekkert látið á sjá. Wilder kallaði hana eitt sinn gullmolann sinn, enda hlaut hann leikstjóraóskarinn fyrir hana og mat hana mikils.
Lemmon er alveg frábær í túlkun sinni á minnimáttarmanninum (sem hann túlkaði ansi oft) C.C. Baxter, dyggum starfsmanni sem gerir yfirmönnum sínum lífið skemmtilegra, en á sinn kostnað. Shirley MacLaine er ennfremur upp á sitt allra besta í hlutverki Fran Kubelik, draumadísinnar hans Baxters, án þess að vita nokkuð af því að hann elskar hana út af lífinu. Ennfremur fara á kostum leikararnir Fred MacMurray, Ray Walston, Jack Kruschen og Eddie Adams, en þeir fengu allir afnot af lyklinum að íbúð Baxters. Handritið er sannarlega hreinasta perla, sérstaklega í kaldhæðnislegri lýsingu sinni á fyrirtækjamóralnum og einkar afvegaleiddu siðferði. Upphafsatriði myndarinnar er stórfenglegt, en þá þusar Baxter upp ýmsum tölfræðilegum upplýsingum sem hann hefur takið saman, enda er hann starfsmaður tölfræðilegs fyrirtækis í New York. Lokaatriðið er einnig einkar eftirminnilegt.
The Apartment er stórfengleg gamanmynd sem alltaf á vel við. Þessa mynd er alltaf gaman að sjá, þegar að maður vill hárfína blöndu af háði og alvöru. Keypti ég mér myndina á DVD nýlega og naut þess að sjá hana í betri gæðum og með ómótstæðilegu aukaefni. Þessa mynd hef ég átt alveg síðan að ég var unglingur - tók hana upp á Stöð 2 fyrir eitthvað um 16 árum og hef margoft notið hennar. Það var engu líkt að sjá hana aftur í fullum gæðum. Vilji menn blöndu af gamni og alvöru - flottum bröndurum og dramatík í og með er þetta myndin. Billy Wilder var einn af bestu kvikmyndagerðarmönnum sögunnar og Lemmon var engum líkur sem leikari. The Apartment er eðall fyrir áhugamenn um kvikmyndir.
Billy Wilder er einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Snilli hans sem leikstjóra og handritshöfundar var rómuð og frá honum komu margar af bestu kvikmyndum í sögu kvikmyndalistarinnar. Sumarið 2003 skrifaði ég ítarlegan pistil um hann á kvikmyndir.com. Þar fer ég yfir ævi hans og flottan leikstjórapistil í ítarlegu máli.
Umfjöllun um The Apartment - snjallyrði úr myndinni
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2006 | 00:23
All the President´s Men

Á laugardag keypti ég 30 ára afmælisútgáfu kvikmyndarinnar All the President´s Men, en þar er myndin í enn betri myndgæðum en áður og með ýmsu fylgiefni. Horfði ég á safnið í kvöld. Er það mjög vandað (tveir diskar) og áhugavert að kynna sér viðbótina, t.d. ítarlega frásögn Robert Redford um myndina og söguna meðan að hún rúllar. Eins og flestir vita er í þessari mynd rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, hinn 9. ágúst 1974.
Þetta víðfrægasta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar hófst kaldhæðnislega helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu.
Watergate-málið var gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu. Með fimni tókst óþekktum blaðamönnum á The Washington Post, Bernstein og Woodward, að halda málinu á floti, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að þagga það niður. Litlu munaði að það hefði tekist. Hefði þeim ekki tekist að fá tryggan heimildarmann úr innsta hring til að leka í blaðið fréttum og meginpunktum málsins hefði það væntanlega aldrei komist upp. Þekktur var sá sem veitti upplýsingarnar sem veitti þeim leiðina á sporið, í miðpunkt málsins. Í þrjá áratugi var deilt um það hver væri heimildarmaður blaðsins.
Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins væri áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: Bernstein og Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post. Í myndinni er Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði verið deilt um hver heimildarmaðurinn var og reynt að upplýsa hver hann væri.
Það var ekki fyrr en undir lok maímánuðar 2005 sem hulunni var svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt þáv. aðstoðarforstjóri FBI, hefði verið heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Það er alveg ljóst að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál og forsetinn hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Því var líka kyrfilega haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var og það var ekki fyrr en Felt sjálfur sté fram sem hið sanna kom í ljós.
Að mínu mati er þetta besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd sem skartar tveim af vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem sýnir stjörnuleik í hlutverki ritstjórans Ben Bradlee og hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína.
Þetta er hiklaust ein af uppáhaldsmyndunum mínum - hef varla tölu á hversu oft ég hef séð hana. Er ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Hvet fólk til að kaupa nýju útgáfuna, en þar er að finna nýjan heimildarþátt um Deep Throat (Mark Felt). Þessi mynd er pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana. Þeir sem þekkja mig og vilja sjá láti mig bara vita.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2006 | 19:02
Fyrsta páskapredikun Benedikts XVI

Um þessar mundir er ár liðið frá því að Joseph Ratzinger var kjörinn páfi. Hann tók sér páfaheitið Benedikt og er sá sextándi í röðinni. Í dag var komið að fyrstu predikun páfa á páskum. Um síðustu páska í mars 2005 fylgdist öll heimsbyggðin með veikindastríði forvera hans, en hann lést tæpri viku eftir páska. Nú var komið að því að eftirmaður hans talaði til mannfjöldans. Engum að óvörum heldur hann í hefðir og skoðanir forverans. Hann er friðarins maður og talar fyrir alheimsfriði með sama krafti og Jóhannes Páll II páfi. Í páskapredikuninni kallaði páfinn eftir friðsamlegri lausn á deilunni um kjarnorkuáætlun Írans. Hvatti hann alþjóðasamfélagið til að vinna að stofnun sjálfstæðs og fullvalda ríkis Palestínumanna en varði líka tilverurétt Ísraelsríkis. Var ánægjulegt að heyra heilsteyptan og góðan friðarboðskap páfans.
Benedikt XVI tók við páfaembætti af einum litríkasta trúarleiðtoga 20. aldarinnar, Jóhannesi Páli II páfa. Hann sat á páfastóli í tæp 27 ár, var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, Pius IX og St. Peter. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hafði þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans hafa gert í 400 ár. Hann hafði því gríðarleg áhrif í sögu kaþólsku kirkjunnar og var einn svipmesti trúarleiðtogi síðustu aldar. Segja má með sanni að hann hafi líka verið fyrsti "fjölmiðlapáfinn".
Benedikt er eitt af vinsælustu páfaheitunum. Síðasti páfinn með þessu nafni, Benedikt XV, sat á páfastóli 1914-1922. Hann var mjög frjálslyndur og því þótti mörgum valið koma á óvart í tilfelli Ratzinger sem þekktur hefur verið fyrir að vera mjög íhaldssamur. Á það ber þó að minnast að fyrsti páfinn með nafninu var mjög íhaldssamur ennfremur. Er talið að með nafnavalinu hafi Ratzinger verið að skírskota til hins fyrsta Benedikts umfram allt. Benedikt XVI er 265. páfinn í sögu kirkjunnar og er sá fyrsti sem hlýtur kjör í embættið á hinu þriðja árþúsundi. Nærri því þúsund ár eru liðin frá því að kirkjan hafði síðast þýskan mann sem sinn æðsta trúarlega leiðtoga. Það var Viktor II sem sat á páfastóli 1055-1057. Forveri Benedikts XVI var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Það kom þægilega á óvart að eftirmaður hans hafi ekki heldur verið Ítali, heldur hafi Þjóðverji orðið páfi í fyrsta skipti í tæp 1000 ár.
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hvernig að Benedikt XVI hefur höndlað embættið og þróað það í takt við sjálfan sig - en hefur samt sem áður verið fyrirsjáanlegt. Hann heldur í hefðir og venjur forvera hans. Hann situr í skugga hans. Jóhannes Páll II var einn öflugasti trúarleiðtogi kaþólikka - víðförull og áberandi páfi, sennilega fyrsti fjölmiðlapáfinn. Er greinilegt að nýjum páfa er annt um að eiga góð samskipti við fjölmiðla og hefur hann nokkrum sinnum boðið þeim til sín í Páfagarð og haldið blaðamannafund og messað með sama opinbera hættinum og forverinn í kastljósi fjölmiðlanna. Er ljóst að hann fetar mjög í fótspor forverans, sem þótti mjög fjölmiðlavænn páfi. Hefur hann staðið vörð um arfleifð hans sem trúarleiðtoga og mikils höfðingja kaþólsku kirkjunnar. Hefur hann nú hafið ferlið fyrir því að hann verði tekinn í tölu heilagra manna og svarað þar með kalli fjöldans er Jóhannes Páll II lést.
Jóhannes Páll II var einn af helstu merkismönnum 20. aldarinnar. Hann var boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipti sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Forysta hans í friðarmálum var mikils metin - rödd hans var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Hann var sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi.
Alltaf varð ljóst að eftirmaður hans myndi glíma við það að sitja í skugga forverans. Það má fullyrða að svo hafi verið í tilfelli Benedikts XVI og ennfremur að sá sem tekur við af honum taki við öðruvísi embætti en Joseph Ratzinger tók við í apríl 2005 er Jóhannes Páll II skildi við eftir litríkan og langan feril. Það sést vel að Benedikt XVI páfi heldur í hefðir og skoðanir forverans með áberandi hætti.
SFS fjallar um Benedikt XVI páfa - 14. janúar 2006
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2006 | 16:21
Á páskadegi

Það er ekki laust við að pólitíkin sé fjarri okkur öllum á þessum helga degi, einum helgasta degi kristinna manna. Páskadagur er í mínum huga heilagur dagur og tími íhugunar um ýmis málefni. Páskahelgin og hátíðin sem henni fylgir er sá tími ársins sem er hvað bestur til að slappa af og íhuga málin og hafa það gott og sinna sínum innri manni. Það var falleg birta yfir Eyjafirðinum og bænum okkar þegar ég fór á fætur í morgun og hélt í göngutúr um bæinn og naut kyrrðarinnar á þessum helga degi. Það var mikil ró og fallegur blær úti. Samkvæmt venju fór ég í messu í Akureyrarkirkju á páskadagsmorgni. Var athöfnin falleg og talaði sr. Óskar Hafsteinn mjög fallega um styrk hátíðarinnar og upprisu Krists og ekki síður um stöðu þjóðkirkjunnar í mannlífinu.
Voru við messuna fluttir fallegir hátíðarsálmar sr. Bjarna Þorsteinssonar sem alltaf eiga vel við og setja sterkan svip á hátíðina. Kór Akureyrarkirkju leiddi sönginn og ennfremur söng Björg Þórhallsdóttir fallega og af miklum krafti. Björg er stórfengleg söngkona, en hún er dóttir séra Þórhalls Höskuldssonar, sem var sóknarprestur hér í kirkjunni allt frá 1982 þar til að hann varð bráðkvaddur, langt fyrir aldur fram, haustið 1995. Þetta var notaleg stund í kirkjunni okkar, eins og venjulega á páskadagsmorgni. Mín fjölskylda hefur alla tíð verið mjög trúuð og ég hef sótt styrk í trúnni. Kristin trú hefur alla tíð verið í mínum huga eitthvað sem hverri manneskju er nauðsynleg. Það hefur alla tíð verið mín sannfæring að trúin hafi oft hjálpað mínu fólki og haft mikið að segja.
Það er reyndar svo að sumir sem ég þekkja mig urðu nokkuð hissa þegar að ég ákvað að gefa kost á mér til stjórnarsetu í SARK, Samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju, og náði kjöri þar í stjórn. Mín skoðun hefur þó lengi verið sú að rjúfa skuli á tengslin milli ríkis og kirkju. Það er ekki sagt vegna þess að ég sé trúlaus eða hafi ekki tekið þátt í starfi kirkjunnar eða sýnt því áhugaleysi - öðru nær. Það er hverri manneskju að ég tel mikilvægt að vera trúuð og sækja kirkju og taka þátt í kristnu starfi. En það er þó ekki þarmeð sagt að ríkið eigi að reka kirkju eða taka þátt í þessu með þeim hætti sem verið hefur. Það er mikilvægt að skilja þarna á milli.
Þó svo færi að breytingar yrðu á kirkjunni með þeim hætti sem um ræðir, halda landsmenn fast við sína trú og fara í kirkju til að heyra guðsorð eða taka þátt í starfi innan sinnar trúhreyfingar. Þrátt fyrir að ég sé kristinn er það mín sannfæring að mikilvægt sé að öll trúfélög standi jöfn að þessu leyti. Það er á okkar dögum gríðarlega mikilvægt. Með því er í mínum huga hægt að vinna að því að efla enn frekar trúna og trúarbrögð í nafni þeirrar trúar sem viðkomandi einstaklingu velur sér. Það ætti að mínu mati að vera forgangsverkefni kirkjunnar að taka á þessum málum og leita eftir því við ríkið að hafinn verði undirbúningur að þessum breytingum og uppstokkun með viðeigandi hætti.
Kristin trú getur alveg staðið jafnfætis öðrum trúarbrögðum og engin þörf á að ríkið sé áfram í þessu með þessum hætti. Það er enda öllum mikilvægt að mínu mati að sækja kirkju og taka þátt í kristnu starfi. Það er bæði styrkur og afl á erfiðum tímum og ekki síður ánægjulegum í lífi manns.
Ég vil óska lesendum öllum gleðilegra páska og vona að þeir hafi það gott um hátíðirnar!
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2006 | 16:04
Málsháttur

Einn af skemmtilegri siðum páskahátíðarinnar er að kaupa sér egg og finna málsháttinn sinn þar inni í. Það er svo að oftast nær eiga þau spakmæli vel við. Snemma í morgun opnaði ég páskaeggið mitt sem ég keypti í Nettó í gær. Þegar það var opnað blasti við málshátturinn: Guð býr í glöðu hjarta. Með þann boðskap hélt ég út í daginn, glaður og hress.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2006 | 17:14
Mikilvægi netskrifa - höfðað til ungs fólks

Þessi tilvera er orðin svo ljúf og létt að hver og einn getur nefnilega skipt máli í umræðunni með því að láta rödd sína heyrast á þessum vettvangi. Fólk les dagblöð í æ minna mæli. Það er enda svo að prentmiðill getur aldrei keppt við netmiðil um ferskleika og áhrifamátt. Að mörgu leyti getur fólk orðið áhrifameira í pólitík með því að tala af krafti um pólitík á eigin forsendum á eigin vef heldur en að standa í pólitísku þjarki sjálft. Það er enda svo að vel við haldin heimasíða getur verið lífleg og kraftmikil og markað sér mikil áhrif. Ég tel að yngra fólk geti skipt máli með slíkum skrifum.
Þetta þekki ég vel sjálfur. Ég hef notað mér netið sjálfur í þónokkur ár og skrifað þar af áhuga og með metnað að leiðarljósi, metnað um að sýna að ég hafi áhuga á málefnum samtímans og áhuga á því að tala um þau af miklum krafti. Ég hef bæði verið á fullu í pólitísku starfi innan stjórnmálaflokks og verið á fullu á netinu og skrifað þar af áhuga og ástríðu. Pólitík er eitthvað sem ég hef notið að fjalla um lengi. Ég gaman af að kryfja málin með mínum hætti og skrifa á eigin forsendum um það sem ég vil tala um. Það jafnast ekkert á við það að eiga einn vettvang algjörlega einn og ráða honum sjálfum.
Þegar að ég er spurður almennt um það hvernig framboð geti höfðað til ungs fólks verður svar mitt að því verði að treysta til verka - því verði að treysta til áhrifa. Finni ungt fólk fyrir höfnun og því að verk þeirra og skoðanir séu ekki virtar sortnar fljótt yfir að mínu mati. Ungt fólk er ekki heimskt fólk sem bítur á hvaða öngul sem er. Það verður bæði að finna sig á vettvangnum og meta það andrúmsloft sem blasir við. Það þýðir ekkert að eyða fullt af peningum fyrir kosningar til að höfða til ungs fólks ef valtað er yfir skoðanir þeirra.
Það er og hefur alla tíð verið mitt mat. Ein leiðin til að ná árangri og vera virkt í að taka af skarið er að skrifa á eigin vefi - tala óhikað um skoðanir sínar. Þar getur ungt fólk skipt máli og verið það sjálft. Það er mín reynsla að slík skrif séu lykilatriði í að skipta máli. Starf innan flokka er líka mjög gott en andrúmsloftið sem mætir því ræður úrslitum um hvernig fólki gengur að höfða til ungs fólks.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2006 | 16:35
Hjördís Björk skipuð dómari við Hæstarétt

Hjördís Björk Hákonardóttir héraðsdómari og dómsstjóri við héraðsdóm Suðurlands, var skipuð dómari við Hæstarétt Íslands af Geir H. Haarde settum dómsmálaráðherra, á þriðjudag. Hún tekur við embætti þann 1. maí nk. og tekur þá við af Guðrúnu Erlendsdóttur. Guðrún varð fyrst kvenna skipuð hæstaréttardómari og forseti Hæstaréttar á Íslandi og hefur setið í réttinum í tvo áratugi. Með þessu haldast sömu kynjahlutföll í réttinum en Ingibjörg Benediktsdóttir, hefur setið í réttinum frá árinu 2001. Aðeins þessar þrjár konur hafa setið í Hæstarétti Íslands. Enginn vafi leikur á því að Hjördís Björk sé hæf til setu í Hæstarétti, en hún hefur verið dómari til fjölda ára og var þar á undan sýslumaður í Strandasýslu. Hjördís varð fyrst íslenskra kvenna sýslumaður.
Þetta var í fjórða skiptið sem Hjördís sótti um embættið. Fræg voru málaferli hennar vegna skipunar í embættið árið 2003 er Ólafur Börkur Þorvaldsson var skipaður í réttinn. Á síðasta ári náðist samkomulag milli hennar og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í apríl 2004 um að ráðherra hefði brotið jafnréttislög í það skiptið. Fól samkomulagið í sér að Hjördís fær ársleyfi á launum frá og með 15. desember sl. til að sinna fræðistörfum. Ég hef ýmislegt ritað um það mál og fjallaði um það ítarlega í sunnudagspistli mínum á páskadag, 11. apríl 2004. Tók ég þar undir skrif Björns Bjarnasonar á vef hans nokkrum dögum áður. Er ég enda enn þeirrar skoðunar að ekki eigi að skipa einvörðungu í réttinn eftir kynjastöðlum.
Mikið hefur verið rætt og ritað um þetta námsleyfi - sumir líta þar á þetta sem meiri umbun fyrir HBH en aðra. Staðreyndin er sú að margir "spekúlantar" hafa talið um eitthvað einstakt tilvik að ræða. Eins og allir vita sem vit hafa á þessu er reglulega verið að veita ríkisstarfsmönnum námsleyfi. Eins og vel hefur komið fram eru ákvæði um slíkt hluti af kjarasamningi margra ríkisstarfsmanna. Sjaldan er gert veður út af slíku. Gott dæmi er að nýlega fékk bókasafnsfræðingur einn í samgönguráðuneytinu árs námsleyfi á launum með sama hætti og Hjördís Björk. En um þetta er ekki talað. Um daginn lenti ég í rifrildi við einn "spekinginn" á spjallvefunum um leyfi HBH og átti hann erfitt með að skilja að leyfinu væri lokið, enda Hjördís að fara í réttinn og þarf að segja sig frá hinu embættinu auðvitað. Kostulegt alveg!
Engum blandast hugur um að dómsmálaráðherra hefur lokaorðið um hver hlýtur dómarastöðu - það er mat þess sem situr á ráðherrastóli hver eigi að hljóta sæti í réttinum. Það er ekki núverandi dómara við réttinn að ráða för í því. Skv. fjórðu grein dómstólalaga skal leitað álits réttarins á hæfi umsækjenda. Annað kemur þar ekki fram - leitað er eftir því hvort þeir sem sæki um séu hæfir til að taka þar sæti. Sá undarlegi verknaður hefur gerst oftar en eðlilegt er að dómarar raði umsækjendum í einhverja uppáhaldsröð sína og felli frekara mat en hvort þeir séu hæfir umsækjendur. Það er algjörlega fyrir neðan allt og raunar er löngu kominn tími til að afnema það að dómarar hafi skoðun á því hverjum þeir eigi að vinna með. Sérstaklega blasir nauðsyn þess við þegar að þeir eru farnir að mynda röð á umsækjendum.
Það er algjörlega óumdeilt að samkvæmt lögum á ráðherra lokaorð um skipan í þessa stöðu. Hann tekur ákvörðun eftir að hafa fengið mat réttarins. Það mat er einungis faglegs eðlis en bindur ráðherra ekki á nokkurn hátt. Enda birtist hvergi áðurgagnrýni á að ráðherra tæki ákvörðun, heldur virðist málið allt snúast um einhverja óskiljanlega kynjastaðla sem frekar ber að standa vörð um en eðlilega skynsemi og hlutlægt mat á hver sé heppilegastur í það starf sem til umræðu er.
En ég vil taka það fram að ég tel Hjördísi hæfa til setu í réttinum og tel að ferill hennar og störf sem dómara hafi vegið mestu er kom að valinu. Það er enda öllum ljóst að eftir því skal meta umsækjendur en ekki kyni þeirra. Hjördís er hæf er litið er til ferils og verka á þessu sviði og á þessum forsendum fékk hún dómaraembættið tel ég. Þeir staðlar eiga ávallt að ráða valinu á því hver tekur sæti við réttinn eður ei.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2006 | 21:06
Spartacus

Í kvöld verður sannkallað eðalbíó í Sjónvarpinu. Þá sýnir RÚV stórmynd leikstjórans Stanley Kubrick, Spartacus, frá árinu 1960. Hún fjallar um þrælinn uppreisnargjarna Thracian Spartacus, sem er seldur til skylmingaþjálfarans Lentulus Batiatus. Eftir nokkurra vikna þjálfun leiðir Spartacus uppreisn þrælanna gegn Batiatus og hefur sigur. Er undan ægivaldi hans er vikið halda þrælarnir áfram í uppreisnaranda gegn skylmingaþrælunum almennt. Myndin er stútfull af öllu því besta sem til staðar var í kvikmyndagerð síns tíma. Kvikmyndataka, leikur, klipping og leikstjórn: allt hvoru öðru betra.
Myndin skartaði mörgum af helstu stórleikurum aldarinnar, Kirk Douglas er ógleymanlegur í hlutverki Spartacus og er hans helst minnst fyrir leik sinn í myndinni og túlkun sína. Að mínu mati er þetta besta kvikmyndahlutverk Douglas. Hann var aldrei öflugri en í þessu hlutverki. Sir Peter Ustinov hlaut óskarinn fyrir hlutverk sitt sem Batiatus, enda um að ræða hreint magnaða túlkun. Sir Laurence Olivier, Tony Curtis, Jean Simmons og Charles Laughton eru öll stórfengleg í myndinni. Venju samkvæmt er Olivier skemmtilega kvikindislegur, að þessu sinni sem Marcus Crassus. Olivier var einn af bestu leikurum kvikmyndasögunnar að mínu mati (sem minnir mig á að ég verð að fara að sjá Marathon Man aftur fljótlega)
Spartacus hlaut fern óskarsverðlaun: fyrir leikara í aukahlutverki, listræna leikstjórn, búningahönnun og kvikmyndatöku. Kvikmyndatökumaðurinn Russell Metty gerði aldrei betur á sínum ferli, en athygli vekur að hann vann þar eftir skipunum Kubricks, en kaldhæðnislegt er að hann fékk ekki sínu framgengt við mótun kvikmyndatökunnar og voru miklar deilur þeirra á milli alla vinnsluferli myndarinnar. Kvikmyndatakan er einhver sú besta á gullaldarárum Hollywood - fallegur liturinn naut sín og hver rammi í myndinni verður sem besta listaverk. Sérstaklega finnst mér flott myndataka Metty takast vel í hinu eftirminnilega lokaatriði.
Að mínu mati var Stanley Kubrick einn af bestu kvikmyndagerðarmönnum 20. aldarinnar. Hann var óhræddur við að fara nýjar leiðir og var djarfur í sinni listgrein. Hann fór ótroðnar slóðir og þorði að búa til nýja stíla og feta nýjar leiðir. Fyrir það er hans helst minnst að mínu mati. Kubrick markaði spor í kvikmyndasöguna sem aldrei munu fyrnast og skapaði meistaraverk sem munu lifa með heimsbyggðinni um eilífð. Hann var einn þeirra sem fengu heila kynslóð til að dýrka kvikmyndir og kvikmyndagerð. Ég fjallaði um feril hans í ítarlegum leikstjórapistli á kvikmyndir.com vorið 2004.
Ég hvet alla til að horfa á RÚV klukkan hálftólf í kvöld og sjá stórmyndina Spartacus. Sannir kvikmyndaunnendur verða vart sviknir af þeirri kvikmyndaveislu.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2006 | 20:39
Tónlistarveisla á föstudeginum langa

Þann 27. janúar sl. voru 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeus Mozarts - meistara hinna fögru tóna í klassískri tónlist. Þessa var minnst með veglegri tónlistardagskrá sem sýnt var frá í Ríkissjónvarpinu helgina 26. og 27. janúar með veglegri dagskrá. Því miður hafði ég ekki tækifæri til að fylgjast með þá, enda önnum kafinn í fjölda verkefna þá. Leitt var að missa af dagskránni og skrifaði ég á þennan vef á þeim tíma með þeim hætti að vonandi yrði þessari tónlistarveislu gerð góð skil með flottri samantekt á vegum RÚV síðar meir.
Eftir hádegið í dag settist ég niður fyrir framan sjónvarpið og naut þess að horfa í Ríkissjónvarpinu á upptöku frá hátíðartónleikum sem haldnir voru í Berlín afmælisdag Mozarts. Þar var sannkölluð tónlistarveisla og leikin nokkur af fegurstu tónverkum meistara Mozarts. Þar mátti heyra hinn fræga Fiðlukonsert hans nr. 5, aríu Súsönnu úr Brúðkaupi Fígarós, píanókonsert Elvíru (nr. 23), Flautu- og hörpukonsertinn, forleik úr Clemenza di Tito, Serenöðu nr. 13, Píanósónötu nr. 11, forleikinn í Brúðkaupi Fígarós og síðast en ekki síst sinfóníu nr. 40 (sem er auðvitað algjör perla og unaðsljúf).
Meðal þeirra sem komu fram voru Staatskapelle Berlin undir stjórn Daniels Barenboim, Thomas Quasthoff, Nikolaj Znaider og Sylvia Schwartz. Sannkallaðir snillingar á sínu sviði. Ég hef alla tíð notið klassískrar tónlistar. Ekkert hentar betur að hlusta á er maður þarf að slaka vel á og þegar að skrifa þarf fína pistla og koma góðum hlutum til skila hentar vel að setja unaðsljúfa tóna klassískrar tónlistar á fóninn. Það jafnast á við hið allra besta rauðvín.
Mozart var einstakt tónskáld - sem heillar fólk um allan heim með fögrum tónverkum sínum sama hætti nú og hann gerði í lifanda lífi. Það var sannkölluð unun að hlusta á þessa tónleika í dag og ég vil þakka RÚV fyrir að færa okkur aðdáendum klassískrar tónlistar þessa tónlistarveislu heim í stofu til okkar á föstudeginum langa.
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2006 | 11:22
Á föstudaginn langa

Í dag er föstudagurinn langi - einn helgasti dagur kristinna manna um allan heim. Það er við hæfi að nota daginn til að íhuga vel og njóta kyrrðar. Að mörgu leyti er föstudagurinn langi sá dagur ársins þar sem kyrrðin nýtur sín best - hægt er að hugsa vel málin og sjá hlutina í öðru ljósi en alla aðra daga. Það er notalegt að geta með þessum hætti séð hlutina í allt öðru samhengi en í erli annarra daga.
Ungum var mér kennt að meta skáldskap Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Amma mín var mjög hrifin af ljóðum hans og átti ljóðabækur hans. Erfði ég þær bækur og nýt þeirra nú. Hann var fremsta skáld landsins á 20. öld - að mínu mati tókst fáum íslenskum skáldum betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn.
Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Hann var alþýðuskáld sem snerti við fólki. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar.
Eitt fallegasta kvæði Davíðs er án nokkurs vafa Á föstudaginn langa, sem margir kalla Ég kveiki á kertum mínum. Um er að ræða táknrænt og fallegt ljóð sem telst með því besta sem hann orti á löngum skáldferli sínum. Þetta ljóð snertir alltaf streng í hjartanu mínu. Það er við hæfi að líta á það á þessum helga degi.
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.
Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað.
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
Ég bíð, uns birtir yfir
og bjarminn roðar tind.
Hvert barn, hvert ljóð, sem lifir,
skal lúta krossins mynd.
Hann var og verður kysstur.
Hann vermir kalda sál.
Þitt líf og kvalir, Kristur,
er krossins þögla mál.
Þú ert hinn góði gestur
og guð á meðal vor,
og sá er bróðir bestur,
sem blessar öll þín spor
og hvorki silfri safnar
né sverð í höndum ber,
en öllu illu hafnar
og aðeins fylgir þér.
Þú einn vilt alla styðja
og öllum sýna tryggð.
Þú einn vilt alla biðja
og öllum kenna dyggð.
Þú einn vilt alla hvíla
og öllum veita lið.
Þú einn vilt öllum skýla
og öllum gefa grið.
Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.
Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
(Færsla áður birt á föstudaginn langa, 25. mars 2005)
Breytt 18.9.2006 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)